27.11.2011 | 17:13
Hús dagsins: Hafnarstræti 85-89; Hótel KEA.
Stundum er ekki auðvelt að slá föstu um byggingarár húsa. Tökum sem dæmi síðasta Hús dagsins, Icelandair Hotel. Byggingarár þess er 1969. En í rauninni var húsið eins og það lítur út núna að mestu byggt sl. vetur 2010-11, þ.m.t. öll efsta hæðin og stór hluti hússins sem snýr í suðurs. Allar lagnir og innviðir eru væntanlega eins og um nýbyggingu sé að ræða, og sennilega er þegar upp er staðið aðeins hluti útveggja og einhverjir burðarveggir sem eru frá 1969.
Það sama gildir um Hús dagsins í þessari færslu, það er byggt í mörgum áföngum, elsti hlutinn um áttrætt en síðast var hluti hússins allur tekinn í gegn fyrir örfáum misserum. En ég held mig í hótelunum og á þessari mynd er sennilega gamalkunnasti gististaður Akureyrar, nefnilega Hótel KEA. En þetta stórglæsilega steinsteypuhús á fjórum hæðum var upprunalega reist árið 1933. Syðsta hluta hússins, nr. 85, sem raunar sést ekki á þessari mynd reisti Hjalti Sigurðsson húsgagnasmiður og var þar með verslun. Síðar hafa verið margar verslanir á jarðhæð, fasteignasala síðustu árin en hótel á efri hæðum. Hét það Hótel Harpa lengi vel en Hótel Stefanía þar áður. Fyrir skömmu voru gistirými Hótel Hörpu sameinuð Hótel KEA. Nyrsti hluti sambyggingarinnar, Hafnarstræti 89, sést hér á myndinni en hann hefur margoft verið stækkaður og allavega einusinni verið byggð ofaná hann aukahæð. Er það hið eiginlega Hótel KEA og var upprunalega reist sem slíkt 1933. Í nr. 87 var lengi vel Brauðgerð KEA, apótek og verslunarrými hafa einnig verið á jarðhæð nr. 89, þarna hafa einnig verið kjötbúð og mjólkurbúðir. Um 1990 var þarna Kaffiterían Súlnaberg en nú er þarna matsalur hótelsins. Hér eru nánari upplýsingar um Hótel KEAfyrir þá sem hafa áhuga, en hótelið státar af á annað hundruð vel búnum herbergjum og eru húsakynnin öll hin glæsilegustu, enda vinsælt að halda þarna ráðstefnur og samkomur. Húsið sem slíkt er einnig einn af hornsteinunum fjórum sem ramma inn Kaupfélagshornið svokallaða, eitt þekktasta og líklega mest myndaða götuhorn Akureyrar, þar sem Hafnarstrætið sker Kaupangsstrætið og síðarnefnda gatan heldur svo áfram upp Gilið. Þessi mynd er tekin 21.ágúst 2011.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2011 | 17:19
Hús dagsins: Þingvallastræti 23; Gamli Iðnskólinn, Icelandair Hotels.
Eitthvað á ég enn af myndum af húsum sem vert er að fjalla um hér, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað í síðustu færslu. Hér er eitt af merkari stórhýsum Akureyrar, Þingvallastræti 23. En húsið var reist árið 1969 og hýsti Iðnskóla Akureyrar í um hálfan annan áratug, en skólinn rann í Verkmenntaskólann á Akureyri þegar hann var stofnsettur árið 1984. Háskólinn á Akureyri hafði lengi aðsetur sitt í húsinu en hann var stofnaður 1987. Skólinn stækkaði hratt og fluttist að hluta á Sólborg um 1995 þar sem mikil uppbygging hófst næstu árin og áratuginn þar á eftir. Kennaradeild skólans var áfram í húsinu allt til vorsins 2010 en nú er öll starfsemi Háskólans komin á Sólborgarsvæðið. Þess má geta að undirritaður lauk Kennslufræðum til Kennsluréttinda við HA veturinn 2009-2010 og var ég í síðasta árganginum sem sat fyrirlestra í þessu húsi- vorið 2010 var ég eingöngu í tímum í þessari byggingu. Húsið vantaði töluvert uppá að uppfylla kröfur til nútíma skólahúsnæði; var t.d. rekið á undanþágum frá Brunavarnareftirliti og það var dálítið sláandi munur á aðstöðunni þarna og í nýbyggingunum í Sólborg. En afskaplega skemmtilegt og þægilegt hús þrátt fyrir það. Veturinn 2010-11 fóru fram umfangsmiklar endurbætur á húsinu og má segja að fátt standi eftir upprunalegt utan útveggir og nokkrir burðarveggir að innan. Það var og stækkað töluvert, hækkað um eina hæð og lengt til suðurs, auk þess sem grafið var frá kjallara þ.a. hann var byggður upp sem hæð. Þetta hús sem hafði hýst Iðnskóla og síðar Háskóla í 40 ár var breytt í fyrsta flokks hótel. Nú er húsið allt hið stórglæsilegasta, sem og umhverfi þess og þarna er nú Icelandair Hotel Akureyri. Efsta myndin er tekin 21.ágúst 2011 en hér að neðan eru myndir sem sýna upprunalega útlit hússins og einnig meðan það var í endurbyggingu. Húsið sést í efra horni hægra megin á vinstri myndinni, sem tekin er 25.sept. 2010 en seinni myndin er tekin sex mánuðum síðar 28.mars 2011.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2011 | 21:44
Hvað er að frétta af "Húsum dagsins"?
Rauði þráðurinn á þessum vef hafa verið myndaþættir og söguágrip af eldri eða skrautlegum húsum á Akureyri. Þeir sem heimsækja þessa síðu reglulega kunna að hafa tekið eftir því að ekki hefur komið Húsapistill í rúman mánuð. Og því eflaust einhverjir sem kunna að spyrja að þessu. En staðreyndin er sú að ég er búinn að skrifa um lang flestar húsamyndir sem ég á og ekki komið mér í að taka fleiri myndir. Það stendur alveg örugglega til bóta. Það verður líka sífellt erfiðara að muna hvaða hús ég er búinn að mynda og fjalla um eða ekki- þ.e. ég er ekki með það á hreinu þegar ég fer út með myndavélina, hvort hús sé í hópi þeirra rúmlega 130 sem ég hef tekið fyrir. En flest sögufræg eða byggingarsöguleg hús á Akureyri hef ég fjallað um hér auk margra annarra húsa. Grundvallarreglan í þessum skrifum mínum er sú að í hverjum Húsapistli er mynd af húsinu- og myndina verð ég að hafa tekið sjálfur.En ég get nokkurn vegin lofað því að Hús dagsins verða fleiri. Sem dæmi má nefna að ég á eftir að taka fyrir margar byggingar í Miðbæ Akureyrar og einhver býli í Glerárþorpi á ég eftir að taka fyrir. En það mun kannski líða talsverður tími á milli. Ég var einhvern tíma búinn að lýsa því yfir að ég myndi láta vita þegar þessum pistlum yrði formlega hætt en er eiginlega búinn að skipta um skoðun hvað það varðar. Því auðvitað yrði það þannig að strax eftir að ég lýsti því yfir að Hús dagsins yrðu ekki fleiri myndi ég uppgötva einhverja byggingu til að fjalla um eða mér bent á hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2011 | 17:50
Góðar fréttir
Það er nú rétt vonandi að það rætist úr þessu hjá körlunum. Einhvern vegin finnst mér ég hafa séð svipaðar fréttir áður en það hafi svo reynst stórlega ýkt. Black Sabbath eru í talsverðu uppáhaldi hjá mér, ég á flesta diskana þeirra og þ.m.t. "Never Say Die" frá 1978- en skv. fréttinni virðist ný plata eiga að heita það sama. (Sjálfsagt einhver misskilningur á ferðinni). Þessi skipan hljómsveitarinnar er sú upprunalega en margir hafa komið við sögu í starfstíð Black Sabbath- sem spannar meira en 40 ár! Má þar nefna m.a. Ian Gillan úr Deep Purple, Vinnie Appice, Bev Bevan og Glenn Hughes að ógleymdum meistara Ronnie James Dio, sem lést á síðasta ári. Meðlimir Sabbath, með Dio í fararbroddi höfðu sl. ár starfað undir nafni Heaven And Hell og gáfu út plötuna "The Devil You Know" 2009. Sú plata þótti mér sýna að meistararnir hefðu engu gleymt frá sínum bestu árum- og því bíður maður spenntur eftir nýrri plötu !
![]() |
Black Sabbath saman á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2011 | 20:20
Villtar íslenskar plöntur
Eitt af því sem ég hef gaman af að ljósmynda eru villtar plöntur. Hér eru nokkrar.
Lyfjagras ( Pinguicula vulgaris). Myndin er tekin við gamla veginn fram í Eyjafjarðarsveit, skammt norðan við bæinn Vagli þann 27.júní 2006.
Mjaðjurt (Filipendula ulmaria ) í ofanverðum Kjarnaskógi 9.ágúst 2011.
Maríustakkur ( Alchemilla vulgaris) á svipuðum slóðum og mjaðjurtin hér að ofan, 9.8.2011.
Lúpína (Lupinus nootkasensis). Tæpast hægt að telja hana til innlendra plantna en farið var að flytja hana inn á fyrri hluta 20.aldar til uppgræðslu. Lúpínan er almennt ekki vinsæl planta enda getur hún orðið verulega ágeng, breiðst hratt út og valtar hiklaust yfir lágvaxnari gróður ef því er að skipta. Þá er heldur ekki auðvelt að eyða henni ef hún nær sér á strik. Síðan getur hún skapað eldhættu, þ.s. mikil sina safnast inn í lúpínubreiður. Þessi lúpínurunni er í Vaðlareit, gegnt Akureyri, myndin tekin 29.maí 2011.
Bloggar | Breytt 10.11.2011 kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2011 | 20:48
Hús dagsins frá upphafi II
Fyrir um hálfu ári síðan birti ég lista eða efnisyfirlit yfir Hús dagsins færslur frá því ég byrjaði á þessum skrifum 22.6.2009. Eitthvað hefur bæst við og hér eru þeir pistlar:
Oddeyri
Lundargata 12; Gamli Iðnskólinn
Brekka
Innbær
Lækjargata 18 og Lækjargata 22
Glerárþorp
Lundeyri, Sandvík, Brautarholt.
Frá 8.maí eru þetta 21 pistill. Hér eru allir pistlar húsapistlarnir frá 22.6.2009 til maí 2011, alls 112. Þannig eru "Hús dagsins" pistlarnir orðnir 133, og skiptast þannig á milli staðsetningar:
- Innbær 52 pistlar,
- Oddeyri 38 pistlar,
- Brekka 18 pistlar
- Miðbær 15 pistlar,
- Glerárþorp 7 pistlar
og utan Akureyrar eru 5 pistlar. 1 pistil hef ég skrifað um hús sem búið er að rífa.
Bloggar | Breytt 3.11.2011 kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2011 | 21:12
Lauf á reynitrjám á Eyrinni 23.okt. 2011
Á haustin, eins og alkunna er, fara lauf trjáa að gulna og sölna og verða á endanum rauð eða rauðbrún og á endanum falla þau. En það gerist alls ekki samtímis hjá öllum trjám eins og meðfylgjandi myndir bera með sér, en þær eru allar teknar í dag á svipuðum slóðum á Oddeyrinni og Miðbæ Akureyrar. Þetta eru Ilmreynitré (Sorbus aucuparia ). Sum tré eru nánast algræn á meðan önnur hafa fellt öll lauf. Ef út í það er farið, eru margir þættir sem hafa áhrif á lauffall trjáa, bæði í umhverfinu og erfðum trjánna. En hér eru nokkrar myndir.
Og hér er til samanburðar, mynd úr Innbænum sem er tekin fyrir nákvæmlega ári, 23.okt. 2011 við Aðalstræti 36. Þarna er reynitrén aðeins farin að gulna örlítið en hinsvegar er jörð hvít, ólíkt því sem er í dag:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2011 | 20:29
Nokkur "listaverk"
Eitt af því sem ég hef gaman af er að rissa myndir á blað. Þá er sjaldnast um mikla eða merkilega listsköpun að ræða. Onei, yfirleitt gríp ég þá bara blýant, tússliti eða penna og krota á A4 blað og er svona korter-hálftíma. En sumt af þessum "listaverkum" mínum hef ég ljósmyndað og hyggst deila hér.
Hér eru tveir karlar að drekka kaffi saman. Út um eldhúsgluggan gætu glöggir greint Súlutind, Akureyrarkirkju og hús á Brekkunni. Þetta er skrúfblýantsteikning frá janúar 2009. Mér finnst oft ágætt að teikna með skrúfblýanti, hann er fínni en hefðbundinn blýantur.
Pallbíll af óræðri gerð á ferð um sveitaveg. Framsvipurinn svipar til Land Rover Defender en annað lag bílsins er sótt í Nissan Double Cab eða Mitsubishi L200 eða þess háttar bíla. Ekki er þetta neitt sérstakt umhverfi en sjálfsagt eru mörg áþekk útihús víða. Þetta er skrúfblýants, penna og vatnslitamynd, teiknuð 2009.
Þetta ágæta fjall á þessari tússlita- og kúlupennateikningu þarf nú varla að kynna...en að sjálfsögðu á þetta að vera Herðubreið og Herðubreiðarlindir.
Hús dagsins? Þarna hafði ég í huga norsk timburhús frá aldamótum 1900, og sjálfsagt minnir þetta mikla timburhús einhverja á Gamla Skóla. En svona verða margar teikningarnar mínar til, maður sækir kannski fyrirmyndir í raunveruleg hús, bíla eða fjöll og skapar svo eitthvað út frá því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2011 | 23:33
Hús dagsins: Þingvallastræti 2
Þingvallastræti er ein af lengri götum Akureyrar og ein aðalgatan gegn um Brekkuna. Hún byrjar á gilbrúninni við Sundalaugina og nær upp að Súluvegi við athafnasvæði BM Vallár (Malar og Sands til áratuga), rétt ofan við Lund og telst líklegast enda við brúnna yfir Glerá neðan Réttarhvamms, þar sem Hlíðarbraut byrjar hinu megin við brúna. Gatan er rétt innan við 2km á lengd. Helstu þvergötur sem Þingvallastrætið skera eru Þórunnarstræti, Byggðavegur, Mýrarvegur, Dalsbraut og efst gengur Skógarlundurinn suður úr götunni. Elstu hús götunnar eru neðst, byggð á 4.áratugnum, mikið til tvílyft steinhús með risi, á borð við húsið á myndinni hér, en ofan Þórunnarstrætis eru yngri hús, frá 1945-60, en ofan við Mýrarvegin standa fjölbýlishús og verslunarhús byggð 1970-80.
En húsið á myndinni, Þingvallastræti 2 stendur neðst við götuna á barmi Grófargils (eða Gilsins eins og það kallast í daglegu tali). Það er byggt 1928 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Er húsið einlyft steinsteypuhús með risi á kjallara, byggt í tveimur álmum, önnur sem gengur austur-vestur (samsíða Þingvallastræti) og hin er mjórri og gengur norður-suður. Sú álma má heita að sé tvílyft en rishæð er brotin (mansard) þ.e. er neðri partur riss mjög brattur en efri hluti aftur aflíðandi og aðeins "efra risið" er yfir vesturálmunni. Húsið er byggt í sk. gullaldarstíl eða klassíkisma en helstu einkenni hans eru stórir og margpósta gluggar og skraut á stafnbrúnum, sem svipar til jugendstíls. Ekki er ég sérfróður um byggingargerðir* en ég myndi halda að þessir byggingarstílar séu náskyldir. En Þingvallastræti 2 er stórglæsilegt og svipmikið hús, sem er í góðri hirðu, sem og umhverfi þess. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en ég er ekki viss hvort húsið sé einbýli eða tvíbýli. Þessi mynd er tekin 21.ágúst 2011.
Heimildir: Bragi Guðmundsson (2000): Grenndarfræði. Í Bragi Guðmundsson (ritstjóri) Líf í Eyjafirði. Akureyri: Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2011 | 17:28
Siglufjörður fyrir réttu ári, aldeilis ekki hvítt.
Ég hef oft gaman af því að skoða veðurfar milli sömu eða svipaðra dagsetninga. Október er einmitt mjög skemmtilegur mánuður hvað það varðar, en hann getur boðið uppá allt "gallerýið" af íslenskum veðrum, stundum getur verið sól og 2ja stafa hitatölur en einnig miklar stórhríðir og frost. Þessar myndir eru teknar á Siglufirði fyrir nákvæmlega 52 vikum, sunnudaginn 10.október í fyrra (10.10.´10) - og þá var sko alls ekki hvít jörð, heldur sól og heiðskírt og hvort að hitinn var ekki 10-12°C. Allavega var maður á skyrtunni
Efri myndirnar tvær eru teknar við útskot skammt neðan gangnamunna Héðinsfjarðarganga og horft yfir á Siglufjörð. Og eins og glögglega má sjá á undirrituðum á vinstri myndinni, þá var "skyrtuveður" þennan dag. Neðri myndin er tekin hinu megin við fjörðinn, rétt ofan við bæinn. Tindarnir tveir á miðri mynd heita Staðarhólsfjall og Hestskarðshnjúkur, sá síðarnefndi um 850m en sá fyrrnefndi eilítið lægri.
![]() |
Hvít jörð í Siglufirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 31
- Sl. sólarhring: 46
- Sl. viku: 294
- Frá upphafi: 450423
Annað
- Innlit í dag: 28
- Innlit sl. viku: 192
- Gestir í dag: 28
- IP-tölur í dag: 27
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar