Hús dagsins: Hríseyjargata 6

Hríseyjargötu 6 reisti Jónas Jónasson árið 1931.P1150052 Er þetta eitt fjölmargra húsa sem Sveinbjörn Sveinbjörnsson, kenndur við Ofnasmiðjuna teiknaði, en segja má að teiknarar hússins séu tveir. Því Sveinbjörn gerði sínar teikningar árið 1926 og gerði þá ráð fyrir því að húsið yrði þrjár hæðir, en við endurskoðun á teikningunum sem Tryggvi Jónatansson gerði árið fimm árum seinna var húsið lækkað um eina hæð. Hvort um var að ræða fjárskort eða eitthvað allt annað- skal ósagt látið hér. En húsið er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi en á bakhlið er stigabygging. Helsta útlitseinkenni hússins er köntuð útbygging eða kvistur með lauklaga hvolfþaki (kallað Karnap skv. Guðnýju Gerði og Hjörleifi Stefánssyni). Hana er að finna í teikningum Sveinbjarnar en þar er þessi útbygging á tveimur hæðum þ.e. nær frá miðhæð uppá þriðju. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Þessi mynd er tekin sunnudagsmorguninn 15.janúar 2012.

Heimildir: Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi. 

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Vetrarmorgunn á Eyrinni

Í morgun, uppúr klukkan 11, brá ég mér út að "viðra myndavélina" eins og ég kalla. Tók ég strikið suður eftir Oddeyrinni og m.a. myndaði nokkur hús sem fá að bíða birtingar og umfjöllunar hér á síðunni. En sólin var að dragnast upp, hún hefur nú hækkað sl. 3 vikur en dagurinn er þó stuttur og verður enn um sinn. En morgunskíman er frábær til myndatöku og hér eru nokkrar svipmyndir.

P1150055

Hlíðarfjall, baðað morgunsól. Brekkan og efri hluti Strandgötunnar í forgrunni.

P1150062

 Hjalteyrargata, horft norður götuna. Gatan skilur á milli iðnaðarhverfisins á neðri (eystri) hluta Oddeyrarinnar og íbúðarbyggðar á efri hlutanum. Hún tengist Strandgötu og liggur samsíða þvergötunum Hríseyjargötu, Grundargötu, Norðurgötu og Lundargötu.

P1150065

Snjóruðningar bjóða uppá skemmtilega möguleika á sjónarhornum sem annars eru ekki fyrir hendi. Þessi mynd er tekin uppi á snjóruðningi við Hagkaup. Þarna er horft til norðurs yfir Hjalteyrargötuna og er þetta fjallgarðurinn norðan við Hörgárdal, og athafnasvæði Slippsins í forgrunni. Fjallgarðurinn er um 900-1000m y.s. Ekki þekki ég nöfn allra hnjúkanna, held að Staðarhnjúkur sé annar frá vinstri. Það sést síðan glitta í Sólarfjall lengst til hægri en líklega er Hvammsfjall þar við hliðina.

P1150058

Hér horfum við síðan fram Eyjafjarðarsveitina, sólin gægist uppfyrir Garðarsárdalinn. Fjöllin sitt hvoru megin eru kennd við sveitirnar þar undir; Kaupangssveitarfjall til vinstri og Staðarbyggðarfjall til hægra. Nokkrir krummar voru á ferli þarna við Strandgötuna og einn flaug inn á miðja mynd hjá mér- svona til að kóróna þetta allt saman.

 


Göngutúr um neðra Glerárgil

  Þessi pistill má heita í beinu framhaldi af Gönguleiðapistlinum sem ég birti í síðasta mánuði. En líkt og þá grein skrifaði ég þessa leiðarlýsingu sem grein í Páskablað Skátastarfs, þessa grein sennilega 2010 frekar en 2009.  

Við hefjum göngu okkar við brúnna yfir Glerá á þjóðvegi 1, skáhallt á móti Glerárgötu. Við fylgjum eftir stíg sem fylgir ánni samsíða götunni Lönguhlíð. Eftir um 200 metra tekur áin beygju og leiðin fer að liggja uppí mót. Þar má segja að Glerárgilið byrji. Glerárgil nær raunar langleiðina upp að Öskuhaugum upp í 200m hæð en skiptist í sk. Efragil og Neðragil. Neðragil er sá hluti sem liggur innan Akureyrar og nær frá Réttarhvammi niður að Lönguhlíð. Við kjaft gilsins rekumst við á litla stíflu í ánni og lítinn hyl. Þessi stífla sá verksmiðjunum á Gleráreyrum fyrir vatni til iðnaðar- en við hliðina má enn sjá ummerki um veitustokk sem lá niður að verksmiðjum. Á sama stað, ca. 50 m ofar er gömul og lúin steinsteypt brú. Mun þetta elsta uppistandandi brú á Gleránni, en hún er síðan 1922 og er nú notuð sem göngubrú. Þó eru ekki nema um 10 ár síðan hún var notuð undir bílaumferð. Gamli þjóðvegurinn inní Akureyri lá um þessa brú fram yfir 1950-60. Við hlið brúarinnar má sjá steinhleðslu, stöpla brúar frá ca. 1880. Höldum áfram leið okkar sem liggur um botn gilsins. Nokkrir hellisskútar eru þarna í klettaveggjunum en fæstir það stórir að margir menn rúmist þar. Á sumum stöðum þar sem gilið er mjóst er hægt að ganga á þurru yfir þegar minnst er í ánni. Nú komum við að nýju og glæsilegu stöðvarhúsi Glerárvirkjunar. Þetta hús mun nákvæm eftirlíking af eldra húsi sem var rifið um 1980. Meðfram veitustokknum liggja margar tröppur upp að stíflunni sjálfri. Glerárvirkjun var reist um 1921 og sá Akureyri alfarið fyrir rafmagni þar til Laxárvirkjun var tekin í notkun 1939. Virkjunin var aflögð um 1960 en gerð upp og tekin aftur í notkun um 2004 og framleiðir nú 290KW. Glerárlón varð til er stíflan var reist, er það mikil prýði í umhverfinu og þar eru oft ýmsar fuglategundir á vappi. Tjaldar sjást þar t.a.m. oft. Við lónið getum við valið hvort við göngum yfir stífluna eða eftir Skarðshlíðinni upp á Borgarbraut, þar sem stígur heldur áfram rétt ofan við brúna. Þarna liggur leiðin gegn um lítinn skóg og heldur hún áfram upp á Hlíðarbraut þar sem stígur heldur aftur áfram neðan við veginn. Neðan við verslun Strax er mest um barrtré en aspir eru ráðandi þegar ofar dregur. Þarna renna nokkrir lækir niður hlíðina og auðvelt er að sjá að þarna að liggur leiðin um gömul tún þar sem plantað hefur verið trjám. Það má einnig greina gömul tún þegar horft er yfir gilið til Sólborgar. Eitthvað er af gömlum mannvirkjum á leiðinni en neðan við verslun Strax hefur verið byggður upp sólpallur á gömlum, steyptum grunni sem líklega er af einhverju útihúsi. Sunnar, eða rétt við brúnna á Hlíðarbraut eru leifar af gömlu jarðhýsi sem hefur nú verið jafnað við jörðu. Við Hlíðarbraut ljúkum við þessari göngu en þessa leið er gaman að fara hvenær sem er og tekur hún ekki nema 20-30mínútur.

Svipmyndir frá Glerárgili

P9300011   PC200048

Til vinstri:Haustlitir í Glerárgili í ljósaskiptunum 30.sept. 2010. Myndin tekin af göngubrú við Hlíðarbraut. Hægra megin: Glerárstífla í gífurlegum vatnavöxtum þann 20.des. 2006. Þennan dag varð mikil asahláka í Eyjafirði sem olli þó nokkru tjóni þar sem skriður féllu og vegir skemmdust. Rauða göngubrúin var reist 1998 og þótti mörgum hún ekki falleg- hvað þá á þessum stað. En hún er talsverð samgöngubót fyrir gangandi um þessar slóðir.

P6300132

Þessa mynd tók ég beint niður af göngubrúnni á Glerárstíflu að kvöldi 30.júní 2011. Þarna féll Glerárfoss en hann var virkjaður þegar stíflan var reist 1921.


Hús dagsins: Tungusíða 1; Grænahlíð

Fyrsta Hús dagsinsá árinu 2012 stendur hátt í Glerárþorpi nánar tiltekið í Síðuhverfi.P1010044 En til glöggvunar fyrir þá sem ekki vita skiptist Akureyri norðan við Glerá (Glerárþorp eða einfaldlega "Þorpið")  í fjögur hverfi, Holtahverfi sem er neðst afmarkast af Hörgárbraut og nær að höfðanum ofan Sandgerðisbótar og Óseyrar. Hlíðahverfi er á milli tveggja umferðargatna Hlíðarbrautar og Hörgárbrautar. Flest gömlu býlanna í Glerárþorpi eru þessum tveimur hverfum. Síðuhverfi er efst og nyrst, ofan Hlíðarbrautar og norðan Borgarbrautar, en sunnan við hana er Giljahverfi.  

En húsið á myndinni er  gamalt smábýli og heitir Grænahlíð en stendur nú við Tungusíðu 1.  Grænahlíð er byggð 1945 og er elsta húsið í Síðuhverfi en hverfið er að mestu byggt á bilinu 1975-85. Húsið er nokkuð dæmigert fyrir einbýlishús þess tíma, einlyft með nær ferningslaga grunnfleti (þetta hús er reyndar í tveimur álmum, önnur lengri en hún er breið) og hálfgerðu valmaþaki. Húsið er undir greinilegum áhrifum frá Fúnkísstíl sbr. hornglugga t.h. á myndinni. Húsið er byggt úr steypu- en gæti mögulega verið byggt úr r-steini, en hann var vinsælt byggingarefni á þessum tíma og var íslensk - nánar tiltekið Akureyrsk uppfinning! Þetta hús var ekki í sem bestu standi fyrir rúmum áratug- gott ef það stóð ekki autt einhver ár. En nú hefur það hlotið gagngerar endurbætur bæði utan sem innan og er hið glæsilegasta að sjá. Eins og oft er með gömul býli þá fylgir víðlend lóð og hefur einnig vel tekist til við nýtingu hennar. Þessa mynd tók ég í  nýjárssólinni -sem reyndar faldi sig bakvið skýjabakka mikla- í fyrradag 1.1.2012.


Nýjárskveðja

Ég óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það gamla. Þakka öll innlitin og athugasemdaskrif frá lesendum á liðnu ári.

Komandi ár er merkisár hér norðan heiða því seint í sumar  verður Akureyrarkaupstaður 150 ára, en bærinn fékk kaupstaðarréttindi 29.ágúst 1862. Ég spái því- og geri ráð fyrir að verða sannspár- að það verði því mikið um dýrðir hér í bæ allt þetta ár og kannski sérstaklega í sumar, í tilefni af því. (Það má kannski líta á það sem einskonar framlag þessarar síðu til afmælisfagnaðar að 150. húsapistillinn verður væntanlega birtur á árinu...)

PC310038

 


Hús dagsins: Lyngholt 10; Lyngholt.

Síðasta Hús dagsins á árinu 2011 stendur í Glerárþorpi og nær lóðin að Hörgárbraut, þjóðleiðinni gegn um bæinn. P6180092En þessa mynd fann ég í safninu mínu, hún er ein af fáum sem ég hef ekki þegar birt og skrifað pistil og er um gera að bæta úr því. En húsið heitir Lyngholt og er nr. 10 við götuna Lyngholt- sem væntanlega heitir eftir húsinu. En Lyngholt er tvílyft steinsteypuhús á kjallara með lágu risi, byggt árið 1927. Inngönguskúrar eru á norður og austaurhliðum hússins. Það hefur sennilega verið með háreistari húsum á þessum slóðum á sínum tíma en í Glerárþorpi á fyrri hluta 20.aldar var yfirleitt hvorki hátt til lofts né vítt til veggja. Húsið er núna tvíbýli, það er í góðri hirðu sem og lóðin í kringum húsið. En hún er nokkuð víðáttumikil- enda húsið gamalt smábýli. Þessi mynd er tekin 18.júní 2011.

Byggingasögu Akureyrar og gömlu byggðunum hafa verið gerð mjög góð skil á síðustu áratugum og eru margar frábærar bækur til þess efnis. En ein er sú bók sem ég hef ekki fundið- og það er byggingasaga Glerárþorps.  Það myndi ég telja þarft verk ef unnin yrði einhvers lags húsakönnun um Glerárþorp og sögu gömlu húsana  þar gerð skil og gefið út á bók. Eitt er víst- að ég myndi fagna útkomu slíks öndvegisrits.


Jólakveðja

Það var svo sannarlega jólalegt um að litast hér á Oddeyrinni um hádegisbil, eins og þessar myndir sýna. Trjágróðurinn skartaði sínu jólalegasta og bjart og kyrrt yfir.

Ég óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegra jóla. Jólakveðja, Arnór B. Hallmundsson Smile

PC240034   PC240035

PC240033 


Vetrarsólstöður

Í dag er myrkrið mest, eða alltént stendur lengst en þó dregur úr því frá og með morgundeginum, Þorláksmessu. Hvort að dagurinn lengist ekki um ca. 30 sekúndur eða mínútu á dag þ.a. næsta nótt verður eilítið styttri en sú síðasta.  En það fer varla að finnast fyrir lengingu dags fyrr en um miðjan janúar og strax í febrúar er það orðið greinilegt að sólin er komin hærra á loft; mánaðamótin febrúar/mars er orðið bjart um sjöleytið á morgnana og dimmir rétt fyrir kvöldmatarleyti. En það er misskilningur að tengja lengingu dags við vorkomu, því eftir vetrarsólstöður byrjar veturinn fyrst fyrir alvöru. Daginn er búið að lengja í rúma þrjá mánuði áður en fer að vora að ráði. Verstu veðrin og mesti kuldinn er nefnilega oftar en ekki í janúar og febrúar.

Ps. Ef ég skrifa ekkert hérna fyrir aðfangadag, þá óska ég ykkur öllum nær og fjær gleðilegra jóla og góðs nýs árs  Smile


Á göngu um götur Akureyrar

Eftirfarandi grein skrifaði ég á vordögum 2009 sem grein í blað. Held það þurfi engan frekari formála en hér er lýst nokkrum gönguleiðum um götur Akureyrar.

 

Gengið um Akureyri

Fátt er meira hressandi en að skella sér út í göngutúr. Það skemmir heldur ekki fyrir ef gangan er í skemmtilegu umhverfi. Innan marka Akureyrar er að finna urmul af áhugaverðum gönguleiðum til styttri göngutúra og vel er hægt að gera sér dags gönguferðir innan bæjarmarkana. Alls staðar er eitthvað áhugavert að sjá og við það að ganga um götur og göngustíga bæjarins sér maður hann á allt annan hátt heldur en þegar maður brunar í gegn á hraðferð. Hér á eftir er upptalning á nokkrum fyrirtaks gönguleiðum innanbæjar.

 

Hlíðarbrautar- Þingvallastrætishringur

Þetta er raunar “litli hringurinn” um bæinn en leiðin þræðir umferðaræðarnar Hlíðarbraut-Þingvallastræti-Glerárgötu- Hörgárbraut gegn um Þorpið, Brekkuna og Eyrina. Leiðin er röskir 6km og tekur á góðum degi rúma klukkustund. Bætist að sjálfsögðu við tími og vegalengd eftir því hvar göngufólk leggur af stað. Útsýni er á köflum nokkuð skemmtilegt og eitthvað er af bekkjum til að hvílast á leiðinni. Ekki spillir fyrir að við Hlíðarbraut, neðan við Giljahverfi er stígur gegn um skógarreit sem þar er og þar er um að gera að taka smá krók frá aðalgötunni.

 

Borgarbrautarhringur, litli og stóri

Þetta er raunar hringur um “hálfan bæinn” en þarna er gengin Borgarbraut í stað þess að taka krókin upp Hörgárbraut- Hlíðarbraut. Afar áhugavert útsýni er frá Borgarbrautinni svæðið sem hún liggur lætur nærri að vera landfræðilegur miðpunktur bæjarins. Stóri hringurinn er að ganga suður Hlíðarbrautina, ( og raunar má lengja hringinn enn meira ef Borgarbrautinni er fylgt eftir upp í Giljahverfi og farið eftir Merkigili ). Litli hringurinn er hins vegar ef beygt er upp Dalsbrautina en þar er komið upp á Þingvallastræti við KA heimili. Dalsbrautin liggur um svokallaðan Lækjardal, afar fallegt svæði og er ég næsta viss um að fáir hafa vitað af honum áður en þessi braut var lögð. ( Að sjálfsögðu var þetta miklu áhugaverðara svæði áður en Dalsbrautin kom ) Þá er afar áhugaverður stígur gegn um Sólborgarsvæðið sem liggur upp í Gerðahverfi og hægt að fylgja eftir framhjá Hrísalundi að Skógarlundi. Þessar hringleiðir eru frá 3-5 km og taka frá hálftíma til klukkutíma en þar við bætist tími og vegalengd eftir því hvar göngufólk leggur af stað.

 

Hringur um Akureyri

Vilji menn taka hring um allan bæinn og þræða öll helstu hverfin liggur sú leið ( gerum ráð fyrir að byrja í miðbænum ) eftir Drottningarbraut, upp hjá Skautahöll, beygt inn í Kjarnagötu, upp Miðhúsabraut á Hlíðarbrautina upp Merkigil, Vestursíðu, niður Hlíðarbraut að Krossanesbraut- Hjalteyrargötu- Strandgötu. Þessi leið er um 13 km löng og tekur ekki innan við 2,5klst. á góðum degi. Full langt mál er að telja upp allt áhugavert sem er að sjá á þessari leið, en helst má nefna að útsýnið á Miðhúsabrautinni nýju yfir Brekkuna og upp til fjalls er afar sérstakt. Síðan er miklu áhugaverðara að þræða göturnar Hafnarstræti og Aðalstræti í stað Drottningarbrautar.

 

Glerárgil

Hér er um að ræða einstaka náttúruperlu inn í miðjum bænum. Glerárgilið skiptist í Efra og Neðra Gil en neðrihlutinn er sá sem liggur frá steypustöðinni og niður að Glerárhverfi. Um og við neðragil liggja ágætir nýlegir stígar gegn um skóglendið neðan Hlíðarbrautar niður að stíflu. Neðan stíflu var lagður stígur svo til alveg við ána um 2006 frá virkjunarhúsi að brúnni við Olís og á góðviðrisdögum er þetta alveg einstök leið. Í gilinu má sjá nokkra litla hellisskúta, þarna er plöntulíf fjölskrúðugt sem og fuglalíf, sérstaklega við lónið. Þessi leið nýtur sín best um hásumar en síst er hún áhugaverðari um vetur. Eða bara hvenær sem er. Að ganga eftir stígunum við Neðra Gil frá Olís að steypustöð tekur ca. 15-20 mínútur á fullu stími en um að gera er að taka sér góðan tíma að njóta þessarar skemmtilegu leiðar.

 

Stígakerfið

Þeir sem ganga um götur bæjarins að ráði kannast við að þéttriðið stíganet liggur um bæinn. Síðustu 5-10 árum hefur einmitt verið gert mikið skurk í stígamálum og er það vel. Gegn um Norðurbrekku má t.a.m. þræða stíg frá Þórunnarstræti gegn um Ásveg að Byggðavegi og heldur sá stígur áfram litlu ofar á Byggðaveginum áfram alveg upp í Gerðahverfi og þar er komin tenging við Sólborgarstíg. Hann heldur svo áfram að Lundarskóla en þar liggur annar stígur fram hjá KA svæði niður í Einilund. Til norðurs heldur stígurinn áfram hjá Sólborg í undirgöng undir Borgarbraut og áfram gegn um Þorpið framhjá Þórssvæði að Hörgárbraut. Við Glerárgilið er síðan tenging við stíginn sem lýst er í kaflanum um Glerárgilið. Í Þorpinu eru einnig ágætir stígar, frá Hlíðarbraut upp í Giljahverfi, liggur ofan Giljaskóla að gatnamótum Borgarbrautar að Bugðusíðu. Annar stígur neðar liggur við blokkirnar neðst í Drekagili og Tröllagili yfir Borgarbraut að Tungusíðu. Þá má einnig nefna sérlega áhugaverðan stíg ofan Aðalstrætis sem liggur frá Lækjargili að Nonnahúsi. Þarna er útsýnið frábært og segja má að sagan drjúpi þarna af hverju strái. Þá eru ótaldir fjölmargir aðrir styttri stígar innan hverfa bæjarins. Flestum finnst heppilegra að ganga eftir göngustígum inni í hverfunum frekar en við umferðargötur auk þess sem margir þessara stíga stytta leiðir milli bæjarhverfa allverulega. Þá skal því komið á framfæri hér að vetrarviðhald á þessum stígum, þ.e. snjómokstur og hálkuvarnir er til fyrirmyndar og fá þeir sem að því standa hér með hrós og þakklæti fyrir.

 

 

Arnór B. Hallmundsson


Trukkar af ýmsum stærðum og gerðum

Trukkur getur í sjálfu sér verið geysi víðtækt hugtak, og ekki endilega skýr mörk hvað telst trukkur og hvað ekki. Margir sjá fyrir sér, þegar talað er um trukk, risavaxna flutningabíla aðrir mikla fjallajeppa eða ógurleg torfærutröll eða allt þetta í senn. Trukkur er raunar íslensk hljóðmynd af enska orðinu "truck" en það orð er notað yfir flutningabíla, vörubíla og pallbíla. Hér eru hinir síðasttöldu oft frekar taldir til jeppa enda eru þeir oft á samskonar grind og jepparnir nema hvað í stað farangursrýmis er pallur.  Eða þeir eru bara einfaldlega kallaðir pallbílar. Mér hefur fundist tilhneigingin frekar vera sú að  ekki sé talað um jeppa eða pallbíla sem trukka nema þeir séu breyttir fyrir stór dekk og orðnir nokkuð vígalegir. En fyrst vikið er að orðinu jeppa má að sjálfsögðu minnast á það að það er íslensk mynd af orðinu "Jeep" sem er auðvitað ekkert annað en ein tiltekin bandarísk bílategund. Bílar sem hér kallast jeppar eru kallaðir SUV (Sport Utility Vehicle) uppá enskuna, eða a.m.k. í Bandaríkjunum. En jeppahugtakið er í sjálfu sér einnig fljótandi, rétt eins og trukkshugtakið. En hér eru nokkrir  sem klárlega mætti flokka undir trukka eða "trucks" uppá enskuna.

PA230001

Hér er Scania R580, dráttartrukkur eða "trailer" sem þarna dregur sementstank. Hann er á 10 hjólum, á þremur öxlum.   Í þessum er notaleg gistiaðstaða fyrir ökumann, og annan til, enda hannaður með margra daga ferðalög í huga og að ökumenn séu tveir. Scania er mjög stórt nafn í flutningum hérlendis, en MAN og Volvo eru sennilega svipað algengir.  Þessi mynd er tekin í ofanverðu Naustahverfi 23.okt. 2010.

Hérlendis eru flutningabílar nánast undantekningalaust frambyggðir, öfugt við það sem gerist í Bandaríkjunum þar sem voldugir "húddarar"   þeysa um þjóðvegina. Þeir eru af gerðum á borð við Mack, Peterbilt og Kenworth. Bandarísku trukkarnir oft með mikið stærri og meiri ökumannshúsum, nánast eins og húsbílar enda vegalengdir langar og ferðalög flutningabílstjóra mikið lengri þar.

 

P8200254Þeir verða nú ekki öllu ROSALEGRI en þessi! Þetta er MAN (veit ekki undirtegundina)  hertrukkur sem líklega þjónar hlutverki eins konar fjallarútu. Þessi er á þremur öxlum, sex hjólum sem mér sýndist fljótt á litið vera nálægt 50 tommum á hæð. Þessi mynd er tekin við KS í Varmahlíð 20.ágúst 2011.

 

 

 

 

 

P6170254

Einhversstaðar  las ég það að Ford F-Series pallbíllinn væri vinsælasti bíllinn í Bandaríkjunum. Þetta er hinsvegar Excursion, bíll sem er byggður á sömu eða svipaðri grind en með SUV laginu.  eða Þessi er að mig minnir eitthvað yfir 400hestöfl með V8 dísilvél, "46" breyttur og á klárlega skilið að kallast trukkur. Eins og sjá má er upplýsingaspjald framan við bílinn og oft reyni ég að leggja slíkar upplýsingar á minnið- einkum ef hugmyndin er að setja myndirnar hingað inn. En þarna, á sýningu Bílaklúbbs Akureyrar í Boganum 17.júní 2009, gaf ég mér engan tíma til þess- enda á ferðinni hálftíma fyrir lokun og aldeilis nóg annað að skoða.

 

 

P6170262 Ford Econoline, "46" breyttur. Slíkir bílar kallast uppá "amerískuna" ekki trucks heldur Vans eða sendibílar. Þessi er hins vegar klárlega algjör trukkur- en Econoline er ekki framleiddur sem torfærubíll í verksmiðjunum heldur sendibíll og er það sér íslenskt fyrirbæri að breyta þeim á þennan hátt. Einhverntíma hugkvæmdist einhverjum að Econoline væri hentugt að breyta í fjallatrukka, en þessir bílar eru á sterkri grind og auk þess mjög rúmgóðir. Þeir hafa gegn um síðustu 2-3 áratugina verið mjög vinsælir hjá björgunarsveitum og ferðaþjónustu, þegar flytja þarf fólk og búnað um fjöll og firnindi. Þá eru þeir til sem innrétta svona trukka sem húsbíla og eru þannig komnir með "fjallaskála á hjólum". Þessi mynd er einnig tekin í Boganum 17.júní 2009.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 40
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 303
  • Frá upphafi: 450432

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 200
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband