Hús dagsins nr. 141: Tónatröð 11; Sóttvarnarhúsið og Litli- Kleppur

Í beinu framhaldi af umfjölluninni um Skíðastaði, sem áður var Sjúkrahús er etv. rétt að fjalla um þau hús sem enn af húsum spítalans á Undirvelli, brekkubrúninni norður af Búðargili.P7220093 Eins og fram kom í fyrri færslu var spítalinn reistur árið 1898 af Snorra Jónssyni. Sjö árum seinna var reist annað hús, einum 50 metrum vestar, ofar í brekkunni. Það hús sést á þessari mynd fyrir miðju. Var húsið byggt sem sóttvarnarhús, mér skildist einhvern tíma að þetta hafi verið mikið nýtt þegar erlend skip heimsóttu Akureyri og veikindi meðal skipverja. Húsið er sumsé byggt 1905 og er einlyft timburhús með portbyggðu risi á steyptum kjallara. Ekki veit ég fyrir víst hvenær húsið lauk hlutverki sínu sem sóttvarnarhús en um 1950 var húsið orðið íbúðarhús- sem það er enn í dag. Árið 1945 var húsið sem sést til hægri byggt, einlyft steinsteypuhús með söðulþaki og var það geðdeild spítalans, kallað Litli-Kleppur. Á geðdeildinni vann lengi Jóhann Konráðsson og bjó hann í gamla sóttvarnarhúsinu ásamt fjölskyldu sinni- en meðal barna hans er Kristján Jóhannsson stórsöngvari. Húsið var geðdeild spítalans í um hálfa öld, fram undir 1995 en er nú samkomusalur. Gamla sóttvarnarhúsið er hins vegar, sem áður segir íbúðarhús og er einbýli. Það er í mjög góðri hirðu, var allt "tekið í gegn" fyrir um 15-20 árum síðan og er næsta lítið breytt frá upprunalegu útliti að utan. Húsið stendur nú við Tónatröð en það heiti var götuslóðanum sem lá upp frá Spítalaveginum að gömlu sjúkrahúsbyggingunum gefið fyrir einhverjum árum síðan. Áður töldust þessi hús til Spítalavegs 11- líkt og gamla sjúkrahúsið.Þessi mynd er tekin á góðviðrisdegi, 22.júlí 2010. Þá láðist mér að mynda þann hluta sjúkrahússins sem enn stendur en það er Spítalavegur 13, sem reist var sem viðbygging árið 1920. Það hús hyggst ég mynda sem fyrst og birta hér á síðunni í næstu húsaumfjöllun.


Hús dagsins nr. 140: Skíðastaðir í Hlíðarfjalli (áður Sjúkrahús Akureyrar)

Eitt vinsælasta skíðasvæði á landinu er ofan Akureyrar, í Hlíðarfjalli og ná efstu brekkurnar uppí 1000m hæð. P3150096En höfuðstöðvar svæðisins eru í 500metra hæð um 7km frá Miðbænum. Helsta bygging svæðisins eru Skíðastaðir, sem sjást hér á myndinni. Er hann einlyft timburhús á háum steyptum kjallara með háu risi og tveimur burstum á göflum. Langur, flatur kvistur er á miðálmunni. En húsið er byggt árin 1955-57 á þessum stað-en er að stofni til miklu, miklu eldra og hefur ekki alltaf staðið þarna. Húsið var nefnilega reist upprunalega árið 1898 sem sjúkrahús Akureyringa og stóð þá á brekkubrúninni norðan Búðargils- á flata sem kallaðist Undirvöllur.  Guðmundur Hannesson héraðslæknir hafði veg og vanda að þeirri byggingu. Þótti honum að þáverandi sjúkrahúsaðstaða í Aðalstræti væri engan vegin boðleg, enda þröng og starfsaðstæður slæmar - auk þess sem húsið var ekki reist sem sjúkrahús. Húsið var eitt það vandaðasta á Akureyri- og á landinu öllu. Var það búið vatnsleiðslu og vatnssalernum og miðstöðvarkyndingu, en slíkt varð ekki almennt í húsum fyrr en um 1920. Snorri  Jónsson timburmeistari stjórnaði byggingu hússins- en danskur arkitekt L. Thuren teiknaði það en ekki er talið ólíklegt að Guðmundur hafi verið með í ráðum í hönnun hússins. Sjúkrahúsið var að mestu leyti svipað og Skíðastaðir (enda raunar um sama hús að ræða), nema hvað risið er hærra á Skíðastöðum og húsið stendur á hærri grunni. Skömmu eftir að Sjúkrahúsið var reist byggðu Guðmundur og Snorri einnig glæsilegt íbúðarhús en það stendur enn á sínum stað og er Spítalavegur 9. Sjúkrahúsið á Spítalavegi þjónaði Akureyringum og nærsveitarmönnum fram á miðja 20.öld en var orðið þröngt og hrörlegt 1953 þegar nýtt og stórglæsilegt Fjórðungssjúkrahús tók við hlutverki þess. Svo það varð úr að húsið var tekið niður en viðurinn nýttur í nýjan skíðaskála sem enn stendur. Húsið var fullgert 1957. Þá þegar var áratuga hefð fyrir skíðaiðkun í Hlíðarfjalli- og stóð annar eldri og mikið minni skáli, Útgarður, á svipuðum slóðum. Þá voru einnig til eldri Skíðastaðir en sá skáli var byggður um 1930 (rifin skömmu fyrir 1980)  og stóð á Súlumýrum, rétt ofan við Fálkafell. En þetta hús hefur  alla tíð verið skíðahótel, þ.e. gistiaðstaða fyrir hópa sem koma á skíði og eru gistirými á efri hæð en veitingasala og afgreiðsla á neðri hæð ásamt geymslurýmum. Skíðastaðir á sér langa og mikla sögu, bæði sem vinsælt skíðahótel og fyrrum sjúkrahús; þarna eru t.d. margir Akureyringar fæddir! Húsinu er vel viðhaldið og í góðu ástandi en trúlega mæðir mikið á húsinu að utan, því hvassviðrin þarna geta verið all rosaleg í 500 metra hæð og opið fyrir Glerárstrengnum svokallaða. Þessi mynd er tekin fyrr í dag, 15.mars 2012.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen og Magnús Skúlason. 2003. Af norskum rótum; gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og menning.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Nokkrar góðsviðrismyndir af Akureyri

Um þarsíðustu helgi, laugardaginn 25.febrúar var ég á ferðinni í Vaðlaheiði. Þetta var góðviðrisdagur,sól og heiðskírt og að sjálfsögðu tók ég nokkrar myndir yfir Pollinn af Akureyri og fjallahringnum  í kring:

P2250078

Hér má sjá stóran hluta Brekkunnar og Oddeyrin, Oddeyrartangi skagar út í Pollinn  nokkurn vegin fyrir miðri mynd. Ofan Oddeyrar, hægra megin, má sjá Giljahverfi og hluta Síðuhverfis. Í baksýn er Hlíðarfjallið, ber þar Blátind (um 1200m) hæst yfir Hlíðarskálina.

P2250094

Hér horft til NV yfir Oddeyrina og Glerárhverfi og Kræklingahlíð fjær þar ofan við. Vinstra megin er svo Miðbær og Suðurbrekkan.

P2250095

Og hér er Innbærinn neðan syðstu hluta Brekkunnar og Naustahverfis. Ofan sléttunnar á Brekkunni ,sem ísaldarjöklar skópu, eru síðan Súlumýrar og klettabeltin þar fremst kallast einu nafni Lönguklettar (nyrstu klettarnir Hamraklettar eða Hamrahamrar). Súlurnar báðar Ytri (1167m) og Syðri (1220m) fyrir miðri mynd og vinstra megin við þær eru fjöllinn neðan Bónda(1361m) og Kerlingar (1538m) en þau fjöll eru bæði í hvarfi bak við ský og Kerlingin bak við Bónda.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 27

Um þetta hús get ég fjallað dálítið ítarlegar en mörg önnur- en ég bjó í þessu húsi frá maílokum 1997 til vordaga 1999. félagsgata 27En Gránufélagsgötu 27 byggði maður að nafni Jóhannes Júlíníusson árið 1926 eftir teikningu Magnúsar Bjarnasonar. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og mjórri stigabyggingu að aftan. Aftantil er einnig kassalaga kvistur, sennilega seinni tíma viðbót. (Ég veit fyrir víst að í útveggjum er reiðingur- en það sá ég þegar borað var fyrir eldhúsviftu 1998.) Í upphafi mun hafa verið verkstæði á neðri hæð en íbúð á efri hæð og risi. Nú eru tvær íbúðir í húsinu ein á neðri hæð og önnur á hæð og risi. Neðri hæð skiptist í stofu og herbergi, lítið hol á stofu og herbergis þar sem gengið er í eldhús en forstofa neðri hæðar er tvískipt fyrst lítil undir stigahúsi efri hæðar og svo forstofugangur þar sem gengið er inná baðherbergi og stofu og inní þvottahús sem er sameiginlegt með efri hæð. Ég flutti inn í þá íbúð að kvöldi 31.maí 1997, þá tæplega 12 ára. Hafði verið búsettur í Eyjafjarðarsveit fram að því og leist bara hreint ekki á það að flytja í bæinn. En það var nú fljótt að venjast- þegar ég hóf að fara í göngutúra um hverfið að Pollinum um Miðbæinn og skömmu seinna byrjaði ég í Skólagörðunum. Þetta sumar 1997 var einstaklega sólríkt og varð það mitt helsta tómstundagaman að ganga um bæinn, Eyrina, Miðbæinn og jafnvel inní Innbæ. En örstutt frá þessu húsi er staðsett ein stofnun sem ég "uppgötvaði" fljótt og átti eftir að verða mér mikið athvarf- nefnilega Amtsbókasafnið.P8280033 Þess má geta að ég hef alla tíð síðan sótt það reglulega. Þar komst ég í bækurnar um Oddeyrina og seinna Innbæinn og það gerði göngutúrana um þessa bæjarhluta enn meira spennandi. Að geta tengt gömlu húsin við ártöl og nafngreinda menn sem byggðu þau og bjuggu þar- og í sumum voru jafnvel ýmsir merkismenn fæddir!  Þarna má segja að áhuginn fyrir gömlum húsum og byggingarsögu Akureyri byrji hjá mér! En aftur að húsinu sjálfu. Á efri hæð er stofa, en voru áður tvær og stórt eldhús, forstofa og bað og herbergi innaf forstofu (áður stofu) Hringstigi liggur uppí ris þar sem er langur gangur inní gluggalaust sjónvarpshol með herbergjum sitt hvoru megin og eitt herbergi er í kvisti- innaf gangi. Herbergjaskipan er nokkuð breytt á hæð frá upphafi- og raunar aðeins á síðustu 15 árum. 4.júlí 1998 stækkuðum við eldhúsið, söguðum vegg milli eldhúss og bókaherbergis sem þá var og í kjölfarið lokuðum við á milli stofanna og breyttum annarri í svefnherbergi. Húsið var komið á viðhald að utan þegar ég bjó þarna og seldum við það í því ástandi. Þakklæðning var farin að láta verulega á sjá. En árin 2005-10 var húsið allt tekið í gegn að utan, byrjað að skipta um þak haustið 2005. Þá kom í ljós að þakið hafði verið einangrað með gömlum netadræsum! En eins og sjá má á yngri mynd er húsið núna allt hið glæsilegasta og er þetta stórfínt hús að flestu leyti- góður andi í því. Myndirnar eru teknar 21.jan 2005 og 28.ágúst 2010.  


Hús dagsins : Ránargata 13 (áður Hafnarstræti 107).

Ránargata er ein af önnur þvergatnanna sem gengur norður frá Eiðsvallagötu á Eyrinni. P1150050Liggur hún samsíða og vestan við Ægisgötu en austan við hana er Norðurgata. Ránargata tók að byggjast uppúr 1930 en flest húsin við hana byggð á fimmta og sjötta áratugnum. Húsin eru flest nokkuð svipuð, tveggja hæða steinsteypt hús með lágum valmaþökum. En hús nr. 13, sem stendur á horninu við Eyrarveg sker sig dálítið úr. Það er stórt einlyft timburhús með portbyggðu risi og miðjukvisti, járnklætt á steyptum kjallara. En þetta hús var reist 1897 af Júlíusi Sigurðssyni bankastjóra og stóð fyrstu 40 árin við Hafnarstræti 107. Meðan húsið stóð þar var þarna m.a. útibú Landsbankans frá 1904-1931 og mikill trjágarður og tún í brekkunni á bakvið hús. Kona Júlíusar, Ragnheiður Benediktsdóttir (systir Einars Ben)  átti fjós og dálítið tún í brekkunum bak við húsið og stundaði þar myndar búskap. Það þótti dálítið sérstakt að konan sæi alfarið um búskapinn. (Tún Ragnheiðar fyrir ofan Hafnarstræti 107 munu hafa verið þar sem nú er byggð við Bjarmastíg og Oddeyrargötu). En árið 1953 var húsið selt til niðurrifs þeim Árna Stefáni Jakobssyni og Jóni H. Þorvaldssyni. En í stað þess að rífa það fluttu þeir það hingað í Ránargötu og skiptu í tvíbýli. Jón seldi fljótlega sinn hluta en Árni bjó þarna áfram. Húsið er lítið breytt að utan frá því að það var reist í Hafnarstræti en glugga- og dyraskipan er þó sennilega frábrugðin því sem var í upphafi. Húsið er í góðu ástandi og til mikillar prýði í götumyndinni. Nú eru að ég held þrjár íbúðir í húsinu- ein í risi og tvær á hæð. Þessi mynd er tekin 15.janúar 2012.

Heimildir: Jón Hjaltason (2004) Saga Akureyrar 4.bindi: Vályndir tímar. Akureyrarbær.

Steindór Steindórsson (1993) Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


140. húsapistillinn...

Pistillinn um Gránufélagsgötu 22 sem ég birti núna áðan var skv. lauslegri talningu minni pistill númer 140. Árið 2012 er 150 ára afmælisár Akureyrar- og af því tilefni- ætla ég einmitt að hafa pistil nr. 150 sérstaklega veglegan. Miðað við meðalafköst mín sl. mánuði þ.e. um einn pistill á viku gæti þessi pistill birst um og eftir miðjan apríl. Þá hef ég látið mér detta í hug, að 150 pistlum liðnum, að setja saman einskonar söguágrip Akureyrar gegn um húsin. Það gefur hinsvegar auga leið að 150. húsapistillinn yrði að fjalla um eitthvert mjög sérstakt hús, sögufræga byggingu eða vel þekkt kennileiti á Akureyri. En þar er etv. úr vöndu að ráða- þar sem ég er örugglega nú þegar búinn að fjalla um nokkuð mörg hús sem falla undir þetta. (Mér hefur svosem látið mér detta í huga eitt sérstakt hús). En nú er ég að spá hafið þið, lesendur góðir, einhverjar góðar hugmyndir um "kandídat" fyrir "afmælishátíðarpistilinn" númer 150? Tek allar hugmyndir til greina og íhuga vandlega Smile.

ATHS. Bætt við 25.apríl: Við ítarlega talningu kom í ljós að mér hafði skeikað um þrjá, þ.a. að Gránufélagsgata 22 var í raun nr. 137. En það breytir ekki fyrri ákvörðun um 150.pistilinn en ég hef hinsvegar leiðrétt númerin á pistlunum í samræmi við þetta. Biðst ég, lesendur góðir, velvirðingar á þessum mistökum.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 22

Hús dagsins í dag stendur beint á móti síðasta húsi dagsins á horni Gránufélagsgötu og Hríseyjargötu. P1150061Á þessu horni hafa árekstrar verið nokkuð tíðir gegn um árin og áratugina- en ástæðan er sú að fyrir þeim sem kemur niður Gránufélagsgötuna (hún liggur A-V og einstefna í austur) ber að víkja fyrir umferð sem kemur norður eftir Hríseyjargötu (hún er einnig einstefna)- og ekki allir sem gæta að því! En að húsinu. Fyrsta húsið sem reis þarna var smiðja eða verkstæðishús og var það byggt 1914 af Sigurði Víglundssyni. Það var einlyft með bröttu risi, steinsteypt og eitt af fyrstu steinsteypuhúsum Akureyrar. Hann byggði við húsið 1921. Það mun líkast til vera einlyfta byggingin með skúrþakinu lengst til vinstri á myndinni. Árið 1923 reis "aðal" húsið, þ.e. tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki. Þannig var upprunalega smiðjan orðin kjarni í þessari sambyggingu íbúðarhúss, smiðju og geymslu. Húsið hefur líklega verið tvíbýli frá upphafi, íbúðir á efri og neðri hæð- allavega hefur sú íbúðaskipan verið sl. áratugi. Hugsanlega hefur einhvern tíma verið búið í smiðjuhúsinu einnig. Þessi samsetning húsa er svolítið sérstök og hefur sambyggingin skemmtilegan svip- mér finnst húsin minna dálítið á sveitabæ þar sem íbúðarhús og útihús eru sambyggð (en slíkt var raunar ekki óalgengt á þeim tíma sem húsin voru byggð). Húsin eru í ágætis hirðu og þarna eru skil milli mismunandi bygginga nokkuð greinileg. Þessi mynd er tekin 15.jan 2012.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Gagnsemi opinna svæða

Í flestöllum byggðalögum má finna óbyggð svæði eða græn svæði.  Stundum hafa þau verið ræktuð upp og byggðir upp litlir óformlegir skrúðgarðar en einnig getur verið um að ræða ónotuð svæði, stundum í órækt  eða þau ræktuð upp og slegin og hirt en annars látin afskiptalaus. Stundum eru þarna nokkrar trjáplöntur. Til eru þeir skipulags og byggingafrömuðir sem mega helst ekki sjá svona svæði í friði- þar verði sko umsvifalaust að byggja!  Þarna er þétting byggðar ákveðið lykilorð og er það vel skiljanlegt sjónarmið. En opin og óbyggð svæði eru svo sannarlega ekki alveg til ógagnsFyrir utan að oft notast þau sem leikvangur fyrir börn eða aðra sem gaman hafa að leik, boltaleiki og annað slíkt og skapa ákveðið "andrými" innan þéttbýlisins þá er eitt ótvírætt notagildi á svona svæðum að vetrarlagi. Þangað er nefnilega alveg upplagt að moka snjó af götum- sem annars yrði að geyma á gangstéttum eða bílastæðum Wink.

 


Hús dagsins: Gránufélagsgata 33; Hinrikshús.

 Gránufélagsgata 33 stendur á horni Gránufélagsgötu og Hríseyjargötu. Húsið reisti maður að nafni Hinrik Pétursson árið 1917. P1150051Var það þá einlyft steinsteypuhús með portbyggðu risi á kjallara.  Húsið hefur tekið töluverðum breytingum frá upphafi og verið stækkað nokkrum sinnum, líklegt þykir mér að bakbygging hafi upprunalega verið geymslu- eða verkstæðisbygging. En það er í raun algengara en hitt að hús sem komin eru nálægt 100 árum eða eldri hafi verið stækkuð eða breytt umtalsvert að ytra byrði. Nú má segja að húsið sé tvær álmur, önnur tvílyft með lágu risi, samsíða Hríseyjargötu og svo upprunalega húsið, einlyft með miðjukvisti og snýr að Gránufélagsgötu. Húsið hefur líkast til allt verið byggt upp í kjölfar bruna á 7.áratug síðustu aldar en hér má sjá myndir af því af vef Slökkviliðs Akureyrar.  Á þeim myndum má sjá að miðjukvistinum hefur verið breytt eftir það. Upphaflega hefur húsið líkast til verið einbýli en nú eru í því tvær íbúðir, ein í framhúsi og neðri hæð bakvið og önnur minni á efri hæð bakbyggingar. Húsið var allt tekið til gagngerra endurbóta utan sem innan fyrir um tveimur áratugum og lítur nú stórglæsilega út. Það er klætt múrmylsnuplötum og gluggar eru nýlegir og þakklæðning. Ef myndin er skoðuð í fullri stærð (það gert með því að smella á hana) má sjá áletrunina "Hinrikshús 1917" bakatil á húsinu. Þessi mynd er tekin 15.jan 2012.

 


Hús dagsins: Gránufélagsgata 35

Gránufélagsgata 35 P1150060var reist nokkur hundruð metrum neðar á Eyrinni árið 1923 en flutt á þennan stað um hálfri öld síðar. Gekk það þar undir nafninu Litli-Póll en næsta hús við það var Gránufélagsgata 57. Það var kallað Norðurpóll og var reist um 1910. Það var mikið stórhýsi, timburhús í Sveitser stíl, tvílyft með miklum miðjukvisti og virðist ekki hafa verið ósvipað húsum nr. 19 og 23 við Strandgötu. Ekki á ég nú mynd* af  þessu ágæta húsi því Norðurpóllinn var rifin talsvert áður en ég fékk tækifæri til að mynda hann eða árið 1979- sex árum áður en ég svo mikið sem fæddist! Hef ég heyrt marga sjá eftir þessu húsi og telja að vel hefði verið hægt að gera það upp.

En Gránufélagsgata 35 er einlyft timburhús með portbyggðu risi og einlyftri bakbyggingu með skúrþaki. Það er klætt svokölluðu steinblikki (hef einnig heyrt þetta kallað rósajárn), sérstakri blikkklæðningu sem minnir á grjóthleðslu og er algeng á timburhúsum á Akureyri en næsta sjaldgæf annars staðar. Ekki virðist vera kjallari undir húsin en það stendur á lágum steinsteyptum grunni. Bakbygging er að mestu forsköluð. Það sem helst gefur húsinu skemmtilegan og einkennandi svip er miðjukvistur sem gengur eilítið fram fyrir húshliðina og stendur á járnstólpum. Ekki veit ég hvort kvisturinn hafi verið á húsinu frá upphafi eða bætt við síðar. Ein íbúð mun vera í húsinu. Þessi mynd er tekin 15.jan. 2012.

*Við vinnslu þessa pistils reyndi ég árangurslaust að "googla" myndir af Norðurpólnum, Gránufélagsgötu 57 til að vísa í hér með tengli. Hugsanlega leynast slíkar myndir einhversstaðar "nafnlausar" í  myndasöfnum  en ef orðin Norðurpóllinn eða Gránufélagsgata 57 standa hvergi nærri nemur Google það auðvitað ekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 274
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 174
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband