Hús dagsins nr. 149: Harðangur og Hjarðarholt

Enn erum við stödd á Melgerðisásnum, en Háhlíðin liggur eftir honum milli Höfðahlíðar í vestri og Skarðshlíðar í austri. Hér eru tvö býli, Harðangur og Hjarðarholt en bæði þessi býli voru upprunalega byggð 1917, en nú standa mun yngri hús þar. P5010013Harðangur stendur skáhallt tæplega 100metrum ofan við Steinaflati og hinum megin götunnar.  Húsið er einlyft, steinsteypt einbýlishús, byggt árið 1942 eftir teikningum Páls Friðfinnssonar. Húsið er undir einkennum frá Funkis stefnunni, og bera horngluggar og flatt þak þess merki. Húsið hefur nýlega verið tekið til gagngerra endurbóta, m.a. klætt járni og skipt um glugga. Hér má sjá upprunalegar teikningar að húsinu.

 Nokkru austan við Harðangur er ekki ósvipað hús, enda á svipuðum aldri, Hjarðarholt.P5010008 Húsið er tvílyft steinsteypuhús undir áhrifum frá fúnkisstíl með horngluggum og valmaþaki, byggt 1946. Það er reyndar álitamál hvort húsið er tvílyft eða einlyft á kjallara, því húsið stendur í brekku og hliðin sem snýr að Háhlíðinni er ein hæð en á þessari mynd er horft frá Skarðshlíð til norðvesturs. En húsið er, líkt og Harðangur, einnig reist á grunni eldri bæjar frá 1917 ( reyndar skildist mér einhvern tíma að upprunalega Hjarðarholtshúsið hafi staðið litlu austar, nær því sem Skarðshlíðin er núna.) Nú eru að ég held tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Í túnfæti Hjarðarholts risu árin 1965-70 fyrstu blokkir Þorpsins við Skarðshlíð. En húsið stendur enn fyrir sínu, stórglæsilegt og í góðri hirðu, sem og nærumhverfi þess. Þessar myndir eru báðar teknar 1.maí 2012.

Næsta færsla verður númer 150 og þar mun ég taka fyrir eina valda byggingu, er hýsir virta og þekkta stofnun á Akureyri. Það verður einskonar "viðhafnarpistill" í tilefni að þeirri skemmtilegu tilviljun að færsla númer 150 komi núna á 150.afmælisári Akureyrarbæjar. En ég hætti ekki eftir 150. færsluna- heldur mun ég bera aftur niður á Ásnum í þeirri 151...


Hús dagsins nr.148 : Grímsstaðir og Steinaflatir (Háhlíð 3 og 7)

Í síðustu færslu vorum við stödd á Melgerðisásnum í Glerárþorpinu, en um hann liggur gatan Háhlíð. Næst ofan við Glerárskóla Gamla, norðaustanvið, er þetta hús, P5010015Háhlíð 3 eða Grímsstaðir (ekki þó þeir sömu og kínverski fjárfestirinn Huang Nubo vill kaupa eða leigja Wink ). En þetta er elsta hús við Háhlíðina, byggt 1929. Einlyft steinsteypuhús á kjallara með lágu risi. Húsið er einfalt að gerð og látlaust og ekki stórt að grunnfleti. Húsin í Þorpinu eru mörg hver áberandi minni en hús frá sama tíma t.d. á Brekkunni enda oft efnaminna fólk sem þar átti í hlut. Mér dettur í hug að upprunalega hafi útidyr á framhlið verið á miðri hliðinni en húsið hafi verið lengt til austurs, sbr. að austasti glugginn er stærri og annarrar gerðar en hinir tveir. Auk hússins stendur bílskúr á austurenda lóðarinnar. Húsið lítur vel út sem og umhverfi þess- en mörgum eldri húsanna í Þorpinu fylgja geysi víðlendar lóðir sem bjóða uppá talsverða möguleika og hirtar eru af natni. Þessi mynd er tekin 1.maí sl. Takið eftir runnunum framan við húsið, þeir eru orðnir vel grænir og berið svo saman við birkitréð lengst til hægri. Þarna hefur innfluttur runninn tekið snemma við sér- um leið og fór að hlýna en birkið- sem er alíslenskt- bíður hins vegar með "grænkun" þar til albjart er orðið. 

Þarnæst ofan við Grímsstaði eru Steinaflatir, Háhlíð 7. Það er töluvert yngra hús, byggt 1951  á grunni eldra húss en upprunalega var byggt við Steinaflati árið 1916. P5010014Núverandi hús er steinsteypt með járnklæðningu, einlyft á kjallara með valmaþaki og nokkuð dæmigerð fyrir einbýlishús frá miðri 20.öld. Grunnflötur nærri ferningslaga og valmþak- og á þessum tíma voru gluggar orðnir stærri og meiri- stórir stofugluggar fóru t.d. að sjást um þetta leyti. Sennilega er þessi byggingargerð þróun út frá funkisgerðinni sem ruddi sér til rúms hérlendis um 1930-35. Ekki er mér kunnugt um hvort húsið hafi verið stækkað eða byggt við það En eins og Grímsstaðir eru Steinaflatir stórglæsilegt hús í góðri hirðu sem og umhverfi þess. En myndin er einnig tekin á hjóltúr um Ásinn 1.maí sl.  


Hús dagsins nr. 147: Hátún, Sólvangur og Glerárskóli eldri (Árholt).

Einhver kann að taka eftir því að hér eru þrenn hús nefnd undir einu númeri. En það kemur jú til af því að númerin eru á pistlunum, en einn pistill getur fjallað um fleiri en eitt hús. En í þessum þremur færslum sem eftir eru fram að 150.pistlinum ætla ég að taka fyrir nokkur býli í Glerárþorpi og færa mig upp eftir Höfðahlíðinni og taka beygjuna upp Háhlíðina og fylgja eftir Melgerðisásnum (oftast einfaldlega kallaður Ásinn) frá vestur til austurs. En 1. maí fór ég í myndatúr um þetta svæði- þótti orðið langt um liðið frá síðasta Þorpspistli.

En fyrsta húsið er Hátún. P5010018Það stendur við Höfðahlíð 4. Hátún er byggt 1926, einlyft steinsteypuhús með lágu risi á lágum kjallara. Alla tíð hefur húsið verið íbúðarhús og trúlega hafa einhverjar fleiri byggingar fylgt í upphafi (útihús e.t.v.) en það er þá allt löngu horfið. Gatan Áshlíð byggðist norður frá húsinu uppúr 1965. Húsið og allt umhverfi þess hefur verið tekið vel í gegn síðustu ár, byggt við að norðanverðu og einnig byggður stæðilegur bílskúr austan við. Allar hafa þessar endurbætur heppnast vel, húsið lítur vel út og til mikillar prýði í Höfðahlíðinni.

Höfðahlíðin tekur sveigju upp hjá Ásnum, P5010017að því að heita má samsíða Gleránni. Á gilbarminum ofan gömlu brúarinnar, á mótum Höfðahlíðar og Lönguhlíðar og Háhlíðar stendur Sólvangur. Er það steinsteypt hús frá 1944, undir áhrifum frá funkis-stíl. (Ekki tel ég þó útilokað að húsið sé byggt úr r-steini.) Það er með lágu skúrþaki og sennilega eru bílskúr á bakhlið og sólskáli á suðurhlið seinni tíma viðbyggingar. Sólvangur stendur á vel gróinni lóð, þarna eru mikil lerki- og birkitré áberandi og um hásumarið er húsið að heita má hálffalið undir lauf- og barrskrúði.

Beint á móti Sólvangi, uppi á hól undir Ásnum, við Háhlíð stendur Gamli GlerárskóliP5010016Það er einlyft steinsteypt bygging  með söðulþaki, byggð 1938. Var húsið byggt sem skólahús fyrir Glerárþorp en skólahald hafði þá verið um 30 ára skeið í Ósi við Sandgerðisbót. Þetta hús var ein allra stærsta og veglegasta bygging Glerárþorps á sínum tíma- en húsið var notað til skólahalds allt til 1974 er Glerárskóli (nýi) var reistur, um 100m norðvestan við þetta hús. Þá var farið að fjölga all verulega í Glerárþorpi frá því sem var 1938, margar stórar íbúðablokkir komnar og Holtahverfi u.þ.b. fullbyggt. Það sem helst setur svip á húsið eru stórir og miklir gluggar sem snúa á móti suðri og því hefur væntanlega verið mjög bjart í kennslustofunum. Eftir að húsið lauk hlutverki sínu sem skólahús var þarna m.a. um langt skeið leikskóli en nú er þarna dagvistunarheimilið Árholt. Allar þessar myndir eru teknar, sem áður segir 1.maí sl.


Ekki er ég óskeikull

Það er ekki hlaupið að því að telja færslur eftir á- sérstaklega ekki þegar þær eru á annað hundrað. Allar talningar mínar á Húsum dagsins hingað til hef ég nefnilega gert handvirkt, þ.e. ég einfaldlega fer á stjórnborðið hjá  "skrolla" á tölvuskjánum og tel Hús dagsins færslurnar hjá mér. Um daginn birti ég pistil þess efnis að síðasti pistill hefði verið nr. 140 en það var aðeins skv. lauslegri talningu, byggð á fyrri pistlayfirlitum og talningu á stökum pistlum uppfrá yfirlitspistli. En við talsvert nákvæma yfirferð* mína á pistlunum mínum kom í ljós að mér hefur skeikað um þrjá pistla í talningunni og síðasti pistill er þannig númer 146, ekki 149 eins og ég taldi áður Blush. Biðst ég velvirðingar á þessu. Þessi staðreynd breytir þó í engu fyrirætlunum um 150.pistilinn- ég skutla bara inn þremur pistlum á milli. Og svo kunna einhverjir að spyrja mun ég hætta húsapistlunum eftir að pistill nr.150 er birtur. Við því er einfalt svar: Nei.

*Þessi nákvæma yfirferð fólst í möguleika sem mér hafði ekki hugkvæmst áður, þ.e.  að ég fór í "leita" og leitaði eftir öllum pistlum með samsetninguna "Hús dagsins:" (en allir húsapistlarnir hafa þessi tvö orð+tvípunkt í fyrirsögn). Afritaði svo listann og númeraði handvirkt allar færslur. ( Þetta yfirlit mun ég svo birta að loknum 150 pistlum)


Hús dagsins nr. 146: Aðalstræti 40; Biblíótekið

Gleðilegt sumar kæru lesendur og þökk fyrir veturinn.P4140007 Fyrsti pistill sumarsins er um þetta 161 árs timburhús við Aðalstræti 40. En þessi pistill er númer 149 og líkt og ég nefndi í vetur þá mun ég reyna að hafa pistil númer 150 sérstaklega veglegan, svona í tilefni af því að á þessu ári er 150 ára afmælisár Akureyrarbæjar. Ég er búinn að ákveða hvaða bygging verður fyrir valinu en hún er eitt af helstu kennileitum Miðbæjarsvæðisins og hýsir eina rótgrónustu stofnun bæjarins og það er ekki tilviljun að ég tók þetta hús sem hér er á myndinni fyrir í þessum pistli á undan. Því það er visst samhengi milli þessa húss og hússins í næsta pistli, nr.150.  (ath. ég hef reyndar fjallað um talsvert fleiri en 150 hús- sennilega nær 200 þar sem stundum hef ég fjallað um tvö eða fleiri hús fyrir í einum pistli). En nóg um næsta pistil- snúum okkur að húsinu á myndinni hér.

En Aðalstræti 40 er einlyft timburhús með háu og bröttu risi. Framan er stór kvistur með skúrþaki eftir endilöngu húsinu  en einlyft viðbygging með skúrþaki bakvið. Húsið var byggt 1851 af Ara Sæmundssyni. Húsið var reist sem bókasafnshús fyrir Amtsbókasafnið en Ari var þar safnvörður. Bókasafnið var til húsa þarna í líkast til 13 ár eða til 1864 að það var flutt til Jóhanns P. Thorarensen lyfsala í Aðalstræti 4. En skv. Hjörleifi Stefánssyni (1986) mun hér um að ræða fyrsta bókasafnshús Íslendinga, þ.e. fyrsta húsið sem reist var sérstaklega undir bókasafn. Hjörleifur talar einnig um að "[..] vert sé að athuga hvort vert sé að varðveita þær leifar sem kunna að vera eftir af upprunalega húsinu " (Hjörleifur Stefánsson 1986:90) En húsinu hefur verið mjög mikið breytt frá upprunalegri gerð, en það er raunar ekki óalgengt með hús á þessum aldri. Byggt verið við það baka til og einnig reistur þessi mikli kvistur sem gefur húsinu mjög sérstakan svip og nánast hægt að tala um að risi hafi verið lyft. Gluggum og gluggaskipan hefur einnig verið breytt mikið. Það er alls ekki óalgengt að húsum á þessum aldri hafi ekki verið gjörbreytt- hitt er frekar undantekning. Enda má nærri geta hversu mikið kröfur til húsnæðis hafa breyst frá því þetta hús var byggt- þ.e. tímabil sem spannar um tvöfalda meðalævilengd Íslendings. Þetta hús var bókasafn upprunalega og einbýli en í áratuga rás hefur íbúðaskipan og notkun breyst og sennilega hafa á tímabili búið margar fjölskyldur í húsinu í einu. En nú er húsið aftur einbýli og hefur verið síðustu áratugina. En þrátt fyrir miklar breytingar frá upprunalegri gerð lítur húsið alls ekki illa út; því virðist vel viðhaldið og líkt og sjá á þessari mynd er nú byrjað að skipta um glugga og mála húsið og spennandi sjá hvernig húsið mun líta út að viðgerð lokinni. Húsið stendur á mikilli lóð og gróskumikilli, sbr. verklegt reynitré fyrir miðri mynd. Þessa mynd tók ég sl. laugardag, 14.apríl 2012.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

 Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Hús dagsins nr.145: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Þegar ekið er um Eyrarlandsveginn gætu einhverjir haldið að um tvær götur sé að ræða. Enda var eitt sinn hugmyndin að svo væri. P3180106 En gatan er rétt um kílómeter að lengd, beygir í miðju Grófargili við Akureyrarkirkju og stígur svo bratt upp brekkubrúnina að brún Barðsgils, ofan Samkomuhússins og Sjónarhæðar. Þar eru mót götunnar og Hrafnagilsstrætis og Barðstúns en gatnamótin mynda þríhyrning sem snýr í vestur (Hrafnagilsstræti), suður (Eyrarlandsvegur) og Barðstún (suður) en suður úr þessum gatnamótum heldur Eyrarlandsvegurinn áfram, og þar vestan götu stendur Menntaskólinn á Akureyri og Lystigarðurinn en austan við eru hús nr. 25-35. En fyrsta húsið sem reis þeim megin götunnar á móts við Lystigarðinn og Menntaskólan var þetta hús, Eyrarlandsvegur 35. En þegar það var reist var það kallað Fagrastræti 1 en syðri og efri hluti Eyrarlandsvegar sem nú er átti þá að heita Fagrastræti en það nafn festist ekki í sessi og næstu hús sem risu nokkrum árum seinna stóðu frá upphafi við Eyrarlandsveg.

En Eyrarlandsveg 35 reisti Þorkell Þorkelsson gagnfræðaskólakennari árið 1915. Húsið er einlyft steinsteypuhús á kjallara með portbyggðu risi, einfalt og látlaust að gerð. Á framhlið er forstofubygging og á norðurhlið er lítil útbygging lítið útskot með lauklaga þaki (karnap) á suðurvegg.  Hvort þessar útbyggingar voru frá upphafi veit ég ekki, hugsanlega voru þær byggðar við seinna. Þessar byggingar eru alltént komnar á húsið 1940 en í bók Steindórs Steindórssonar (1993) á bls. 84 er mynd af húsinu síðan þá. Eigendur þá eru hjónin Jakob Lilliendahl bókbindari og Stígrún Helga Stígsdóttir. En húsið er einbýlishús og hefur líkast til alla tíð verið það. Það er í góðu standi og lítur vel út- sem og lóðin. Á hlaðvarpanum má svo sjá gamlan Farmal (árgerð um 1945-50 myndi ég giska á) en hann hefur verið uppgerður með glæsibrag- og er hann síst til minni prýði en húsið og umhverfi þess. Þessi mynd er tekin í vetrarsólinni 18.mars 2012.

Heimildir: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Svipmyndir af Höfuðborgarsvæði

Um Páskahelgina dvaldist ég sunnan heiða, nánar tiltekið í Kópavoginum og að sjálfsögðu var myndavélin með í för. Hér eru nokkrar svipmyndir.

P4070017

7.apríl var víða farið að grænka í Kópavoginum, hér er iðagrænn blettur í nágrenni Smáralindar.

P4070018

Þessi tvöfaldi stígur liggur í tveimur sveitarfélögum, Kópavogur t.v. og Reykjavík hægra megin, og metersbreið grasræma skilur þarna á milli bæjarfélaganna. Húsin á myndinni standa í  Seljahverfi í Breiðholti.

P4080021´

Uppi á Vatnsendahæð. Þar er mikill sendaskógur, en greinilegt að þeir hafa verið töluvert fleiri; þarna mátti sjá marga steypta stöpla þar sem áður stóðu mikil möstur.


Hús dagsins nr. 144: Hafnarstræti 18b

Hafnarstræti 18b á stórafmæli í ár en það er reist árið 1912 af Ottó Thulinius, stórkaupmanni í Hafnarstræti 18P3180099Það stendur aðeins fáeinum metrum frá Drottningarbrautinni við Höepfnersbryggju en stóð svo til í flæðarmálinu þegar það var reist.  Var það upprunalega byggt sem geymsluhús- en var breytt í íbúðarhús tæpum áratug síðar. Húsið er einlyft á lágum grunni með lágu risi- enda húsið nokkuð breitt. Veggir eru asbestklæddir en bárujárn á þaki. Þá er við húsið tvöfaldur bílskúr, sennilega byggður skömmu eftir miðja 20.öld Sl. haust varð það óhapp að bíll ók á bílskúrinn við húsið og skemmdist hann töluvert en gert var við þær skemmdir fljótlega. Það má heita nokkuð merkilegt við húsið að það var í upphafi tvílyft með risi en hefur verið lækkað um eina hæð- en slíkt er nokkuð sjaldgæft- oftar hafa húsin verið hækkuð. En eins og fram kemur í bók Hjörleifs Stefánssonar (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn  bls.122 "var húsinu oft breytt á ýmsa lund".  En húsið skemmdist í eldsvoða 1945 og urðu efri hæð og ris þar verst úti. Húsið var gert upp en nú einni hæð lægra en í upphafi og valmaþak byggt á húsið. Um 1956 var húsið aftur tekið í gegn, rishæð byggð með stórum miðjukvisti sem gengur í gegn um þak. Þá þykir mér einnig líklegt að asbestklæðningin hafi verið sett á en asbest var afar vinsælt byggingarefni á þessum tíma og talið afar heppilegt- þarf lítið viðhald og er eldtraust. En það þarf tæplega að fara mörgum orðum um hvað vitað er um asbestið núna- enda er það með öllu bannað í byggingariðnaði og hefur verið um árabil. Húsið er sem áður segir talsvert breytt frá upphafi en það er hinsvegar í góðu ástandi og lítur vel út- ber 100 árin nokkuð vel.  Í húsinu eru að ég held þrjár íbúðir, tvær á hæð og ein í risi. Þessi mynd er tekin 18.mars 2012.

 Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.


Hús dagsins nr. 143: Spítalavegur 8

Enn erum við stödd í Spítalavegi- þessari skemmtilegu tengibraut milli Innbæjar og Brekku en nú færum við okkur yfir götuna af Undirvelli, fyrrum spítalalóð og stöldrum við hjá Spítalavegi 8.P3180103 En ég tók tvær myndir af húsinu, bakhliðinni sem snýr að Spítalavegi en einnig fór ég fram á brekkubrúnina að mynda framhliðina. Nú get ég ekki gert uppá milli hvora myndina ég á að nota svo ég læt bara báðar fylgja. En Spítalaveg 8 byggði Kristján Sigurðsson árið 1903. Er húsið einlyft timburhús með portbyggðu risi og miðjukvisti. Það stendur á steinsteyptum grunni og litlar forstofubyggingar eru á bakhlið og suðurgafli.  Ekki veit ég hvort að miðjukvistur var framan á húsinu upprunalega en á mynd á bls. 187 í Akureyri e. Steindór Steindórsson (1993) má sjá mynd frá 1925 af m.a. bakhlið hússins- en þá er ekki kominn stóri kvisturinn á bakhlið. Um 1930 var byggð forstofubygging á suðurgafl og tveimur árum seinna svalir á þakið á henni og mögulega var bakhliðarkvisturinn reistur um svipað leyti. Þá var húsið einnig forskalað. Þá var eigandi hússins Helgi Pálsson. P3180102Múrhúðin var tekin af húsinu skömmu fyrir 1986 og timburklæðning endurnýjuð og húsið þannig fært nær upprunalegu útliti. Nú er húsið allt hið glæsilegasta, hefur hlotið gott viðhald bæði að utan sem innan. Húsið er einbýlishús og hefur líkast til verið það alla tíð. Það stendur á mjög skemmtilegum og áberandi  stað hátt á brekkubrúninni ofan Hafnarstræti og blasir við frá Drottningarbrautinni. Þá fylgir húsinu stór og gróin lóð með miklum trjágróðri. Myndirnar með pistlinum voru teknar í einmunablíðunni sunnudaginn 18.mars 2012.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993) Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur. 


Hús dagsins nr. 142: Spítalavegur 13

Ég hef nú síðustu vikuna tekið að nokkru leyti fyrir húsakost gamla Akureyrarsjúkrahússins, þess sem var fyrri helming 20.aldar og fáeinum árum betur sitt hvorum megin við aldamótin og miðja öldina. P3180104En fyrsti áfangi var reistur 1898 og var þá eitt best búna sjúkrahús landsins- aðstaðan mun rúmbetri og aðgengilegri en efri hæðin í Aðalstræti 14. En á tveimur áratugum var sjúkrahúsið orðið full lítið- enda stækkaði bærinn ört á þessum árum- og árið 1920 var byggð steinsteypt viðbygging við sjúkrahúsið og sést það hús hér á myndinni. Sú bygging varð eftir þegar sjúkrahúsið var flutt uppí Hlíðarfjall 1954- enda húsið steinsteypt og verður því ekki flutt eitt eða neitt. Yfirlæknir þegar þetta hús var byggt var Steingrímur Matthíasson (sonur Matthíasar Jochumssonar). En húsið er einlyft á kjallara með portbyggðu risi með stórum kvisti á norðurgafli. Stórir og víðir gluggar á framhlið- sem snýr í austur hafa líklega verið hugsaðir til að veita birtu inn- en á þessum árum voru menn smám saman að átta sig á heilnæmi birtu og útilofts. Er þetta hús í ágætu samræmi við útlit spítalabyggingarinnar sem var einmitt með burstum á göflunum. Ekki er ég viss hvort í þessu húsi voru viðbótar sjúkrastofur eða mögulega aðstaða fyrir starfsfólk eða geymslurými. En allavega bætti þetta hús 250 fermetrum við aðstöðuna sem fyrir var- en hins vegar liðu ekki nema tæpir tveimur áratugir þar til byggt var aftur á spítalasvæðinu. En um áratugaskeið hefur húsið hinsvegar verið íbúðarhús- einbýli og hefur líkast til verið frá því það lauk hlutverki sínu sem spítalahús. Húsið er í góðri hirðu og stórglæsilegt að sjá- stendur á mjög áberandi og skemmtilegum stað. Þessi mynd er tekin sl. sunnudag 18.mars 2012.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 450434

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 176
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband