1.7.2012 | 17:22
Hús dagsins (nr. 153): Norðurgata 33

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2012 | 17:27
Nokkur tryllitæki af sýningu Bílaklúbbs Akureyrar 17.6.2012.
Að venju var haldin vegleg bílasýning í Boganum á vegum Bílaklúbbs Akureyrar þann 17.júní sl. og að venju var ég á staðnum með myndavélina meðferðis. Hér eru nokkrir gæðingar af sýningunni.
Þessir tveir eru á svipuðum aldri- en eiga svosem fátt sameiginlegt en það. Hægra megin er Toyota Land Cruiser árgerð 1968 en þessi vinsæli gæðingur hefur verið framleiddur í yfir 60 ár. Þessi er búinn sex strokka vél F135, og virðist að mestu óbreyttur. Til vinstri er Chevrolet Chevelle Malibu árgerð 1970, vélin er V8 307. Og hvað þýðir það, kunna kannski einhverjir að spyrja. V8 þýðir einfaldlega að strokkarnir eru átta og liggja í V, þ.e. þeir mynda 45° horn hvor á móti öðrum á sveifarásnum. Í minni vélum liggja þeir oftast í beinni röð og er þá talað um línuvélar- en þegar strokkafjöldinn er kominn yfir sex verða línuvélar óþægilega langar. 307 vél stendur svo fyrir 307 kúbiktommur en það er amerískt mál yfir slagrými vélar. Hér og í Evrópu er þessi stærð gefin í rúmsentimetrum eða lítrum- sem jafngilda 1000 rúmsentimetrum. Sumum finnst kannski ruglingslegt að talað sé um "1600" og "2000" vélar í meðalfólksbílum en á sama tíma eru vélar í stórum amerískum drekum bara "427" eða "518" . En sá munur liggur í rúmtommum og rúmsentimetrum: Ein rúmtomma er 2,54cm*2,54cm*2,54cm= 16,378rúmsentimetrar. 307 vél er þannig 307*16,378= 5030 rúmsentimetrar eða 5 lítrar.
Chevroletinn af árgerð 1942 til vinstri hefur sennilega talist öflugt og stórtækt flutningatæki á sínum tíma. Hann er þó sennilega 5-10 sinnum léttari en þessi 70 árum yngri MAN-trukkur til hægri- sem er af gerðinni TGX26-480. (Síðasta talan stendur væntanlega fyrir hestaflafjöldan en vélin er sex strokka og 480 hestöfl) MAN flutningabíllinn getur gengið bæði á dísilolíu og metani en grænu kútarnir munu vera undir hið síðarnefnda. Hér eru ítarlegar upplýsingar um þetta umhverfisvæna tryllitæki: http://www.landflutningar.is/media/flutningathjonusta/Gerdarlysing-okutaekis.pdf
Þetta er að sjálfsögðu bara brot af þeim myndum sem ég tók- en hér er ég með fleiri:
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.2236219200421.60004.1696225131&type=3
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2012 | 23:50
Hús dagsins (nr.152): Enn fleiri býli í Glerárþorpi
Síðast fjallaði ég um Melgerði í Glerárþorpi þar sem móðurfjölskyldan mín bjó á 6. og 7.áratug síðustu aldar. Enn berum við niður í Glerárþorpi og hér eru nokkur hús- og einn húsgrunnur!
Byrjum ofanfrá: Fyrsta húsið stendur rétt neðan við Hlíðarbraut, eða við Sunnuhlíð 17 stendur húsið Viðarholt en þar stendur upprunalegt hús, byggt 1916. Það hefur sennilegast verið byggt við húsið, jafnvel oftar en einu sinni, t.d. inngönguskúr og álman á bakvið. En húsið er einlyft timburhús með lágu risi, múrhúðað og bárujárnsklætt. Það er í góðri hirðu- sem og víðlend og gróin lóð umhverfis húsið. Ein íbúð er í húsinu.
Lynghóll , Barmahlíð 6 stendur á hól um 200m sunnan Viðarholts, en Sunnuhlíðin liggur í vinkil upp og ofan við þann hól og Barmahlíðin gengur suður úr henni neðst, líkt og heimreið upp að Lynghóli og Vallholti sem stóð næst sunnan við. En Lynghóll er einlyft steinsteypt einbýlishús með lágu risi í tveimur álmum, byggt 1949. Upprunalega var byggt á Lynghóli 1920 en ekki er mér kunnugt um hvort eldra hús var rifið eða núverandi hús hafi verið byggt við - eða utan um það upprunalega.
Vallholt stóð við Barmahlíð 8 rétt sunnan við Lynghól. Það var einlyft timburhús, byggt 1925 og líkast til eitthvað byggt við það síðar. Það var nokkuð sérstakt að gerð- einlyft með háu risi og tveimur burstum. Vallholt brann að kvöldi 30.september 2009 og á myndinni til hliðar má sjá það sem eftir stendur- steyptur grunnur og tröppur og stétt. Gegnum trjáþykknið fyrir miðri mynd sést í suðurgafl Lynghóls.
Hér má sjá mynd af Vallholti: http://mennta.hi.is/vefir/saga/torf/2003/einhamar_horgardal_og_vallholt_akureyri/
Vallholt brennur, af vef Landpóstsins: http://landpostur.is/news/husbruni_i_barmahlid_-_einn_a_sjukrahus/
Árbakki stendur neðar í Þorpinu, við Lönguhlíð 11 niður við Glerá, nv. við kjaft Glerárgils. Upprunalega var byggt þarna árið 1918. Húsið sem nú stendur er hinsvegar einlyft steinsteypt einbýlishús í fúnkísstíl með skúrþaki. En sá hluti hússins sem sést á myndinni er hinsvegar viðbygging frá því um 1970. Hún er einnig einlyft með skúrþaki sem hallar á móti þaki eldra hússins.
Árgerði stendur neðar við Lönguhlíðina, um 250 m austan við Árbakka. Upprunalegt hús stóð nokkuð nær ánni og var reist 1903. Húsið sem nú stendur er hins vegar byggt 1931, einlyft steinsteypuhús á kjallara með háu portbyggðu risi. Þá er viðbygging við austurgafl hússins, einlyft með skúrþaki. Ein íbúð mun vera í húsinu. Húsið fékk mikla yfirhalningu skömmu eftir 2000, allt klætt og skipt um þakklæðningar og er nú í hinu besta ásigkomulagi og til mikillar prýði. Myndirnar í þessari færslu eru allar teknar 18.júní 2012.
Heimildir: Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Breytt 27.6.2012 kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2012 | 00:24
Sumarsólstöður á Oddeyri
Ég hef komið mér upp þeim vana að fara út í göngutúr um miðnætti á Sumarsólstöðum- og helst með myndavélina meðferðis. Þessar myndir tók ég á tólfta tímanum sl. miðvikudag 20.júní- sem voru einmitt Sumarsólstöður. Ætla að láta myndirnar að mestu tala sínu máli.
Tvær valinkunnar götur á Eyrinni, á vinstri myndinni er horft suður Norðurgötuna en á þeirri hægri er horft frá Norðurgötu og inn (austur) Eiðsvallagötuna.
T.v. Horft frá gatnamótum Eiðsvallagötu og Norðurgötu, á sama stað og myndin efst til hægri er tekin nema í stað þess að horfa austur Eiðsvallagötu er horft norður Norðurgötu. Þarna sést leikvallarhús á Eiðsvelli og Norðurgata 31 (byggt 1931) http://www.arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/1172403/. Og t.h. er það Súlutindurinn, eða Ytri Súla en sú Syðri gægist fram vinstra megin við hana ásamt Bónda fjær. Það er enn dálítill snjór í Súlunni en á hlýjum sumrum tekur snjó nánast alveg upp í fjallinu- seint í ágúst eða byrjun september. Húsin fremst á myndinni eru Lundargata 2 (byggt 1879, ljósgrænt) http://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/906027/ og Strandgata 21 (byggt 1886, hvítt með gráum þakkanti). http://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/1027952/?t=1268062408
Ég segi stundum að Strandgatan sé einn besti útsýnisstaður Akureyrar- þrátt fyrir að liggja við sjávarmál. En þar er frábært útsýni fram Eyjafjörð- sem skartar sínu fegursta á sumarkvöldum. Þarna má sjá frá vinstri Kaupangssveitarfjall, Staðarbyggðarfjall og Tungnafjall rauðbleik í kvöldsólinni. Og í flæðarmálinu voru þessar ágætu endur að búa sig til miðnætursunds.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2012 | 13:24
Hús dagsins (nr.151): Melgerði
1.maí sl. brá ég mér í myndahjóltúr um Melgerðisásinn og fylgdi því eftir með pistlum næstu dagana á eftir. Þannig vildi til að eitt býli átti ég eftir þegar ég birti hátíðarpistillinn og í kjölfarið söguágripið og það er býlið sem Ásinn er nefndur eftir, nefnilega Melgerði. En Melgerði er með elstu býlum Glerárþorps, þar hófst upprunalega búskapur árið 1880. En húsið sem nú stendur þar var reist árið 1930. Núverandi hús er steinsteypt parhús, tvílyft á kjallara með skúrþaki. Sunnan úr húsinu gengur einlyft steinhlaðin viðbygging og ofan á henni eru miklar svalir. Móðurafi minn, Hörður Adolfsson og Áskell Sigurðsson, langafi minn reistu þá byggingu um 1957-8. Þá hefur verið reistur mikill glerskáli bakatil á norðurenda. Eins og venjan er með gömul býli í Glerárþorpi er lóðin kringum Melgerði geysi víðlend og vel gróin. Melgerði er frá upphafi parhús og þarna hafa margir búið gegnum tíðina. Mamma mín, Anna Lilja Harðardóttir ólst hér upp til 11ára aldurs og margar góðar sögur hef ég fengið að heyra úr Melgerði. Þá var Þorpið töluvert öðruvísi en nú, fjölmörg smábýli með búskap og ekkert þéttbýli svo orð væri á gerandi. En mamma bjó þarna þegar fyrsta íbúðablokkin var reist í Glerárþorpi 1965, h.u.b. í túnfætinum á Melgerði. Einnig þegar Veganesti, ein fyrsta vegasjoppa Akureyrar var reist á svipuðum tíma. Þá gat orðið ansi hvasst þarna og í verstu veðrunum var oft setið innan við gluggana og horft á ljósastaurinn utan við sveiflast í byljunum. Þá hafði stundum þurft að flýja efri hæðina vegnan hvins í svalahandriðinu. Staurinn stendur enn og sést hann á myndinni, en oft var oft óttast um að hann færi um koll! Ég gæti trúað að nú sé öllu skjólsælla á þessum stað, en þar hjálpar til aukin gróður og meiri byggð. Auk þess er eflaust ágætt skjól af Boganum, fjölnotahúsi Þórs sem tekið var í notkun 2004. Þessi mynd er tekin 1.maí 2012.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2012 | 11:51
Á göngu um Glerárgil.
Síðastliðin laugardag, 9.júní, brá ég mér í gönguferð á vegum Ferðafélags Akureyrar um Glerárgilið- eins og það leggur sig- þ.e. Efra og Neðra Gilið. Lagt var af stað frá gömlu Öskuhaugunum og gengið niður með ánni. Gilið er í raun náttúruperla rétt við byggðina og raunar er neðri hluti gilsins í byggðinni. Ég hef gengið um Neðra Gilið mörg hundruð sinnum liggur mér við að segja (meira að segja skrifað um það pistil) en ég hafði satt best að segja aldrei kíkt niður í Efra Gilið. Það er mikið hrikalegra allt að 100m þar sem það er dýpst- en hér eru nokkrar myndir úr göngunni sem ég hyggst að mestu láta tala sínu máli.
Svipmyndir úr Glerárgili 9.6. 2012
Þessi brú er sú efsta á Gleránni, stendur í um 250m hæð rétt framan við gömlu Öskuhaugana. Á myndinni t.h. má sjá Súlutind í baksýn. Þarna má segja að Gilið byrji en það heldur áfram um 5km leið allt niður að Gleráreyrum. Brýrnar yfir Glerá eru þó nokkuð margar en ég hef gert þeim skil hér http://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/962275/
(Þess má reyndar geta að það sem kemur fram í pistlinum um brú fremst á Glerárdal er ekki rétt, hún hefur gefið sig vegna snjóalaga)
Þjóðarjurtin, Holtasóley (Dryas octopelata). Þessi er ofarlega í Gilinu en plantan vex víða á Glerárdalssvæðinu.
Til vinstri: Horft yfir Glerárgil frá Laugarhóli. Hóllinn þurfti reyndar að víkja að mestu vegna heitavatnsboranaframkvæmda um 1970-80. Enn jarðhiti hafði verið virkjaður löngu áður í hólnum þar sem leitt var heitt vatn niður í Sundlaug Akureyrar um 1930 eftir pípu sem enn stendur að miklu leyti þó ekki sé hún í notkun. Hún sést einmitt á myndinni hægra megin.
Hér má sjá þar sem Glerárgilið er einna dýpst- þetta er neðan við Laugarhól en af hólnum og niður að ánni eru 100m, ég þurfti að snúa myndavélinni lóðrétt (tek ævinlega allar mínar myndir lárétt) til að ná öllum klettaveggnum en hamrastálið er um 80m hátt- svipað og Hallgrímskirkja og Turninn í Smáralind.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2012 | 20:32
Akureyri í 150 ár, hratt yfir sögu.
Akureyri í 150ár, sagan í örstuttu máli. Hér ætla ég að rekja, gegn um húsasöguna byggingarsögu, Akureyrar sl. 150 ár. Þ.e.a.s. rekja það hvernig og í hvaða áttir byggðin dreifðist annars vegar og hvernig hús voru hinsvegar. Einnig nefna ýmislegt annað s.s. vega- og gatnabætur og tilkomu rafmagns og hitaveitu og ýmislegs annars. Semsagt einskonar mannvirkjasaga Akureyrar, annáll eða stiklur á því stærsta og sjálfsagt margt sem ég "gleymi". En ég lagði mikið uppúr því að annállinn yrði sem stystur og hnitmiðaðastur.
Fyrir það fyrsta ber að nefna að í ár er ekki verið að fagna 150 ára afmæli byggðar á Akureyri. Heldur verða, þann 29.ágúst næstkomandi, liðinn 150 ár frá því að Akureyrarkaupstaður var stofnaður- bærinn fékk kaupstaðarréttindi. Árið 1862 var nefnilega risinn nokkur byggð við Aðalstræti og syðsta hluta Hafnarstrætis- enda hafði Akureyri verið verslunarstaður frá því á tíma einokunarverslunar. Einokunarkaupmenn höfðu að vísu aðeins sumardvöl á Akureyri en fyrsta íbúðarhúsið í bænum var reist 1778-var þannig orðið 84 ára þegar Akureyrarbær var stofnaður. (Þetta hús stóð við Hafnarstræti 3 og brann árið 1901 ásamt fleirum í stórbruna- sk. "bæjarbruna".) En semsagt 29.ágúst 1862 þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindi bjuggu rétt innan við 300 manns á Akureyri og um 20 hús standa enn sem stóðu þá- öll í Innbænum. Þá voru tvö hús á Oddeyrinni, bæði byggð litlu fyrir 1860. Ekkert hús sem enn stendur á Akureyri er svo vitað sé, byggt á stofnárinu 1862. Sá sem rýnir í byggingarsögu Akureyrar fyrir og rétt eftir 1900 gegn um byggingarár húsanna sér það að mikið að sum ár er byggt meira en önnur. Áratuginn 1880-90, og það eru sérstaklega mörg hús sem enn standa sem byggð eru 1886 og 1897 og 98. Þá er mikið byggt á árunum 1900-10 og þá kannski sérstaklega árin 1902-07. (Kannski voru þessi ártöl einskonar "2007" þess tíma ) Þess þó auðvitað geta að sennilega var eitthvað byggt á hverju ári þó húsin standi ekki öll ennþá. Þá er einnig fyrirvari á byggingarárum elstu húsanna, því sum þeirra voru kannski reist áður en leyfi fékkst fyrir þeim, húsin einfaldlega bara byggð og ekkert skráð eða skjalfest um það- allavega ekki strax. En hér eru stiklur úr byggingarsögu bæjarins síðustu 150 árin.
Byggingarannáll Akureyrar 1862-2012
fyrir 1862 Timburhúsabyggð í Fjörunni og Innbænum. Einungis tvö hús standa á Eyrinni- sem bæði eru horfin í dag. Eitthvað er farið að byggjast í Búðargili. Eitt stærsta hús bæjarins við stofnun kaupstaðarins er Apótekið við Aðalstræti 4 sem byggt var þremur árum áður. Það stendur enn.
1862-70 Akureyri fær kaupstaðarréttindi 29.ágúst 1862. Sáralítið byggt af nýjum húsum. Mér vitanlega eru engin hús á Akureyri uppistandandi byggð á þessu tímabili !
1870-80. Byggð tekur að myndast á Oddeyrinni, töluvert byggt í Innbænum. Húsin yfirleitt lágreist timburhús, undantekning er þó mikið stórhýsi Gránufélagsins. Meðal húsa sem enn standa frá þessum áratug eru Aðalstræti 34 og 36 í Innbæ og Strandgata 27 og Lundargata 2 á Eyrinni
1880-90. Mikið byggt bæði á Eyrinni og í Innbæ. Allt timburhús með einni undantekningu. Langt er í steinsteypuöld en 1880 rís Norðurgata 17, fyrsta og eina húsið á Akureyri hlaðið úr blágrýti. Þessi húsagerð náði sér aldrei á strik hérlendis, Alþingishúsið, Hegningarhúsið, kirkjan á Þingeyrum og sæluhús við Jökulsá eru dæmi um nokkur hús af þessari gerð. Mér dettur í hug að ástæðan fyrir því að þessi byggingargerð náði svona litlum vinsældum sé sú að hún hafi hreinlega þótt erfið og tímafrek miðað við byggingu timburhúsa. Blágrýti var eflaust erfitt í vinnslu og leiðinlegt í flutningi á tímum reiðingshesta. Á þessum áratug fara einnig að byggjast smábýli í Glerárþorpi en það eru byggingar af vanefnum og torfkofar enda standa engin húsana frá þessu árabili í Þorpinu, elsta húsið frá 1902. Glerá brúuð 1883 og stendur sú brú í fjóra áratugi.
1890-00 Mikið byggt á seinni hluta áratugarins. Þarna eru byggðirnar í Fjörunni og á hinni eiginlegu Akureyri og á Oddeyrinni aðskildar með snarbrattri og illfærri brekku í sjó fram. Á þessum tug er fyrst farið að byggja að ráði við þann hluta Hafnarstrætis sem nú er Göngugatan. Árið 1895 verða viss vatnaskil í byggðardreifingu þegar Páll Briem amtmaður reisir hús í hvammi í miðri brekkunni, miðja vegu milli Eyrarinnar og Fjörunnar. 1900 rís svo Barnaskóli rétt norðan við. Einnig tekur byggðin í Glerárþorpi við sér en það eru smágerðari byggingar.
1900-10 Mikið byggt af stórum og veglegum timburhúsum og eru norsk "katalóg" hús vinsæl meðal efnaðri manna. En það voru hús sem komu tilhöggvin frá Noregi og sett saman hér- en einnig voru dæmi um að svona hús væru byggð frá grunni hér. Þá er mikið byggt í Glerárþorpi- sum húsanna þar frá þessum áratug standa enn s.s. Hvoll (1902) og Sæborg (1906). Þá er byggt skólahús fyrir Þorbsbúa, Ós (1908) við Sandgerðisbót og það hús stendur enn. Árið 1907 rís eitt stærsta hús á Akureyri og eitt fullkomnasta iðnaðarhús á landinu, Gefjunarhúsið á Gleráreyrum en það hús náði tæplega 100 ára aldri- var rifið í janúar 2007. Það hafði þá verið marg viðbyggt og breytt og bætt. Á þessum áratug verða tveir stórbrunar, 1901 í Innbænum og 1906 á Oddeyrinni. Í Innbænum brenna m.a. Hótel Akureyri við Aðalstræti 12 og fyrsta íbúðarhús á Akureyri sem byggt var 1778. Í Oddeyrarbrunanum brenna þrjú nýreist stórhýsi efst í Strandgötu hvert um sig að stærð og umfangi álíka og t.d. Gamli Skóli og Samkomuhúsið.
1910-20 Á þessum áratug virðist áberandi lítið vera byggt, það eru í raun sárafá hús frá þessu árabili sem enn standa í bænum m.v. áratuginn á undan. Á þessum tíma eru timburhús nánast liðin tíð og stafar það e.t.v. af almennri eldhræðslu eftir "bæjarbrunana" 1901 og 1906. 1912 verður svo þriðji stórbruninn þegar mörg vöruhús og geymsluhús brenna í Innbænum. Þarna er einnig farið að klæða timburhús með eldtraustum klæðningum, oftast bárujárni eða steinblikki og á sum hús eru settar steinskífur. Steinsteypuhús fara að rísa eitt af öðru og 1913 og 1914 eru byggð stór steinsteypuhús við Hafnarstræti 19 og Strandgötu 45, árin á eftir eru steypt hús við Oddeyrargötu og Brekkugötu.
1920-30 Þarna má fullyrða að "steinöld" gangi í garð í húsbyggingasögu Akureyrar. Frá 1920-25 rísa þau eitt af öðru í öllum hverfum bæjarins- líka í Glerárþorpi. Á seinni hluta áratugarins er síðan geysilega mikið byggt af steinhúsum bæði á Oddeyrinni þar sem byggðin er farin að verða þétt norður að Eiðsvallagötu og í Innbænum en einnig er farið að byggja upp á Brekkuna þar sem mikið er byggt við Oddeyrargötu og Brekkugötu sem og við Eyrarlandsveg, Gilsbakkaveg og Oddagötu sitt hvoru megin Grófargils. Árið 1919 fann byggingarfræðingur á Akureyri, Sveinbjörn Jónsson upp svokallaðan r-stein og eru mörg hús reist úr honum á þessum áratug það fyrsta, Oddeyrargata 15, árið 1920. Eyjafjarðará er brúuð við Hólmana 1923 og ári áður reist steinbrú yfir Glerá á nv. sama stað og eldri brú frá 1883. Og talandi um Glerá, þá er hún virkjuð 1921-22 og haustið 1922 er rafmagni hleypt á bæinn í fyrsta skipti- Rafmagnsveita Akureyrar er orðin að veruleika!
1930-40 Enn er mikið byggt og byggðin breiðir úr sér- uppá Brekkuna og norður eftir Oddeyrinni, við Eiðsvallagötu, Ægisgötu, Hríseyjargötu, Ránargötu, Fjólugötu og Eyrarveg. Þá eru reist mikil steinsteypt stórhýsi en þarna er kominn nokkuð löng reynsla í steinsteypubyggingum og sérstakir byggingarstílar fara að sjást í steinsteypunni- en fyrstu árin voru steinhúsin oft með svipmót algengustu gerðar timburhúsa. Skraut og prjál er óvinsælt í steinhúsum þessa tíma- og algeng húsagerð fúnkís beinlínis gengur út á notagildi framar útliti. Svona hús rísa í miklu mæli við Ægisgötu og Helgamagrastræti árin 1935-40. Munkaþverárstræti, Hlíðargata, Holtagata rísa á Brekkunni auk þess sem byrjað er að byggja við Þingvallastræti en áðurnefnt Helgamagrastræti er efsta gatan í bænum.
1940-50 Oddeyri nánast fullbyggð. Þarna byrja að rísa hús við Víðivelli, Sólvelli og Reynivelli sunnarlega á Eyrinni en þetta eru fyrstu göturnar sem heita eitthvað annað en -gata eða -stræti eða -vegur. Mýrin (Rauðamýri, Grænamýri) uppi á Brekku taka einnig að byggjast. Akureyrarkirkja er vígð 1940, leysti af hólmi kirkjuna gömlu í Aðalstræti. Ferningslaga hús með valmaþaki og hornglugga, funkishús eru enn vinsæl. Breski herinn gengur á land á Akureyri 17.maí 1940.
1950-60 Enn er byggt á Oddeyrinni, við Ránargötu, Eyrarveg, Grenivelli, Hvannavelli og fleiri götur. Mýrarhverfið á Brekkunni og Byggðirnar taka að byggjast en þéttbýlið nær upp að Mýrarvegi. 1.janúar 1955 er Glerárþorp lagt undir Akureyrarkaupstað, en það hafði áður tilheyrt Glæsibæjarhreppi. Þar er mikil en strjál byggð og grunni margra minni kota sem reist voru af vanefnum eru í mörgum tilvikum risin vegleg steinhús.
1960-70 Áratugur Glerárþorps, mikið er byggt í Holtahverfi og við Skarðshlíð rísa fyrstu stóru fjölbýlishúsin í bænum. Á Brekkunni er byggt í Byggðunum og byggðin fer að teygja sig ofar; Lundarhverfi fer að byggjast um 1970. Einnig töluvert byggt af iðnaðarhúsnæði á Eyrinni. Haldið uppá 100 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar í ágúst 1962.
1970-80 Bærinn stækkar umtalsvert en á þessum tug rísa mörg fjölbýlishús í Lundarhverfinu og Hlíðahverfi í Glerárþorpi. Einnig mörg raðhús og einbýlishús sem mörg eru ansi vegleg, oft 5-10 herbergja og tvöfaldir bílskúrar algengir. Hitaveita Akureyrar er tekin í notkun 1978 og leysir hún rafmagnskyndingu og í sumum tilvikum olíufýringu af hólmi. Einnig gerðar miklar gatnabætur, Glerárgata breikkuð og Drottningarbrautin leysir Aðalstrætið af sem umferðaræð gegn um bæinn austan megin árið 1973. Þá er farið að malbika götur en fyrir 1970 voru afar fáar íbúðagötur malbikaðar. Á þessum tíma fer líka að vakna áhugi fólks fyrir að varðveita eldri hús, endurbætur hefjast m.a. á Laxdalshúsi.
1980-90 Þarna er Oddeyrin, Suður- og Norðurbrekkan að mestu leyti fullbyggð, en Síðuhverfi tekur að rísa og er að mestu byggt um 1990. Það ár er Verkmenntaskólinn við Mímisveg, reistur 1984 útvörður þéttbýlisins í suðri á Brekkunni, og syðst í Síðuhverfi skilur Borgarbrautin á milli hverfisins og túna. Iðnaðarhverfi rís norðaustan við Síðuhverfi, næst Hörgárbraut en á aðra hönd eru klappir og engi. Gatna- og vegabætur, fyrri hluta áratugarins eru malbikaðar malargötur íbúðahverfum og Hlíðarbraut tengir saman Brekku og Glerárþorp. 1986 verður mikil bylting í aðkomunni að bænum austan megin þegar Leiruvegur er tekin í notkun. Hann leysir af hólmi þrjár einbreiðar brýr frá 1923 yfir Hólmana og er auk þess mikið nær miðbænum, liggur rúmum 2km norðar en eldri vegurinn. Háskólinn á Akureyri er stofnaður 5.sept. 1987 og Verkemntaskólinn 1984 eins og fram kom hér á undan.
1990-2000 Giljahverfi rís, og þar rísa tvær hæstu íbúðarblokkir bæjarins árið 1991, Mjólkurfernublokkirnar sem eru níu hæða að kjallara og risi meðtöldu. Ári síðar eru kirkjur bæjarins orðnar tvær þegar Glerárkirkja við Bugðusíðu er vígð. Um aldamótin 2000 eru nokkrar götur komnar sunnan Verkmenntaskólans í Teigahverfi. Nesjahverfi, iðnaðarhverfi við norðurmörk bæjarins í lok fer að byggjast upp í lok áratugarins. Þá má einnig geta þess að þarna er ekki bara byggt nýtt heldur er mikið gert upp af eldri húsum. Töluvert um gatnabætur, dæmi er Borgarbraut milli Glerárþorps og Oddeyrar með tveimur brúm á Glerá, tekin í notkun 1999.
2000 til dagsins í dag Áratugur Naustahverfisins- ef svo mætti komast að orði. Þar hefur nú risið fjölmenn byggð, þar eru mörg fjölbýlishús, raðhús og einbýli, byggðin nær suður að Naustabæjum en 1990 voru bæirnir um 2km frá þéttbýlismörkunum á Brekkunni. Þá hefur eitthvað bæst við byggðina í Giljahverfi þ.á.m. tvö 9 hæða háhýsi við Drekagil og Tröllagil, en þar stóðu áður tvær svipaðar blokkir frá 1990-95. Fyrsta og eina stóra verslunarmiðstöðin, Glerártorg á Gleráreyrum er tekin í notkun 2.nóvember 2000. Hún er svo stækkuð mikið 2008 en þá verða líka sögufræg verksmiðjuhús Sambandsverkesmiðjanna að víkja. Á Sólborgarsvæðinu, miðsvæðis í bæjarlandinu er mikil uppbygging á vegum Háskólans á Akureyri, m.a. Borgir rannsóknarhús reist 2003-4. Gatna og vegabætur, Dalsbraut, sem tengir Brekkuna við Glerárhverfi gegn um Borgarbraut er lögð 2004, Miðhúsabraut 2008. Nærri 18.000 manns með lögheimili á Akureyri. Menningarhúsið Hof er tekið í notkun 28.ágúst 2010. Þéttbýliskjarni bæjarins er um 7km langur frá Naustum að Lónsbakka og líklega 3km breiður frá Oddeyrartanga að efstu byggðum Giljahverfis. Hæstu hverfi eru í um 100m hæð yfir sjó.
Bloggar | Breytt 5.6.2012 kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.5.2012 | 18:43
Hvað er að frétta?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2012 | 20:03
HÚS DAGSINS NR. 150: Amtsbókasafnið á Akureyri, Brekkugata 17.
Inngangur: Þá lítur dagsins ljós hundraðasti og fimmtugasti húsapistillinn hér á þessari síðu. Pistlana hef ég ævinlega kallað "Hús dagsins" en þó hafa þetta verið langt frá því að vera daglegir pistlar. Stöku sinnum hafa komið pistlar nokkra daga í röð en stundum hafa liðið tveir- þrír dagar, stundum meira en vika. Held að lengsta hlé hjá mér hafi staðið tvær vikur. En að meðaltali hafa pistlarnir verið vikulegir, sbr. að nú hef ég verið að þessu í að verða þrjú ár og hér er pistill nr. 150. Upphaflega ætlaði ég nú aldrei með þetta svona hátt og halda þessu gangandi svona lengi. En hér er sumsé 150 .pistillinn og svo skemmtilega vill til að hann birtist nú á 150. afmælisári Akureyrarbæjar, en afmælisfögnuður mun standa - og hefur staðið allt árið með ýmsum uppákomum. Ég sá það að pistillinn með þessu númeri yrði að vera einhverskonar "viðhafnar" eða hátíðarpistill og kannski litið um öxl. Hér ætla ég aðeins að fara yfir hvernig þetta "Hús dagsins" hjá mér byrjaði og einnig ætla ég að fara yfir sögu Akureyrar gegn um byggingarsöguna- þ.e. hvernig byggðin hefur dreifst þessi 150 ár, auk þess að birta heildarlistann yfir öll þessi 150 "Hús dagsins". En söguágripið og yfirlitið verða í sér pistlum, en áður en ég fjalla um húsið á myndinni ætla ég aðeins að renna stuttlega yfir hvernig þessi hugmynd varð til.
Hver er sagan á bakvið "Hús dagsins"? Upprunalega varð þessi síða til hjá mér í kringum myndasafn sem ég hafði komið mér upp árin 2005-08 af húsum í eldri hverfum Akureyrar. Ég hafði þá þegar haft það sem sérstakt áhugamál að kynna mér sögu bæði bæjarins og sérstaklega húsanna sem slíkra, flett og lesið öllum mögulegum bókum þess efnis og auk þess stundað Sögugöngur Minjasafnsins öll sumur frá 1997- en þá flutti ég í bæinn. (Má geta að fram að því var ég búsettur í Eyjafjarðarsveit, við Kristnes og svo við Hrafnagil- þannig að Akureyri var aldrei langt undan ) Mér þótti um að gera að deila myndunum mínum og fróðleiknum sem ég hafði viðað að mér og 2008 skellti ég einhverjum tugum mynda inná Flickr . En mig langaði að geta látið meiri texta fylgja- svo ég athugaði möguleikan á helstu bloggveitunum og sá að moggabloggið væri heppilegur vettvangur. 22.júní 2009 setti ég þessa síðu af stað og þremur dögum seinna birti ég fyrsta pistilinn. Hann var um Norðurgötu 17; Steinhúsið eða Gömlu Prentsmiðjuna. Textinn var í lágmarki hjá mér og það hefur alla tíð verið stefnan; að láta frekar myndirnar tala sínu máli og birta aðeins stutt ágrip af sögu húsana, byggingarár o.þ.h. fylgja. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að mér sjálfum þykja langir textar ekki þægilegir aflestrar af tölvuskjá- vil þ.a.l. ekki bjóða ykkur uppá eitthvað sem mér finnst sjálfum óþægilegt. Einnig er því þannig farið með marga að þegar þeir eru á netinu þá taka þeir e.k. "rúnt" kíkja kannski á nokkrar síður í einu og dvelja stutt við- og þá eru mjög langir textar ekki heppilegir- jafnvel fráhrindandi. (En stundum er það nú bara þannig að um sum hús hef ég bara meira fram að færa en önnur og á það til að verða langorður...) Pistlarnir eru alls ekki hugsaðir sem fræðirit- heldur einungis skemmtilegur fróðleikur sem ég man úr mínu grúski- oftast skrifa ég bara það sem ég man utanbókar um viðkomandi hús. Enda nota ég mikið orð á borð við líklega, sennilega og gæti ég trúað og forðast í lengstu lög að fullyrða eða staðhæfa, nema hafa þá heimildir til taks sem ég vísa þá til. En fyrst þegar ég fór af stað með þetta þá ætlaði ég aðeins að deila þeim 80 myndum sem ég átti frá 2005-08 og láta svo gott heita- átti raunar ekki von á að nenna þessu nema nokkra mánuði. En svo fóru menn að hnippa í mig og benda mér á að ég yrði nú að taka þetta hús og þetta hús og auk þess fannst mér að fyrst ég fjallaði um eitt hús þá yrði kannski annað ákveðið hús að fylgja með- samhengisins vegna. Og svo uppgötvaði ég alltaf eitthvað nýtt- t.d. fékk ég bókina um Sveinbjörn Jónsson í afmælisgjöf í júní 2010 og sá þar að ég gæti myndað og tekið fyrir talsvert af húsum eftir hann og hús byggð úr r-steini. Og þegar ég hafði tekið fyrir mörg hús úr Innbænum og Oddeyrinni sá ég að ekki gat ég látið Þorpið afskipt og myndaði ég þar fyrst í febrúar 2011. Og enn eru fjölmörg hús sem ég get hugsað mér að mynda og birta hér því þessi pistill er enginn endapunktur.
Oft leiðir eitt af öðru hjá mér í pistlunum, stundum tek ég fyrir hús sem hýsti eða hýsir ákveðna starfsemi og þá þykir mér oft nauðsynlegt að taka næst annað hús sem hýsti sömu starfsemi. Það verður tilfellið í þessum pistli- en þessi má segja að komi í framhaldi af pistlinum mínum um Aðalstræti 40, sem áður hýsti Amtsbókasafnið. En á myndinni má sjá núverandi hús Amtsbókasafnsins en það stendur við Brekkugötu 17. En ég ákvað að taka fyrir Amtsbókasafnið í þessum "viðhafnarpistli" mínum en hér er bæði um að ræða áberandi og merka byggingu á Miðbæjarsvæðinu- kennileiti í bænum. Einnig er Amtsbókasafnið rótgróin stofnun sem hefur fylgt Akureyrarkaupstað alla hans tíð- en Amstbókasafnið er miklu eldra en Akureyrarkaupstaður- stofnað 1827. Þá hefur þetta val á húsi nr. 150 persónulega tengingu því hér hefur undirritaður verið hér fastagestur frá júní 1997 og hér sat ég löngum stundum og las mér til um sögu bæjarins og húsanna- og geri enn. Þarna fékk ég nefnilega lánaða bókina sem upphaflega vakti áhugan minn á gömlum húsum, þ.e. Oddeyri húsakönnun eftir Guðnýju Gerði Gunnarsdóttir Hér er saga Amtsbókasafnsins rakin ítarlegar. En húsið var reist árið 1968 eftir teikningum Bárðar Ísleifssonar og Gunnlaugs Halldórssonar en bygging safnsins á þessum stað hafði raunar verið ráðgerð í meira en þrjá áratugi! Fyrir byggingu hússins þurfti timburhús frá því um aldamót 1900, Brekkugata 19 að víkja. En húsið er tvílyft steinhús með flötu þaki, en stór hluti framhliðar eru gluggar en einskonar malarsteypa á neðri hæð, þ.e. litlir steinar þekja ysta byrði steypunnar- ekki ósvipað grófum skeljasandsmúr. Nýrri bygging er hinsvegar glerjuð frá "grunni og uppúr". Almenningsrými upprunalega hússins er á tveimur hæðum og var á efri hæðinni lestrarsalur en útlánsdeild á þeirri neðri. Bakatil , í starfsmannarýmum voru hæðirnar þrjár en einnig var og er geymslukjallari undir húsinu. Fyrir stækkun voru sem áður segir, útlánabækur á neðri hæð, afgreiðsla og barnabækur og myndbönd í suðurenda. Á báðum hæðum voru litlir tímaritakrókar á neðri hæð voru það dagblöðin en önnur tímarit á þeirri efri. Allur suðurhluti efri hæðar var skipaður lesborðum og nokkrum röðum af bókahillum og þegar komið var upp stigan var gestabók á vinstri hönd en áðurnefndur tímaritakrókur til vinstri. Um 2000 var starfsemin farin að sprengja utan af sér húsnæðið og framkvæmdir við stækkun hófust um 2001-2. Byggt var við húsið til norðurs og var viðbygging í svipuðum stíl og eldra húsið. Þá var stiga milli hæða snúið við en nú liggur hann upp til suðurs auk þess sem gerðar voru miklar endurbætur á eldra húsinu. Viðbyggingin hýsir nú Héraðsskjalasafnið (á 2.hæð) og tímaritahorn og tölvuver , þar sem hægt er að kaupa netaðgang og veitingasal, Amts Café. Á neðri hæð er afgreiðsla u.þ.b. þar sem eldra hús og viðbygging mætast en anddyri er í nýbyggingu. Þá er lesrými nú afstúkað í suðurenda með glervegg og fræðibækur og handbækur, ásamt veglegu DVD-myndasafni á neðri hæð. Í norðurenda efri hæðar er barnadeild en þar eru einnig skáldsögur og fræðibækur. Núverandi húsakostur safnsins var tekinn í notkun 6.mars 2004 og varð aðstaðan stórbætt, bæði fyrir safngesti og starfsfólk- og að sjálfsögðu er búnaður og safngögn í stöðugum endurbótum. Þó eru eflaust margir (og undirritaður þ.m.t.) sem þótti óneitanlega sjarmi yfir safninu eins og það var t.d. að þurfa að fara úr skónum í gömlu forstofunni og teppalögðum lestrarsalnum og gestabókinni svo fátt eitt sé nefnt. Þessi mynd er tekin 18.mars 2012.
Bloggar | Breytt 23.5.2012 kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.5.2012 | 17:35
Myndaalbúm
Húsamyndasafnið á síðunni minni telur á þriðja hundrað myndir. Þeim hef ég sl. tæpu þrjú ár safnað samam í myndaalbúminu "Hús og Byggingar". Ég hef nú aðeins skipulagt þetta safn og flokkað þannig að nú skiptist það eftir bæjarhverfum Akureyrar. Undir Hús og byggingar eru hins vegar m.a. ennþá hús utan Akureyrar og einnig læt ég yfirleitt nægja að það sé ein mynd af hverju húsi undir hverfaalbúmunum. Aðrar myndir af sama húsi eru því sumar hverjar í Hús og byggingar. Tenglar á þessi albúm eru sem fyrr og eins og gengur og gerist á öllum mbl.blog síðum á stikunni hér til vinstri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.7.): 23
- Sl. sólarhring: 48
- Sl. viku: 297
- Frá upphafi: 450455
Annað
- Innlit í dag: 14
- Innlit sl. viku: 188
- Gestir í dag: 14
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar