Ársafmæli

"Þá er ég af öllum mönnum farinn að blogga. Ég hef nú hingað til verið mjög virkur að skoða blogg og eyði alltaf drjúgum tíma dags í slíkt og hef þá mest gaman af dægurþrasi og alls konar yfirdrulli. Því verður ekki til að dreifa hér. Ástæða: Það er einfaldlega nóg af svoleiðis bloggum. Þetta verður meira til gagns og gamans. Luma á ýmsum fróðleik og ljósmyndum sem ætlunin er að deila hérna. Njótið vel."

Þetta ritaði undirritaður þann 22.júní í fyrra undir fyrirsögninni Formáli á þessa síðu. Þannig að í dag á þessi síða eins árs afmæli.  Eins og kemur fram þarna þá ætlaði ég þessa síðu fyrst og fremst undir myndir sem ég hef tekið. Ég hafði prófað myndasíður á Flickr o.þ.h. en það sem mér fannst alltaf vanta á slíkum síðum var að geta sett einhvern almennilegan texta og fróðleik með myndunum.  Finnst það einhvern vegin nauðsynlegt, jafnvel þótt mynd segi vissulega meira en 1000 orð !   Frá fyrsta degi ætlaði ég síðuna undir húsamyndir og fróðleik um þau enda hafði ég þá þegar birt slíkt í nokkrar vikur á Facebook (byrjaði þar einmitt 8.maí eða 5 vikum fyrr), en þótti um að gera að deila þeim með fleirum en (á þeim tíma) 20 Facebook vinum. 


Sumarsólstöður

Dagurinn í dag, 21.júní, kallast Sumarsólstöður og er dagur þá lengstur og sólin hæst á norðurhveli. Er þá toppnum náð á sólarganginum en hann hefur lengst um fáeinar  mínútur á dag síðustu 183 daga. Víða eru farnar sólstöðugöngur og nyrst á landinu nýtur miðnætursólar en í rauninni er Ísland alveg á mörkunum að ná miðnætursól, sem sést tæplega nema norðan Heimskautsbaugs. Stjarnfræðilega er þetta raunar fyrsti dagur sumars, en miðað við sólarganginn þá er vetur 21.des til 20.mars, jafndægurs á vori og vorið stendur þá til 20.júní. Sumar er þá 21.júní til 21. september; haustjafndægurs en haust 22.sept- 20.des. Það er kannski ljótt að segja það en hér eftir fer daginn að stytta. Mörgum finnst að það þýði að sumri sé farið að halla og að senn hausti en benda má að albjart er næsta mánuðinn eða svo og heitasti mánuðurinn, júlí rétt handan við hornið. Það er því fjarri því að sumri sé að halla þó dag lengi ekki lengur. Enda má líta til andstæðu sólhvarfanna, 21.des þegar dag byrjar að lengja. Þá er vetrinum svo sannarlega ekki að ljúka heldur eru verstu veðrin og mestu kuldarnir einmitt eftir það. Eins er ævinlega mesta sólskinið og hitinn mánuðina tvo eftir 21.júní. Þannig að sumarið er rétt að byrja, þó sólin haldi niður á við.

Ganga og matur

 Eins og einhverjir sem heimsækja þessa síðu reglulega hafa tekið eftir þá þvælist ég stöku sinnum uppum fjöll og firnindi. Þá geng ég uppundir 4-8km daglega um götur Akureyrar. Eitt það almikilvægasta í lengri gönguferðum og fjallabrölti er nestið. Matur er mannsins megin og eldsneyti göngumannsins, líkt og bensín/dísel fyrir bílinn. Um nesti í lengri gönguferðum gildir í raun einföld meginregla:  Maturinn skal vera sem orkuríkastur en sem fyrirferðarminnstur og léttastur.  Samlokur með feitu áleggi og feitu smjöri eru þar góður kostur og heitt kakó í brúsa er náttúrulega klassískt. Sumir kjósa heldur kaffi- en kakóið er orkumeira. Að auki er suðusúkkulaði nauðsynlegur orkugjafi en ekki er sniðugt að keyra eingöngu á því.  Ég hef vanið mig á göngunesti sem samanstendur af flatbrauði með hangikjöti, skinku eða rúllupylsu. Flatbrauð þykir mér mikið hentugra en "venjulegt" brauð, sem vill oft klessast og verða leiðinlegt í meðförum. Kakó er alveg skilyrðislaust með að vetrarlagi, á sumrin lætur maður stundum fernudrykki á borð Svala, Trópí eða Kókómjólk duga.  Harðfiskur er helvíti góður einnig og skyr hef ég einhvern tíma haft meðferðis á Súlumýrar.  Oft er því þannig farið að matarlyst og smekkur er svolítið öðruvísi en vanalega í gönguferðum. Þannig er það allavega hjá mér- get að sjálfsögðu ekki fullyrt að að það sé algilt. En þegar maður hefur erfiðað upp nokkur hundruð metra lóðrétta hækkun og orkuleysi farið að segja til sín þá hámar maður ýmislegt í sig sem maður liti ekki við á láglendi. Þá er bitinn einhvern vegin miklu, miklu bragðbetri og drykkurinn sjaldan eins svalandi.  Og talandi um svalandi þá er ekkert betra en ferskt íslenskt fjallavatn. Þess má hins vegar geta að í gönguferðum er ekki sniðugt að drekka mikið af ÍSKÖLDUM drykkjum. Best er raunar að drykkurinn sé sem næst líkamshita- það fer svo geysileg orka í að hita upp vatnið.

Hver kannast ekki við að hafa verið í erfiðri göngu og verið orðinn svangur/svöng og uppí hugann koma miklar steikur eða saðsamir skyndibitar. Flatbrauðsneiðin  virkar þá kannski ekkert svo ofboðslega freistandi. Í einni göngu uppá Súlur fyrir fáeinum árum gerði ég einskonar tilraun. Hafði með tilbúnar langlokur úr sjoppu, löðrandi í sinnepsósu og gumsi og gosflöskur. Í 800m gerði ég veglegt nestisstopp, orðinn nokkuð svangur og þreyttur.  Hugsaði mér gott til glóðarinnar og settist niður með langloku með skinku, ananas og sinnepsósu og ½ líters Mix í flösku. Ég náði varla einum bita og sopa áður en ég hreinlega kúgaðist. Þótt ekki vantaði hungrið þá náði ég varla að pína ofaní mig hálfri langlokunni og ég hélt aðeins niðri nokkrum sopum af gosinu. Mín niðurstaða af þessu var sú að fjallgöngur og skyndibitar fara ekki vel saman. En auðvitað er svona lagað persónubundið. 


Sumarnótt á Akureyri

Myndirnar hér eru teknar á vappi um Miðbæ Akureyrar og nærliggjandi svæði þegar klukkan er langt gengin í 2 að nóttu þ. 17.júní. Skammdegisþunglyndi er landlægt hér og er það skiljanlegt að það fari illa í marga þegar sólin rétt hengslast upp um ellefuleytið og dvelur í örfáa klukkutíma eins og raunin er um jólaleytið. En bjartar sumarnætur eru sannarlega frábært mótvægi við svart skammdegið og um þessar mundir er dagurinn lengstur og birtan mest; Sumarsólstöður renna upp eftir rúmar tvær klukkustundir þegar þetta ritað. Hér eru nokkrar svipmyndir af aðfararnótt Þjóðhátíðardagsins 2010. 

p6170060.jpg

Horft upp Oddeyrargötu, sem liggur í skáa uppfrá Miðbænum á Brekkubrún. Áður fyrr, þegar Oddeyringar áttu kýr voru þær leiddar á beit uppá Brekku (þetta var áður en hún byggðist að ráði) og voru þær leiddar upp og niður Oddeyrargötu sem kölluð var Kúagata þess vegna. Fremsta húsið er nr. 4 og er það reist 1916. Annars byggðist gatan á bilinu 1920-35.  

 

 

 

 

p6170063.jpgKaldbakur 1167m séður frá Hamarkotsklöppum. Frá Akureyri séð virðist hann loka firðinum í norðurendan. Leirdalsheiði liggur fyrir miðju milli Kaldbaks og Blámannshattar 1214m sem er hægra megin á myndinni.

 

 

 

 

 

 

p6170061.jpgÞessar myndarlegu aspir standa ofan Akureyrarvallar, austan undir Brekkugötu. Vaðlaheiðin gægist á milli.

 

 

 

 

 

 

 

p6170058.jpgVið Sjallann, sem er einn elsti og annálaðasti skemmtistaður landsins og eftir því sem ég best veit sá stærsti utan Höfuðborgarsvæðisins. Hann stendur á horni Geislagötu og Gránufélagsgötu. Hér er hópur fólks  á horninu við innganginn að "djamma og djúsa" og gleðin við völd. Einhverjir úti að reykja og enn aðrir hafa sjálfsagt ekki náð 18 ára aldri og sitja því úti með sárt ennið. 


Hús dagsins: Gamla Gróðrarstöðin v. Eyjafjarðarbraut

p5290048.jpgSkammt norðan Akureyrarflugvallar, við Krókeyri sem er reyndar engin eyri lengur vegna uppfyllinga stendur hin 104 ára Gamla Gróðrarstöð. Stendur hún við Eyjafjarðarbraut sem áður var aðalvegur fram í Eyjafjörð og út úr bænum og var í beinu framhaldi af Aðalstræti. Drottningarbraut leysti brautina svo af hólmi uppúr 1970 og nú er Skautahöll og Naustavegur þarna á milli og Eyjafjarðarbraut aðeins lítill götustubbur sem liggur frá Krókeyri að húsinu Háteigi, ca. 100-200m sunnan við Gróðrarstöðina.  Gróðrarstöðin er háreist, tvílyft timburhús, bárujárnsklætt á háum kjallara með háu risi. Húsið var reist árið 1906 fyrir Ræktunarfélag Norðurlands sem hafði þarna aðstöðu. Þar í kring var plantað trjám og runnum og nú er þarna mikið skógarþykkni, en eins og sjá má á myndinni. Framkvæmdastjóri Ræktunarfélagsins á þessum tíma, og sá fyrsti, hét Sigurður Sigurðsson. Er brjóstmynd af honum á lóðinni við húsið. Ræktunarfélagið hafði þarna lengi vel aðstöðu og einnig hef ég séð gamlar myndir af húsmæðrakennslu í kennslueldhúsi þarna. Þá hefur húsið verið íbúðarhús. Nú eru að ég held mest skrifstofur í húsinu en ekki veit ég til þess að hafi verið mikið nýtt síðustu ár. Það var raunar svolítið farið að láta á sjá, þó ekki hægt að tala um niðurníðslu að nokkru ráði, en eins og sjá má á þessari mynd standa yfir á því endurbætur, búið að skipta um járn á suðurgafli og vinnupallar við norðurgafl. En þetta er hið glæsilegasta hús og verður eflaust mikil prýði af því þegar endurbótum lýkur. Hugsanlega þyrfti að grisja einhver tré svo húsið nyti sín til fulls, en það er vissulega töluverður sjarmi af þeim. Það er nefnilega ekki laust við að trjáþykknið kringum húsið, og það að það stendur svona eitt og sér, skapi svolítið draugalega stemningu- sérstaklega í rökkri. Og það er  nú ekki amalegt!  Myndin er tekin 29.5.2010.

Hús dagsins: Spítalavegur 1

p5290056.jpgSpítalavegur er nokkuð skemmtileg gata sem tengir Innbæinn við Neðri-Brekku. Hann beygir niður frá Eyrarlandsvegi við SA horn Lystigarðsins og og sker  brekkubrúnina ofan Hafnarstrætis og steypist í hlykkjum niður í kjaft Lækjargils. Horn götunnar og Lækjargötu er annálað leiðindahorn m.t.t. umferðar.

En húsið á myndinni stendur neðst við Spítalaveginn og er þar nr.1. Húsið reisti Guðmundur Vigfússon skósmiður árið 1903 en stækkaði það til suðurs fjórum árum seinna. Hann rak skósmíðaverkstæði sitt í húsinu og bjó þar, og seinna meir var annar iðnaðar- og verslunarrekstur í húsinu. Húsið er tvílyft* timburhús á háum steyptum kjallara með lágu risi. Það stendur raunar dálítið neðan við Spítalaveg þar sem hann liggur og snýr raunar að Aðalstrætinu en myndin er tekin úr þeirri götu. Ástæðan fyrir því mun vera sú að núverandi Spítalavegur er raunar annar en hinn upprunalegi, þ.e. neðri parturinn. Neðan við húsið má sjá hvar stígur sker brekkuna. Er þetta göngustígur sem liggur gegn um skógarþykkni efst í Hafnarstrætisbrekkunni og kemur upp ofarlega á Spítalaveg. Sá stígur skilst mér að sé hinn upprunalegi Spítalavegur(eða Spítalastígur ) Neðri hluti núverandi Spítalavegs er þá hluti annarrar götu sem hét Ráðhússtígur. Spítalavegur 1 hefur síðustu áratugi verið íbúðarhús, hvort að séu 3 eða 4 íbúðir í því. Fyrir svosem áratug var það í heldur lélegu ásigkomulagi að utan en síðustu ár hefur það verið tekið alveg í gegn, bæði húsið sjálft og nærumhverfi þess og er mikill sómi að. Þessi mynd er tekin 29.maí sl.

* Allur gangur er á því  hvernig farið er með orðin einlyft, tvílyft, þrílyft o.s.frv. Stundum sér maður að talað sé um þrílyft hús ef hæðir eru alls þrjár kannski kjallari, hæð og ris. Það myndi  hinsvegar annars staðar kallast einlyft með kjallara og risi. Svo hefur maður séð ýmist annaðhvort ris eða kjallara tekin með í "lyft" hugtakinu. Ég hef vanist því að nota "lyft" yfir allar hæðir húsa utan kjallara og ris. Þannig að tvær hæðir og ris er þá tvílyft með risi, og kjallari+hæð+ris myndi ég kalla einlyft á kjallara með risi. Sjálfsagt má deila um þetta en í flestum fræðibókum sem ég hef lesið um sögu húsa hefur orðnotkunin miðast við þetta. 


Allt tekur enda

Síðastliðin ár hefur undirritaður ætíð beðið þessa tíma árs með sérstakri eftirvæntingu. Vor og sumarkoman sem slík er auðvitað alltaf tilhlökkunarefni en um þetta leyti hefur venjan verið að ný sería byrji af Út og Suður. Mér fannst lengi vel þá fyrst að sumarið væri komið þegar maður settist við sjónvarpið  1.-3. sunnudagskvöldið í júní og upphafsstefið skemmtilega byrjaði að hljóma. En allt tekur enda um síðir og einhverntíma skildist mér að  ekki yrði ný þáttaröð þetta sumarið.  Auðvitað sér maður dálítið af þessum frábæru þáttum en þeir höfðu nú gengið í sjö sumur og sýndir yfir 100 þættir ( 100.þátturinn var einmitt sýndur í ágúst 2009, tvöfaldur þáttur um Hornstrandir) þannig að kannski var þetta komið ágætt. Gísli Einarsson virtist einstaklega fundvís á áhugaverða viðmælendur hingað og þangað um landið og ævinlega hafði þetta fólk frá miklu og merkilegu að segja, fróðleik eða skemmtilegum sögum. Oft var þetta fólk í einhverjum rekstri, einyrkjar eða einhverjir sem hnýttu ekki bagga sína endilega sömu hnútum og samferðamenn. Þá fólst oft í þáttunum fróðleikur um landsins gagn og nauðsynjar, ýmist í boði viðmælenda eða Gísla sjálfs.  Gísli hafði virkilegan áhuga á viðmælendunum og því sem þeir höfðu að segja og skein það í gegn um þættina. Þá er ekki hægt að tala um Út og Suður án þess að  minnast á upphafsstefið, einstaklega grípandi og hressilegur kántrý - gítarslagari, svolítið í anda The Shadows. (Gott ef það var ekki stefið sem upphaflega vakti áhuga minn á þessum þáttum.) Man ekki hvort Gísli hlaut einhverntíma Edduna fyrir þessa þætti en hann örugglega allavega tilnefndur-  enda vel að því kominn. En Edda eða ekki, Út og Suður voru  og eru stórfínir þættir!

Hús dagsins: Aðalstræti 52

p5290051.jpgAðalstræti 52 er í hópi allra elstu húsa Akureyrar byggt 1840 og líklega eru það aðeins Gamli Spítalinn (175)* og Laxdalshús (215) eru eldri. Ekki er vitað með vissu hver byggði þetta hús en 1853 bjó kjarnakonan Vilhelmína Lever í húsinu og rak þar einnig veitingasölu. Hugsanlega byggði hún húsið. Vilhelmína Lever einn af helstu stórlöxum Akureyrar um miðja 19. öld og kannski þekktust fyrir að hafa kosið í bæjarstjórnarkosningum (1863) fyrst kvenna, löngu áður en konur fengu slíkum. Fyrir rúmri viku komst Vilhelmína einmitt í sjónvarpsfréttir , en fyrir skömmu fann Hörður Geirsson á Minjasafninu myndir af henni, en þeirra hafði verið leitað svo árum skipti og jafnvel talið óvíst  hvort þær væru til. Vilhelmína seldi húsið 1859 Sveini Skúlasyni, prentara og mun hann hafa stækkað húsið undir prentverkið. Þremur árum seinna keypti Jón Chr. Stephansson, timburmeistari, ljósmyndari og bæjarfulltrúi og bjó hann þar til  í hálfa öld, til dánardags 1910. Jón byggði m.a. Gamla Apótekið (151). Eftir daga Jóns hefur húsið líklega skipt oft um eigendur og leigjendur og nokkuð öruggt þykir mér að á tímabili hafi margar fjölskyldur búið þarna samtímis. En líkast til hefur húsinu alla tíð verið vel við haldið; það var í hópi fyrstu húsa á Akureyri sem voru friðuð. Var það um 1980 og var friðunin tvenns konar, A og B flokkur. Þetta hús féll undir síðarnefnda flokkinn og hefur því verið breytt talsvert að innan. Enda má telja það eðlilegt, þar sem geta má nærri að kröfur íbúa til húsnæðis hafi gjörbreyst frá miðri 19. öld til ofanverðrar 20. Húsið er nú stórglæsilegt að sjá og mikil bæjarprýði og hefur verið fært sem næst upprunalegu útliti. Byggt hefur verið við það með þeim hætti sem talinn er til fyrirmyndar þegar í hlut eiga gömul og friðuð hús. Þannig hefur nýtískuleg viðbygging verið reist á bakvið, ekki áberandi frá götu og greinileg afmörkun milli eldra og yngra húss. Ljóst er að þessi framkvæmd er geysi vel heppnuð. Þessi aðferð hefur líka verið farin á Aðalstræti 44 ( sem er einmitt jafngamalt þessu húsi, 170). Þessa mynd tók ég 29.maí sl.

*Tölurnar í svigum vísa til aldurs húsanna. Finnst það nokkuð skemmtilegt fyrirkomulag.


Hús dagsins: Hafnarstræti 19

P5290055Hafnarstræti 19 var reist á vegum Höepfnersverslunar (sjá Hafnarstræti 20) árið 1913. Húsið er tvílyft steinhús með háu risi og miðjukvisti og er með fyrstu steinsteypuhúsum á Akureyri. Eitt  einkenni margra elstu steinsteypuhúsanna eru bogadregnir gluggar, en þannig gluggar eru einmitt á húsinu. Bogadregnir gluggar eru einnig á Ósi (102) og Gömlu fiskbúðinni (95) og einnig á Gefjunarhúsinu (byggt 1907, rifið 2007). Húsið var upprunalega vörugeymsla og greinilega hefur mikið þurft að hífa þunga hluti upp í ris, sbr. dyr á kvisti og krana. Húsið hefur gegn um tíðina þjónað sem verslunar- og eða geymsluhúsnæði, þar er verslun í dag. Húsið stóð um nokkurt skeið ónotað en  árin 2006-07 var húsið tekið til gagngerra endurbóta bæði að utan og innan og er nú til mikillar prýði. Þessa mynd tók ég sl. laugardag, 29.5.2010.


Hús dagsins: Aðalstræti 38

Íp5290053.jpg færslu fyrir um þremur vikum síðan minntist ég á að húsamyndasafn mitt væri tæmt. En í gær bætti ég úr því og fór í myndatúr um Innbæinn og náði myndum af nokkrum öldnum glæsihýsum. Þar á meðal er þetta 118 ára einlyfta timburhús við Aðalstræti 38. En húsið reistu þrjú systkin, þau Friðrik, Pétur og Magðalena Þorgrímsbörn árið 1892. Er ytra útlit hússins næsta lítið breytt frá upphafi fyrir utan bárujárnsklæðningu. Friðrik og Magðalena bjuggu í húsinu líklega í nærri 70ár,  til æviloka en þau létust bæði 1960 og skv. Steindóri Steindórssyni höfðu aðeins tvær fjölskyldur átt húsið (1993); börn Þorgríms Þorvaldssonar og fjölskylda Sverris Hermannssonar húsasmiðs frá 1961. Sverrir var mikill hagleiksmaður og á hann hef ég minnst áður hér . Húsið ber þess merki að hafa alla tíð verið vel við haldið. Á myndinni sést glytta í bakhús  á lóðinni. Þar hafði Sverrir verkstæði og geymdi hann þar safn sitt af munum en hann var mikill grúskari og safnari og henti aldrei neinu.  Hann tók þátt í endurgerð margra eldri húsa á Akureyri og nærsveitum  og safnaði oftar en ekki nöglum ,hurðarhúnum, skrúfum og allskonar dóti úr húsunum sem enduðu svo í safni hans. Árið 2003 var safnið síðan flutt úr verkstæðinu á Aðalstræti fram í Sólgarð í Eyjafirði til varðveislu og 26.júlí 2003 var Smámunasafn Sverris Hermannssonar opnað almenningi. Það er svo sannarlega merkilegt safn og það heimsækja þúsundir ár hvert. Þar er um einstakt safn að ræða, sannkölluð paradís grúskara. Sjón er sögu ríkari.  

Heimild: Steindór Steindórsson 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 47
  • Sl. sólarhring: 50
  • Sl. viku: 321
  • Frá upphafi: 450479

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 206
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband