Hús dagsins: Fróðasund 9

Fróðasund er stutt þvergata á suðvestanverðri Oddeyrinni. P9080003Hún sker Lundargötuna og en nær ekki að öðrum götum, en mörk neðstu lóðanna liggja við lóðirnar við Norðurgötu 15 og 17. Aðeins sex hús teljast standa við götuna og eitt þeirra er þetta virðulega steinsteypuhús, Fróðasund 9. Húsið stendur á horni götunnar og Lundargötu og snýr framhlið þess að síðarnefndu götunni. Húsið reisti Sigurgeir Jónsson árið 1929 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar byggingarfulltrúa. Það er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stendur á nokkuð háum kjallara. Stór miðjukvistur er á framhlið og annar kvistur á bakhlið. Helsta breyting á húsinu að utanverðu frá upphafi mun sú að árið 1981 var sá kvistur stækkaður. Gluggapóstar eru einfaldir að gerð. Húsið var byggt sem einbýlishús og hefur líkast til alla tíð verið. Á lóðinni stendur einnig lítill garðskúr með valmaþaki. Ekki er mér kunnugt um byggingarár þessa skúrs en hann hafur alltént staðið þarna í áratugi. Einhvern tíma skildist mér að krakkar úr hverfinu hafi staðið fyrir einhverskonar blóma- eða dótasjoppu þarna. Húsið og umhverfi þess er í góðri hirðu og lítur vel út og er húsið talið hafa varðveislugildi (Guðný Gerður og Hjörleifur 1995). Áberandi er stórt tré á norðvesturhorni lóðarinnar sem mér sýnist að geti verið silfurreynir (Sorbus intermedia). Þessi mynd er tekin í morgunsólinni sl. mánudag þann 8.september 2014.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. (1995). Oddeyri; húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri.  

 


Hlíðarskálin 30.ágúst 2010 og 2014

Á laugardaginn ákvað ég að mynda Hlíðarskálina, þ.e. skálina miklu í Hlíðarfjalli milli Hlíðarhryggs og Háurinda. Segja má að skálin sé  "á tveimur hæðum" þ.e. hún skiptist í efri og neðri skál 

P8300081

Skilin á milli eru best sýnileg á sumrin þar eð þar bráðnar vetrarsnjórinn á milli efri og neðri hluta sísnævarins eða hlíðarjökulsins sem þarna er. Mörgum á Akureyrarsvæðinu (síðuhöfundur þ.m.t.) þykir einkar spennandi að fylgjast með því á sumrin hvort  "slitni á milli" efri og neðri skálar eða "skálin fari í sundur" eins og það kallast oft. Síðastliðin áratug hefur það eiginlega verið regla frekar en undantekning að fönnin fari í sundur, enda fóru jafnan saman tiltölulega mildir vetur og hlý sumur. (Mig minnir að 2003 eða 4 hafi þetta gerst og þá var það í fyrsta skipti í marga áratugi heyrði maður). 2010 var fönnin farin í sundur þann 30.ágúst líkt og sjá má á myndinni hér til hliðar, sem tekin er af bílastæðinu við Háskólann á Akureyri við Sólborg. En á laugardaginn mundi ég að ætti mynd af Hlíðarfjalli sem tekin var 30.ágúst svo ég ákvað að smella af einni þar sem skálin sést. Og svona lítur Hlíðarskálin út 30.ágúst 2014. Myndin er tekin af Eiðsvelli á sunnanverðri Oddeyri og í forgrunni er húsaröðin við Brekkugötu. 

P8300001

Eins og glögglega má sjá er snjórinn umtalsvert meiri þetta sumarið en fyrir fjórum árum og enn nokkuð breitt haft á milli efri og neðri fannar. Enda var síðasti vetur talsvert snjóþungur m.v. síðustu ár- og það var raunar veturinn þar á undan. Enn er þó tæplega hægt að fullyrða hvort slitni á milli eða ekki, en ég tel það raunar ólíklegt úr þessu. Jafnvel þó september verði heilt yfir hlýr þá vega næturfrost og haustrigningar (sem í þessari hæð falla sem snjór) væntanlega upp á móti. 

 

Ég hef nokkrum sinnum áður skrifað um þetta fyrirbæri:

 30.sept. 2010: Hlíðarskál með mánaðar millibili.

 30.ágúst 2010: Hlíðarskál 30.8.2010

 10.ágúst 2009: Skálin í Hlíðarfjalli. 

 

 

 


Hús dagsins: Hafnarstræti 15

Fyrr í sumar myndaði ég nokkur hús við Aðalstræti sem mér fannst að ég þyrfti endilega að taka fyrir hér á síðunni og hef ég gert þeim skil sl. vikur. 

P6190007

Einnig myndaði ég eitt glæsilegt hús sem flokkast myndi af Funkís-gerð en það er Hafnarstræti 15. Lóðin  sem slík er raunar ævagömul enda var á hin upprunalegi verslunarstaður Akureyri á þessum slóðum. Þarna stóðu áður timburhús, "assistentahús" sk. eða hús verslunarþjóna, pakkhús og verslunar og íbúðarhús Höepfnershúsa. Núverandi lóð er aðeins um 350 fermetrar þ.a. tæpast hafa öll þessi hús staðið lóðarmarka hennar. En öll þessi hús brunnu í stórbruna árið 1912 og lengi vel var þarna óbyggt einskis manns land. 

Húsið sem nú stendur á Hafnarstræti 15 byggði maður að nafni Karl Jónasson árið 1937. Teikningar gerði Tryggvi Jónatansson og hér má sjá þær (að því gefnu að tengillinn inn á þessa löngu slóð virki). Húsið er tvílyft steinsteypuhús flötu þaki og á lágum grunni. Litlar suðursvalir eru á efri hæð hússins. Gluggasetning hússins er regluleg og póstar einfaldir en og á suðurhlið eru horngluggar, eitt einkenni Funkis-húsagerðarinnar sem var mjög ráðandi í húsagerð á þessum tíma. Ægisgatan á Oddeyri og Helgamagrastræti á Brekkunni má nefna sem dæmi um heilsteyptar funkis-götur, en þetta hús svipar nokkuð til efstu húsa við síðarnefndu götuna. Húsið, sem mun vera 436 rúmmetrar að stærð, er teiknað sem einbýlishús og mun sú skipan óbreytt. Húsið virðist næsta lítið breytt að utan miðað við upprunalegar teikningar og virðist húsið í mjög góðu standi og lítur vel út. Á lóðinni stendur einnig bílskúr sem byggður var 1964. Þessi mynd er tekin 19.júní 2014. 


Hús dagsins: Aðalstræti 28

Á Aðalstræti 28 var fyrst reist hús árið 1854 af manni að nafni Stefán Baldursson. 

P6190014Það hús var tvílyft timburhús sem var að hluta með torfþaki og að hluta með bárujárni. Húsið stóð líkast til í hartnær sjö áratugi og hefur líkast til verið breytt að einhverju leiti á meðan það stóð. En núverandi hús var reist árið 1926 af Jónatan Jakobssyni eftir teikningum Einars Jóhannessonar. Aðalstræti 28 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og miðjukvisti en hluta til er neðri hæð niðurgrafin þar eð húsið stendur fast upp við rætur brekkunnar miklu ofan götunnar. Tvílyft bogadregið útskot er framan á húsinu og ofan á því svalir framan við kvistinn.  Húsið er nokkuð dæmigert fyrir íburðarmeiri steinsteypuhús þess tíma og er ekki ósvipað mörgum húsum við neðanverðan  Eyrarlandsveg. (Sjá færslur frá febrúar-mars 2013). Sennilega var neðri hæð geymslurými eða verkstæði fyrstu áratugina en það var ekki fyrr en 1950 sem hún var tekin undir íbúð. Nú eru tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Húsið er í góðu standi og hefur á síðasta áratug verið tekið í gegn, þak er allt nýtt og húsið nýlega málað. Lóðin er einnig gróin og nokkuð vel hirt en hún er gríðarstór og mun hún ná langleiðina að brekkubrún við Kirkjugarðinn. Þessi mynd er tekin 19.júní 2014. 

 Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.


Hús dagsins: Aðalstræti 22

Aðalstræti 22 byggði kona að nafni Anna Erlendsdóttir árið 1898.P6190004 Húsið er tvílyft timburhús með lágu risi og stendur á steyptum eða steinhlöðnum sökkli. Á bakvið, sambyggt húsinu er einlyft bygging með háu risi og á norðurhlið er tvílyft steinsteypt bygging, inngönguskúr, með skúrþaki. Húsið er klætt steinblikki og krosspóstar eru í gluggum að framanverðu en alls konar gluggasetning í bakhúsi.  Alfreð Jónsson kaupmaður og Bára Sigurjónsdóttir kona hans eignuðust efri hæð 1926. Alfreð reisti þá steinsteypt bakhús, gripahús með heylofti enn því hefur fyrir löngu verið breytt í íbúðarrými. Ég gæti trúað því að núverandi klæðning hafi komið á húsið um svipað leiti og byggt var við það. Alfreð og Báru áttu allt húsið frá 1950 og átti hún það allt til ársins 1980- en hann var þá látinn. Þannig var húsið í eigu sömu hjóna að hluta eða í heild drjúgan part 20. aldar. Húsið virðist í góðu ásigkomulagi og lítur vel út. Nú eru í húsinu að ég held tvær íbúðir, hvor á sinni hæð og hefur verið svo áratugum saman.  Þessi mynd er tekin 19.júní 2014.

 Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Hús dagsins: Aðalstræti 21

Aðalstræti 21 byggði maður að nafni Guðlaugur Pálsson árið 1921. 

P6190005

Sá var trésmiður frá Litlu- Tjörnum í Ljósavatnshreppi. Húsið er á tveimur hæðum með lágu risi en vegna þess hve neðri hæð er niðurgrafin myndi ég kalla það einlyft á háum kjallara. Krosspóstar og þverpóstar eru í gluggum. Þá er einnig bílskúr á norðausturhorni lóðarinnar. Húsið er líkast til lítið breytt frá upphafi en þó hefur skorsteinn sem var á húsinu verið brotinn niður, sennilega um leið og þak var endurnýjað. Húsið var reist sem íbúðarhús en ekki þykir mér ólíklegt að í kjallara hafi mögulega verið verkstæðisrými eða eitthvað álíka. Ekki er þó minnst á slíkt í þeim bókum sem ég styðst við hér. Árið 1986 höfðu aðeins verið þrír eigendur að húsinu. Húsið lítur vel út og er í góðu standi. Ein íbúð er í húsinu eftir því sem ég kemst næst. Þó húsið sé e.t.v. ekki mikið breytt gegnir öðru máli um umhverfi þess. Nú stendur húsið á horni Aðalstrætis og Duggufjöru en það er nýleg gata (lögð um 1990) á uppfyllingu sem kom til við eða fljótlega eftir lagningu Drottningarbrautar (1973). Þegar húsið var reist var hins vegar fjara í bakgarði þess.

Þá stóð stórt og mikið hús, Aðalstræti 23 sunnan við þetta hús u.þ.b. á götustæði Duggufjöru. Það var tvílyft timburhús með háu risi, byggt 1899 af Jakob Gíslasyni söðlasmið á uppfyllingu sem mokuð var úr brekkunni og var það syðsta í röðinni sem byggð var á henni. Á sama tíma voru húsin númer 13 og 17 byggð þarna og númer 15 og 19 fáeinum árum seinna. Var þetta eitt stærsta húsið austan megin við Aðalstrætið, en húsið var rifið árið 1979. Mér þykir sjálfsagt að minnast á þau hús sem horfin eru því vissulega eru þau hluti af sögunni líka.  Þessi mynd af Aðalstræti 21 er tekin 19.júní 2014. 

 Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Aðalstræti 20

Aðalstræti 20 er byggt árið 1897 og virðist frá upphafi hafa verið parhús. 

P6190002

Húsið reistu þeir Júlíníus Jónasson og Jónatan Jóhannesson og bjuggu þeir í sitt hvorum hlutannum- Jónatan í suðurhlutanum og Júlíníus í norðurhlutanum. Suðurhluti hússins tvílyftur með lágu risi og snýr austur-vestur, en norðurhlutinn er einlyftur með háu risi og snýr stafni í norður. Gluggapóstar eru af ýmsum gerðum en húsið klætt báruðu plasti en járn á þaki. Steinblikk er á norðurgafli. Lítill inngönguskúr á bakhlið.Upphaflega var húsið einfalt að gerð, lítið einlyft timburhús með háu risi, líkast til var suðurhlutinn e.k. "spegilmynd" norðurhlutans en hann er lítið breyttur frá fyrstu gerð. Suðurhlutanum var hins vegar breytt árið 1952, hann lengdur um 4metra inn að brekkunni og efri hæðin byggð upp. Í Innbæjarbók Hjörleifs Stefánssonar (1986:82)* kemur fram að húsið hafi fengið núverandi útlit árið 1969 en húsið virðist næsta lítið breytt frá því að sú bók var skrifuð. Aðalstræti 20 er skemmtilegt í útliti og prýði af því, líkt og flestum húsum við þessa rótgrónu og næst elstu götu Akureyrar. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor í sínum enda líkt og verið hefur frá upphafi, í 117 ár. Ekki er mikið landrými kringum húsið því fast á bakvið það er snarbrött brekkan sem rís yfir Innbænum, um 50-60m há. Vorið 1990 féll skriða úr brekkunni á næsta hús norðan við þetta, Aðalstræti 18 og skemmdist það svo að því varð ekki bjargað. Hér má lesa meira um það.  Þessi mynd er tekin 19. júní 2014. 

 Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

* Fyrir þá sem ekki vita, þá táknar merking á borð við (1986:82) einfaldlega útgáfuár og blaðsíðutal. Hér var ég með öðrum að vitna í blaðsíðu 82 í bók Hjörleifs Stefánssonar, gefna út árið 1986. 


Hús dagsins: Aðalstræti 19; Sæmundsenshús.

Aðalstræti 19 reistu þeir Sigtryggur Jóhannesson og Jónas Gunnarsson fyrir Sigurð Hjörleifsson Kvaran lækni árið 1905.P6190010 Þau árin voru þeir í óða önn að byggja húsaröðina númer 33-41 við Hafnarstræti og tveimur árum áður höfðu þeir reist Aðalstræti 15 en það er mjög svipað Aðalstræti 19 að gerð. Húsið er tvílyft timburhús á lágum steinsteyptum kjallara og með lágu valmaþaki.  Húsið er bárujárnsklætt en fram til um 1935 mun hafa verið lárétt borðaklæðning á húsinu með láréttum skrautböndum. Krosspóstar eru í gluggum. Tvær útbyggingar eru aftan á húsinu, önnur lítil, trapisulaga en önnur stærri, líklega stigahús. Húsið er plankabyggt en það er hlaðið úr plönkum 3ja tommu þykkum og 7 tommu háum. Sigurður átti húsið í rúman áratug eða til 1917 og hafði læknastofu og biðstofu í vesturenda neðri hæðar en bjó á efri hæðinni. Þó var svefnherbergi læknishjónanna á neðri hæðinni- innaf læknastofunni ! Sigurður ritstýrði einnig blaðinu Norðurlandinu meðan hann bjó í húsinu og var þá skrifstofa blaðsins hér einnig. Húsið var lengi kallað Sæmundsenshús eftir Pétri j. Sæmundsen, en hann bjó hér eftir að tengdasonur hans, Hallgrímur Davíðsson keypti húsið af Sigurði árið 1917. 

P6190012

Húsið hefur ekki skipt oft um eigendur því árið 1986 áttu börn Hallgríms, Margrét og Pétur húsið. Þá hafði húsið verið í tæp 70 ár í eigu sömu fjölskyldu. Nú eru tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni og hefur svo verið um áratugaskeið. Húsið virðist í góðu standi og lóð og er vel hirt. Undir suðurvegg  hússins stendur mikið stórt og verklegt lerkitré, sem ég gæti ímyndað mér að sé eitt hið stærsta sinnar tegundar á Akureyri. Ég gæti trúað að tréð sé á bilinu 15-18 metrar á hæð. Myndirnar af Aðalstræti 19 eru teknar 19.júní 2014.

 

 

 

 

Á þessari mynd sem tekin er til norðurs  má sjá lerkitréð mikla við suðurvegg Aðalstrætis 19.  

P6190011

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


"HÚS DAGSINS" 5 ÁRA.

Hús dagsins: Norðurgata 17

Ég hef í nokkrar vikur birt myndir sem ég á af húsum á Akureyri og stutta umfjöllun um þau á Facebook. Hérna mun halda áfram með það. Eru þetta yfirleitt gömul hús á Oddeyri eða Innbænum en ég á orðið ágætis myndasafn af þeim. Heimildir um byggingarár og sögu húsanna eru fengnar úr öllum mögulegum bókum um byggingarsögu Akureyrar auk þess sem ég hef sótt a.m.k. eina sögugöngu Minjasafnsins um þessi eldri hverfi á hverju sumri síðan 1997.P6050029

Hús dagsins er Norðurgata 17, einnig kallað Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan. Húsið er það eina á Akureyri sem hlaðið er úr blágrýti svipað og Alþingishúsið og Hegningarhúsið. Byggingarár mun vera 1880 og er þetta hús í 3.-4.sæti yfir elstu hús á Oddeyri. Í þessu húsi var lengst af starfandi prentsmiðja en ýmis önnur starfsemi hefur einnig verið stunduð í húsinu á 130 árum.

Ég minntist á að þetta væri 3.-4. elsta hús Oddeyrar. Sjálfsagt mál er að telja upp þau hús á Oddeyri sem teljast eldri en Steinhúsið. Norðurgata 11 er jafn gamalt (1880), Lundargata 2 (1879), Strandagata 27 (1876) og elst er Strandgata 49, Gránufélagshúsið, (1874).

Og þessar athugasemdir bárust:  

 Það verður eflaust gaman að fylgjast með framhaldinu hjá þér að kynna okkur gömlu húsin á Akureyri.Númi er höfuðborgarbúi,en hefir flakkað mikið til norðurlands,er hálfur þingeyingur.Ég fór í göngutúr um gamla hluta Akureyrar í fyrra í fyrsta sinn,og þvílíkar gersema gamalla húsa sem þið eigið á Akureyri,og gaman að sjá hve mörg  hafa verið vel gerð upp.Hafðu þökk fyrir þetta framtak þitt.

Númi (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 11:02

2identicon

Þakka viðbrögðin og hrósið. Mun setja inn fleiri myndir og umfjallanir á komandi dögum og vikum...  

Arnór B.H. (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 14:51

3identicon

Schnilld maður... þetta blogg fer í internethringinn minn =)

Mummi (IP-tala skráð) 26.6.2009 kl. 14:00

4Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

 

Magnað :-)

Arnór Bliki Hallmundsson, 26.6.2009 kl. 15:42

5identicon

 

Glæsilegt Arnór, glæsilegt!

Mjög fróðlegar greinar, ég hef mikinn áhuga á að lesa fleiri svona eftir þig.

Ég á eftir að kíkja oft við hérna yfir hádegiskaffibollanum mínum!

Jens (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 12:51


Hús dagsins: Aðalstræti 17.

Síðastliðin fimmtudag, 19.júní, var ég á ferðinni með myndavél í Innbænum. Næstu greinar hér á síðunni verða því um hús við Aðalstræti sem mér þótti alveg verðskulda að mynda og fjalla stuttlega um hér.P6190009 Aðalstræti 17 sést hér á þessari mynd.  Aðalstræti 17 er byggt 1899. Það er einlyft timburhús með háu portbyggðu risi og miðjukvisti beggja vegna á húsi. Húsið stendur á steyptum kjallara og er klætt steinblikki og í gluggum eru tiltölulega nýlegir sexrúðupóstar. Örlítill inngönguskúr er á norðurgafli og inngöngubygging eða stigahús á bakhlið. (Reyndar mun stigi hafa verið rifinn úr þeirri byggingu fyrir margt löngu). Húsið reisti Kristján Sigurðsson kaupmaður en hann átti það ekki lengi og líklegt er talið að það hafi verið reist fyrir næsta eiganda hússins, Odd Björnsson prentsmið. Hann setti á stofn prentsmiðju  þarna 1901 og eignaðist allt húsið þremur árum síðar. Í millitíðinni átti húsið Einar H(jörleifsson) Kvaran skáld. Ástæða þess að húsið er talið byggt sérstaklega fyrir prentsmiðju er sú að  burðarbitar undir neðri hæð eru sterklegri og sverari en venjan var- sem bendir til þess að gólfinu hafi verið ætlað að þola þungar vélar. 

P6190013

Prentsmiðjan var í norðurenda hússins en íbúð í suðurenda en í risi var skrifstofa (Odds, væntanlega) auk íbúðaherbergja fyrir prentnema. Prentsmiðjan var starfrækt í þessu húsi til ársins 1934. Oddur virðist hafa selt íbúðarhluta hússins 1918 en þá kaupa þeir Mikael Guðmundsson og Björn Grímsson suðurhluta. Þegar bókin Akureyri; Fjaran og Innbærinn var skrifuð fyrir tæpum þremur áratugum hefur húsið ekki skipt oft um eigendur en þá hafa sömu eigendur átt suðurhluta hússins frá 1967 en sama fjölskyldan átt norðurenda frá 1934. Enn er húsið parhús og eru að ég held ein íbúð í hvorum hluta. Aðalstræti 17 er glæsilegt hús og í góðri hirðu og það sama á við um lóðina sem er stór og gróskumikil. Um 1990 var lögð ný íbúðargata samsíða hluta Aðalstrætis, Duggufjara og snýr húsið bakhlið að þeirri götu. Því eru hér myndir af bæði af bæði bak- og framhlið Aðalstrætis 17.  

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 44
  • Sl. viku: 409
  • Frá upphafi: 450769

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 313
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband