Hús dagsins: Aðalstræti 2

Það þarf ekki endilega að vera einfalt að ákvarða byggingarár húsa. Það á sérstaklega við um hús sem byggð eru löngu áður en nokkur núlifandi maður fæddist og fyrir tíma formlegra byggingarleyfa og teikninga og áður en ljósmyndun varð almenn. Síðan eru það hús sem byggð eru í áföngum. (Þú getur t.d. staðið í stofu frá 1936 í húsi sem skráð er byggt 1887 o.s.frv.) Stundum eru hús svo gjörbreytt að allri gerð og stærð frá upprunalegu lagi að fráleitt væri að tala um upprunalegt byggingarár sem það rétta.  Ég er þannig að ég hugsa fyrst og fremst í ártölum. Það fyrsta sem ég man um sögu húsa er byggingarár en ég get hins vegar hæglega gleymt því hver byggði húsin. Eins getur það hverjir bjuggu þar og hvaða starfsemi var þar skolast til hjá mér. Ef ég sé skrautlegt og áhugavert hús þá einhvernvegin verð ég ævinlega að vita hvað það er gamalt.

P6190016

 Húsið hér á myndinni, Aðalstræti 2, er eitt þeirra húsa þar sem ekki er auðvelt að slá föstu um byggingarár.   Samkvæmt fasteignaskrá (Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar ) er byggingarár hússins 1886 en uppruni þess er rakinn til 1850-53. Húsið fékk þó ekki núverandi lag fyrr en líklega um 1926. En Aðalstræti 2 er í raun tvö sambyggð hús, eldri hlutinn snýr stöfnum norður- suður en nyrðri hlutinn, sá yngri, snýr austur vestur. Syðra húsið er tvílyft timburhús á lágum grunni með háu risi og tveimur litlum á framhlið og einum stórum gaflkvisti á suðurenda. Norðurhúsið er hinsvegar tvílyft á lágum kjallara og með lágu risi og með steyptum inngöngupalli eða verönd að framan. Þá er steinsteypt viðbygging með skúrþaki vestan á húsinu. Allt er húsið klætt kvarsmulningi, sk. skeljasandi.

Saga hússins er rakin til ársins 1853 en þá reistu Gunnlaugur Guttormsson og Margrét Halldórsdóttir hús sem er væntanlega elsti hluti þessa hús. Upprunalega taldist húsið standa við Eyrarlandsveg (sem nú er Spítalavegur). Til er a.m.k ein ljósmynd af húsinu eins og það leit út upprunalega, en hún sést á bls. 64 í bókinni Akureyri: Fjaran og Innbærinn eftir Hjörleif Stefánsson (1986). Húsið var af algengri gerð timburhúsa þess tíma, ekki óáþekkt húsum nr. 50 og 52 við Aðalstrætið. Gunnlaugur lést 1859 en Margrét eignaðist þá húsið. Bróðir hennar, Jóhannes Halldórsson bæjarfulltrúi og kennari og fyrsti skólastjóri Barnaskóla Akureyrar leigði húsið um tíma og annaðist þar skólahald  Akureyringa. Margrét seldi húsið árið 1877 Jósep Jóhannessyni járnsmiði en 1886 kaupir Magnús Jónsson úrsmiður húsið. Freistandi er að álíta að Magnús hafi hækkað húsið um eina hæð og skráð byggingarár hússins miðist við þá framkvæmd. Þá kenningu styður ljósmynd sem er frá því fyrir 1890 (Steindór 1993: 52) og þar sést að húsið er orðið tvílyft með háu risi, með fjórum gluggum á efri hæð og tveimur frá suðri á þeirri neðri, útidyr og einum glugga norðan útidyra. Hjörleifur Stefánsson (1986) vill hins vegar meina að Jósep hafi gert þessar breytingar áður en hann seldi Magnúsi húsið en Magnús mun hins vegar hafa lengt húsið um 4 álnir til norðurs, auk þess sem hann reisti norðurhluta hússins talsvert seinna. 

Á mynd sem dagsett er 3.ágúst 1912, einnig í Akureyrarbók Steindórs bls. 105 sést að norðurbyggingin er risin en hún er þá örlítið hærri en eldra húsið. En Magnús Jónsson mun hafa reist norðurhlutann í áföngum 1899 og 1904, eina hæð í senn. Á myndinni frá 1912 eru kvistirnir og ókomnir á suðurhluta- sem einnig virðist mjórri. Sigmundur J. Sigurðsson tók við rekstri úrsmiðjunnar eftir dag Magnúsar og segir Steindór að orðrétt að hann hafi látið "[...]stækka húsið og byggja hæð ofan á það svo það er gerbreytt" (Steindór Steindórsson 1993: 21).  Þessar breytingar voru gerðar árið 1924 og þá mun hann hafa breikkað húsið um þrjá metra og hækkað risið og reist kvistina. Sennilega hefur ætlunin verið að innrétta þar íbúðarrými en af því varð ekki, því í Innbæjarbók Hjörleifs kemur fram að ris sé óinnréttað. Sama ár og Sigmundur stækkaði suðurhlutann byggði Carl J. Lilliendahl, eigandi norðurhlutans steinsteypta byggingu með skúrþaki vestan á þann hluta og 1926 byggði hann steinsteyptu tröppurnar framan á húsið. Ýmis starfsemi hefur verið í húsinu sem áður segir skóli og úrsmíðaverkstæði, sportvöruverslun og einhvern tíma var, skilst mér, lítil hverfisverslun í kjallara norðurhússins. Íbúar hússins gegn um tíðina skipta eflaust hundruðum- ef ekki þúsundum. Nú eru í húsinu alls fjórar íbúðir ef mér skjátlast ekki, ein á hvorri hæð og í risi í suðurhluta og ein í norðurhluta. Húsið er ráðandi í umhverfi sínu og er skemmtilega sérkennilegt og öðruvísi að gerð og greinilegt að það er byggt í áföngum. Það er í góðu standi og lóð hefur verið tekin öll í gegn fyrir einhverjum árum síðan og er gróskumikil og aðlaðandi. Þessi mynd er tekin fyrr í dag, 19.6. 2014. 

Hér má sjá Aðalstræti 50 og 52, en upprunalega var nr. 2 sviplíkt þeim húsum. Myndirnar eru teknar 29.5.2010 og 15.8.2009.

p5290051.jpg P8150042

 

 Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur 


Nokkur hús á Ásbrú

Helgina 6.-8.júní sl.  skrapp ég í Reykjanesbæ og komst þar í Sögugöngu um Varnarliðssvæðið. Þó byggingar þær teljist ekki mjög gamlar er mikil saga á bak við þær og saga þessa svæðis, sem í um 60 ár var utan lögsögu Íslands og framandi mörgum Íslendingum, geysimerk og henni þarf að halda á lofti. Söguganga á borð við þessa sem ég tók þátt í um daginn er liður í því. Leiðsögumaður var Eysteinn Eyjólfsson, stjórnmála- og sagnfræðingur frá Keflavík.

P6070004

 Bandaríski herinn settist hér að  árið 1941. Það gefur því auga leið að byggingar eftir herinn eru ekki eldri en það, en elsta byggingin á Varnarliðssvæðinu er "Atlantic Studios" og er það byggt 1943. Byggingin var upprunalega viðgerðarverkstæði fyrir orrustuflugvélar en er nú kvikmyndaver og tónleikasalur.

 

 

 

 

 

 Hér var einskonar miðbær Varnarliðssvæðisins og húsið hér að neðan var lengi vel aðal samkomu- og skemmtistaður svæðisins. Húsið er í hópi elstu húsa Varnarliðssvæðisins, byggt árið 1955. Það var ekki ómerkari maður en skemmtikrafturinn og leikarinn Bob Hope (1903-2003) sem vígði þessa byggingu en hann var ötull við að ferðast milli bandarískra herstöðva og skemmta mönnum þar. Nú er þarna m.a. veitingastaður og um tíma var þarna lítil sjoppa sem þjónaði íbúum Ásbrúar.  

P6070013

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P6070017 P6070018

Til vinstri má sjá vatnstank Slökkviliðs Keflavíkurflugvallar  og fyrir miðri mynd er einskonar loftvarnarbygging. Hún var þannig úr garði gerð að þarna gat hópur fólks hafst við einangraður í þrjá mánuði ef til árásar kæmi.  Á myndinni hægra megin er síðan Slökkvistöðin en slökkvilið vallarins var mjög vel búið og stundaði öflugar forvarnir. Aldrei brann hús til grunna á Vellinum þessi 60 ár sem herinn var hér !

 Hér  má sjá bankann (tveggja hæða bygging með valmaþaki), sem var útibú American Express og lögreglustöðina.

P6070027  P6070021

Þeir sem leið eiga um Varnarliðssvæðið veita því fljótt athygli að þar er lítið sem ekkert af trjám. 

P6070033

Fyrir því var ástæða- það var nefnilega ekki talið heppilegt að hugsanleg óvinalið gætu falið sig í skógi. Því Kaninn var vel meðvitaður um það að litlar og snotrar hríslur verða stóreflis tré eftir einhverja áratugi. Undantekning frá þessari skógræktarreglu voru bústaðir hinna hæst settu þ.e. "Admirals" en þarna má sjá nokkuð stór tré sem þeir hafa væntanlega plantað. Aðmírálarnir bjuggu í húsum sem þessu og höfðu ágætis rými, í þessu húsi voru t.d. tvær íbúðir og bjuggu foringjarnir á efri hæðum og höfðu gestastofur á neðri hæð. Þeir höfðu líka bílskúra en þetta  munu þeir einu slíku sem finna má á Varnarliðssvæðinu. Foringjabústaðirnir eru í hópi eldri húsa á svæðinu, byggðir milli 1950-60.

(Þess má geta að þessi hús lentu inni á Flugöryggissvæði Keflavíkurflugvallar þegar NATO tók að sér loftrýmiseftirlit hér og þess vegna er þessi víggirðing fyrir. Hún er því ekki komin frá Varnarliðinu). 

 

Munnleg heimild: Eysteinn Eyjólfsson leiðsögumaður í Sögugöngu um Ásbrú. 7.júní 2014. 

 


Flóran á bökkum Glerár

Í gær, þann 12.júní, átti leið um göngustíginn sem liggur á norðurbakka Glerár, frá Glerárbrú við Olís og upp að Neðra Glerárgili. Myndavélin var með í för. Þarna er nokkuð fjölskrúðugt plöntulíf og hér eru nokkrar svipmyndir.                       

P6120017

Þessir burknar sem gægjast upp úr grjótinu vöktu mesta athygli hjá mér en þeir eru aðeins nokkrir og á afmörkuðum stað þarna á bakkanum. Hugsanlega eru þetta garðplöntur sem hafa "villst" þangað. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P6120018

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Hér eru fræ túnfífils föst í köngulóarvef... 

P6120015

 

 

 

 

 

 

 

 

Nokkuð þéttur asparskógur er þarna og undir trjánum eru kerfill og ætihvönn- sá fyrrnefndi u.þ.b. mannhæðarhár. 

 

 

P6120014P6120013 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér eru m.a. smjörgras, stök viðja, hrafnaklukka og ég er nokkuð viss um að blöðin á efri  myndinni fyrir miðju tilheyri eyrarrós. 

 

P6120011P6120012P6120009

P6120010


Hús dagsins: Aðalstræti 42

Húsamyndasafnið telur þegar þetta er ritað 434 myndir. Sjaldan gef ég mér tíma til að skoða það gaumgæfilega, en skutla reglulega inn á það myndum. Í gær fletti ég í gegn og fann þar "gleymda" mynd sem ég tók fyrir réttum fjórum árum, 29.maí 2010. Og það var mynd af Aðalstræti 42. Sá dagur var kjördagur til Sveitarstjórnarkosninga og tók ég nokkrar myndir á leiðinni heim af kjörstað, Verkmenntaskólanum á Akureyri, í Innbænum. Því er e.t.v. ekki úr vegi að birta þessa mynd og umfjöllun núna í vikunni fyrir kosningar Wink.

P5290052

En Aðalstræti 42 hefur sannarlega staðið tímanna þrenna eða ferna og það var risið þegar fyrst var kosið til bæjarstjórnar á Akureyri árið 1863.  En húsið reisti Sigurður Sigurðsson 1851-52 á lóð sem Ari Sæmundsson í Bibliotekinu, Aðalstræti 40 úthlutaði honum. Húsið er einlyft timburhús með háu og bröttu risi með miklum miðjukvisti sem nær fram úr húshliðinni og er á tveimur hæðum og því jafnvel hægt að tala um útbyggingu frekar en kvist. Nýleg steypt viðbygging er bakvið húsið og tengjast þessi tvö hús tengjast með steinsteyptum gangi. Sennilegt er að þeir hafi byggt hús sín á svipuðum tíma en í upphafi voru húsin ekki ósvipuð, einlyft, látlaus hús með háu risi en þeim hefur hvort um sig verið breytt og á mismunandi hátt. Í húsinu sunnan við, Aðalstræti 44 rak athafnakonan Elín Einarsdóttir Thorlacius veitingasölu, Elínarbauk, á 8. og 9. áratug 19. aldar. Hún átti einnig þetta hús og leigði þarna gistirými en árið 1890 var eigandi hússins Kristján Jósepsson. Hann reisti kvistinn mikla framan á húsið og fékk húsið þá það lag sem það nú hefur. Húsið hefur verið íbúðar og gistihús, sem áður segir, og ekki ólíklegt að um tíma hafi margar fjölskyldur búið í húsinu samtímis. Byggt var við húsið árin 2010-11, steinsteypt bakbygging og niðurgrafinn bílskúr og er sú framkvæmd vel heppnuð, því gamla húsið nýtur sín enn og spillist lítið af viðbyggingunum. Þegar meðfylgjandi mynd var tekin voru þessar framkvæmdir í gangi. Ein íbúð er í húsinu. Allt er húsið í góðri hirðu og umhverfi þess einnig til prýði.

 Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

 Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Hús dagsins: Geislagata 14 eða Sjallinn

PB130047Það hefur staðið til lengi hjá mér að taka fyrir Sjallann, en hann er óumdeilanlega í hópi sögufrægustu og nafntoguðustu húsa Akureyrar. En Sjallinn eða Sjálfstæðishúsið var reist árin 1962-63 fyrir Sjálfstæðisflokkinn- eins og nafnið bendir til. Þarna hafa verið haldnir dansleikir og böll frá upphafi en húsið hefur tekið miklum breytingu þessa hálfu öld. Sjallinn telst standa við Geislagötu en á Landupplýsingakerfi Akureyrar telst hann vera nr. 7 við Glerárgötu.  Húsið er þrílyft steinsteypuhús með lágu risi en kjallari er undir hluta hússins og á suðurhlið er stigabygging. Stór hluti jarðhæðar er verslunarrými en þar er einnig anddyri og fatahengi og bar. Í kjallaranum er einnig bar og lítill og þar voru um tíma reknar krár  (eða "pöbbar") undir ýmsum nöfnum m.a. Kjallarinn og Down Under. Þar eru einnig geymslur. Aðal danssalurinn er á annarri hæð og er hann í hópi stærstu danssala á landinu og rúmgóð sena. Salurinn nær upp í rjáfur og lofthæðin allavega um 5-6 metrar. Hann er í austurhluta hússins en á vesturhluta hæðarinnar, þar sem er "einföld lofthæð" eru og tveir barir og betri stofur með leðursófum og borðum. Þriðja hæðin nær aðeins yfir hálfan grunnflöt hússins eins og gefur að skilja en þar er einnig danssalur og þar hafa einnig verið reknar krár m.a. Dátinn. Þá eru svalir yfir salnum þar sem hægt er að sitja við borð með gott útsýni yfir sviðið. Að jafnaði er aðeins opið á annarri hæð hússins en á stærstu samkomum hafa báðar hæðir verið opnar. Þá er fyrirkomulagið jafnan þannig að hljómsveit spilar í stóra salnum en á Dátanum er plötusnúður eða "DJ". Sem áður segir hefur húsið verið skemmtistaður frá upphafi og líklega fáar íslenskar hljómsveitir síðustu áratuga sem EKKI hafa spilað þarna. Í hugum margra (ég leyfi mér að fullyrða langflestra) er nafn Ingimars Eydal tengt Sjallanum órjúfanlegum böndum en hann spilaði þarna á böllum með hljómsveit sinni áratugum saman. Sjallanum hefur sem áður segir verið breytt oft og mikið en e.t.v. mest í kjölfar stórbruna sem þarna varð í lok árs 1981. Sumarið 1982 var nýr og endurbættur Sjalli tekinn í notkun og mun þá Sjallanafnið hafa tekið "formlega" við af Sjálfstæðishúsinu. Á jarðhæð hafa ýmsar verslanir verið gegn um tíðina, þarna var t.d. ein fyrsta sjálfsafgreiðsluverslunin, stórmarkaðurinn, á Akureyri en á þeim tíðkaðist almennt að verslað væri yfir borð og brauð var keypt í einni búð, mjólk í annarri og kjöt og fiskur í sérverslunum. Raftækjaverslunin Radionaust var þarna starfandi þarna lengi vel og um tíma var hárgreiðslu- og snyrtistofu þarna. Síðan 2012 hefur Tónabúðin haft þarna aðsetur. Ég veit ekki til þess að nokkurn tíma hafi verið búið í Sjallanum og þykir mér það næsta ólíklegt. Sjallinn var fimmtugur sl. sumar, var opnaður 5.júlí 1963 og enn er hann við lýði þó stundum heyrist raddir og tröllasögur um lokun staðarins. Ýmsum finnst húsið sjálft og skemmtistaðurinn svipur hjá sjón miðað við það sem var og sitt sýnist hverjum um framtíð Sjallans og ástand hans. En eitt er víst að þetta er einn sögufrægasta skemmtistaður og sögulegt gildi hússins í skemmtana- og menningarsögu landsins ótvírætt og má vel færa rök fyrir friðlýsingu hússins af þeim sökum. Sá sem þetta ritar fer oft í Sjallan og hefur gaman af, það hefur t.d. verið fastur liður hjá mér sl. sjö áramót eða svo að kíkja á Nýjársdansleik með Páli Óskari. Þess má geta hér að undirritaður hvorki drekkur sig fullan og er alls ekki liðtækur á dansgólfinu. Hvort sem um ræðir diskótek eða böll, leiksýningar, uppistönd eða brjálaða þungarokkstónleika finnst mér alltaf gaman að skella mér í Sjallann.  Þessi mynd er orðin fjögurra og hálfs árs, tekin 13.nóvember 2009 en ég ætlaði mér lengi vel að skrifa um Sjallann en einhvern veginn datt það upp fyrir. Svo er önnur tekin aðfararnótt 17.júní 2010 og sýnir mikið fjör utan við húsið, ball í gangi innan dyra.

 p6170058.jpg

Ágætu lesendur: Ykkur er meira en velkomið að deila hér undir "Athugasemdum" minningum úr Sjallanum síðustu hálfu öldina ef það er eitthvað sem þið viljið deila með gestum síðunnar. 

 


Hús dagsins: Hafnarstræti 100.

Á Hafnarstræti 100 var fyrst reist hús árið 1903 og voru það Sigtryggur Jóhannesson og Jónas Gunnarsson sem reistu þar hús. P4190004Af gömlum myndum má ráða að þar hafi verið um að ræða tvílyft timburhús á háum kjallara með aflíðandi risi. Segir í bók Steindórs Steindórssonar að þarna hafi þeir rekið fyrstu vélvæddu timburverslunina á Akureyri og hún búin sérstökum þurrkklefa og stór reykháfur sem honum fylgdi staðið upp úr húsinu lengi eftir að þeim rekstri lauk (Steindór Steindórsson 1993: 126). Síðar rak Balduien Ryel þarna verslun og íbúðir á efri hæðum en seinna Hótel Gullfoss undir stjórn Rannveigar Bjarnadóttur og síðustu árin rak Sveinn Þórðarson hótelið. Timburhúsið við Hafnarstræti 100 brann árið 1945 en núverandi hús var reist 1946. Þar er um að ræða fjórlyft steinsteypuhús með aflíðandi risi og miklum kvisti á framhlið. Húsið er í mjög góðri hirðu og var allt tekið í gegn að innan sem utan árin fyrir 2000. Skipt var um glugga, klæðningu að utan og efst hæðin byggð upp að nýju. Nú er húsið fjölbýlishús en verslun er á jarðhæð, en líkast til hefur hún verið verslunarrými frá upphafi. Ég man eftir Bókabúðinni Eddu þarna um 1990 en á efri hæðum voru lengi vel skemmtistaðir og veitingastaðir. Margir tala einmitt um þetta hús sem H-100 en þarna var rekin skemmtistaður með því nafni- vísar til Hafnarstrætis 100. Þessi mynd er tekin 19.apríl 2014.

PS. Hér er einnig skemmtileg umfjöllun Jóns Inga Cæsarssonar um götumyndina sem var í Hafnarstræti og þar sést forveri þessa húss á lóðinni.

Heimildir: Steindór Steindórsson 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.  


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 33

Eyrarlandsvegur 33  virðist lítið frábrugðið þeim hinum húsunum í röðinni á móti Menntaskólanum og gæti hæglega verið frá sama tímabili, þ.e. 3. áratug 20.aldar.P4190010 Staðreyndin er hinsvegar sú að húsið er mikið yngra. Húsið er byggt árið 1971 eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar en ekki er mér kunnugt um hverjir stóðu fyrir byggingunni. Það er ekki gott að segja hvort húsið sé einlyft á kjallara eða tvílyft því hæðarmismunur lóðar gerir það að verkum að það er hærra austanmegin heldur en götumegin, og gildir slíkt hið sama um húsin á þessum slóðum. En götumegin viðrist húsið einlyft. Húsið er með háu risi og snýr göflum en húsið er í raun þrístafna því ein örmjó álma  gengur úr húsinu að sunnanverðu. Forstofubygging er á húsinu framanverðu og svalir ofaná en einnig eru svalir til suðurs og austurs. Í húsinu eru allavega þrjár íbúðir, ein á hverri hæð. Húsið er í góðu standi og fellur vel inn í götumyndina- sem er ekki alltaf sjálfgefið með hús sem eru reist 40-50 árum seinna en næstu hús. Svo virðist sem þess hafi verið gætt í hvívetna við hönnun hússins, sem er hvorki áberandi stærra eða mikið öðruvísi í laginu en húsin nr. 27-31 og 35 við Eyrarlandsveg. Myndin er tekin 19.apríl 2014. 

 Heimildir: Akureyrarkaupstaður.2014. Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar. Sjá tengil í texta.


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 31

Eyrarlandsveg 31 reistu þau Vilhjálmur Júlíusson og Elín Sveinbjarnardóttir árið 1923.P4190009 Hann var frá Barði en það var hjáleiga frá Eyrarlandi og stóð bærinn um 100m norðan við þetta hús á brún hins mikla gils þar sem  Menntavegurinn hlykkjast frá Hafnarstræti við Samkomuhúsið. Gil þetta heitir einmitt Barðsgil. Barðsbærinn er löngu horfin en Vilhjálmur var sonur síðasta bóndans þar, Júlíusar Kristjánssonar. Eyrarlandsvegur 31 er einlyft steinsteypuhús með portbyggðu risi. Forstofuskúr er á framhlið og inngönguskúr eða stigabygging á norðurhlið. Krosspóstar eru í gluggum. Húsið er mjög sviplíkt næsta húsi norðan við, nr. 29 en húsin eru reist sama ár og mögulega eftir sama höfund.  Húsið er líkast  lítið breytt frá upprunalegri gerð en virðist traustlegt og í góðu standi. Líkt og húsin í þessari röð er húsið einbýli og hefur verið svo frá upphafi. Þessi mynd er tekin 19.4.2014.  

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 29

Eyrarlandsveg 29 reistu hjónin Júníus Jónsson og Soffía Jóhannsdóttir árið 1923.P4190008Húsið er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með portbyggðu háu risi. Húsið snýr stafni að götu líkt og öll húsin í þessari röð og á framhlið er forstofu með risi en á norðurhlið annar minni inngönguskúr. Krosspóstar eru í gluggum en á forstofu eru skrautlegir margskiptir gluggar beggja vegna dyra og bogalaga skraut ofan við þær. Að öðru leyti er húsið nokkuð látlaust og einfalt í útliti. Húsið hefur líkast til ekki tekið stórvægilegum breytingum að utanverðu og því virðist vel við haldið. Skorsteinn hefur verið fjarlægður af húsinu en á myndinni má sjá ljósbláan ferhyrndan blett efst á miðri þekjunni. Það er líkast til fyrrverandi skorsteinsstæði. Húsið og lóð virðist í góðri hirðu. Þessi mynd er tekin 19.apríl 2014 og á myndinni má greinilega sjá skugga ljósmyndarans. 

Heimildir: Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.  


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 27

Á brekkubrúninni framan við Menntaskólan á Akureyri og Lystigarðinn liggur efri hluti Eyrarlandsvegar. Þessi gata átti einhvern tíma að heita Fagrastræti og taldist syðsta húsið, Eyrarlandsvegur 35, upprunalega standa við Fagrastræti 1. Ég hef þegar fjallað um það hús en nú er ætlunin að taka fyrir húsaröðina frá 27 að 33 í hækkandi númeraröð. Þetta eru sviplík hús, vegleg steinhús frá 3. áratug 20.aldar með einni yngri undantekningu og mynda glæsilega heild. 

P4190007

Húsið á Eyrarlandsvegi 27 reistu hjónin Ólafur Sumarliðason skipstjóri og Jóhanna Björnsdóttir árið 1928. Teikningar gerði Einar Jóhansson.  Húsið  er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stendur á háum kjallara. Húsið snýr stafni að götu og snýr austur- vestur, líkt og öll næstu hús sunnan við. Á suðurhlið er lítill miðjukvistur og svalir framan við hann. Húsið er nokkuð skrautlegt og ber þess merki að hafa verið reist af miklum efnum. Húsið er með steyptu bogadregnu skrauti á göflum og á framhlið er bogadregið útskot með lauklaga þaki (held ég hafi heyrt einhvers staðar eða lesið að svona  þakbúnaður kallist "karnap"). Ef húsinu er flett upp í Landupplýsingakerfi Akureyrar kemur í ljós að húsinu var breytt lítillega 1964 og 1972 og bílskúr var reistur á lóðinni árið 1979 eftir teikningum Aðalsteins Júlíussonar. (veljið flipan "teikningar" til vinstri og sláið húsið inn undir "Gögn"- "Heimilisfangaleit" og "Opna skýrslu" til að nálgast upplýsingarnar). Húsið mun ekki hafa skipt oft um eigendur fyrstu áratugina, en lengi vel bjó Einar sonur Ólafs og Jóhönnu eftir þeirra dag. Húsinu er vel við haldið og lítur glæsilega út sem og einnig gróskumikil lóð, en gróðurinn er kannski ekki áberandi á þeim árstíma sem myndin er tekin þ.e. snemma vors. En myndin er tekin um klukkan sjö í gær, 19.apríl 2014. 

Heimildir: Akureyrarkaupstaður.2014. Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar. Sjá tengil í texta.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs.  Reykjavík: Örn og Örlygur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.7.): 41
  • Sl. sólarhring: 48
  • Sl. viku: 442
  • Frá upphafi: 450764

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 332
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband