20.4.2014 | 09:44
Gleðilega páska
Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegra páska. Meðfylgjandi eru þessar myndir, sem teknar eru laust fyrir klukkan 9 af Eyjafjarðarfjöllunum Súlum og Bónda og Kerlingu en síðarnefndu fjöllin eru falin bakvið hríðarský.

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2014 | 11:04
Hvað er framundan í Húsum dagsins ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2014 | 11:35
Hús dagsins: Kaupangsstræti 16 og 14.
Ég er enn staddur í Gilinu og nú eru það efstu húsin norðan megin sem eru til umfjöllunar. Kaupangsstræti 16 sem er hér í forgrunni þekkja sjálfsagt margir best í dag sem Myndlistarskólann en húsið er eitt af elstu verksmiðjuhúsunum sem standa þarna. Húsið er að stofni til frá árinu 1922 og var byggt sem skinnaiðnaðarhús. Húsið er tvílyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu risi en á bakhlið er viðbygging, einnar hæðar með flötu þaki. Þverpóstar eru í gluggum. Húsið er að mestu leyti óbreytt að utanverðu frá miðri 20.öld. Oft er það svo í þessum umfjöllunum að gamlar myndir eru bestu heimildirnar. Enda segir máltækið að

Bakhúsið, sem telst Kaupangsstræti 14 og 14b er einnig stórskemmtileg bygging en þar er um að ræða lager eða geymslubyggingu frá 1942. Húsið er steinsteypt og myndi líkast til kallast þrílyft en ekki gott að segja hvað það er á mörgum hæðum. Byggingarlag hússins miðast nefnilega við gilbarminn og er húsið með hallandi þaki á langveginn og er breiðast efst. Semsagt, stórskemmtilegt í laginu. Auk þess er húsið að ég held hluta til byggt á pöllum. Húsið er í góðu standi líkt og framhúsið og í því eru bæði skrifstofur, vinnustofur listamanna og einnig íbúð. Þessi mynd er tekin 26.mars 2014.
Heimildir: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Morgunblaðið 23.apríl 1950 (sótt af timarit.is 27.3.2014- sjá tengil í megintexta).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2014 | 07:13
Hús dagsins: Kaupangsstræti 10-12
Síðustu vikurnar hef ég einbeitt mér að Miðbæjarsvæðinu og næst eru það nokkur hús í Gilinu eða Grófargilinu eins og það heitir. Það hefur síðustu tvo áratugina gengið undir nafninu Listagil enda mikil uppbygging listasafna og listatengdrar starfsemi átt sér stað frá 1993. En gatan sem liggur upp Gilið heitir Kaupangsstræti.

Ég hef þegar tekið fyrir byggingarklasan sunnanmegin í Gilinu en á móti, í húsi númer 10 er Listasafnið á Akureyri til húsa. Húsið var byggt fyrir Mjólkursamlag KEA árin 1938-39 eftir teikningum Þóris Baldvinssonar og tekið í notkun árið 1939. Mjólkursamlag KEA fluttist í húsið úr Kaupangsstræti 6. en það hús var líkast til orðið allverulega þröngt fyrir starfsemina. Húsið er steinsteypt á fjórum hæðum og hefur verið oftsinnis verið breytt og bætt við það en stærst er sennilega viðbyggingin austan til upp við gilbrún sem tekin var í notkun 1950. Það bendir til þess að umsvif Mjólkursamlagsins hafi aukist hratt, að aðeins á innan við áratug var hún búin að sprengja utan af sér þetta mikla stórhýsi. Mjólkursamlagið var í þessari byggingu í rúm 40 ár eða til 1980 að það fluttist í nýja mjólkurstöð við Súluveg þar sem enn er samlag- undir merkjum MS. Brauðgerð KEA var á þriðju hæð hússins frá 1981 og til 1998 en Listasafn Akureyrar fluttist á aðra hæð um 1993. Aðrir hlutar hússins hafa síðustu tvo áratugina hýst ýmis gallerí; Samlagið, Boxið og í kjallara er sýningasalurinn Populus Tremula þar sem stundum eru haldnir tónleikar. Ég man eftir því um 1998-99 eftir að Brauðgerð KEA var lögð niður að uppi voru hugmyndir um að Skugga- Lakkrís verksmiðjan flyttist í rýmið á þriðju hæð. Lakkrísverksmiðjan var að flytjast af Gleráreyrum en þá var verið að rýma verksmiðjuhúsin þar vegna nýbyggingar Glerártorgs. Það féll ekki í góðan jarðveg meðal Listasafns og annarra þeirra er nýttu þetta hús, enda var fyrirséð að þessi starfsemi færi ekki saman við menningarstarfsemi og væri öfugþróun miðað það sem verið hafði í Gilinu árin á undan. Það fór aldrei svo að lakkrísverksmiðjan kæmi hingað en handverksmiðstöðin Punkturinn- sem einnig hafði haft aðsetur á Gleráreyrum- fluttist í þetta rými. En líkt og aðrar byggingar í Gilinu hefur í Kaupangsstræti 10-12 alla tíð verið líf og fjör jafnvel þótt einhverjir hlutar hússins hafi um einhver tímabil staðið auðir. Þessi mynd er tekin laugardaginn 18.janúar 2014.
Bloggar | Breytt 18.3.2014 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2014 | 16:52
Hús dagsins: Kaupangsstræti 19-23
Ein þeirra húsaþyrpinga sem ég hef ævinlega fundið mig knúinn til þess að taka fyrir hér á síðunni er Gilið sem raun heitir Grófargil en hefur síðustu tvo áratugina gengið undir nafninu Listagil. En hér er um ræða fyrrverandi iðnaðarsvæði sem hefur frá því um 1992 verið einskonar hjarta lista og menningar á Akureyri.

Sunnan megin gils er áberandi mikil sambygging tvílyftra steinsteypuhúsa en þau standa númer 19-23. Húsin eru öll svipuð að gerð og útliti og reist árin 1930-50. Elstur er miðhlutinn byggður 1930 (appelsínuguli hlutinn) en neðsti hlutinn er reistur 1933. Yngstur er efsti hlutinn er þar er um að ræða viðbyggingu frá 1949 en hún er á þremur hæðum. Hús nr. 21 og 23 eru með flötu þaki en neðsti hlutinn (19) með skúrþaki. Ég hreinlega veit ekki hvort þrílyfta byggingin sé seinni tíma tenging á milli húsanna 19 og 21 en sú bygging var alltént komin 1958 (skv. mynd á bls. 143 í bók Steindórs Steindórssonar 1993). En elsti hluti þessarar samstæðu var reistur fyrir Smjörlíkisgerð KEA en fljótlega (1935) var framleiðslan aukin og sem framleiddar sultur, saftir og búðingar og fleira og sú starfsemi varð að sjálfstæðum rekstri sem kallaðist Efnagerðin Flóra árið 1950. Þá fluttist Smjörlíkisgerðin í viðbygginguna, efsta hluta húsasamstæðunnar en um líkt leyti flutti Pylsugerð KEA á neðri hæð eldra hússins en Flóra var með sína framleiðslu á efri hæðinni. Neðsti hluti hússins hýsti einnig ýmsan iðnað, þarna var t.d. Húsgagnasmiðjan Einir og seinna billjardstofa, kölluð "Billinn" í daglegu tali. Iðnaðarstarfsemi hvers konar lauk í þessum húsum 1991 en síðan hafa þarna verið starfrækt kaffihús (Kaffi Karólína, Brugghúsbarinn) og tónleika- og listsýningasalurinn Deiglan í miðhlutinn en íbúðir á efri hæðum. Fornbókabúðin Fróði er á götuhæð neðsta hússins. Það væri heldur langt mál að telja upp alla þá starfsemi sem húsin hafa hýst þessa rúmu 8 áratugi en hlutverk húsanna hefur vissulega tekið miklum stakkaskiptum. Húsin, eins og öll húsin í Gilinu geyma merka sögu Akureyrar sem iðnaðarbæjar á 20.öld og hefur söguskiltum verið komið fyrir á nokkrum þeirra þ.m.t. 19-23. Myndin eru tekin 18.janúar 2014.
Heimildir: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2014 | 11:43
Hús dagsins: Hafnarstræti 102.
Á Hafnarstræti 102 var fyrst reist tvílyft timburhús með háu risi árið 1904 en það reistu þeir Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Gunnarsson. Húsið sneri stafni að götu og þar voru framan af bæði verslanir og íbúðir en eftir hernám 1940 hafði Breska setuliðið afnot af húsinu.

Húsið brann veturinn 1942 og var orðið mjög niðurnítt. Það var eitt þeirra stórhýsa í Miðbænum sem bar nafn erlendra stórborga, kallað Rotterdam en sú nafngift kom kannski ekki til af góðu- nefnilega af óhemjumiklum rottugangi !
Það hús sem nú stendur á lóðinni er að öllu jöfnu kennt við Símann eða Póst og Síma en það er reist árið 1945. Húsið er stórt steinsteypuhús, fjórlyft með skúrþaki og er efsta hæðin inndregin og svalir meðfram götuhlið- svipað og á næsta húsi norðan við. Húsið er klætt svokölluð skeljasandi en á götuhæð eru einhverskonar flísar. Póstar í gluggum eru einfaldir og síðir verslunargluggar á götuhæð. Húsið er raunar tvær fjögurra hæða álmur og snýr önnur þeirra að Skipagötu sem liggur samsíða Hafnarstrætis austan megin. Tveggja hæða tengibygging er á milli. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á húsunum bæði að utan og innan enda hafa kröfur til atvinnuhúsnæðis breyst þó nokkuð gegn um tíðina- auk þess sem ný starfsemi kallar oft á breytingar. Húsið var aðsetur Pósts og Síma í meira en hálfa öld, símstöðin var í Hafnarstrætisálmunni og lengi vel var Pósthús bæjarins í álmunni sem snýr að Skipagötu. Nú eru í húsinu verslunin Rexín, Wise, gistiheimili og í bakhúsinu er skemmtistaðurinn Pósthúsbarinn en sú nafngift vísar til fyrra hlutverk hússins. Það er ekki óalgengt að skemmtistaðir og veitingastaðir dragi nafn sitt af þeirri starfsemi sem áður var í húsnæði þeirra. Það þykir þeim sem þetta ritar frábær viðleitni til að halda sögu húsanna á lofti. Hafnarstræti 102 myndi sjálfsagt seint teljast skrautlegt hús og sjálfsagt þykir einhverjum húsið hálfgerður "steinkumbaldi". Vitaskuld er húsið ákveðin andstæða við gömlu timburhúsin (París, Hamborg) neðar við "Göngugötuna" En húsið er hvað sem því líður er Símahúsið rótgróinn hluti Miðbæjarins enda um 70 ára gamalt og er vel viðhaldið lítur vel út. Þá geymir húsið mikla sögu og þarna hafa þúsundir manna starfað. Ég þori hins vegar ekki að fullyrða um hvort nokkurn tíma hafi verið búið í húsinu...Þessi mynd er tekin 18.janúar 2014.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2014 | 10:09
Hús dagsins: Hafnarstræti 104; Akureyrar Apótek
Ég held áfram með umfjöllunina um húsin efst í Hafnarstræti austan megin. Hús númer 106 fjallaði ég um fyrir rúmu ári síðan eða 9.janúar þ.a. nú er röðin komin að stórhýsinu við Hafnarstræti 104, sem lengst af hýsti Akureyrar Apótek. Húsið reisti Oddur Carl Thorarensen lyfsali árið 1929 en Akureyrar Apótek flutti þá í þetta hús úr Aðalstræti 4 (Gamla Apótekið) . Húsið er þrílyft steinsteypuhús en upprunalega var það með háu risi og steyptum "tröppum" á stöfnum. Á bls. 130 í Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs má sjá hvernig húsið leit úr upprunalega. Sú mynd er líklega tekin um 1940. Ekki veit ég hvenær húsið fékk núverandi útlit en einhverntíma var byggð upp fjórða hæð hússins. Hún er með hallandi skúrþaki og svölum langsum eftir framhliðinni. Húsið hefur alla tíð verið verslunar- og skrifstofuhús en einnig hefur verið búið í húsinu á efri hæðum. Þarna var einnig um árabil Heilsuverndarstöð Akureyrar á annarri hæð. Apótek var starfrækt á götuhæð einhver ár framyfir aldamótin 2000 en nú eru þar minjagripaverslunin VIKING og Fasteignasala Akureyrar. Efri hæðir eru hinsvegar gistirými. Húsið er eitt þeirra miklu stórhýsa sem ramma inn Göngugötuna svokölluðu (segi þetta þar sem efsti hluti Hafnarstrætis hefur ekki verið eiginleg göngugata í nokkur ár) og lítur vel út og virðist vel við haldið. Þessi mynd er tekin 18.jan 2014.
Heimildir: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2014 | 17:21
Hús dagsins: Hafnarstræti 108
Næstu vikur mun ég færa mig frá norðri til suðurs og upp Gilið í umfjölluninni minni og taka fyrir nokkur hús í þeim hluta Hafnarstrætis sem kallast í daglegu tali Göngugatan en hefur þó ekki verið göngugata í um áratug. Hafnarstræti 108 sést hér á myndinni en húsið er byggt árið 1930. Húsið byggðu í félagi hjónin Hulda Jensson og Snorri Guðmundsson byggingarmeistari og Friðjón Jensson kjörfaðir hennar en hann var læknir og tannlæknir. Húsið er þrílyft steinsteypuhús með háu risi og stórum miðjukvisti á framhlið og tveimur minni sitt hvoru megin. Þá eru einhverjir kvistir á bakhlið. Í gluggum eru þverpóstar með margskiptum efri gluggafögum. Friðjón rak þarna tannlæknastofu lengi vel og bjó jafnframt í húsinu en ýmis önnur starfsemi hefur verið í þessu húsi. Sennilega hefur alla tíð verið verslunarrekstur á jarðhæð. Meðal fjölmargra verslana sem þarna hafa verið eru skóverslun Hvannbergsbræðra og Bókabúð Jónasar var þarna um árabil fram yfir aldamót 2000. Síðustu sjö árin hefur Kristjánsbakarí verið þarna til húsa en bakaríið flutti úr Hafnarstræti 98 þegar til stóð að rífa það, en sú var ekki raunin. Íbúðir og eða leiguherbergi eru á efri hæðum hússins. Húsið lítur vel út og hefur líkast til ekki breyst mikið í útliti frá upphafi. Sérkennilegir gluggar og rammar og kantar utan um þá gefa húsinu skemmtilegan svip. Þessi mynd er tekin 18.janúar 2014.
Heimild: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur
Bloggar | Breytt 25.2.2014 kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2014 | 09:26
Hús dagsins: Hólabraut 13; Zíon.
Næstu vikur mun ég taka fyrir hús í Miðbænum og færa mig upp Gilið. Fer ég þá frá norðri til suðurs að Gilinu, hugsanlega með einhverjum undantekningum og byrja hér á horni Hólabrautar og Gránufélagsgötu/Oddeyrargötu en síðarnefnda gatan er í beinu framhaldi þeirrar fyrrnefndu. Oddeyrargatan sveigir uppfrá Gránufélagsgötunni og klífur Brekkuna til suðvesturs. Á þeim stað stendur þetta hús, Hólabraut 13. Húsið er byggt árið 1933 af Kristniboðsfélagi Kvenna, en ekki er mér kunnugt um byggingarmeistara eða teiknara. Ég er hreinlega ekki klár á því hvort húsið steinsteypuhús eða forskalað (múrhúðað) timburhús. Húsið er einlyft á háum kjallara og með portbyggðu risi en aðeins er milliloft á litlum hluta rishæðar, vestan megin. Stór hluti hæðarinnar er nefnilega salur sem nær alveg upp í rjáfur. Það eru þverpóstar í flestum gluggum og í kjallara eru síðir verslunargluggar. Áratugum saman eða fram yfir 1990 var húsið notað til samkomuhalds KFUM og KFUK og einhvern tíma hlaut húsið viðurnefnið Zíon, vísun til kristilegrar starfsemi. Í kjallara hússins hefur síðustu árin verið verslunarstarfsemi, m.a. vídeóleiga og síðustu sjö árin skrautmunaverslunin Bakgarðurinn. Eftir að KFUM og K seldu húsið hefur hæðin verið m.a. sýningarsalur og nýttur til ýmiss samkomuhalds auk þess sem Framsóknarflokkurinn hafði þarna lengi kosningaskrifstofu og enn er Framsóknarmerkið á húsinu. Þessi mynd er tekin laugardaginn 18.janúar 2014.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2014 | 08:51
Hús dagsins: Norðurgata 2b
Umfjölluninni minni um Norðurgötuna lýkur á bakhúsinu á lóðinni við númer 2. Þetta látlausa hús á sér mikla sögu og hefur hýst ýmsa starfsemi en í bók Guðnýjar Gerðar og Hjörleifs um Oddeyrina segir að húsið hafi reist Sófanías Baldvinsson árið 1911. Hvort húsið var reist sem íbúðarhús eða undir aðra starfsemi fylgir ekki sögunni en húsið er einlyft steinsteypuhús með háu portbyggðu og tiltölulega aflíðandi risi. Þverpóstar eru í gluggum og bakatil er húsið sambyggt ýmsum seinni tíma skúrbyggingum. Líklegt gæti einnig verið að húsið hafi verið reist sem gripahús en þarna hafa verið hýstir hestar og ýmsar skepnur. Ég hef ekki mörg ártöl á hraðbergi um þetta hús en hitt veit ég að ýmis starfsemi hefur verið í þessu húsi auk þess sem það hefur búið í því. Þarna var lengi vel reykhús og þetta mun einnig vera fyrsta aðsetur Ríkisútvarpsins á Akureyri en útvarpið keypti húsið 1979 og hafði þarna hljóðver um nokkurt árabil og kallaðist húsið þá Hljóðhúsið. Lionshreyfingin hafði þarna aðsetur um nokkurt árabil þar til framyfir 2000 og var húsið þá notað til funda og samkomuhalds. Húsið er í góðu standi og lætur ekki mikið yfir sér og ekki áberandi í götumynd Norðurgötunnar en er engu að síður stórmerkilegt og skemmtilegt hús. Þessi mynd er tekin 30. jan. 2014.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri
+ Ýmsar munnlegar heimildir frá Oddeyringum og öðru góðu fólki í sögugöngum og á förnum vegi...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.7.): 17
- Sl. sólarhring: 54
- Sl. viku: 418
- Frá upphafi: 450740
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 313
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar