Hús dagsins: Eiðsvallagata 3

Þann 17.september 1928PA310012 kom Bygginganefnd Akureyrarbæjar saman á fundi. Meðal erinda var afgreiðsla bréfs frá Magnúsi Einarssyni organista þar sem hann fór fram á að fá “...leigða lóð norðan Eiðsvallagötu og austan Norðurgötu, næstu lóð austan við hornlóðina [ innskot: þar er átt við lóðina Eiðsvallagötu 1 en þar var ekki risið hús enn ] að fá að byggja á henni íbúðarhús úr steinsteypu, tvílypt á lágum grunni, að ummáli 8,6x7,6m . (Bygg.nefnd Akureyrarbæjar 1928) Magnús fékk lóðina og leyfið og líklega hófst bygging vorið eftir. Eiðsvallagata 3 mun því vera elsta húsið við Eiðsvallagötuna , byggt 1929. Magnús reisti þetta hús líklega í félagi með Baldvini Júníussyni en árið 1930 eru tveir skráðir þarna til heimilis ásamt fjölskyldum sínum, alls 8 manns. Þannig hafa tvær íbúðir verið í húsinu í upphafi. En húsið er sem áður segir, tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni en neðri hæð eilítið niðurgrafin og með háu risi. Á austurhlið er inngönguhús á efri hæð með tröppum en miklar svalir á vesturhlið en bílskúr við norðurhlið. Allt er það tilkomið eftir aldamótin 2000 og upprunalega var lægra ris á húsinu en nú er. Nýlegir sexrúðupóstar eru í gluggunum. Húsið hefur eftir því sem ég best veit alla tíð verið íbúðarhús og þarna hafa margir búið, átt og leigt. Svona eins og gengur og gerist með hús á níræðisaldri. Ekki er ég frá því að húsið hafi um eitthvert skeið verið einbýli en í dag eru í því tvær íbúðir, líkt og í upphafi, ein á neðri hæð og önnur í hæð og risi. Húsið er nýlega uppgert bæði að utan og innan og er til mikillar prýði í umhverfi sínu og frágangur allur til fyrirmyndar a.m.k. að mati undirritaðs.Þessi mynd er tekin þ. 31.október 2014. 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 619. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. (Nefndarmenn: Jón Sveinsson, Sigurður Bjarnason, Hallgrímur Davíðsson, Erlingur Friðjónsson, Halldór Halldórsson og Sigtryggur Jónsson.)

 

Manntal á Akureyri 1930. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 1

Í síðustu færslu tók ég fyrir Eiðsvallagötu 30 en mynd af því húsi tók ég fyrir hartnær tveimur árum, það er snemma í janúar 2013. Ætlunin þá var að taka það hús fyrir fljótlega en það dróst. Nú hef ég hins vegar ljósmyndað húsin við Eiðsvallagötu og ætla mér að taka götuna alla fyrir á næstu vikum. Uppröðun húsanna við Eiðsvallagötuna er eilítið sérstök, líkt og stundum er með eldri göturnar á Oddeyrinni. PA310017Efsta hús við Eiðsvallagötu norðan megin er hús númer eitt, en það stendur nokkrum tugum metra neðan við það efsta hús sunnan við, það er númer fjögur. Hér mun ég taka þann pól í hæðina að taka húsin fyrir í númeraröð. Eiðsvallagata 1 stendur beint á móti 18 á horni götunnar og Norðurgötu, en ástæðan fyrir þessu er líkast til Eiðsvöllurinn, sá iðagræni sælureitur Eyrarinnar. Hann stendur efst við Eiðsvallagötuna og afmarkast af henni í suðri, Glerárgötu í vestri, Grænugötu í norðri og Norðurgötu í austri. Neðri hluti vallarins er afgirtur leikvöllur en efri hlutinn er grænt svæði.

Elstu húsin við Eiðsvallagötuna voru reist árið 1930 og í hópi þeirra er Eiðsvallagata 1. Húsið reisti Þórður Jóhannsson húsgagnasmiður árið 1930 eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar. Eiðsvallagata 1 er tvílyft steinsteypuhús með háu og bröttu risi og miðjukvisti á götuhlið. Á bakhlið er stór kvistur með skúrþaki sem er seinni tíma viðbót en ekki finnast teikningar af honum. Sennilega hefur hann verið byggður þegar ris var innréttað sem íbúð. Á austurhlið hússins eru steyptar svalir og hafa þær líkast til verið frá upphafi. Alltént eru svalir á teikningum Sveinbjarnar. Ekki er ósennilegt að fyrsti eigandi hússins hafi stundað iðn sína á fyrstu hæð hússins og önnur hæðin verið íbúðarhæð og rishæðin geymslurými. Nú eru hins vegar þrjár íbúðir í húsinu, ein á hverri hæð. Húsið lítur vel út og er í góðri hirðu og á lóð. Myndin er tekin  31.október 2014.

Heimildir: Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson (1996).Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982.Reykjavík: Fjölvi.

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 30

Eiðsvallagata liggur sunnarlega á Eyrinni, samsíða Gránufélagsgötu og Strandgötu. Hún liggur austur- vestur milli Hjalteyrargötu og Glerárgötu en ekki er keyrt inn í götuna frá hvorugum þeim götum. Neðarlega við götuna á horninu við Hríseyjargötu stendur Eiðsvallagata 30. 

P1120041

  Húsið reisti Stefán Guðjónsson árið 1931 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar byggingarfulltrúa.Eiðsvallagata 30 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Krosspóstar eru í gluggum og járn á þaki. Húsið hefur líkast til verið einbýlishús í fyrstu en þar bjuggu þau Stefán og kona hans, Benedikta Sigvaldadóttir ásamt börnum sínum. Sonur þeirra var Hreiðar kennari og rithöfundur en hann er eflaust þekktastur fyrir Öddu-bækurnar sem hann skrifaði ásamt konu sinni, Jennu Jensdóttur. Þau starfræktu árin 1942-1963 barnaskóla sem kallaðist Hreiðarsskóli eða smábarnaskólinn. Í einhverri sögugöngu um Oddeyrina heyrði ég af því að skólahaldi hafi fyrstu árin verið hér, á heimili Hreiðars en lengst af var Hreiðarsskóli starfræktur ofarlega í Gránufélagsgötu, í húsi sem nú er horfið. Að öðru leiti hefur húsið verið íbúðarhús en einhvers staðar heyrði ég að á neðri hæð hafi um tíma verið vélsmiðja eða verkstæði á neðri hæð og um tíma vélskóli. Húsið virðist nánast  óbreytt að utanverðu frá fyrstu gerðog gluggaskipan er sú sama og á upprunalegum teikningum. Nú eru í húsinu tvær íbúðir, hvor á sinni hæð. Þessi mynd er tekin 12.janúar 2013.  


Hús dagsins: Aðalstræti 54b

 

PA050022

Kannski er Nonnahús frægasta húsið á Akureyri. Það þekkja ekki einungis  Akureyringar og flestir aðrir landsmenn heldur fjölmargt fólk víða um heim. Þangað kemur fjöldi ferðamanna víðsvegar að úr heiminum í hálfgerðar pílagrímsferðir til að berja augum þetta æskuheimili rithöfundarins valinkunna. En Jón Sveinsson, Nonni, rithöfundur bjó lengst af og starfaði í Þýskalandi og átti þar fjölmarga aðdáendur og bækur hans hafa verið þýddar á fjöldann allan af tungumálum og víða notið vinsælda. En þetta heimsfræga hús er hvorki háreist né áberandi og stendur á baklóð en við götuna, framan við Nonnahús stendur  einmitt húsið hér á myndinni, Aðalstræti 54b.

Aðalstræti 54n er byggt í áföngum eins og glögglega má sjá. 

PA050020

En húsið reisti Davíð Sigurðsson árið 1896 og 1905. Eldra húsið, það er það syðra er einlyft timburhús með háu portbyggðu risi og á steyptum kjallara með miðjukvisti og öðrum sambyggðum gaflkvisti. Forstofubygging með skrautrúðum er á suðurgafli hússins en einlyftur inngönguskúr stendur við bakhlið. Yngra húsið er einnig úr timburhús, tvílyft á kjallara og með lágu risi með inngönguskúr á norðurhlið. Norðurhlutinn snýr A-V en suðurhluti N-S. Krosspóstar eru í gluggum og er húsið allt klætt steinblikki. Upprunalega reisti Davíð þarna íbúðarhús en þá (1896) var hann búsettur í Nonnahúsi. Árið 1905 byggir hann við húsið tvílyfta byggingu sem var verslun og smíðahús. Líklegt þykir mér að hann hafi verslað á hæðinni, smíðað í kjallaranum og haft skrifstofur og geymslur eða íveruherbergi fyrir starfsmenn sína á þeirri efri. (Fylgir ekki sögunni- aðeins getgátur undirritaðs.)   Árið 1929 er norðurhlutinn innréttaður sem íbúð og skiptist þá í tvo eignarhluta. Eigendur þá eru nafnarnir Jakob Magnússon sem átti neðri hæð og Jakob Lilliendal sem átti þá efri. Ein íbúð var í suðurhluta en þann hluta hússins eignuðust Zontakonur fyrir hálfri öld, 1965, og hafa þar haft félagsheimili sitt síðan. Ein íbúð er nú í norðurhluta og hefur verið svo um árabil. Húsið er óneitanlega sérstakt og skemmtilegt í útliti enda er hér um að ræða tvö sambyggð hús sem hvort um sig hefur sín sérkenni. Það að hafa húshlutana í mismunandi litum skerpir síðan enn á mismunandi gerð húsanna. Húsið og lóðin umhverfis eru til mikillar prýði í umhverfinu. Myndirnar hér eru teknar í haustblíðunni um seinnipartinn sunnudaginn 5.október 2014.

Heimildir:  Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin 


Hús dagsins: Lækjargata 14

Lækjargötu 14 reisti Sigurður Sumarliðason skipstjóri árið 1914 og á því húsið aldarafmæli þegar þetta er ritað.P9140033 Húsið er reist úr múrsteinum og flutti Sigurður þá inn sjálfur á skipi sínu- en ekki fylgir sögunni hvað skipið hét. Húsið er einlyft hús á háum kjallara og með lágu valmaþaki auk bakbygginga sem eru steinsteyptar. Inngangur er á austurhlið og að honum eru steyptar tröppur. Krosspóstar eru í gluggum. Ekki leið á löngu frá byggingu hússins að byggt var við það en árið 1926 var byggður steinsteyptur skúr á bakhlið þess. Húsið hefur líkast til alltaf verið einbýlishús með geymslurýmum í kjallara. Ytra byrði hússins í meginatriðum lítið breyst þessi 100 ár sem það hefur staðið, en á mynd frá 1915 ( Steindór Steindórsson 1993: 160) er ekki búið að múrhúða húsið en sem áður segir er það hlaðið úr múrsteini. Húsið er í góðu standi og lítur vel út. Þrátt fyrir að vera aldargamalt er það eitt yngsta húsið í Lækjargötu og eitt fárra steinhúsa við götuna en flest húsin við götuna eru byggð fyrir aldamótin 1900. Ég hef nú fjallað um hvert einasta hús við þá ágætu götu og hér að neðan birti ég von bráðar tengla á allar umfjallanir mínar um Lækjargötuna. Þessi mynd er tekin 14.september 2014.

 Heimildir:  Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

 

 Hér eru færslur sem ég hef skrifað um húsin í Lækjargötu:

Lækjargata 2- 2a og 2b

Lækjargata 3

Lækjargata 4

Lækjargata 6

Lækjargata 7

Lækjargata 9 og 9a

Lækjargata 11

Lækjargata 11a

Lækjargata 18 og 22. 


Hús dagsins: Lækjargata 11a

Í síðustu færslu fjallaði ég um húsið á Lækjargötu 11 en á þessari mynd má sjá bakhús sem stendur á þeirri lóð en það er Lækjargata 11a. 

P9140031

Það er ekki gott að slá því föstu hvert byggingarár hússins er, en það er reist uppúr smiðju sem Sigurður Pétursson reisti árið 1884. Það ár fékk hann vítur frá Byggingarnefnd fyrir það að hafa byggt í óleyfi á lóð sinni, og mun þar um að ræða smiðjuna sem nú er kjarninn í þessu húsi. Á vef Landupplýsingakerfis Akureyrarkaupstaðar er gefið upp að byggingarár hússins sé 1907. Lækjargata 11a er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni með aflíðandi skúrþaki með smáum og einföldum gluggum. Það er bárujárnsklætt. Þá er á húsinu lítil bakálma, einlyft með skúrþaki og hugsanlega er þar um að ræða elsta hluta hússins- án þess að ég þori nokkuð að fullyrða um það. Húsið hefur um áratugaskeið verið íbúðarhús með einni íbúð en var sem áður segir smiðja í upphafi. Húsið er  nokkuð sérstakt í útliti og stendur auk þess á sérlega skemmtilegum stað í brekkufæti undir suðurbrún Búðargils. Það er hins vegar hvorki áberandi né ráðandi í umhverfi heldur lítið og látlaust og stendur í skjóli reynitrés. Lækjargata 11a virðist í mjög góðu standi, en klæðning og þakkantar og gluggar eru tiltölulega nýlegir (15-20ára). Þessi mynd er tekin sunnudaginn 14.sept. 2014. 

 Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin


Hús dagsins: Lækjargata 11

Búðargil er eitt mest þeirra gilja sem skera Akureyrarbrekkurnar og þar liggur Lækjargatan.

P9140034

 Stundum kalla menn gilið Lækjargilið, hugsanlega eftir götunni eða eftir læknum sem enn rennur ofanjarðar á köflum í efri hluta gilsins. En á þeim stað þar sem Lækjargatan er hvað bröttust stendur hús númer 11 við götuna, en það er komið vel til ára sinna, 140 ára á þessu ári. Lækjargötu 11 byggði maður að nafni Sigurður Pétursson árið 1874. Húsið er einlyft timburhús á lágum grunni og háu risi með miðjukvisti. Að framanverðu hefur risi verið lyft og bætt við húsið skúrbyggingu, jafn langri húsinu. Tjörupappi er á þaki en asbestplötur á veggjum. Það sem e.t.v. mætti kalla óvenjulegt við Lækjargötu er einmitt þetta, að risinu er lyft á götuhlið og byggt við það þar en kvistur og inngangur snýr að baklóðinni en nánast undantekningarlaust er þessu öfugt farið. Sigurður Pétursson átti húsið og lóðina um langt skeið, líklega til æviloka (1899) en 1908 er Kristján Sigurðsson orðinn eigandi hússins en hann lét stækka lóðina til suðurs. 

 

P9140032

Á blaðsíðu 160 í Akureyrarbók Steindór Steindórssonar (1993) má sjá mynd sem Hallgrímur Einarsson tók árið 1915 ofan úr Búðargili. Þar er húsið einlyft með háu risi en ekki komið á það kvistur né búið að lyfta risinu. Bakbyggingin (eða réttara sagt frambyggingin) lága er hins vegar komin þá. Á þeirri mynd sést örlítið bíslag eða inngönguskúr, sem nú er horfin, þar sem útidyr eru nú. 1930 var húsið stækkað af þáverandi eiganda, Árna Þorleifssyni og freistandi að telja að þá hafi húsið fengið það lag sem það hefur nú. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og líkast til einbýlishús en vel gæti hugsast að fleiri en ein fjölskylda hafi búið í húsinu í einu á fyrri hluta 20.aldar þegar  húsnæðisskortur var viðvarandi. Það hefur alltént verið stækkað sem óneitanlega bendir til þess að á þeim tímapunkti hafi íbúana skort pláss. Myndirnar með þessari færslu eru teknar 14.september sl. og sýna götuhlið (efri mynd) og hliðina sem snýr út að baklóð. 

Sem áður segir er húsið klætt asbestplötum en þær eru nú almennt taldar hið mesta skaðræði. En slíkar plötur voru áður hið mesta þarfaþing í byggingariðnaði, eldtraustar og endingargóðar og vel einangrandi. En hvað er þetta "baneitraða og stórhættulega" efni, asbest? Asbestos er raunar samheiti sex " fribrous silicat minerals"  eða trefjakenndra kísilsteinda. Þær eru samsettar úr magnesíum, súrefni, vetni og kísli (sílikoni). Algengasta gerð asbestsins er hvíta asbestið, líkt og klæðningin á Lækjargötu 11, heitir á fræðimáli Krýsótíl og hefur efnaformúluna Mg3Si2O5(OH)4.  Einnig eru til blátt asbest, Crocidolít og brúnt asbest, amosít Krýsólít er, eða var unnið úr námum m.a. í Kanada og Rússlandi, þannig þarna er ekki um að ræða tilbúið eða verksmiðjuframleitt efni. Uppúr 1970 fór að koma í ljós að asbestryk gat haft skaðleg áhrif á öndunarfæri manna. Örsmáar asbesttrefjarnar eru langar og þunnar og smjúga þær í gegn um öndunarveg og safnast fyrir í lungum (sbr. "asbestlunga") og er absestryk þekktur krabbameinsvaldur í lungum. Árið 1989 var notkun efnisins bönnuð í Bandaríkjunum og hefur asbesti yfirleitt verið úthýst í hinum vestræna heimi a.m.k. í nýframkvæmdum. Athuga ber að það er asbestrykið sem er skaðlegt; asbestplötur utan á húsum og á veggjum eru algjörlega sauðmeinlausar. En þegar absestið er rifið þá fara agnirnar af stað. Innan umhverfisfræðinnar eru menn  ekki á einu máli hvort asbest beri að uppræta úr gömlum mannvirkjum eða hvort það skuli einfaldlega látið vera. Haft var eftir vísindamanni nokkrum að uppræting asbests væti líkt og að vekja grimman hund af blundi með því að pota í hann en aðrir vilja meina að asbest í mannvirkjum sé líkt og tifandi tímasprengja. (Baird og Cann 2005: 135) Sjálfur tel ég að asbestið sé best látið kyrrt liggja nema eðlilegt viðhald krefjist þess. Ekki skyldi rjúka upp til handa og fóta við niðurrif allra asbestklæðninga í nafni heilsuverndar.

Heimildir: Baird, C. og Cann, M. (2005) Environmental Chemistry. New York: W.H. Freeman and Company.

 Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Joesten, M.D. og Wood, J.L. (1996) The World of Chemistry Orlando: Saunders College Publishing.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

 


Hlíðarskál 24.sept. 2014

Um daginn fjallaði ég um Hlíðarskál og snjófönnina þar. En mörgum Akureyringum og nærsveitungum þykir það spennandi síðsumar að fylgjast með því hvort slitni á milli efri og neðri hluta fannarinnar. Þessa mynd tók ég um sjöleytið í morgun en hún segir meira en þúsund orð. Í forgrunni eru húsin við Sólvelli 7 og 8 á norðanverðri Oddeyri en litlu ofar er íbúðablokk við ofanverða Brekkugötu.

P9240006 

 


Hús dagsins: Gránufélagsgata 19

Líkt og hús síðustu færslu, Fróðasund 4, stendur húsið hér á myndinni einungis nokkra metra frá Þjóðvegi 1 gegn um Akureyri, þ.e. Glerárgötu. P9080006Efst við þann hluta Gránufélagsgötunnar sem liggur neðan Glerárgötunnar stendur þetta hús, Gránufélagsgata 19. Húsið reisti Jónasína Þorsteinsdóttir árið 1925 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar, en hann teiknaði þó nokkur hús á Eyrinni á fyrri hluta 20.aldar. Gránufélagsgata 19 er tvílyft steinsteypuhús með lágu og aflíðandi risi og stendur á háum kjallara. Inngangur er á austurgafli og þar eru steyptar tröppur en á bakhlið- sem snýr í norður- er mjó tvílyft útbygging- stigahús eða inngönguskúr. Örlítil áhrif frá sk. jugend stíl sjást á húsinu en það eru bogadregnir toppar á stöfnum. Í gluggum eru krosspóstar. Það var ekki óalgengt á frumbýlingsárum steinsteypunnar að steinhús líktu eftir þeim algengustu svipmótum, sem tíðkast höfðu í timburhúsum. Gránufélagsgata 19 er þar ekki undantekning en það er í sjálfu sér ekki ósvipað í laginu og húsin Lundargata 15 og Norðurgata 11 í næsta nágrenni.  Gránufélagsgata 19 virðist traustlegt og glæsilegt hús að upplagi. Í því eru tvær íbúðir hvor á sinni hæð en geymslur í kjallara. Guðný Gerður og Hjörleifur (1995) meta það sem svo að húsið hafi varðveislugildi en það felst í nálægð hússins við Lundargötuna.  Þessi mynd er tekin þann 8.sept. 2014.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri; húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri.  


Hús dagsins: Fróðasund 4

Fróðasund skiptist í tvo stutta götustubba, hvor um sig um 50 metrar sitt hvoru megin Lundargötunnar. Ofan eða vestan Lundargötunnar standa tvö hús, númer 3 og  þetta hús, Fróðasund 4. P9080002Húsið byggðu þeir Eiríkur Kondrup og Þórir Haraldsson árið 1943 og var það reist sem verslunarhús, líkt og gluggar neðri hæðar vitna um. Teikningar af húsinu hafa varðveist og eru aðgengilegar á Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar, en ekki er vitað hver höfundur hússins er. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og stendur á lágum grunni. Ekki er kjallari undir húsinu. Á vesturhlið hússins er áfastur bílskúr, einnig með valmaþaki en á austurhlið er steinsteypt skúrbygging sem liggur að lóðarmörkum og er sameiginleg með næstu húsum. Gluggar eru með fjórskiptum póstum, bæði á efri hæð og einnig verslunargluggar á neðri hæð og virðast þeir í samræmi við upprunalegar teikningar að húsinu. Húsið er líkast til lítið breytt frá upphafi a.m.k. að ytra byrði. Nú er saumastofa á neðri hæð en ýmis starfsemi hefur verið þar gegn um tíðina. Íbúðir eru á efri hæðinni en einnig er lítil íbúð í bílskúrnum. Lóð hússins er ekki víðlend en hún stækkaði nokkuð fyrir fáeinum árum síðan þegar lítið bakhús, Lundargata 13b var rifið og lóð þess húss skiptist á milli Fróðasunds 4 og Gránufélagsgötu 19. Umhirða bæði húss og lóðar er mjög góðu lagi. Þessi mynd er tekin 8.sept. 2014. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 410
  • Frá upphafi: 450770

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 314
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband