Hús dagsins: Eiðsvallagata 20

Þann 2.júlí 1929 fékk Byggingafélag Akureyrar lePA310013yfi til að byggja íbúðarhús fyrir Þórð Valdemarsson og Jakob Einarsson og var þar um að ræða Eiðsvallagötu 20. Húsið reis 1930 og er eitt nokkurra húsa við Eiðsvallagötuna þar sem skráðir voru íbúar í Manntali það ár. Eiðsvallagata 20 er steinsteypt, tvílyft með valmaþaki og með krosspóstum í gluggum. Húsið, eins og svo mörg önnur á Eyrinni teiknaði Halldór Halldórsson. Eiðsvallagata 20 er eitt af elstu húsunum við Eiðsvallagötuna og er eitt fárra húsa við götuna þar sem skráðir eru íbúar í Manntali 1930. Þá bjuggu í húsinu alls 16 manns, fjölskyldur áðurnefndra Þórðar og Jakobs en þar bjuggu einnig Stefán Guðjónsson og fjölskylda hans en hann reisti ári síðar hús nokkru neðar við götuna, eða Eiðsvallagötu 30. Þannig hefur verið þríbýli í húsinu a.m.k. fyrsta árið eða svo en annars hafa ævinlega verið í húsinu tvær íbúðir. Ekki veit ég hvort einhver starfsemi var í húsinu, verslun, verkstæði eða skrifstofur en það er alls ekki útilokað. Ein góð leið til að athuga slíkt er einfaldlega að slá heimilisfanginu inn á vefinn timarit.is, því hafi einhvern tíma verið auglýst einhverskonar þjónusta í dagblaði og heimilisfangið með birtist það þar. Húsið er einfalt og látlaust og er lítið breytt frá upprunalegri gerð að utanverðu. Það sem helst er einkennandi fyrir húsið útlitslega er steinhleðslumunstur á hornum og við dyr. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin 31.október 2014 og eru allar myndir sem birtast af Eiðsvallagötuhúsum í næstu umfjöllunum teknar þann dag. 

Heimildir:  Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1921-30

Manntal á Akureyri 1930. Bæði þessi rit eru óútgefin, en eru varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 18; Lárusarhús.

Eiðsvallagötu 18 reisti Lárus Björnsson trésmiður árið 1946 eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. Húsið stendur , merkilegt nokk, beint á móti húsi nr.1 á horni Eiðsvallagötu og Norðurgötu. PA310018Eiðsvallagata 18 er tvílyft steinsteypuhús af þeirri gerð sem ekki er óalgeng við Eiðsvallagötuna og raunar víðar á eyrinni og með háu valmaþaki. Á þaki eru tveir kvistir, norðan og sunnan megin en einnig er á vesturhlið agnarlítill þríhyrndur kvistur, sem er eiginlega nær því að vera þakgluggi en kvistur. Svalir eru til vesturs á efri hæð og tröppur og inngangur á efri hæðina á suðurhlið. Gluggar eru breiðir með tvískiptum lóðréttum póstum en á neðri hæð eru síðir verslunargluggar. Upprunalega var húsið með lágu valmaþaki en rishæðin var líkast til byggð 1955, en þær breytingar hannaði Páll Friðfinnsson og eru þær teikningar dagsettar 25.júní 1954. Hefur þá húsið fengið það lag sem það nú hefur. Á sama tíma var einnig byggður bílskúr sem enn stendur á austurmörkum lóðar. Fyrstu árin var amboðasmiðjan Iðja starfrækt á neðri hæð hússins en þar var Lárus einn eigenda. Þarna var og rekin verslunin Eyrarbúðin, sennilega í um tvo áratugi. Ekki veit ég hvenær nákvæmlega Eyrarbúðinni var komið á laggirnar en fyrsta auglýsingin sem ég finn frá henni á timarit.is er frá 1957.  Þarna var um að ræða verslun sem seldi m.a. ýmsar matvörur og sælgæti; nýlenduvöruverslun. Verslunin var ekki sú eina við Eiðsvallagötuna en aðeins þremur húsalengdum var verslunin Bóla. Einhverjum kann að þykja nokkuð ótrúlegt að við sömu götuna,aðeins með þriggja húsalengda millibil gátu tvær hverfisverslanir þrifist og það ágætlega. Þá ber að horfa til þess að á þessum var árum voru verslunarhættir töluvert frábrugðnir því sem nú tíðkast. Eyrarbúðin var hér fram yfir 1970 en árið 1976 gaf Lárus Björnsson Alþýðubandalaginu húsið og þarna var aðsetur þess flokks allar götur frá þeim tíma. Líkt og alþjóð veit leið Alþýðubandalagið undir lok um 1999 en það ár var Samfylkingin stofnuð og hefur Lárusarhús verið aðsetur þess stjórnmálaafls síðan. Efri hæð hússins og ris hefur alla tíð verið íbúð. 

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 14; Gamli Lundur.

Elsta hús eða húsin sem enn standa á Oddeyri eru Gránufélagshúsin við Strandgötu 49 en elstu hlutar þess húss eru frá 1873. P6050028Það var þó ekki fyrsta húsið sem reis á Eyrinni því árið 1858 risu þar tvö hús, sitt hvoru megin við þar sem nú er Eiðsvöllur. Þar var annars vegar um að ræða torfbæ, sem stóð þar sem nú er Norðurgata 31 og hins vegar var það Lundur, eða Gamli Lundur sem stóð þar sem nú er lóðin Eiðsvallagata 14. Sá Gamli Lundur sem nú stendur er að vísu ekki nema ríflega þrítugur en svo til nákvæm eftirmynd fyrirrennarans en nánar um það síðar.

Eiðsvallagata 14 eða Gamli Lundur er einlyft timburhús á lágum grunni og með háu, bröttu risi af gerð sem algeng var á 19. öld. Smáir sexrúðupóstar eru í gluggum og á suðurhlið er inngönguskúr en aðaldyr hússins á vesturgafli. Allt er húsið veggir jafnt sem þak klætt timbri, svokallaðri listasúð, og að gömlum hætti er húsið allt svartmálað; væntanlega vísun til þess þegar flestöll hús voru tjörguð. Ég hef séð dæmi þess að fólk, sem ekki gjörþekkir húsin á Akureyri, taki feil á Gamla Lundi og Laxdalshúsi í Innbænum en þessi hús eru vissulega ekki ólík fljótt á litið. Húsið er skástætt miðað við götu, þ.e. grunnflötur hússins myndar ekki horn við götu enda er hann mun eldri en gatan sjálf. Þess má einnig geta að hús númer 13 stendur líkast til nærri 200 metrum neðar við götuna en oddatölur Eiðsvallagötunnar liggja nokkru neðar en þær sléttu (nr. 1 er á móti nr. 18).

Lund (sem þá var auðvitað ekki orðinn “Gamli”) reisti Lárus Hallgrímsson 1857-58. Hann veiktist hins vegar áður en hann náði að ljúka byggingu hússins og í september 1858 er það selt á uppboði Jóni Laxdal. Kaupverðið var 240 ríkisdalir. Hann bjó ekki lengi í húsinu en fyrsta áratuginn voru eigenda- og íbúaskipti nokkuð tíð og oftast nær bjuggu þarna 3-4 fjölskyldur samtímis. Gránufélagið eignaðist húsið 1872 og ári síðar risu áðurnefnd hús þess félags við Oddeyrartanga. Undir stjórn Einars Ásmundssonar í Nesi, framkvæmdastjóra Gránufélagsins var Lundur innréttaður sem sölubúð haustið 1873 og árin um 1880 var starfrækt þarna niðursuðuverksmiðja. Þar var á ferðinni Þorsteinn Einarsson frá Brú á Jökuldal en hann var framkvæmdastjóri þeirrar verksmiðju. Hann var stóð á þeim tíma í byggingu mikils stórhýsis úr steini um 20 metrum suðaustan við Lund en árin 1881-83 mun hann hafa búið í Lundi, e.t.v. flutt inn í steinhúsið 1883. Skráð byggingarár þess húss er 1880 en vel má vera að það hafi tekið nokkur ár að innrétta húsið sem íbúð, en til er ljósmynd frá 1882 sem sýnir húsið fullbyggt að utanverðu. Steinhúsið, sem Þorsteinn reisti í félagi við Björn Jónsson þekkja margir sem Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan og stendur það við Norðurgötu 17. Í niðursuðuverksmiðjunni í Lundi voru aðallega soðnar niður kjötvörur ýmis konar, rjúpur, svið og tungur voru þar í mestu magni en heldur þykir mér ólíklegt að þarna hafi verið framleiddir niðursoðnir ávextir í dós. Eins og gefur að skilja var starfstími verksmiðjunnar haustin eða sláturtíðin. Síðustu áratugina fyrir aldamót bjó þarna Jósef Jónsson ökumaður frá Borgarhóli, líkast til þar til hann reisti Lundargötu 15 árið 1898. Sonur hans var Jóhannes, kenndur við Hótel Borg, glímukappi og athafnamaður og mun hann fæddur í Lundi 5.október 1883.

Á 20.öld þjónaði húsið ýmsum hlutverkum, þar var búið og þar voru einnig verkstæði og geymslur en ástandi hússins fór hrakandi eftir því sem leið á öldina. Upprunalega hét húsið Lundur en hvenær Gamla- viðurnefnið kom á þekki ég ekki. Ég set fram þá tilgátu án nokkurrar ábyrgðar að húsið hafi fengið þessa nafnbót eftir 1924, til aðgreiningar þegar stórbýlið Lundur var reist á Brekkunni. Húsið var í hópi þeirra fyrstu sem voru friðuð skv. Þjóðminjalögum á Akureyri en það var árið 1982 en Akureyrarbær keypti húsið í kjölfarið og seldi aftur með kvöðum um endurgerð. Þá var húsið orðið verulega hrörlegt og auk þess talsvert breytt frá fyrstu gerð. Nýr eigandi, Jón Gíslason smiður reif hinn upprunalega Gamla Lund og byggði það hús sem nú stendur 1984-85 eftir nákvæmum uppmælingum á gamla húsinu. Því er það svo, að Gamli Lundur sem nú stendur er í raun yngsta húsið við Eiðsvallagötuna, að undanskildum raðhúsum, byggðum eftir 2000 sem standa neðst við götuna. Í einhverri sögugöngu um Eyrina heyrði ég það að Gamli Lundur hafi verið orðin svo illa farinn og ónýtur á allan hátt, burðarvirki jafnt sem annað, að endurgerð hefði verið óraunhæf án þess að endurnýja svo til hverja einustu spýtu. Sem var vissulega gert. Húsið er að mestu einn salur og húsið gegn um árin verið notað til samkomuhalds, listsýninga og veisla hvers konar en fyrir fáeinum festu Sjöunda dags Aðventistar kaup á húsinu og er húsið nú þeirra samkomustaður. Gamli Lundur er glæsilegt hús að sjá og til prýði í umhverfinu, sem ekki er af verri endanum því húsið stendur andspænis Eiðsvelli, þeim sælureit Oddeyringa. Þessi mynd er tekin 5.júní 2006 og rétt að taka fram, þar sem um ræðir rúmlega átta ára gamla mynd að húsið er óbreytt frá því sem er á þessari mynd þegar þetta er ritað í desember 2014.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. (1995). Oddeyri; húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri.  

Jóhannes Jósefsson, Stefán Jónsson skráði. (1964). Jóhannes á Borg, minningar glímukappans. Reykjavík: Ævisöguútgáfan.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

 

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 13

 Húsið reistu Stefán Snæbjörnsson kaupmaður og faðir hans Snærbjörn Magnússon, árið 1943.Járnateikningar að húsinu eru undirritaðar af H. Halldórssyni og þori ég nánPA310008ast að fullyrða að þar sé um að ræða Halldór Halldórsson byggingarfulltrúa en hann teiknaði mörg hús hér í bæ á þessu árabili. Hér er um að ræða tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með valmaþaki. Gluggar eru h.u.b. ferningslaga með einföldum lóðréttum póstum (það er e.t.v. álitamál hvort hægt sé að tala um gluggapósta í slíkum tilvikum en ég ætla að gera það hér). Húsið er byggt sem tvíbýlishús og hefur verið það nær alla tíð en upprunalega var ætlunin að hafa þrjár íbúðir; tvær íbúðir á efri hæð . Um 1986 var byggður sólskáli úr gleri á vesturhlið hússins en á myndinni er horft á húsið frá suðri, þ.e. af Eiðsvallagötu. Að öðru leiti er húsið að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð enda er það svo með mörg hús frá þessum tíma að þau voru rúmgóð og vel skipulögð frá upphafi. Því hefur ekki endilega verið sama þörf á viðbyggingum líkt og gekk og gerðist með eldri hús. Húsið lítur vel út, á því er nýleg klæðning og nýir póstar. Tvær íbúðir eru í húsinu. Á lóðinni stendur einnig bílskúr sem reistur var um 1968. Myndin er tekin 31.okt. 2014.

 

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 11

Í ársbyrjun 1931 fær Jóhann Kristjánsson “leigða hornlóð vestan Hríseyjargötu og norðan Eiðsvallagötu” Það er lýsing sem átt getur við þessa lóð en Eiðsvallagata 11 stendur á norðvesturhorni þeirrar götu og Hríseyjargötu. PA310006Hins vegar þykir mér ljóst að þar sé um að ræða lóð númer 9, en 5.maí 1942 er þessi lóð leigð til þess sem reisti þetta hús, Eiðsvallagötu 11. En þar ekki minnst einu orði á áðurnefndan Jóhann Kristjánsson eða nokkurn þáverandi lóðarhafa yfirleitt. En húsið Eiðsvallagötu 11 reisti Vilhjálmur Þorsteinsson árið 1942 eftir teikningum Jóns B. Benjamínssonar. Húsið er byggt á pöllum og í upphafi var þetta hús ekki ólíkt Eiðsvallagötu 5 en því húsi var hins vegar breytt verulega síðar. Í byggingarleyfi segir að Vilhjálmi sé leyft að reisa steinhús, "ein hæð með skúrþaki en kjallari undir hálfu húsinu". En húsið er sem áður segir byggt á pöllum og skiptist í tvær álmur, sú vestari er ein hæð en austari er kjallari og hæð. Gluggapóstar eru lóðréttir og horngluggar á göflum, beggja vegna á vesturhlið en aðeins norðanmegin á þeirri eystri. Húsið er múrhúðað að utan með kvarsmulningi, sem í daglegu tali er kölluð skeljasandur. Upprunalega var húsið með flötu þaki en árið 1955 var þaki breytt og nú er valmaþak á húsinu. Hönnuður þeirra breytinga var Guðmundur Gunnarsson. Að öðru leiti er húsið nánast óbreytt frá upphafi að ytra byrði, gluggapóstar eru t.d. eins og skeljasandsmulningurinn er að öllum líkindum upprunalegur. Í húsinu er ein íbúð. Myndina tók ég síðasta dag októbermánaðar árið 2014, en þá myndaði ég öll þau hús í Eiðsvallagötuna er mig vantaði í safnið.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35 og 1941-48 Óútgefin rit, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 9

Eiðsvallagötu 9 munu þau Zophonías M. Jónasson og Guðbjörg Jónsdóttir hafa reist árið 1930. Að öðru leyti virðist upprunasaga hússins óljós í skráðum heimildum, það er t.d. ekki að finna upprunalegar 

PA310009teikningar að húsinu á Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar en þar er gefið upp að byggingarár hússins sé 1930. Í Manntali á Akureyri 1930 er ekki skráður neinn til heimilis að Eiðsvallagötu 9, þ.a. Þá hefur alltént enginn verið fluttur þarna inn. Ekki gat síðuhafi fundið upplýsingar í fundargerðum Bygginganefndar um húsið en upplýsingarnar um byggjendur eru fengnar frá barnabarni Zophoníasar og Guðbjargar, Önnu Þórhallsdóttur. Eru henni færðar bestu þakkir fyrir veittar upplýsingar. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi, af nokkuð algengri gerð steinhúsa frá þessum tíma á þessu svæði, svipar til t.d. Eiðsvallagötu 4 og Norðurgötu 33. Krosspóstar eru í gluggum en á framhlið það sem ég myndi kalla þrískipta krosspósta. Forstofuskúr er á austurgafli og er þar gengið inn á efri hæð en einlyft viðbygging bakatil með flötu þaki. Húsið er líkast til tvíbýli frá upphafi með íbúðum hvor á sinni hæð. Viðbyggingin á bakhlið er nýleg, til komin um 2000. Í hillum Héraðsskjalasafnsins liggja margir árgangar af Íbúaskrám Akureyrar og fletti ég húsinu upp í þeirri elstu slíku sem ég fann en hún var síðan 1954. Þá var húsið tvíbýli og þá bjuggu í húsinu Jóhann Jónsson og Ágústa Hinriksdóttir í 9a og Zophonías Jónasson og Guðbjörg Jónsdóttir í 9b. Ef frá er talin viðbyggingin bakatil er húsið ekki verulega breytt frá upphaflegri gerð. Tvær íbúðir eru í húsinu. Þessi mynd er tekin 31.október 2014.

 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Manntal á Akureyri 1930. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Íbúaskrá Akureyrar 1954. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Auk athugasemda og tölvupóstsskrifa frá Önnu Þórhallsdóttur, apríl 2022.

 

 

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 8

Eiðsvallagötu 8 reisti Haraldur Jónsson kaupmaður árið 1943 eftir teikningum PA310020Tryggva Jónatanssonar. Húsið stendur á horni götunnar og Lundargötu, sem þá þegar var orðin gömul og rótgróin gata á Eyrinni. Ekki þykir mér ólíklegt að um sama Harald Jónsson sé að ræða og reisti húsið á móti, Eiðsvallagötu 6 fjórum árum síðar. Eiðsvallagata 8 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og stendur það á kjallara. Aðaldyr hússins eru á vesturhlið sem snýr að Lundargötu en á húsinu eru horngluggar sem snúa í vestur og suður en slíkir gluggar eru ein helstu einkenni Funkisstefnunar hérlendis en Tryggvi Jónatansson teiknaði mörg slík hús. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús með tveimur íbúðum, hvor á sinni hæð og er húsið líkast til lítt breytt frá fyrstu gerð a.m.k. á ytra byrði. Þessi mynd er tekin 31.okt. 2014.

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 6 ; Bóla.

 

Eiðsvallagata 6 stendur á vesturhorni Eiðsvallagötu og Lundargötu. PA310019Húsið reisti Haraldur Jónsson kaupmaður árið 1947 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. Það er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki. Inngönguhús er á suðurhlið og bílskúr og sólskáli á vesturhlið. Stórir “verslunargluggar” eru á neðri hæð en hún var verslunarrými frá upphafi en líkast til hefur alla tíð verið íbúð á efri hæð. Um miðjan 6.áratuginn eignast KEA neðri hæðina og þar rak félagið verslunarútibú sitt, eitt margra, í um aldarfjórðung. Kallaðist KEA- verslunin Bóla og þekkja margir þetta hús enn í dag undir því nafni. Á þessum árum voru verslunarhættir umtalsvert frábrugðnir því sem gerist í dag- stórmarkaðir óþekktir og bílaeign ekki almenn og því nauðsynlegt að helstu nauðsynjavörur væru í göngufæri inni í hverfunum. Þá var vöruúrval almennt ekki eins fjölbreytt í verslunum eins og gengur og gerist í stórmörkuðum nútímans og vörur eins og mjólk, brauð, kjöt og fiskur yfirleitt seldar í smáum sérverslunum. Verslunin Bóla var rekin fram undir 1980 en haustið 1981 flytja Neytendasamtökin inn á neðri hæð hússins en þá var húsið enn í eigu KEA. Heyrðust raddir um vafasamt væri að samtök um rétt neytenda væru inn á gafli hjá einu öflugasta verslunarfyrirtæki bæjarins en samtökin stöldruðu ekki við þarna um langt árabil. Tíu árum seinna kaupa JC (Junior Chamber samtökin ) neðri hæðina en um 1995 er hæðin innréttuð sem íbúð og hefur húsið allt verið íbúðarhús síðan. Nú eru því tvær íbúðir í húsinu. Húsið er nokkuð dæmigert fyrir íbúðarhús frá fimmta áratug 20.aldar en ef ég ætti meta einhverskonar varðveislugildi hússins myndi ég segja þetta hús, með sínum augljósu ummerkjum um fyrra hlutverk þ.e. búðargluggum á neðri hæð einn af mikilvægum minnisvörðum um verslunarsöguna á Akureyri. Hverfisverslanir KEA og “kaupmaðurinn á horninu” skipuðu áður stóran sess hjá bæjarbúum og margir eiga eflaust góðar minningar um verslunar- og sendiferðir í Bólu. Þessi mynd er tekin 31.okt. 2014.

 

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 5

Ég held áfram umfjölluninni um Eiðsvallagötu 5 og fer ég eftir númeraröð. Því er Eiðsvallagata númer 5 næst í röðinni á eftir 4, enda þótt um 100 metrar skilji húsin að.PA310015 Eiðsvallagata 5 stendur austan megin á horni götunnar og Ránargötu. Húsið reisti Gunnlaugur S. Jónsson vélsmiður, forstjóri Odda árið 1934 eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar. Húsið er steinsteypt, byggt á  pöllum sem kallað er og í upphafi voru svalir uppi á vesturálmu, sem var ein hæð en austurálma var þá tvær hæðir. Húsið var lengst af klætt skeljasandsmulningi en nú er á húsinu blikkklæðning. Vel var vandað til byggingar hússins í upphafi en það var einangrað með korki og gluggapóstar voru úr járni- sem ekki var algengt. (Líklega mun Gunnlaugur hafa smíðað póstana sjálfur í Odda.) Húsið er greinilega teiknað undir áhrifum frá Funkís-stílnum en eitt megineinkenni slíkra húsa er regluleg lögum og horngluggar. Sveinbjörn Jónsson teiknaði ein fyrstu fúnkís-húsin á Akureyri, hús í Aðalstræti, Möðruvallastræti auk þessa húss en hann mun þó hafa gerst fráhverfur þessari stefnu. Það hafa ekki verið margir eigendur að húsinu miðað við 80 ára sögu en Fljótlega eignast húsið Guðmundur Jörundsson útgerðarmaður frá Hrísey (sonur hins valinkunna Hákarla- Jörundar) og átti hann það til 1955 er Anton Sölvason kaupir húsið. Árið 1974 eignast húsið Gunnar Skjóldal og í hans tíð eða um 1985 var húsinu breytt talsvert, byggt við það og vesturálma hækkuð þ.e. byggt yfir svalirnar. Nú er húsið því tvílyft á þremur pöllum með lágu, brotnu risi og sem áður segir er blikk á veggjum en járn á þaki. Bílskúr var reistur við austurmörk lóðarinnar árið 1962. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús og hlotið gott viðhald. Það er sem áður segir vel byggt og vandað frá upphafi. 2.janúar árið 2011 kviknaði í þessu húsi og skemmdist það töluvert að innan en var allt tekið í gegn og mun nú sem nýtt. Húsið er stórt og sérstætt að gerð og setur svip á götumyndina. Þá er rammgerð steypt girðing, sennilega á líkum aldri og húsið, utan um lóðina og gróskumikil tré á henni. Ein íbúð er í húsinu og hefur verið svo alla tíð. Þessi mynd er tekin föstudaginn 31.október 2014.

 Heimildir: Friðrik Olgeirsson, Halldór Reynisson, Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál. Reykjavík: Fjölvi.

Öruggar munnlegar heimildir úr ýmsum áttum...

 


Hús dagsins: Eiðsvallagata 4

 Árið 1934 fengu þeir Óli Konráðsson, Ólafur Jakobsson og Ingvar Ólafsson leyfi til að reisa íbúðarhús “næst austan við hornhús fyrirhugað, austan Glerárgötu og sunnan Eiðsvallagötu”. P9080001Umrætt hornhús hefur að öllum líkindum átt að vera Eiðsvallagata númer 2. En hús þeirra Óla, Ólafs og Ingvars er Eiðsvallagata númer 4 og er efsta húsið við götuna og stendur örfáa metra frá götubrún Glerárgötu Eiðsvallagata 4 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi og á lágum grunni og þverpóstum í gluggum. Húsið er byggt eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar en hann mætti kalla einn af "stóru nöfnunum" í byggingasögu Akureyrar en mörg hús á Oddeyrinni eru hans hönnun. Fyrstu árin var starfrækt nótastofa á neðri hæð hússins en á efri hæð bjó Óli Konráðsson ásamt fjölskyldu sinni. Teikningar af húsinu gera einmitt ráð fyrir slíkri starfsemi á neðri hæð. Hversu lengi netaverkstæðið var starfrækt þarna er mér ókunnugt um en 1.maí 1946 auglýsir Óli nótaverkstæði sitt í nýbyggðri Nótastöð norðarlega á Oddeyrinni. En húsið hefur allt verið íbúðarhús um áratugaskeið og er nú einbýlishús.  Eiðsvallagata 4 er einfalt og látlaust og gerð og ekki mikið breytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Hús og lóð virðast í góðri hirðu. Þessi mynd er tekin í haustsólinni 8.september 2014.

Hér er einnig mynd af stórhýsi Nótastöðvarinnar á Norðurtanga, en þangað PB150014flutti Óli Konráðsson netaverkstæði sitt úr Eiðsvallagötu 4. Húsið er byggt 1945 og  stendur rétt við ósa Glerár og hefur verið þó nokkuð kennileiti á sínum tíma en langt var í næstu hús af svipaðri stærð. Myndin tekin 15.nóv. 2014.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundur þ. 20.4.1934 Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 24
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 432
  • Frá upphafi: 450792

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 328
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband