Færsluflokkur: Bloggar

Hús dagsins: Gilsbakkavegur 1a

Oddagata og Gilsbakkavegur tengjast að neðanverðu í stuttum boga þar sem á aðra hönd standa efstu hæðir stórhýsanna við Hafnarstræti 95-99 (Krónan, Amarohúsið) en á hina hornhús gatnanna tveggja, númer 1. Á milli þeirra stendur eitt hús, sem telst standa við Gilsbakkaveg 1a. Um er ræða tvílyft steinsteypuhús í Funkisstíl, byggt 1935.P8180227 Upprunalega taldist húsið á lóð Kristjáns Sigurðssonar kennara í Oddagötu 1 en í Manntali 1940 telst húsið vera nr. 1A við Gilsbakkaveg. Þá búa þar alls 11manns, þau Eggert og Guðrún Melstað ásamt börnum og tvær mæðgur Guðrún Sæunn Sæmundsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir. Eggert og Guðrún reistu einmitt húsið árið 1935 en Kristján Sigurðsson fékk leyfi fyrir byggingunni í umboði Eggerts. Nefndin vildi ekki leyfa timburloft á milli hæða heldur krafðist hún steinlofts. Húsið var sagt 8,5x8,8m. Sem þýðir að aðeins munar 30 cm að grunnflötur hússins sé fullkomlega ferningslaga. Húsið er tvílyft steinsteypuhús [innskot: í bókun Bygginganefndar er húsið sagt ein hæð á kjallara] með flötu þaki þaki. Horngluggar, eitt helsta einkenni funkisstefnunnar í húsagerð hérlendis eru á suðurhlið en einfaldir þverpóstar í gluggum. Húsið er íbúðarhús og hefur alla tíð verið og er líkast til að mestu leyti óbreytt frá upprunalegri gerð. Það er skemmtilega einfalt og látlaust eins og títt er með funkishús. Ein íbúð er í húsinu. Þessi mynd er tekin 18.ágúst 2015.

 

Heimildir. Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 741, 24.apríl 1935

Manntal á Akureyri 1940.

Óútgefin og óprentuð rit, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Gilsbakkavegur 1

Á milli Skátagils og Grófargils liggja tvær götur, Oddagata norðan megin og Gilsbakkavegur sunnan megin, ofan Grófargils. Hvort að gatan dragi nafn sitt af því, að hún þræðir bakka Gilsins eða af stórbýlinu Gilsbakka í Borgarfirði skal ósagt látið hér. En gatan er skipuð fjölbreyttum og skemmtilegum húsum, sem flest eru byggð á 5. áratug 20.aldar. Hér ætla ég hins vegar að taka fyrir elstu og neðstu húsin, sem byggð eru fyrir 1940. Ég hef nú þegar tekið fyrir elsta húsið við götuna sem er Syðra Melshús, byggt 1906. Melshúsin stóðu ein á þessari melbrekku í nærri tvo áratugi en fyrst var byggt í “Melshúsalandi” árið 1923. Það hús stendur enn og um er að ræða annað elsta hús Gilsbakkavegar, Gilsbakkaveg 1.

P8180226

Gilsbakkaveg 1 reistu þau Steindór Jóhannesson járnsmiður og Sigurbjörg Sigurbjarnardóttir árið 1923. Steindór fékk leyfi til að reisa sunnan Oddagötu, beint austan við Syðra- Melshús, 7,5x8,75m, steinsteypt íbúðarhús, ein hæð með porti og risi. (Bygg.nefnd Ak. 1923). Hann vildi í upphafi fá að setja kvist á húsið fyrr en fékk ekki leyfi til þess fyrr en nokkrum mánuðum síðar, er hann hafði þegar hafið byggingu hússins. Hvers vegna það leyfi fékkst ekki í upphafi fylgir ekki sögunni. En þarna var heitið Gilsbakkavegur ekki komið til sögunnar að því er virðist, en gatan kemur fyrir í Manntali 1930.

En Gilsbakkavegur 1 er einlyft steinsteypuhús á lágum grunni, með portbyggðu risi og miðjukvisti sem nær gegn um ris. Á miðri framhlið hússins er inngönguskúr með risþaki og tröppur upp að honum og annar inngönguskúr á bakhlið. Krosspóstar eru í gluggum en bárujárn á þaki. Smekklegur sólpallur er við bakhlið hússins og suðurhlið. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líkast til upprunalega einbýlishús en ekki er ólíklegt að fleiri en ein fjölskylda hafi búið þar samtímis á einhverjum tímapunkti. Húsið var allt tekið í gegn um 1991, sbr. teikningar Svans Eiríkssonar hér þá var framhúsið byggt og bíslagi bakhliðar breytt auk þess sem skipt var um þak. Húsið er því að mestu sem nýtt og í mjög góðri hirðu og sömu sögu er að segja um lóðina. Í húsinu er ein íbúð. Þessi mynd er tekin þ. 18.ágúst 2015.

Heimildir. Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 532, 19.3.1923. Fundur nr. 541, 12.7.1923.

Manntal á Akureyri 1930.

Óútgefin og óprentuð rit, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Hús við Oddagötu

Í sumar birti ég tvær færslur um Melshús, tvö timburhús frá upphafi 20.aldar sem standa á melbrekku milli Grófargils og Skátagils, ofan við Miðbæinn. Þau teljast standa við Gilsbakkaveg og Oddagötu. "Hús dagsins" eru yfirleitt hús byggð fyrir 1930-40 og við þær götur standa þó nokkur eldri steinhús. Því var auðvitað um að gera að taka þau fyrir líka. Ég tók Oddagötuna fyrir - eins og hún leggur sig- núna í október.

Ytra Melshús; Oddagata 3b (1905)

og Syðra Melshús; Gilsbakkavegur 3 (1906) birt 26.júlí 2015

Oddagata 1 (1927) birt 11.okt. 2015

Oddagata 3 (1927)birt 16.okt. 2015

Oddagata 5 (1927)

Oddagata 9 (1928) birt 21.okt. 2015

Oddagata 7 (1933) birt 24 okt 2015

Oddagata 11 (1927) birt 28.okt 2015

Oddagata 13 (1946)

Oddagata 15 (1946) birt 1.nóv 2015

 


Hús við Laxagötu

Septembermánuður var á þessum vettvangi að mestu helgaður Laxagötu á ofanverðri Oddeyri. Tók ég götuna alla fyrir, enda standa þar fá hús.

Laxagata 2 (1932) birt 13.sept.2015

Laxagata 3 (1933) birt 15.sept 2015

Laxagata 4 (1932) birt 17.sept 2015

Laxagata 5 (1933) birt 21.sept. 2015

Laxagata 6 (1934)

Laxagata 7 (1943) birt 23.sept 2015

Laxagata 8 (1935) birt 26.9.2015


Hús dagsins: Oddagata 13 og Oddagata 15

Efstu húsin við Oddagötu eru númer 13 og 15. Þau eru bæði reist árið 1946 og eru því yngst húsa við götuna, sem flest eru byggð árin 1926-28. 

Oddagata 13

Oddagötu 13 reisti Jónína Sigurðardóttir árið 1946 eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. P7150112Húsið er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og stendur það á lágum kjallara. Húsið er klætt grjótmulningi sem að öllum líkindum er frá upphafi og í gluggum eru einfaldir póstar þverpóstum en “langbandi” með opnanlegu fagi vinstra megin. Bárujárn er á þaki. Inngangur og steypt verönd er á götuhlið á litlu útskoti; inngöngu og stigaálmu og ofan inngöngupalls eru nýlegar svalir, byggðar um 2013. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð og hafa að öllu líkindum verið alla tíð. Húsið er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð og er ekki talið hafa sérstakt varðveislugildi. Það stendur nokkuð ofan við Oddagötu 11. Oddagata 13 og 15 mynda nokkuð skemmtilega tvennd í götumyndinni. Húsin eru jafngömul og þó gjörólík séu má greinilegt þykja á formi þeirra og lögun að þau eru nokkuð yngri en húsin neðar við götuna. Þó eru þessi tvö hús raunar gjörólík. Þessi mynd er tekin 15.júlí 2015. 

Oddagata 15

Húsið á Oddagötu 15 reisti Stefán Guðnason árið 1946 eftir teikningum Ágústs Pálssonar. Húsið er tvílyft steinsteypuhús á kjallara og með valmaþaki. PA280255Veggir eru múrsléttaðir en bárujárn er á þaki og í gluggum eru krosspóstar. Stór stofugluggi er á vesturhlið og svalir á efri hæð. Á austurhlið er bílskúr með flötu þaki, sambyggður kjallara með svölum ofan á. Hann er að öllu líkindum byggður samtímis húsinu, alltént er hann að finna á upprunalegum teikningum. Inngöngudyr eru m.a. í kjallara á austurhlið og á norðurstafni á hæð og eru steyptar tröppur að þeim og á suðurhlið er útgangur á svalir ofan á bílskúrnum. Það sem ég myndi segja að gæfi húsinu sérstakan svip er kringlóttur gluggi stigagangs á austurhlið.

Oddagata 15 hefur alla tíð verið íbúðarhús, en á teikningum er gert ráð fyrir skrifstofu á neðri hæð inn af anddyri. Húsið er í mjög góðri hirðu og virðist raunar sem nýtt og allur frágangur hússins og lóðar afar snyrtilegur- og þar gerir hvíti liturinn ákveðinn gæfumun. Þessi myndir eru teknar á góðviðrisdegi haustið 2015, nánar tiltekið þann 28.október.PA280254

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir: 

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 

 

 

 


Hús dagsins: Oddagata 11

 Á sumarsólstöðum árið 1927 kom bygginganefnd saman á sínum 598. fundi frá stofnun hennar. Meðal erinda var afgreiðsla á vestustu lóð Oddagötu, sem sögð var vestan við Eggert Melstað (Oddagata 9, sem þá var óbyggð). PA280253Tveir menn sóttu um lóðina, annars vegar Gunnar M. Jónsson og hins vegar Jón G. Guðmann. Niðurstaða nefndarinnar var einfaldlega sú, að sá síðarnefndi fengi lóðina, þar eð bréf hans hafði borist tveimur dögum fyrr. Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Síðsumars 1927 var Jóni G. Guðmann síðan heimilað reisa á lóðinni einlyft íbúðarhús eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar, með porti og risi, 8x9m að utanmáli. Oddagata 11 einlyft með háu portbyggðu risi og miðjukvisti og stendur á háum kjallara. Á austurhlið hússins er einnig lægri miðjukvistur með hallandi þaki. Inngangar og steyptar tröppur upp að þeim eru við norðurhorn hússins, til austurs og vesturs. Bárujárn er á þaki og krosspóstar eru í gluggum. Húsið virðist h.u.b. óbreytt frá upprunalegri gerð, en á teikningum er þó gert ráð fyrir inngangi á norðurhlið Húsið er af mjög algengri gerð steinsteypuhúsa frá 3. áratug 20.aldar, með svipuðu lagi og timburhúsin höfðu mörg hver verið áratugina um og eftir 1900. Ekki er að sjá auglýsingar um stórfellda verslun eða starfsemi í Oddagötu 11, sé heimilisfanginu flett upp á timarit.is. Ein auglýsing vakti þó athygli mína; Árið 1937 auglýsir Kristinn nokkur Sigmundsson tilsögn í hraðritun í Oddagötu 11. Kristinn var frá Ytra-Hóli í Öngulsstaðahreppi, fæddur þar árið 1910 og hann hafði nokkrum árum áður gegnt störfum ritara á Alþingi. Kristinn var einmitt föðurafi minn en hann fluttist árið 1940 að Arnarhóli í Öngulsstaðahreppi þar sem hann og amma, Ingveldur Hallmundsdóttir, bjuggu miklu myndarbúi í hartnær 50 ár. Hér er viðtal við góðbóndann á Arnarhóli í Degi, frá árinu 1963.

Oddagata 11 er glæsilegt hús og í góðu standi, það er t.a.m. nýmálað, og stendur á stórri og gróinni lóð. Það mun nánast óbreytt frá upprunalegri gerð. Ein íbúð er í húsinu. Myndina tók ég núna í morgun, 28.október 2015 en ég myndaði húsið í myndagöngutúr um Oddagötuna þ.15.júlí sl. en síðan þá hefur húsið verið málað. Þótti mér því ótækt annað en að birta mynd af húsinu nýmáluðu.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 598, 21.6.1927 Fundur nr. 600, 24.8.1927.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Aldrei má ekki neitt :)

Þetta hljóta að teljast slæm tíðindi fyrir unnendur pylsa, bjúgna, skinku, beikons að ég tali nú ekki soðinna kjötfarsbolla með káli og kartöflum- löðrandi í smjöri. Þess má geta að allt þetta og sérstaklega það síðast nefnda er í miklu uppáhaldi hjá mér. Að hætta að éta saltað, reykt og feitt kjöt (að ég tali nú ekki um, ef mér yrði gert að hætta kaffidrykkju) jafnast fyrir mér á við það að hætta að anda inn súrefni wink. Grænmeti og ávextir eru að sjálfsögðu einnig bragðgóður valkostur og vissulega mikið hollari og æskilegri- enda étur maður slíkt einnig í talsverðu mæli. Og fátt toppar soðna ýsu með kartöflum. Ég aðhyllist nefnilega þá kenningu, að fjölbreytni sé lang best í fæðuvali; mataræði kattarins í Bakkabræðrasögunum hef ég helst tileinkað mér.smile  Ég tel að bjúgu, kjötfars eða pylsur einu sinni, tvisvar í viku geti ekki verið svo stórhættuleg- nú og ef svo er- þá er það "risk that I am ready to take" (svo maður sletti).  


mbl.is Kjötframleiðendur fokvondir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Oddagata 7

Oddagötu 7 reistu þeir Skarphéðinn Ásgeirsson og Halldór Jónsson eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. P7150115Húsið er  tvílyft steinsteypuhús á kjallara í anda funkisstefnu; “kassalaga” með horngluggum, aflíðandi einhalla þaki og með steyptum þakkanti og steyptum römmum utan um glugga, en þeir gefa húsinu ákveðinn svip. Þverpóstar eru í gluggum en á teikningum eru sýndir margskiptar rúður. Inngangur og steyptar tröppur upp að honum er á norðvesturhorni, líkt og raunar er á flestum húsum við Oddagötuna. Húsið hefur frá upphafi verið skipulagt sem tveggja íbúða hús, hvor íbúð á sinni hæð og teikningum er gert ráð fyrir geymslum og þvottahúsi, auk verkstæðis í kjallara. Húsið mun að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Eins og gengur og gerist með Funkishús, a.m.k. að dómi þess sem þetta ritar, er húsið til mikillar prýði, enda glæsilegt hús og vel við haldið. Húsið stendur, eins og raunar Oddagatan öll, á nokkuð áberandi stað í bænum og blasir t.d. vel við neðan úr Miðbæ og af Eyrinni. Þá virðist lóð hússins einnig vel frágengin og snyrtileg. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Þessi mynd er tekin þ. 15.júlí 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 583, 23.1.1933 .

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Hús dagsins: Oddagata 5 og Oddagata 9

Hús dagsins eru tvö að þessu sinni, en þau standa bæði við Oddagötu en þau byggði sami maður árin 1926-28.

 

Oddagata 5

Oddagötu 5 mun Gunnar Jónsson lögregluþjónn hafa reist árið 1927. P7150117Vorið 1926 fékk Gunnar byggingarlóð leigða næst vestan við leigulóð Eggerts Melsteð slökkviliðsstjóra og leyfi til að reisa þar tvílyft íbúðarhús úr steinsteypu á kjallara með lágu risi að ummáli 7,5x8,8m. Ekki fylgir sögunni hver teiknaði húsið. Þá er tekið fram að þó “sé þakbrún steypt og þak sneitt á göflum” (Bygg.nefnd Ak. 1926,583). Húsið virðist að mestu óbreytt frá upphafi, allavega á lýsingin í bókun Byggingarnefndar enn við húsið, sem er tvílyft og með lágu valmaþaki. Þverpóstar eru í gluggum og bárujárn er á þaki og inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim á norðvesturhorni. Gunnar Jónsson bjó ekki lengi í húsinu, en árið 1930 er tvíbýlt í húsinu og þá eru íbúarnir þau Jóhannes Björnsson og Hólmfríður Júlíusdóttir annars vegar og Vilhjálmur Jóhannsson og Anna Margrét Ingimarsdóttir hins vegar. Ásamt börnum þeirra og leigjendum er íbúafjöldinn 12 manns árið 1930. Gunnar reisti skömmu síðar annað hús rétt ofan við, þ.e. Oddagötu 9 og var þar búsettur árið 1930. Í “registrum” Fundargerða Bygginganefnda frá þessu árabili leitaði ég nefnilega að nöfnum Jóhannesar, Hólmfríðar, Vilhjálms og Önnu Margrétar en fann hvergi, en oft má gera ráð fyrir því, að íbúar húsa skömmu eftir byggingu hafi byggt þau. Það á þó auðvitað alls ekki alltaf við, líkt og í þessu tilfelli. Oddagata 5 hefur alla tíð verið íbúðarhús með a.m.k.tveimur íbúðum, hvor á sinni hæð. Húsið er einfalt og látlaust og er í góðu ástandi. Ekki er talið að það hafi neitt sérstakt varðveislugildi umfram önnur hús í götunni sbr. Húsakönnun frá 2014 (tengill hér að neðan) en sá sem þetta ritar telur alla Oddagötuna mikilsverða heild og hvert hús hennar einstakt á sinn hátt. Það á raunar við um allar eldri götur Akureyrar. Þessi mynd er tekin 15.7.2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 583, 10.4.1926 .

Manntal á Akureyri 1930.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 

 

 

Oddagata 9

Sumarið 1927 fékk Gunnar M. Jónsson lögregluþjónn lóð og byggingarleyfi á leigulóð “Eggerts Melstað”.
P7150116 Var honum leyft að reisa þar íbúðarhús, 9,5x7,5 m með háu brotnu þaki og kvistglugga og á meðan byggingu stóð, þ.e. um vorið 1928 var honum heimilað að reisa verönd með tröppu á suðurhlið hússins. Teikningarnar að húsinu gerði Eggert Melstað. Gunnar hafði árið áður lokið byggingu Oddagötu 5. Oddagata 9 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu brotnu “mansard” risi. Þar sem það húsið stendur í mishæð, virðist það tvílyft séð úr austri. Miðjukvistur er á framhlið en minni kvistur með hallandi þaki á bakhlið. Inngangar eru á norðvesturhorni, á suðurstafni með steyptum tröppum og yfirbyggðri verönd með svölum en einnig er inngangur í kjallara á suðvesturhorni. Þverpóstar eru í gluggum hússins og bárujárn á þaki. Fáum árum eftir að húsið var reist fluttist O.C. Thorarensen apótekari í húsið ásamt fjölskyldu sinni og hélst það innan sömu fjölskyldu áratugum saman. Húsið er í góðu standi og hefur nýlega fengið yfirhalningu, bæði húsið sjálft og lóð að vestanverðu. Oddagata 9 er glæsilegt hús og stendur á áberandi stað og brotna risið gefur húsinu sérstakt yfirbragð. Ofarlega á stafni hússins má sjá þrjá uppsveigða járnkróka í með postulínskúlum standa í lóðréttri röð. Þessi umbúnaður bar áður heimtaugar rafmagns frá háspennulínum, en árið 1928 þegar húsið var byggt, var allt heimilisrafmagn á Akureyri flutt með loftlínum. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein í kjallara og önnur á hæð og í risi. Þessi mynd er tekin þann 15.júlí 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 599, 18.7.1927 .

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Hús dagsins: Oddagata 3

Fyrir réttum 90 árum, eða 17.október 1925 fékk Eggert Melsteð, slökkviliðsstjóri, lóð norðan við “svokallað Melhús” og leyfi til að reisa þar íbúðarhús. P7150121
Skyldi það vera einlyft úr timbri með porti og risi og kvisti í gegn og ca. 1 metra framskoti á hálfri húslengd. Þessi lýsing passar að mestu við Oddagötu 3, að því undanskildu að húsið er steinsteypt.

Oddagata 3 er afar stórbrotið hús, það er í raun tvær álmur, önnur snýr stafni að götu en bakálma gengur úr húsinu sunnanverðu- eins og í beinu framhaldi af kvisti á framhlið. Ekki átta ég mig nákvæmlega hvað átt er við með “framskoti” en mögulega er vísað til þess, að kvistur syðst á húsinu er það sem ég kalla “framstæður” þ.e. gengur örlítið fram úr þaki og nær út fyrir veggi. Á bakhlið er einnig kvistur með hallandi þaki en þar er einnig inngönguskúr á norðurhorni bakhliðar og kemur þak hans í beinu framhaldi af þakskeggi. Einnig er inngangur á framhlið og steyptar tröppur að inngöngudyrum. P7150122Í gluggum eru ýmist þverpóstar á neðri krosspóstar á efri hæð en bárujárn er á þaki. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og ekki er að sjá auglýsingar um verslun eða iðnað í gagnasafni timarit.is, en Eggert Melsteð kemur nokkuð oft fyrir í bæjarblöðunum Degi og Íslendingi á 4.áratugnum þar sem hann gegndi stöðu slökkviliðsstjóra. Vorið 1936 er sólrík stofa auglýst til leigu í Oddagötu 3 og gæti ég ímyndað mér að sú stofa hafi verið í kvisti eða suðurálmu. Samkvæmt Húsakönnun frá 2014 mun húsið að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð og er ekki talið hafa sérstakt varðveislugildi umfram önnur hús í Oddagötunni. Húsið virðist í góðu standi en það hlaut miklar endurbætur fyrir um tveimur áratugum m.a. var þak endurnýjað. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndirnar eru teknar þ. 15.júlí 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundir nr. 575, 17.10.1925 og nr. 9.11.1925 . Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P6220002
  • IMG_3739
  • IMG_3753
  • IMG_3712
  • IMG_3713

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 65
  • Sl. viku: 401
  • Frá upphafi: 454813

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 224
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband