Færsluflokkur: Bloggar
11.10.2015 | 11:45
Hús dagsins: Oddagata 1
Ofan Miðbæjar Akureyrar (þ.e.a.s. þess hluta Hafnarstrætis sem kallast í daglegu tali Göngugatan) liggja tvær götur samsíða milli Grófargils og Skátagils. Gilsbakkavegur á bakka grófargils sunnan megin en norðar, við Skátagilið liggur Oddagatan. Ég tók fyrir elstu húsin við þessar götur, Melshúsin, í sumar en að sjálfsögðu eru fleiri hús við þessar götur sem vert er að kynna sér. Neðst við Oddagötuna stendur skemmilegt og skrautlegt steinhús frá 1927...
Snemma árs 1926 fékk Kristján Sigurðsson kennari frá Dagverðareyri hornlóð austast við Oddagötu. Lóðina höfðu Verslunarfélag Akureyrar og IOGT nr. 2 haft áður en hann fékk að yfirtaka hana. Um vorið fékk Kristján að reisa einlyft hús með háu risi og kvisti, 8,80 x 7,86 (!) m, samkvæmt framlögðum teikningum en þó þannig að bakskúr félli burtu og dyr yrðu á kjallara í stað glugga. (Ekki veit ég hvort þessi nákvæma breiddartala 7,86m sé misritun í því vélritaða afriti sem aðgengilegt er á Hsksj. og eigi að vera 7,80 eða hvort mál hússins hafi verið þetta nákvæmt, en svona tölur eru ekki algengar í bygginganefndarbókunum).
Oddagata 1 er sem áður segir, einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með risi og miðjukvisti á framhlið. Risið er brotið (mansard); aflíðandi efst en bratt niður að veggjum og er tjörupappi á þakinu. Á bakhlið er lítill bogadreginn kvistur. Þverpóstar eru í gluggum og inngangar á bakhlið, norðurhlið og á kjallara framhliðar. Á kvisti framhliðar eru litlar hliðarrúður. Húsið er undir áhrifum frá svonefndum jugend-stíl, þakkantar eru bogadregnir og skrautlegir bogar yfir gluggum sem gefa húsinu skemmtilegan svip. Kvistur bakhliðar er einnig bogdreginn. Fyrir vikið er Oddagata 1 einstaklega skrautlegt og svipsterkt hús og ekki spillir fyrir staðsetning þess, en húsið blasir við neðan úr hluta Miðbæjar og syðst af Oddeyrinni. Byggingarár hússins, 1927 er áletrað á miðjukvistinn. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líkast til einbýli fyrst en nú eru þrjár íbúðir í húsinu, ein á hverri hæð. Í nýlegri húsakönnun er húsið sagt nánast óbreytt frá upprunalegri gerð og er ekki talið hafa sérstakt varðveilsugildi sem slíkt, þó gildi hússins fyrir götumynd Oddagötu sé ótvírætt. Hér er mynd af húsinu og stutt umfjöllun í tæplega 40 ára gamalli grein í Tímanum um gömul hús á Akureyri. Þessi mynd er hins vegar tekin þ. 15.júlí 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundir nr. 580, 15.2.1926 og nr. 584, 3.5. 1926. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2015 | 19:23
Kartöfluræktunartilraun sumarið 2015
Ég hef síðustu sumur ræktað kartöflur í litlum 15 fermetra heimilisreit. Yfirleitt eru það rauðar, Gullauga eða Helga sem verða fyrir valinu en oft hef ég leitt hugan að því hvort mögulegt væri að rækta einhver "framandi" afbrigði. Snemma í apríl sl. átti ég leið um grænmetisdeild Hagkaupa og rak þá augun í stórar og miklar bökunarkartöflur frá Bretlandi. Ég ákvað að kaupa nokkur stykki af þeim og athuga hvort hægt væri að láta þær spíra og setja þær niður. Og svona tókst þessi litla tilraun til:
12-6-2015. Hér er 6 stk. bökunarkartöflur eftir rúmlega 2 mánaða "spírun". Myndin er tekin skömmu áður en ég setti þær niður en það var með allra seinasta móti, eða þann 12.júní. Vorið var með eindæmum lélegt, kalt og blautt, kafsnjór 1.maí (eftir stórhríð þ. 26.apríl) og ég man ekki til þess að hitastigið hafi nokkru sinni náð tveggja stafa tölu allan maímánuð. Þrátt fyrir sólskin var ísköld norðanátt þann 12.júní þegar ég setti kartöflurnar niður.
Til aðgreiningar frá annarri ræktum þ.e. rauðum og Gullauga kartöflum hlóð ég moldarstapan á myndinni fyrir bökunarkartöflurnar. Ég þorði ekki annað en að hafa gott bil á milli kartaflana því viðbúið var, að þær næðu mikilli stærð.
17.júlí voru komin nokkuð há grös. Bökunarkartöflugrösin voru hærri og stórgerðari en íslensku kartaflanna. Það rímar ekki við það sem ég hafði einhverju sinni heyrt, að því stærri sem grösin væru þeim mun minni kartöflum mætti búast við undir.
10.ágúst litu grösin svona út (Það sést á þessari mynd að ég var með eindæmum latur í arfatínslu þetta sumarið og skal það bara viðurkennt og játast hér með)
21.ágúst afréð ég að kíkja undir grösin. Sumarið hafði verið óhagstætt líkt og vorið; rakt og kalt og spretta seinni. En þarna voru komnar hinar ágætustu kartöflur. Móðurkartaflan er lengst til hægri á myndinni.
10-10-2015. Þann 10.október var svo komið að uppskeru. Haustið reyndist með eindæmum gott, september var hlýjasti mánuðurinn ef ég man rétt og ég var ekkert að flýta mér að rífa kartöflurnar upp þó kæmi ein og ein frostnótt. (Fyrsta frostnóttin var aðfararnót 31.ágúst og sá þá á grösunum en það er nú svo að spretta heldur áfram í moldinni þó grös sortni). Og svona lítur afraksturinn út! Stærstu kartöflunni ákvað ég að stilla upp við hlið hanska í fullorðinsstærð til viðmiðunar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2015 | 23:22
3x10 góð lög, frá þremur meistarasveitum.
Um daginn skrifaði ég færslu hér á síðuna undir yfirskriftinni "Eitt af stórvirkjum tónlistarsögunnar". Þar minntist ég á In-A-Gadda-Da-Vida flutt af hljómsveitinni Iron Butterfly en bæði trommari og söngvari sveitarinnar fögnuðu sjötugsafmæli sínu í sl. mánuði. Lesendur kunna að hafa dregið þá ályktun að gamla rokkið sé í miklu uppáhaldi hjá og vissulega er það svo: Ég er sérlegur aðdáandi Black Sabbath, Iron Maiden, Led Zeppelin, Deep Purple og fleiri slík nöfn eiga einnig upp á pallborðið hjá mér. Ég er raunar aðdáandi meira og minna allrar rokktónlistar og þungarokks líka s.s. Metallica, Slayer, Anthrax, High on Fire, In Flames. Íslenska deildin í rokkinu er sko heldur ekkert slor: HAM, Skálmöld,Brain Police, Sólstafir og að sjálfsögðu Trúbrot en þá er ég líka komin í sambærilega deild og hljómsveitirnar sem ég nefndi allra fyrst, hvað varðar tímabil og tónlistarstefnu. Ég gæti orðið svo langorður ef ég ætti að rökstyðja af hverju ég þessar sveitir eru í uppáhaldi hjá mér, að enginn nennti að lesa færsluna. Auk þess sem slík grein yrði að mestu upptalning á "frábær" "meistaraverk" og öðru eins í hástigi. En hér ætla ég einfaldlega að nefna 30 lög sem mér finnast á einhvern hátt framúrskarandi frábær, flutt af þremur hljómsveitum sem löngum hafa verið í uppáhaldi hjá mér. Hefst nú upptalning, áhugasamir geta "gúgglað" eða "jútúbbað" þessi heiti.
10 sérlega góð Black Sabbath-lög
Under The Sun (Every Day comes and go)
Heaven and Hell
Sign of the Southern Cross
Fairies wear Boots
Into the Void
Wicked World (sérstaklega 19 mínútna langa útgáfan af Live at Last tónleikaplötunni)
NIB
Black Sabbath
Zero the Hero
Sympton of the Universe
10 sérlega góð Iron Maiden lög
Rainmaker
Seventh Son of the Seventh Son
Rhyme of the Ancient Mariner
The Trooper
Nomad
Brave New World
Dance of Death
22 Acacia Avenue
Run to the Hills
Empire of the Clouds (af nýjustu plötu Maiden liða, Book of Souls, 18 mínútur af tærri snilld!)
10 sérlega góð Led Zeppelin lög
Lemon Song
The Battle of Evermore
Khasmir
My time of Dying
When the Levee Breaks
Custard Pie
Black Dog
Since I´ve been loving You
Dazed and Confused
...og svo síðast en ekki síst, Stairway to Heaven.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2015 | 15:25
Hús dagsins: Aðalstræti 30 (áður Laxagata 1)
Undanfarnar vikur hef ég fjallað um hús við Laxagötu á ofanverðri Oddeyrinni. Sú umfjöllun hófst á Laxagötu 2 og nú kann einhver að spyrja hvort ekki sé til staðar Laxagata 1. Svo er ekki, og hefur ekki verið sl. tæpu 30 ár eða svo en þar stóð vissulega hús. Það hús stendur meira að segja enn, en á öðrum stað. Bregðum okkur suður í Aðalstræti og þar hittum við fyrir "fyrrverandi Laxagötu 1"...
Fljótt á litið gæti utanaðkomandi að Aðalstræti 30 hefði staðið þarna frá ofanverðri 19.öld líkt og röðin sunnan við það frá 32. En það er öldungis rangt því húsið á sér aðeins 30 ára sögu á þessu tiltekna stað en er þó byggt árið 1929. Hér stóð áður hús sem talið var byggt um 1850 en það var rifið en óvíst hvenær, Steindór Steindórsson segir í bók sinni árið 1993 (bls.33) einfaldlega að það hafi verið rifið fyrir mörgum áratugum. En húsið sem nú stendur á lóðinni á sér þá merku sögu að hafa staðið á þremur stöðum, því það var byggt á Ráðhústorgi 7 en flutt ári síðar á Laxagötu 1 þar sem það stóð lengst af. Ekki fylgir sögunni hver byggði húsið (fann ekki upplýsingar í Bygginganefndafundargerðum - en mögulega þarf ég að leita betur!) en árið 1936 býr þarna (þ.e. Í Laxagötu 1) Herdís Jónasdóttir sem auglýsir fataviðgerðir og á snemma á upphafsárum hússins bjuggu þau Tómasína Þorsteinsdóttir og Jóhann Hallgrímsson þarna (Tómasína lést vorið 1937).
Aðalstræti 30 er einlyft timburhús með háu risi og miðjukvisti, klætt láréttri panelklæðningu og bárujárni á þaki. Húsið stendur á steyptum kjallara og eru inngangar á miðju miðju framhliðar en einnig á kjallara norðan megin en í gluggum hússins eru sexrúðupóstar. Þá stendur einnig bílskúr úr timbri norðan við húsið og er hann klæddur og málaður í stíl við húsið. Sem áður segir var húsið flutt á lóðina árið 1986 og var það þá allt gert upp frá grunni; og fékk aukinheldur nýjan grunn. Stefán Jóhannesson trésmíðameistari stóð fyrir þeim framkvæmdum og fullyrða má að þær hafi tekist frábærlega en af húsinu, sem fellur mjög vel inn í götumyndina, er mikill sómi og er það til mikillar prýði í því rótgróna umhverfi sem Aðalstrætið er. Húsið hefur einnig hlotið það viðhald sem best verður á kosið þessa þrjá áratugi sem það hefur staðið þarna. Ein íbúð er í húsinu. Myndin af Aðalstræti 30 var tekin á Uppstigningadag 2015, þ.e. 14.maí.
Hér má sjá lóðina Laxagötu 1 í október 2015. Nú er þarna bílastæði fyrir viðskiptavini verslunar ÁTVR,sem stendur við Hólabraut 16.
Heimildir:
Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Aðgengilegt á vefnum á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Innbaer/Innbaer_husakonnun.pdf
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2015 | 21:59
Hús við Gránufélagsgötu (að Hjalteyrargötu)
Hér eru pistlar um þau hús við Gránufélagsgötu sem ég hef tekið fyrir, og hyggst taka fyrir síðar, aðgengilegir á einum stað. Gránufélagsgata liggur samsíða Strandgötu og þverar Oddeyrina frá rótum brekkunar niður að Oddeyrartanga. Númerakerfi hennar er á köflum mjög sérstakt, svo ekki sé meira sagt, og hér birtast húsin í þeirri röð sem þau standa við götuna. Hér eru hús við þann hluta götunnar sem liggur ofan Hjalteyrargötu.
Gránufélagsgata 4 (1945)
Gránufélagsgata 7 (1912)
Gránufélagsgata 10 (1946) ATH. Sambyggt Lundargötu 7.
Gránufélagsgata 12(áður 28) (1931)
Gránufélagsgata 16 (1926)
Gránufélagsgata 18 (1906)
Gránufélagsgata 19 (1925)
Gránufélagsgata 20 (1908)
Gránufélagsgata 21 (1919)
Gránufélagsgata 22 (1922)
Gránufélagsgata 23 (1934)
Gránufélagsgata 27 (1926)
Gránufélagagata 39, 41, 41a (1929)
Gránufélagsgata 43 (1930)
Gránufélagsgata 29 (1917)
Gránufélagsgata 31 (2002)
Gránufélagsgata 33 (1917)
Gránufélagsgata 35 (1923)
Á Gránufélagsgötu 37 standa nýleg (2003) íbúðarhús. Neðan Hjalteyrargötu eru að mestu iðnaðarhúsnæði en þar eru einnig nokkrar íbúðir. Mögulega mun ég einhvern tíma taka þau fyrir hér, en þessi hús eru mörg hver komin á virðulegan aldur og eiga auðvitað mikla sögu.
Bloggar | Breytt 23.9.2018 kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2015 | 19:21
Hús dagsins: Laxagata 8
Laxagata 8 stendur á áttræðu þegar þetta er ritað, en húsið reisti Sigurður Rósmundsson árið 1935. Teikningar gerði Stefán G. Reykjalín og eru þær dagsettar 8.febrúar 1935 og þar má sjá upprunalega herbergjaskipan hússins.
Húsið er steinsteypt, einlyft á háum kjallara með háu risi og stórum hornstæðum kvisti með aflíðandi þaki á sunnanverðri framhlið. Á bakhlið er einnig kvistur með aflíðandi þaki. Láréttir þverpóstar eru í glugga utan í kjallara þar sem þeir eru lóðréttir en á þaki er bárujárn. Húsið hefur eitt einkenni funkisstefnu, þ.e. hornglugga og eru þeir á framhlið en einnig er einn slíkur á kvisti framhliðar Húsið er klætt utan með steinmulningi og ekki ósennilegt að um upprunalega klæðningu sé að ræða.
Kvistirnir eru seinni tíma viðbót við húsið en ekki eru heimildir fyrir því hvenær þeir voru byggðir, mögulega var það ekki samtímis, en að öðru leyti mun húsið að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Ég gat ekki fundið heimildir um neina verslun eða þjónustustarfsemi í Laxagötu 8 við uppslátt á timarit.is en ljóst er að þarna hafa margir átt heimili. Laxagata 8 er skemmtilegt og sérstakt hús í útliti og nýtur sín vel í götumyndinni. Sérkennilegur hornkvisturinn og horngluggarnir gefa húsinu sérstakan svip en húsið er þó ekki talið hafa sérstakt varðveislugildi umfram önnur hús við Laxagötuna. Lóðin er einnig vel gróin gróskumiklum reynitrjám sem voru einmitt í fullum skrúða þennan ágústdag, 14.8. 2015 þegar myndin var tekin.
Heimildir:
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Tenglar í texta vísa beint á heimildir.
Bloggar | Breytt 27.9.2015 kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2015 | 21:28
Hús dagsins: Laxagata 6 og Laxagata 7
Lengst af skrifaði ég allar húsafærslur beint inn á síðuna. En svo fór ég að hugsa að gaman gæti verið að eiga þessar færslur sem handrit og auk þess dregur það mjög úr mál -og innsláttarvillum að færa hann á milli. (Nógu margar eru þær nú samt í þessum færslum). En nú vill svo til, að færslur um öll húsin við Laxagötu eru komnar inn í skjal hjá mér og því ekkert sem segir að þær þurfi að mjatlast hér inn ein og ein. Svo hér koma umfjallanir um hús nr. 6 og 7.
Laxagata 6
Laxagötu 6 reistu þau Ólafur Magnússon sundkennari og Ingibjörg Baldvinsdóttir kona hans árið 1933. Hönnuður hússins var Árni Stefánsson. Húsið er einlyft timburhús með háu risi og stendur á mjög háum steyptum grunni. Áfastur kjallara að norðanverðu er steypt viðbygging með flötu þaki, upprunalega reist sem bílskúr. Ekki er vitað hvenær skúrinn er byggður en ljóst er að hann var risinn árið 1970. Á suðurhlið er inngönguskúr með geirarisi og steyptar tröppur upp að honum. Í gluggum eru eins konar þrískiptir þverpóstar, bárujárn á þaki en steinblikk á veggjum. Litglerjaður gluggi með skrautpóstum er á inngönguskúr mót suðri, og svipar nokkuð til sveitserstíls, sem var ráðandi í húsum efnamanna um aldamótin 1900. Árið 1970 var húsið teiknað upp og ástand skráð og virðist það vera í góðu standi þá, utan sem innan. Þá er húsið í eigu dánarbús Ólafs Magnússonar en hann lést vorið 1970. Hér er minningargrein Ingvars Gíslasonar um Ólaf Magnússon. Húsinu hefur líkast til alla tíð verið vel við haldið, alla vega er það í góðu standi nú og lítur vel út. Það er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð a.m.k. að utanverðu og er talið hafa varðveislugildi fyrir götumynd Laxagötu. Húsið er sem áður segir í góðu standi og lóð er einnig vel gróin og vel hirt og þar hefur verið reistur timburpallur með skjólgirðingum og steyptar stéttir og bílastæði. Bílskúr hefur verið innréttaður sem forstofa en ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin 14.ágúst 2015.
Laxagata 7
Laxagötu skipa þó nokkrir fulltrúar hinna ýmsu byggingargerða íbúðarhúsa frá fyrri hluta 20.aldar, enda þótt húsin séu aðeins sjö. Þar má finna timburparhús með risi og kvisti, timburhús með háu risi, steinsteypt parhús með háu risi auk kirkju og steinhús með með risi og miðjukvisti; timburhúsalagi. Þá má finna bárujárnsklæðningu og steinblikk, sléttan múr en einnig tvö hús klædd steinmulningi. Annað þeirra er Laxagata 7. Húsið er það nyrsta við götuna en Laxagata 9, sem áður var elsta hús við götuna (b.1925) var rifið um 1995.
En Laxagötu 7 reisti Eiríkur Einarsson eftir teikningum Snorra Guðmundssonar árið 1943. Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu góða en hér má sjá uppmælingateikningar Haraldar Árnasonar frá 1991 vegna svalabyggingar. Laxagata 7 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki, klætt steinmulningi eða skeljasandi eða perluákasti eða hvað menn vilja kalla þessa veggklæðningu. Bárujárn er á þaki en einfaldir póstar með láréttum fögum í gluggum. Á suðurhlið eru steyptar tröppur og inngangur á efri hæð en á vesturhlið eru svalir. Þá er litil álma á suðurhlið en þar eru inngöngudyr. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líkast til með einni íbúð á hvorri hæð og hafa margir átt þarna heimili. Samkvæmt Húsakönnun Ómars Ívarssonar er húsið að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð og ástand hússins sagt nokkuð gott. Þessi mynd er tekin 14. ágúst 2015.
Heimildir:
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Tenglar í texta vísa beint á netheimildir.
Bloggar | Breytt 26.9.2015 kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2015 | 08:53
Hús dagsins: Laxagata 5, "Kirkjan"
Götumynd Laxagötu er fjölbreytt og skemmtileg þó aðeins standi sjö hús við götuna. Sú bygging sem er kannski mest áberandi er Laxagata 5 eða kirkjan en hér er um að ræða fullgilda kirkjubyggingu með turni. En kirkju þessa reisti Aðventistasöfnuðurinn með þá O.J. Olsen og O. Frenning í broddi fylkingar árið 1933. Í skjölum byggingarnefndar er talað um kirkju innan gæsalappa og jafnframt tekið fram að söfnuður muni gefa alla vinnu við bygginguna. Upprunalegar teikningar hafa varðveist sjá hér, en þær eru hvorki áritaðar né dagsettar. Húsið er hefðbundið timburgrindarhús á steyptum grunni og með risi og turni á framhlið. þak bárujárnsklætt og steinblikk á veggjum en á turni er hins vegar slétt þakjárn. Gluggar eru stórir og víðir með margskiptum rúðum og eru þrír gluggar á hvorri hlið og einn á turni.
Ekki þekki ég það hversu lengi Aðventistar nýttu þessa kirkju sína en ekki hefur það verið um margra ára skeið. Torfi Maronsson nuddlæknir rak þarna nudd- og ljóslækningastofu á 5. og 6.áratugnum en fluttist úr húsinu með þá starfsemi árið 1960 og stóð húsið autt um einhver misseri . Vorið 1961 sýna Karlakór Akureyrar og Lúðrasveitin húsinu áhuga og var húsið um áratugaskeið aðsetur þeirra, en einnig hafði kvennadeild Slysavarnarfélagsins aðsetur í húsinu. Laxagata 5 hefur því löngum verið vettvangur söngs, samkoma og tónlistarflutnings. Nú gegnir húsið hlutverki aðseturs og æfingaaðstöðu Harmonikkuunnenda við Eyjafjörð en félagið keypti hlut Lúðrasveitarinnar í húsinu árið 2010. Þannig að nú eru dragspil þanin dátt í Laxagötu 5 þar sem áður ómaði lúðrablástur. Laxagata 5 er nánast óbreytt frá upphaflegri gerð að utan sem innan. Ómar Ívarsson telur húsið ekki hafa sérstakt gildi fyrir götumyndina en saga hússins og byggingarlagið gefi því töluvert gildi, auk þess sem húsið er afhelguð kirkja. Þeim sem þetta ritar þykir rík ástæða til þess að kirkjan við Laxagötu verði varðveitt áfram. Húsið virðist vel byggt og í nokkuð góðu standi. Þessi mynd er tekin 14.ágúst 2015 og með á mynd er stórglæsilegur Opel Rekord, A-518. Hann er árgerð 1961 (skv. uppflettingu í Ökutækjaskrá) og væntanlega er mikil saga á bak við hann. Það væri meira en vel þegið, ef einhver myndi lauma fróðleiksmolum um A518 hingað inn á athugasemdir eða Gestabók (ekki verður hægt að birta athugasemdir við færslu eftir 5.okt en gestabókin er alltaf opin)
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar.Fundargerðir 1930-35:Fundur nr. 705,17.8.1933. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Tenglar í texta vísa beint á netheimildir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2015 | 11:33
Hús dagsins: Laxagata 4
Haustið 1931 fékk Sigfús Grímsson leyfi til að reisa steinsteypt íbúðarhús við Laxagötu og tveimur árum síðar var honum leyft að reisa forstofu á norðurhlið. Þá voru einnig gerðar breytingar á húsinu 1938. Teikningarnar af húsinu voru eftir Tryggva Jónatanssonar en þær virðast ekki hafa varðveist; alltént eru þær ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Laxagata 4 er einlyft steinsteypuhús á nokkuð háum kjallara og með háu portbyggðu risi. Miðjukvistur er á framhlið en lágur kvistur með aflíðandi, hallandi þaki á bakhlið. Háaloft er yfir rishæð og þar eru smáir gluggar á göflum og á kvisti. Á norðurgafli er forstofubygging og steyptar tröppur að inngangi og ofan á henni svalir. Áföst inngönguskúr að austan er einnig viðbygging með skúrþaki Bárujárn er á þaki hússins en krosspóstar í gluggum. Á lóðinni stendur einnig einlyft bakhús með lágu risi, byggt um 1946 eftir teikningum undirritaðum af Snorra , þ.e. Snorra Guðmundssyni en þá byggingu reisti Baldur Helgason trésmíðameistari og rak hann þar smíðaverkstæði. Nú er þessi bygging að held nýtt sem geymsla. Framhúsið hefur að ég held alla tíða aðeins verið nýtt til íbúðar og er það einbýli. Laxagata 4 er stórglæsilegt hús með nokkuð hefðbundnu lagi. Tryggvi Jónatansson teiknaði þó nokkur hús með þessu lagi á síðari hluta þriðja áratugarins og í upphafi þess fjórða, m.a. Fjólugötu 8 sem er timburhús, mjög svipað þessu húsi í útliti. Laxagata 4 er til mikillar prýði í götumynd Laxagötu sem er nokkuð fjölbreytt þó húsin séu ekki mörg. Ein íbúð er í húsinu. Myndin af íbúðarhúsinu er tekin 14.ágúst 2015.
Hér að neðan sést bakhúsið á Laxagötu 4 en húsið byggði Baldur Helgason sem verkstæði um 1946. Myndin er tekin í fyrradag, 15.sept.2014.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-35: Fundur nr. 670, 21.sept.1931.
Fundur nr. 701, 15.júní 1933.
Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Bloggar | Breytt 19.9.2015 kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2015 | 08:59
Hús dagsins: Laxagata 3
Laxagötu 3 reistu bræðurnir Ebenharð og Oddur Jónssynir árið 1933. Voru þeir frá Hofi í Svarfaðardal. Húsinu var lýst í byggingarleyfi til Ebenharðs sem íbúðarhúsi, 16x8m ein hæð á kjallara og með lágu risi. Ekki verður annað séð en að þessi lýsing eigi enn við húsið. Húsið er einlyft á háum kjallara (sjálfsagt álitamál hvort kalla eigi kjallara jarðhæð í þessu tilfelli) og með nokkuð lágu risi, líklega er það rúmlega manngengt. Hver mörkin eru milli lágra og hárra risþaka er örugglega einnig á reiki, líkt og munur á kjallara og jarðhæð. Krosspóstar eru í gluggum hússins og bárujárn á þaki. Húsið hefur alla tíð verið parhús, Laxagata 3a og 3b og er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Á lóðinni stendur einnig bílskúr, byggður um 1995. Laxagata 3 er einfalt og látlaust hús en stórglæsilegt engu að síður. Það er í góðri hirðu og lítur vel út og er talið hafa varðveislugildi fyrir fallega ásýnd við vestanverða Laxagötu. Þessi mynd er tekin 14.8.2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35: Fundur nr. 701, 15.6.1933
Manntal á Akureyri 1940.
Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Tenglar í texta.
Bloggar | Breytt 19.9.2015 kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 22
- Sl. sólarhring: 80
- Sl. viku: 422
- Frá upphafi: 454834
Annað
- Innlit í dag: 20
- Innlit sl. viku: 243
- Gestir í dag: 20
- IP-tölur í dag: 18
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar