Hús dagsins: Helgamagrastræti 32

Helgamagrastræti 32 reisti Sigurður Pálsson árin 1942-43 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. P5030901Hann fékk í lok febrúar 1942 lóð austan Helgamagrastrætis, aðra lóð norðan væntanlegs Krabbastígs, sem nokkrum misserum síðar varð Bjarkarstígur. Í júlí sama ár er Sigurði heimilað að reisa íbúðarhús úr r-steini á steyptum kjallara, með steinlofti og járnklæddu timburþaki. Stærð hússins 12,20x9,5m.

Helgamagrastræti 32 er funkishús af stærri gerð, þ.e. að flatarmáli en er ekki háreist, einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Útskot er nyrst á framhlið og inngöngudyr í kverkinni á milli og svalir sem skaga út fyrir suðurhorn hússins í boga. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og steining á veggjum. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, einbýlishús. Um miðja 20. öld fluttust í Helgamagrastræti 32 þau Friðjón Skarphéðinsson og Sigríður Ólafsdóttir. Friðjón, sem fæddur var á Oddstöðum á Miðdölum árið 1909, var skipaður bæjarfógeti á Akureyri og sýslumaður í Eyjafirði árið 1945 og gegndi þeim embættum um árabil. Hann sat  á Alþingi 1956-´63 og gegndi í eitt ár, 1958-59, sem dómsmála- landbúnaðar- og félagsmálaráðherra. Bjuggu þau Friðjón og Sigríður hér fram undir 1967 en þá fluttust þau til Reykjavíkur þar sem hann gegndi stöðu yfirborgarfógeta. Friðjón lést árið 1996.   

Ýmsir hafa átt húsið og búið í gegn um tíðina. Á tíunda áratug 20. aldar átti Leikfélag Akureyrar húsið og var húsið þá nýtt sem tímabundinn íverustaður leikara og leikstjóra sem komu til bæjarins að taka þátt í leiksýningum. Var húsið nokkuð endurnýjað að innan þegar það var í eigu leikfélagsins, en ekki voru gerðar neinar stórvægilegar breytingar á húsinu. Húsið er raunar að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð en hefur alla tíð hlotið gott viðhald. Sama er að segja af lóð, sem er víðlend og vel gróin. Húsið er einfalt og látlaust að gerð, en verklegt járnhandrið á svölum setur nokkurn svip á húsið og skemmtilegan. Á lóðarmörkum er steyptur veggur, líklega upprunalegur og er hann einnig í góðri hirðu, og segir í Húsakönnun 2015 að veggurinn og handriðið gefi [...]húsinu gott heildaryfirbragð“. (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015:95). Þar er húsið metið með varðveislugildi 1, sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 900, þ. 28. febrúar 1942. Fundur nr. 24. júlí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 291
  • Frá upphafi: 420166

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 205
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband