Hús dagsins: Skólastígur 7

Skólastíg 7 reisti Jónas Kristjánsson mjólkursamlagsstjóri árið 1942.PC070959 Hann fékk leyfi til að reisa hús á tveimur hæðum með kjallara, 60 cm upp úr jörð, byggt úr steinsteypu með flötu þaki úr steini. Stærð hússins 8,8x9,6m auk útskots (stærð ekki tilgreind). Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson. Þess má geta, að við úthlutun byggingarleyfis bókar byggingarnefnd einnig, að hún feli byggingarfulltrúa að sjá til þess, að lóð sé ekki hækkuð með uppgrefti, heldur sé hann keyrður burtu.

Skólastígur 7 er tvílyft steinsteypuhús á kjallara, með lágu valmaþaki og útbyggingu með svölum á suðurhlið. Einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í flestum gluggum hússins, bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir.

Jónas Kristjánsson mjólkursamlagsstjóri, sem byggði Skólastíg 7 var fæddur að Víðigerði í Hrafnagilshreppi. Hann nam mjólkuriðnfræði í Danmörku árin 1924-27 og tók þátt í stofnun Mjólkursamlags KEA árið 1928 og gegndi þar forstöðu allt til sjötugs (1965). Hann var auk þess mjög virkur í hinum ýmsu störfum sem lutu að landbúnaði, m.a. Ræktunarfélags Norðurlands og Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Þá var hann einn af forvígismönnum um stofnun Minjasafns Akureyri. Hann hlaut riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu árið 1958. Jónas var kvæntur Sigríði Guðmundsdóttur. Bjuggu þau Jónas og Sigríður hér um árabil, hún lést 1958 en hann árið 1975. Húsið er teiknað sem einbýlishús og hefur líkast til verið það alla þeirra tíð. Vorið 1975 fluttist Geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri að Skólastíg 7 og var hér til húsa í um átta ár, en um 1983 fluttist deildin inn á sjúkrahúsið sjálft. Áfram þjónaði húsið þó hlutverki sjúkrastofnunar, því þarna var starfrækt iðjuþjálfun  á vegum geðdeildarinnar fram yfir aldamót. Ríkið seldi húsið árið 2009 og er það síðan einbýlishús, líkt og í upphafi. Húsinu hefur alla tíð verið vel við haldið og lítur vel út, og er næsta óbreytt frá upprunalega gerð að ytra byrði.

Skólastígur 7 er reisulegt og glæst steinhús í mjög góðri hirðu. Skrautlegt svalahandrið, tveir kringlóttir gluggar á vesturhlið (sem snýr að Laugargötu) og margskipt rúða á norðurhlið setja skrautlegan svip á húsið. Steyptur veggur með járnavirki á lóðarmörkum er til mikillar prýði. Þá er lóðin mjög gróin, líkt og gengur og víða á Brekkunni og ber þar mikið stæðilegum birkitrjám. Ekki er ólíklegt, að einhver þeirra trjáa lóðina prýða hafi Jónas Kristjánsson samlagsstjóri gróðursett á sínum tíma. Í Húsakönnun 2016 hlýtur húsið miðlungs, eða 6. stigs varðveislugildi, vegna götumyndar og byggingagerðar. Myndin er tekin þann 7. desember 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur 917, 3. júlí 1942. Fundur nr. 918 10. júlí 1942.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 89
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 385
  • Frá upphafi: 420406

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 288
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband