Hús dagsins: Skólastígur 9

Árið 1946 fékk Höskuldur Steinsson bakari lóð við Skólastíg, PC070963norðan við Jónas Kristjánsson, samlagsstjóra. Fékk hann einnig byggingarleyfi, en aldrei þessu vant bókar byggingarnefnd hvorki lýsingu húss eða mál, en tekur hins vegar fram, að leyfið sé háð því að gluggasetning á norðurhlið verði breytt í samráði við byggingarfulltrúa. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.

Skólastígur 9 er tvílyft steinsteypuhús á lágum kjallara, með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar eru í gluggum. Á austurhlið eru inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim og á suðurhlið svalir til SV á báðum hæðum.

Höskuldur Steinsson og kona hans, Hulda Sigurborg Ólafsdóttir sem byggðu Skólastíg 9, var Vestfirðingar, hann fæddur á Þingeyri og hún á Ísafirði. Höskuldur nam bakaraiðn af föður sínum, Steini Ólafssyni á Þingeyri Hann starfaði við Brauðgerð KEA á þeim 15 árum sem hann var búsettur í hér í bæ eða til ársins 1952. Þá tók hann við rekstrinum á Þingeyrarbakaríi föður síns á Þingeyri en fluttist síðar til Reykjavíkur þar sem hann rak um tíma Hverfisbakarí við Hverfisgötu. Höskuldur lést árið 1968, aðeins 55 ára að aldri. Ýmsir hafa búið hér eftir tíð þeirra Höskulds og Huldu, en húsið var teiknað sem tvíbýli, með einni íbúð á hvorri hæð. Síðar var innréttuð þriðja íbúðin í kjallaranum.

Skólastígur 9 er reisulegt og glæst hús af algengri gerð steinsteyptra funkishúsa frá fimmta áratugnum. Það hlýtur í Húsakönnun 2016 miðlungs (eða 5. Stigs) varðveislugildi, sem hluti hinnar áhugaverðu húsaraðar 5-13 við Skólastíg. Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út og sama á við um lóð, sem er gróin og prýdd hinum ýmsa trjágróðri. Á norðausturhorni lóðarinnar stendur t.a.m.  gróskumikið furutré. Það er ekki hátt, líklega nokkuð ungt tré og á eflaust „mikið inni“ eins og sagt er, og verður eflaust enn meiri prýði með auknum vexti. Myndin er tekin 7. desember 2019.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur 1058, 9. júní 1946 Fundur nr. 1061. 6. sept. 1946.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 124
  • Sl. sólarhring: 142
  • Sl. viku: 420
  • Frá upphafi: 420441

Annað

  • Innlit í dag: 116
  • Innlit sl. viku: 319
  • Gestir í dag: 115
  • IP-tölur í dag: 115

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband