Hús dagsins: Skipagata 1

Síðsumars 1931 fengu þeir Konráð Kristjánsson og Benedikt Ólafsson lóðir austan Skipagötu,P1190970 í framhaldi af lóð Axel Kristjánssonar, 9m meðfram götu. Fengu þeir að reisa hús, þrílyft, 9x11m, byggð úr járnbentri steinsteypu með járnbentum steinloftum. Hús þessi voru- og eru sambyggð- og reisti Konráð Skipagötu 1 en Benedikt hús nr. 3. Skráð byggingarár hússins er 1939 og hefur það líkast til verið fullbyggt þá, en það er sammerkt með flestum stórhýsa miðbæjarins, að þau eru byggð í áföngum. Teikningarnar að húsinu gerði Sigtryggur Jónsson.

    Skipagata 1 er fjögurra hæða steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Á efstu hæð eru svalir til vesturs með sólskála og á bakhlið, sem snýr að porti við Hofsbót. Á efri hæðum eru þverpóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæðar eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, og er þessi hönnun nokkurn veginn í samræmi við næstu aðliggjandi hús. Á bakhlið er einlyft viðbygging, vörugeymsla, byggð 1963. 

    Það yrði nokkuð langt mál að telja upp alla þá verslun og þjónustu sem Skipagata 1 hefur hýst í tæpa níu áratugi. Ef heimilisfanginu er flett upp í þágufalli koma upp nákvæmlega 600 niðurstöður þegar þetta er ritað um páskaleyti 2020. Konráð S. Kristjánsson, sem byggði húsið, var járnsmiður og starfrækti þarna Reiðhjólaverkstæði Akureyrar á fjórða áratug sl. aldar. Þá rak Þorsteinn M. Jónsson bóksali og bókaútgefandi forlag sitt þarna. Á fimmta áratugnum er þarna til húsa Verslun Guðjóns Bernharðssonar og  var hinn valinkunna skóverslun M.H. Lyngdal einnig þarna til húsa um tíma. Frá því snemma á  6. áratugnum rak Brynjólfur Sveinsson verslun eða vöruhús. Sú verslun var þarna starfrækt um árabil og þar fengust m.a. leikföng, heimilistæki og sportvörur, svo fátt eitt sé nefnt. Sem áður segir hefur húsið hýst hinar ýmsu verslun, þjónustu og skrifstofur en efri hæðir löngum verið íbúðir. Þá var gistiheimili hér á efri hæðum um árabil. Nú er Fasteignasala Akureyrar á götuhæð, snyrtistofa á annarri hæð, tvær íbúðir á 3. Og 4. hæð, ein á hvorri hæð fyrir sig.  

   Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er „[...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins“ (Landslag arkitektastofa 2014: 51) Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Húsið er í stórum dráttum óbreytt frá upphafi að ytra byrði, þó byggt hafi verið það bakatil og er í mjög góðri hirðu. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020. 

Heimildir

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-1935. Fundur nr. 669, 24. ágúst 1931. Fundur nr. 670, 21. sept. 1931. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 28
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 318
  • Frá upphafi: 420193

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 230
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband