Hús dagsins: Hólabraut 20

Árið 1944 fékk Hallur Helgason leyfi til að reisa hús við Hólabraut, P1190966á tveimur hæðum með valmaþaki. Stærð hússins að grunnfleti 10x8,5m auk útskots að sunnanverðu 7,6x1,5m. Í bókunum bygginganefndar kemur fram, að Hallur hafi lagt fram uppdrátt frá Sverri Ragnars, en í Húsakönnun 2011 er hönnuður hússins sagður Guðmundur Gunnarsson. (Ómar Ívarsson 2011: án bls.) Upprunalegar teikningar eru hins vegar ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, en þar má hins vegar finna burðarvirkisteikningar, dagsettar í júní 1944 og undirritaðar af H. Halldórssyni. (Sem er líklega Halldór Halldórsson, byggingafulltrúi).

Hólabraut 20 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Á suðurhlið er útskot og svalir á efri hæð og inngöngudyr og stétt í kverkinni á milli. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki.

Þegar þetta birtist eru rétt 75 ár síðan Hólabrautar 20 var fyrst getið á prenti, en það var þann 15. maí 1945, að Hallur Helgason auglýsti eftir stúlkum til starfa við síldarsöltun á Siglufirði það sumarið. Hallur Helgason, sem byggði Hólabraut 20, var fæddur hér í bæ árið 1900. Hann lauk prófi frá Vélstjórnarskólanum árið 1925 og starfaði alla tíð sem vélstjóri og yfirvélstjóri á hinum ýmsu skipum. Lengst af starfaði hann hjá Útgerðarfélagi Akureyrar en áður var hann hjá Síldaverksmiðju ríkisins. Hallur lést langt fyrir aldur fram árið 1956. Hann var kvæntur Guðbjörgu Sigurlín Bjarnadóttur (1905-1993) frá Vestmannaeyjum. Árið 1957 hefur neðri hæð hússins verið tveir eignarhlutar, en þá kemur fram í Viðskiptatíðindum að Grímur Stefánsson selji Sigríði Guðmundsdóttur norðurenda neðri hæðar. Margir hafa átt hér heima síðan bæði um lengri og skemmri tíma. Á meðal þeirra má nefna Jónas Rafnar lækni, sem var yfirlæknir á Kristneshæli í Eyjafirði frá stofnun og um áratugaskeið eftir það.

Hólabraut 20 er látlaust en reisulegt og glæst hús. Það er í afbragðs góðri hirðu og hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald, a.m.k. á síðustu árum. Lóðin er einnig vel gróin og vel hirt. Líkt og húsin austan Hólabrautar er það ekki talið hafa afgerandi varðveislugildi eitt og sér, en hluti heildar sem hefur nokkurt varðveislugildi. Tvær í búðir eru á húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.  

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 981, 30. júní 1944.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 243
  • Frá upphafi: 420926

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 190
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband