Hús dagsins: Hafnarstræti 81

Nyrst við Hafnarstrætið, undir bröttum brekkubrúnum standa stórhýsi, fimm til sjö hæða há, í röð allt út undir Ráðhústorg. Syðst í þessari röð steinsteyptra stórhýsa er Hafnarstræti 81, en húsið stendur norðan og neðan Sigurhæða og Akureyrarkirkju.P8170989

Húsið er byggt í áföngum á árunum 1944-47, (Steindór Steindórsson segir eldri hlutann byggðan 1941). En húsið er í raun tvö sambyggð hús, það syðra reistu þeir Jón Oddsson, Kári Hermannsson og Sigurbjörn Árnason en nyrðra húsið Björn Halldórsson og Samúel Kristbjarnarson. Það var 29. september 1944, sem þeir Jón, Kári og Sigurbjörn fengu lóðina nr. 81A úthlutaða. Tveimur vikum síðar fékk Björn Halldórsson leigða lóð, sem sögð var næst sunnan við Jón Oddsson. Vorið 1945 fá þeir Jón, Kári og Sigurbjörn leyfi til að byggja hús. Þeir vildu, og fengu að reisa, hús úr steinsteypu með járnbentum loftum og stigum, þrjár hæðir á háum kjallara að grunnfleti 14x10,5m. Skúrþak úr timbri, járnklætt. Í mars 1946 fengu þeir Björn Halldórsson og Samúel Kristbjarnarson síðan byggingaleyfi á sinni lóð. Ekki er vikið að lýsingu þeirra hús en fram kemur, að byggingarleyfi þeirri er veitt  á grundvelli staðfests samþykkis þeirra Leonards Kristjánssonar og Alberts Kristjánssonar á lóðarmörkum. E.t.v. áttu þeir lóðina Hafnarstræti 79, en það kemur ekki fram í gögnum Bygginganefndar. Teikningarnar að Hafnarstræti 81 gerði Guðmundur Gunnarsson. Frá upphafi var gert ráð fyrir starfsemi ýmis konar á jarðhæð og skrifstofum og íbúðum á efri hæðum.

Hafnarstræti 81 er steinhús í módernískum stíl, fimm hæðir alls, en efstu tvær hæðirnar eru eilítið inndregnar og svalir á bríkinni milli þriðju og efri hæða. Fjölmargar svalir eru á húsinu og djúpt port á bakvið. Einfaldir lóðréttir póstar eru í flestum gluggum.

Akureyrarbær eignaðist húsið, eða hluta þess, fljótlega eftir byggingu þess. Þegar heimilisfanginu Hafnarstræti 81 er flett upp á timarit.is birtast um 1500 niðurstöður, þar sem eitthvað hefur verið auglýst í húsinu.  Í lok árs 1947 er ný og glæst húsakynni Bókabúðar Rikku auglýst þarna., auk þess sem skrifstofa Flugfélagsins Loftleiða var þarna til húsa um svipað leyti. Árið 1955 er Raftækjavinnustofan Elding þarna til húsa en það sama ár flutti Náttúrugripasafnið á Akureyri í húsið og var þarna til húsa til 1996. Fram að því sýningarsalur á jarðhæð sunnanmegin. Nú mun Náttúrugripasafnið að mestu geymt í skúffum og kössum  og væri óskandi, að það kæmist fyrir sjónir almennings, líkt og í Hafnarstræti 81 forðum tíð.

Önnur merk menningarstofnun, Amtsbókasafnið, var þarna til húsa um árabil, eða frá því um 1950 til 1968. Var það á annarri hæð hússins, en um var að ræða bráðabirgðahúsnæði þar til langþráð nýbygging risi af grunni en sú bygging hafði verið í bígerð frá fjórða áratugnum. En það var ekki fyrr en 1968 að Amtsbókasafnið flutti í glæsta nýbyggingu að Brekkugötu 17, þar sem það er enn.  

Þriðja merka menningarstofnunin, sem átt hefur heimili að Hafnarstræti 81 er Tónlistarskólinn á Akureyri. Hann var hér til húsa á efri hæðum hússins í rúm 30 ár eða frá 1972 til 2003. Á árunum 2005-06 fór fram gagnger endurbygging hússins, þar sem það var endurinnréttað og byggt upp sem fjölbýlishús. Var þá byggt við fimmtu hæð hússins. Þær breytingar voru gerðar eftir teikningum Haraldar S. Árnasonar.   Nú er húsið fjölbýli með 25 íbúðum.

Hafnarstræti 81 er reisulegt og stórbrotið hús, líkt og gengur og gerist með hús af þessari stærð sem byggð eru í mörgum áföngum. Húsið sem er ráðandi í umhverfi sínu; eitt af kennileitum Miðbæjarins er í mjög góðri hirðu og snyrtilega frágengið. Er það enda sem nýtt, þar eð það var nánast endurbyggt frá grunni fyrir hálfum öðrum áratug. Það er ekki metið með sérstakt varðveislugildi í Húsakönnun um Drottningarbrautarreit árið 2012 og eru þar raunar gerðar athugasemdir við viðbyggingu á fimmtu hæð. Myndin er tekin 17. ágúst 2020.

 

Heimildir:

Akureyrarbær, Teiknistofa Arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar. 2012. Drottningarbrautarreitur-Hafnarstræti- Húsakönnun 2012. Minjastofnun. Pdf-skjal aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun-Drottningarbrautarreitur.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 993, 29. sept. 1994. Fundur nr 995, 14. okt. 1944. Fundur nr. 1013, 4. maí 1945. Fundur nr. 1046, 8. mars 1946.  Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll. Þegar maður horfir niður á Ráðhústorg á loftkortinu, stendur þar: óútvísað land. Hver ætli sé hugsunin að baki þessu? Skringilegt.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 14.12.2020 kl. 15:52

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl. Það er ekki gott að segja...spurning hvort þetta hafi með lóðaskipulag að gera, svo ég giski á eitthvað. 

Arnór Bliki Hallmundsson, 17.12.2020 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 17
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 256
  • Frá upphafi: 420939

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 203
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband