Hús dagsins: Klettaborg 4

Klettaborg 4 reistu þeir Arnór Einarsson og Herbert Tryggvason árið 1947. P9200986Það var á sumarsólstöðum 1946 að þeir fengu byggingarleyfi á lóð, sem þeir höfðu nýlega fengið á leigu. Teikning og lýsing voru sagðar fylgja, en ekki er farið nánar út í lýsingu á húsinu, að öðru leyti en því, að það var steinsteypt.  Teikningarnar að húsinu gerði Sigurður Hannesson.

Klettaborg 4 er einlyft steinhús á háum kjallara (eða jarðhæð) og með lágu valmaþaki. Húsið er byggt sem parhús, því sem næst samhverft og skiptist í austur og vesturhluta. Í flestum gluggum hússins eru einfaldir, lóðréttir póstar, bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir. Á stöfnum hússins, sem snúa mót austri og vestri eru steyptar tröppur og inngöngudyr á hæð.

Klettaborg 4 var um áratugaskeið efsta og vestasta húsið við Klettaborg. Þar sem lóðarmörkum sleppti tók raunar sveitin við með grænum túnum. Þéttbýli tók að rísa, skammt ofan við Klettaborg, við Kringlumýri á 6. og 7. áratugnum og enn ofar og vestar, í Gerðahverfi á þeim áttunda. Það var hins vegar ekki fyrr en um og uppúr aldamótum að hverfi tók að rísa við vestar við Klettaborgina. Líkt og flestir sem byggðu og bjuggu í húsunum við Klettaborgina unnu þeir Herbert Tryggvason og Arnór Einarsson á Gefjuni. Það var ekki óalgengt að menn ynnu á verksmiðjunum á Gleráreyrum svo áratugum skipti. Herbert náði þeim áfanga árið 1984, að hafa unnið í 50 ár á Gefjuni. Fyrst sem afgreiðslumaður en síðar, og um áratugaskeið, sem afgreiðslustjóri heildsölu fyrirtækisins. Margir hafa átt heima í Klettaborg 4 eftir þeirra tíð, og alla tíð hefur það verið parhús. Húsið er að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð, en þó hafa verið gerðar smávægilegar breytingar á gluggaskipan.

Klettaborg 4 er glæst og vel hirt hús, sem og umhverfi þess og lóð. Það er mjög svipað næstu húsum að gerð, en eina parhúsið í þyrpingunni og því ívið stærra en t.d. Klettaborg 1-3.  Á lóðinni eru nýlegir pallar og verandir úr timbri og frágangur allur hinn snyrtilegasti. Húsið er umvafið gróskumiklum trjágróðri, líkt og nærliggjandi. Ekki er höfundi kunnugt um, hvort Klettaborg 4 hafi varðveislugildi. Ætti síðuhafi hins vegar að úrskurða um, hvort þessi litla þyrping steinhúsa frá miðri 20. öld við Klettaborg, ætti að hafa eitthvert varðveislugildi, væri svarið að sjálfsögðu aðeins á einn veg. Þá er grænt og geðþekkt umhverfi Klettaborgarinnar einstaklega aðlaðandi. Sem áður segir, er Klettaborg 4 parhús með tveimur íbúðum. Myndin er tekin þann 20. september 2020.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1056, 21. júní 1946. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Arnór. Það er heilmikið fjallað um KA og Þór á akureyrskum netsíðum. En hvernig skiptist eiginlega bærinn milli þeirra? Er fólk í Glerárþorpi í Þór og fólk í mið- og innbænum í KA?

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 5.2.2021 kl. 17:02

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl og blessuð

Þetta er nokkurn veginn rétt hjá þér, skiptingin Þór/KA miðast við Glerá; flestir eru íbúar Glerárþorps (norðan Glerár) Þórsarar og fólk á Brekkunni, Innbænum og nærliggjandi svæðum í KA. Eyrin hefur mér ætíð þótt svolítið beggja blands, líklega eru þó Þórsarar í nokkrum meirihluta þar. Ekki algilt svosem- það finnast Þórsarar á Brekkunni og KA-menn í Þorpinu o.s.frv. 

Arnór Bliki Hallmundsson, 7.2.2021 kl. 17:20

3 identicon

Takk f. svarið. Var Þór þá kannski stofnaður áður en þorpið sameinaðist Akureyri? Hvenær var það annars? Fátæka fólkið bjó í þorpinu, hefur þá ekki verið stéttamunur á félögunum? 

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 8.2.2021 kl. 13:12

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl aftur.

Þór var nefnilega stofnaður á Oddeyrinni árið 1915, þ.e. fjörutíu árum áður en Glerárþorp sameinaðist Akureyri. KA er hins vegar stofnað 1928, í Innbænum. Veit ekki með stéttamun beinlínis milli félaga- en staðreyndin er sú, að efnaðra fólk bjó í meira mæli í Innbænum en á Eyrinni.  

Arnór Bliki Hallmundsson, 8.2.2021 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 46
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 326
  • Frá upphafi: 420299

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 221
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband