Hús dagsins: Hvoll í Glerárþorpi (Stafholt 10)

Fyrir réttum áratug (19. apríl) og degi betur birti ég mynd af Hvoli í Glerárþorpi ásamt nokkrum öðrum af gömlu býlum Glerárþorps. Ekki var umfjöllunin löng, aðeins fáeinar setningar. Hér er öllu ítarlegri grein um hið látlausa og geðþekka, hátt í 12 áratuga gamla timburhús ofan Sandgerðisbótar. Heimildir um Glerárþorpsbýlin eru að mörgu leyti takmarkaðri og óaðgengilegri heldur en um húsin á t.d. Oddeyri, Innbænum og Brekkunni. Ég hef ekki fundið skipulagðar húsakannanir um þau, líkt og til eru um hin hverfin- en mögulega eru þær til þó ég hafi ekki vitneskju um það. Glerárþorpsbýlanna er ekki getið í Byggðum Eyjafjarðar enda töldust þau fæst til fullgildra býla samkvæmt hefðbundnum skilgreiningumog gögn Bygginganefndar Akureyrar fyrir 1955 ná ekki yfir Glerárþorp- einfaldlega vegna þess að það var ekki hluti Akureyrar fyrir þann tíma. Ein ítarlegasta heimildin er grein Lárusar Zophoníassonar, Glerárþorp- 100 ára byggð, sem birtist í tímaritinu Súlum árið 1980. 

Hvoll  stendur við götuna Stafholt, lítið eitt vestan við Krossanesbraut,PB130488 vestan og ofan Sandgerðisbótar. Húsið mun eitt elsta uppistandandi hús í Glerárþorpi, að Lögmannshlíðarkirkju undanskilinni, byggt um 1905.

Hvoll er einlyft timburhús með háu risi og á lágum grunni. Á austurstafni er viðbygging með aflíðandi einhalla þaki og inngönguskúr að framanverðu. Húsið er allt bárujárnsklætt, nema hvað inngönguskúr er timburklæddur. Þverpóstar í gluggum.

Heimildum ber raunar ekki saman um hvenær húsið er byggt, í bókinni Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs er húsið sagt byggt 1902 en í grein Lárusar Zophoníassonar um byggðasögu Glerárþorps, sem birtist í tímaritinu Súlum (10. árg., 1980) er húsið sagt byggt 1905. En þann 22. mars það ár mun Jakob nokkur Sigurgeirsson hafa fengið leyfi til að reisa þarna þurrabúð. Jakob var fæddur í Vindhælishreppi í Húnavatnssýslu árið 1859 og vann m.a. sem matsveinn á skipum. Ekki fylgja lýsingar á þurrabúðinni og engar teikningar finnast af húsinu á kortavef Akureyrar. Höfundur getur sér til, að vesturhluti hússins, sá með háa risinu sé elsti hluti hússins. Höfðu þau Jakob og Pálína verið í húsmennsku í tvö ár á Melstað, sunnar í Glerárþorpi.

 Í Manntali 1910 eru fjórir einstaklingar skráðir til heimilis á Hvoli í Lögmannshlíðarsókn, fyrrgreindur Jakob, kona hans Pálína Einarsdóttir, Njáll sonur þeirra og leigjandi að nafni Steinmóður Þórsteinsson. Pálína var framan úr Saurbæjarhreppi, nánar tiltekið frá Ytri- Villingadal. Bjuggu Jakob (d. 1926) og Pálína (d.1948) á Hvoli til dánardægurs og Njáll sonur þeirra um langt árabil eftir þeirra dag. Þannig var Hvoll í eigu sömu fjölskyldu um áratugaskeið. Þegar Glerárþorp var lagt undir lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar tók fljótlega að myndast þéttbýli. Uppbygging þéttbýlis hófst syðst og austast, Holta- og Hlíðahverfi. Síðu- og Giljahverfi byggðust löngu síðar. Gömlu býli Þorpsins fengu öll númer við götur hverfana, og varð Hvoll nr. 10 við Stafholt.

Hvoll er í afbragðs góðri hirðu og til mikillar prýði, og sama er að segja af umhverfi þess. Það stendur á áberandi og skemmtilegum stað, á hól ofan Stafholts skammt frá Krossanesbraut, sem er ein af stofnbrautum hverfisins. Umhverfis húsið og neðan þess er gróskumikill asparlundur. Hús á borð við Hvol, gömul býli í nýrri hverfum, setja ævinlega skemmtilegan svip á umhverfið og hef ég áður lýst þeirri skoðun, að slík hús ættu að njóta varðveislugildis eða friðunar. Hvoll er væntanlega aldursfriðað skv. lögum nr. 80/2012 um menningarminjar, þar eð það er orðið 100 ára gamalt. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 13. nóvember 2016.

Heimildir: Lárus Zophoníasson.1980. „Glerárþorp – 100 ára byggð“. Súlur X. árg. (bls. 3-33)

Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 37
  • Sl. sólarhring: 83
  • Sl. viku: 317
  • Frá upphafi: 420290

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 214
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband