Hús dagsins: Norðurgata 42

Á næstu vikum mun ég taka fyrir ysta og yngsta hluta Norðurgötu á Oddeyrinni, þ.e. þann hluta götunnar sem liggur norðan Eyrarvegar. Þann 22. apríl sl. brá ég mér í göngutúr með myndavélina og ljósmyndaði þau hús og svo var kíkt á kortavef Akureyrar, þar sem ég sá oftast nær hverjir byggðu og þá var arkað upp á Héraðsskjalsafn og umræddum nöfnum flett upp. Og svo vindur það upp á sig; fyrst ég tek fyrir ysta hluta Norðurgötu er auðvitað ekki nema sanngjarnt, að samliggjandi hlutar Ránargötu og Ægisgötu verði einnig til umfjöllunar seinna meir. Hér er Norðurgata 42. 

 

Nöfnin Magnús og Jóhann þekkja flestir landsmenn sem dúett tveggja frábærra tónlistarmanna,P4220984 sem skemmt hafa þjóðinni með óviðjafnanlegum lagasmíðum í hálfa öld. Það voru hins vegar aðrir tveir Magnús og Jóhann sem reistu Norðurgötu 42 fyrir þremur aldarfjórðungum. Þeir Jóhann Sigurðsson og Magnús Stefánsson reistu húsið árið 1946, eftir teikningum hins fyrrnefnda.  Lóðina fékk Jóhann þann 1. mars það ár og rúmum mánuði síðar fékk hann, ásamt Magnúsi, byggingarleyfi. Fengu þeir að reisa steinsteypt hús, eina hæð á háum kjallara og með valmaþaki, 10,9x8,5m auk útskots að norðan, 2,5x5,7m.

Magnús Stefánsson (1907-2000) var fæddur á Kambfelli í Djúpadal og starfaði lengst af á efnaverksmiðjunni Sjöfn, m.a. sem verkstjóri. Hann var kvæntur Guðrúnu Björgu Methúsalemsdóttur (1916-2005), frá Tunguseli á Langaseli.   Jóhann Sigurðsson (1910-2001) var úr Svarfaðardal, fæddur og uppalin á Göngustöðum. Hann starfaði sem smiður, kom m.a. að byggingu loftskeytastöðva víða um land, m.a. á Heiðarfjalli og Gufunesi en starfaði síðar við viðhald og smíðar hjá Sambandsverksmiðjunum. Eiginkona Jóhanns var Brynhildur Klara Kristinsdóttir (1915-2003) frá Jörva á Húsavík. Bjuggu þau í húsinu um áratugaskeið, Magnús og Guðrún allt fram undir aldamót. Mun íbúðaskipan óbreytt frá upphafi, ein íbúð á hvorri hæð.

Enda þótt húsið sé sagt ein hæð á kjallara í byggingarleyfi er líkast til óhætt að fullyrða, að húsið sé tvílyft. Það er með lágu valmaþaki, einföldum póstum í gluggum, bárujárni á þaki og sléttum múr á veggjum. Á efri hæð eru svalir til suðvesturs. Húsið er líkast að mestu óbreytt frá upphafi og er í mjög góðri hirðu.

Húsið er hluti nokkuð langrar og heilsteyptrar raðar tveggja hæða steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld. Sú götumynd má segja að sé ysti kaflinn í kaflaskiptri og áhugaverðri götumynd Norðurgötu, sem er ein lengsta gatan á Oddeyri og byggð á afar löngum tíma. Þar má finna timburhús frá síðari hluta 19. aldar og nokkrar gerðir steinhúsa frá 3., 4. og 5. áratug 20. aldar. Eiginlega má segja, að gatan sé eins og safn um mismunandi húsagerðir frá þessu tímabili. Því er það skoðun síðuhafa, að gjörvöll Norðurgatan eigi að njóta óskoraðs varðveislugildis eða jafnvel friðunar (þó síðuhafa sé kunnugt um, að ekki tíðkist að friða heilar götur).Ekki liggur fyrir húsakönnun fyrir þennan ytri hluti Oddeyrar, svo höfundur viti til, svo ekki er honum kunnugt um varðveislugildi hússins. Framan við húsið stendur mjög gróskumikið reynitré. Er það til mikillar prýði, líkt og húsið og lóðin í heild sinni. Myndin er tekin á sumardaginn fyrsta, 22. apríl, 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1044, 1. mars 1946. Fundur nr. 1050, 12. apríl 1946.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Arnór. Hvað finnst þér um þessar áætlanir að byggja há fjölbýlishús við Tónatröð? Ég get ekki betur séð á þrívíddarkortinu en að þarna sé of bratt til að byggja há og þung hús, jafnvel skriðuhætta.

Eitt sinn komu frambjóðendur til borgarstjórnar Rvíkur með þá hugmynd að byggja í Akurey hér á sundunum. En þessir aðilar þögnuðu svo fljótt. Þeir höfðu nefnilega aldrei litið á landfræðikort. Þar sést hve lítið af eyjunni er uppúr sjónum á háflóði. Flatarmálið er mest fjara.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 6.5.2021 kl. 12:52

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl og blessuð

Skemmst er frá því að segja, að mér þykja þessar hugmyndir afleitar- svo ég gerist nú ekki stóryrtari. Þetta er í algjöru ósamræmi við þá byggð sem fyrir er, sem er ein sú rótgrónasta í bænum og einn tilkomumesti útsýnisstaðurinn. Það væri í fínu lagi að byggja þarna einbýlis- eða parhús. Burtséð frá allri fagurfræði má líka setja spurningarmerki við burðarþol brekkubrúnarinnar, þetta eru þúsundir tonna af steypu sem komið er fyrir á hlutfallslega smáum blettum og spurning hversu gott hald er í brekkunni. Það eru fordæmi fyrir skriðuföllum í brekkunum þarna í kring og þurfti nú aldeilis engin háhýsi til. Þá er spurning hvernig innviðir eru til staðar þarna í kring, t.d. umferðarmannvirki. Það getur verið stórmál að mætast á Spítalaveginum (hluti hans raunar einstefna) en svo á að stefna fleiri hundruð íbúum fyrirhugaðra húsa þangað. Semsagt, mér líst ekkert á blikuna hvað þessi áform varðar undecided.

Arnór Bliki Hallmundsson, 7.5.2021 kl. 17:44

3 identicon

Ég nefndi þetta í fyrradag við kunningjakonu frá Akureyri. Hún var ekki búin að sjá þetta, og ætlaði varla að trúa því nokkrum dytti í hug að byggja fjölbýlishús þarna. Þetta er sama fyrirtækið og ætlaði að byggja háhýsi á Oddeyri. Arkitektarnir virðast hvorki kunna neitt í jarðfr. né eðlisfræði, minna en máladeildarstúdentinn ég.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 7.5.2021 kl. 19:06

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Já, það virðist ýmislegt í þessu, sem ekki er hugsað til enda.

Arnór Bliki Hallmundsson, 8.5.2021 kl. 18:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 51
  • Sl. sólarhring: 51
  • Sl. viku: 315
  • Frá upphafi: 420253

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 220
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband