Hús dagsins: Norðurgata 46

Haustið 1946 fékk Þórólfur Sigurðsson lóðina og byggingarleyfi skv. teikningu.P4220986 Ekki var um frekari lýsingu að ræða en bygginganefnd krafðist hins vegar breytinga á teikningu. Teikningar að húsinu eru ekki aðgengilegar á kortagrunni Akureyrarbæjar, en elstu teikningar sem þar eru að finna eru raflagnateikningar eftir Sig. Þorgrímsson frá 1946. Þar finnast einnig teikningar Jóns Geirs Ágústssonar frá 1962 af breytingum á neðri hæð, en ekki tekið fram í hverju þær breytingar felast.

Norðurgata 46 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og þrískiptir, lóðréttir póstar í gluggum. Á suðvesturhorni eru síðir og breiðir horngluggar og á miðri framhlið eru svalir með skrautlegu járnavirki.

Þórólfur Sigurðsson, sem byggði húsið var fæddur árið 1902 í Syðra- Dalsgerði í Saurbæjarhreppi. Hann var bóndi þar og einnig á Saurbæ árin 1931-33 en starfaði lengst af sem húsasmiður. Bjó hann hér og seinni kona hans, Sigurpálína Jónsdóttir frá Hauganesi, um árabil. Margir hafa búið hér um lengri og skemmri tíma. Ef húsinu er flett upp á timarit.is koma upp 44 niðurstöður, sú elsta frá október 1950, þar sem Aðalsteinn Þórólfsson auglýsir barnavagn til sölu. Árið 2017 þjónaði húsið sem kvikmyndasett fyrir stuttmyndina Saman og saman með þeim stórleikkonum Sunnu Borg og Sögu Jónsdóttur í aðalhlutverkum. Leikstjóri var Hreiðar Júlíusson.

Húsið er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu og þegar þetta er ritað skartar húsið skemmtilegum gulbrúnum lit. Líkt og við flest hús við ytri hluta Norðurgötu er steyptur veggur með járnavirki á lóðarmörkum. Ein íbúð er í húsinu.  

Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1064, 20. sept. 1946. Fundur nr. 1067, 25. okt. 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Arnór, ert þú ekki í Facebook-hópnum Gamlar Akureyrarmyndir? Þar sem ég fór í hópinn Gamlar ljósmyndir, bauð FB mér í þennan líka og ég samþykkti.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 7.6.2021 kl. 21:46

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl og blessuð. Jí ég er meðlimur í þessum hópum; margt ótrúlega fróðlegt sem þar er að sjá. Og skemmtilegt.

Arnór Bliki Hallmundsson, 7.6.2021 kl. 22:42

3 identicon

Ég þurfti reyndar að svara spurningu um hvað höfuðborg Íslands héti, til að fá inngöngu í Akureyrarhópinn. Ætli tilgangurinn sé að útiloka útlendinga og illa gefið fólk (sem kannski heldur að það sé Akureyri)?

Svo er nær botnlaus uppspretta af myndum á vef Ljósm.safns Rvíkur, sumar mjög gamlar. Þær eru ekki allar frá Rvík, en stór hluti þeirra. Þar er hægt að leita eftir ljósmyndurum, ártölum, atriðisorðum, t.d. götuheitum.  Vissirðu hve margar þær eru orðnar núna? - Rúmlega 48 þúsund.

P.S. Fínt hjá þér að birta hlekk inn á Gamlar myndir frá Ak.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 8.6.2021 kl. 12:21

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Líklega eru þessar spurningar einmitt hugsaðar til að útiloka tilbúna reikninga eða svindlara- hverrar þjóðar sem er. Algjör plága þegar slíkir komast inn á svona síður. En þessar gömlu myndir eru þvílíkur fjársjóður sem heimildir um fyrri tíma. Mynd segir svo sannarlega meira en 1000 orð.  

Arnór Bliki Hallmundsson, 9.6.2021 kl. 23:07

5 identicon

Nefnilega það. Ég er í 7 öðrum FB-hópum, og það hefur ekki verið svona spurning í neinum þeirra. Fara Akureyringar kannski varlegar en aðrir landsmenn? A.m.k. sagði Ásthildur bæjarstjóri að þeir fylgdu reglum. En ég hef nú oft orðið vör við hraðakstur þar.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 10.6.2021 kl. 17:45

6 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl. Þetta er sjálfsagt eitthvert stillingaratriði hjá stjórnendum hópa- en það er rétt að líklega er það ekki mikið notað, sjálfsagt í fæstum hópum. En ég held ég geti fullyrt, að yfirlýsingar um yfirburði Akureyringa  í því að fylgja reglum, séu töluvert ýktar wink

Arnór Bliki Hallmundsson, 11.6.2021 kl. 18:29

7 identicon

Merkilegt var að lesa frásögn Jóns Hj. af brunanum í verksmiðjunni á Gleráreyrum. Bókhaldarinn, sem var fjölskyldumaður, hætti lífi sínu og fór inn í eldinn - til að bjarga bókhaldsgögnunum! Honum var svo naumlega bjargað út. Skyldurækni í ýktustu mynd.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 12.6.2021 kl. 13:04

8 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Já, þetta var ansi langt gengið í björgun verðmæta. Það er nokkuð ljóst af frásögnum Jóns, að þarna hefur hurð skollið verulega nærri hælum- og raunar nokkuð margar hurðir. (Kannski gremjulegast í þessu öllu saman, að löngu síðar voru allar þessar verksmiðjubyggingar, sem svo giftusamlega var bjargað þarna, jafnaðir við jörðu vegna stækkunar Glerártorgs).

Arnór Bliki Hallmundsson, 15.6.2021 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 304
  • Frá upphafi: 420277

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 207
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband