Hús dagsins: Norðurgata 47

Norðurgötu 47 reisti Gestur Halldórsson árið 1946. P4220991Hann fékk þriðju lóð frá reit Byggingafélagsins (Norðurgötu 39-41) og leyfi til byggingar steinsteypts húss á tveimur hæðum, 11x10m að grunnfleti með steyptu lofti og timburþaki. Bygginganefnd setti honum það skilyrði, að undir húsinu yrði 40 cm sökkull, miðaður við götuhæð. Á kortavef Akureyrar má finna járnateikningar eftir Halldór Halldórsson en ekki ljóst þar, hvort hann sé hönnuður hússins.

Norðurgata 47 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Steining er á veggjum, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunar til suðurs.

Gestur Halldórsson, sem reisti húsið, var húsasmiður, fæddur að Vöglum í Miklabæjarsókn í Skagafirði.   Ef Norðurgötu 47 er flett upp á timarit.is í þgf. koma upp rúmlega 50 niðurstöður, sú elsta frá janúar 1950. Þar auglýsir Rögnvaldur Rögnvaldsson, búsettur í húsinu, að hann taki að sér hreingerningar. Sex árum síðar auglýsir Gestur Halldórsson, sem byggði húsið, neðri hæðina til sölu. Svo vill, til að á sömu opnu í Degi þann 9. ágúst 1956 þar sem auglýsing Gests birtist, auglýsir Jón Sigtryggsson efri hæðina til sölu. Þannig má ætla að húsið eigendaskipti hafi verið á báðum hæðum síðsumars eða haustið 1956. Á sömu opnu er einnig áhugaverð grein, með fyrirsögninni „Yngstu bændurnir kunna ekki að slá“, þar sem bornir eru saman sláttuhættir þess tíma og fyrri. Sjálfsagt hafa hæðirnar skipt þó nokkrum sinnum um eigendur og íbúa síðan en öllum auðnast að halda húsinu vel við í hvívetna. Tvær íbúðir eru í húsinu, á sinni hæð hvor.

Norðurgata 47 er reisulegt en látlaust hús í góðri hirðu og er líkast til að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Það er hluti af langri og heilsteyptri röð sviplíkra steinhúsa og til prýði sem slíkt. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Allt frá 19. aldar timburhúsunum í suðri til og með langrar heilsteyptar raðar steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. Öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1045, 1. mars 1946. Fundur nr. 1049, 12. apríl 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 284
  • Frá upphafi: 420257

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 198
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband