Hús dagsins: Norðurgata 50

Árið 1946 fékk Sigfús Grímsson „fimmtu lóð norðan við Kristján Jakobsson“P4220988 og byggingarleyfi. Hann fékk að reisa hús á tveimur hæðum byggt úr steinsteypu með valmaþaki, 11x11m að stærð með viðbyggðum bílskúr, 5,30x3,75m. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.

Norðurgata 50 er tvílyft steinhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Þá er bílskúr áfastur á norðurhlið og er hann með flötu þaki. Grunnflötur þess er nokkurn veginn ferningslaga að viðbættu útskoti norðanmegin á framhlið (vesturhlið). Sunnan úr framskoti eru svalir til suður og eru þar einnig inngöngudyr á neðri hæð. Steiningarmúr er á veggjum og var hann endurnýjaður fyrir ekki margt löngu og bárujárn er á þaki. Breiðir, skiptir krosspóstar eru í flestum gluggum.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, með einni íbúð á hvorri hæð en einnig voru stök herbergi og stofur leigðar út. Elstu heimildir sem timarit.is finnur um Norðurgötu eru frá 1947, þar sem Sigfús Grímsson auglýsir stofu og herbergi til leigu í húsinu og árið 1952 auglýsir hann neðri hæðina til sölu. Sigfús Grímsson (d. 1978) , sem reisti húsið, var fæddur árið 1893 í Tunguseli í Sauðanessókn, N-Þing. Hann var húsasmíðameistari en stundaði framan af ævi búskap á Ærlækjarseli en fluttist til Akureyrar um 1930 en 1931 byggði hann húsið Laxagötu 4. Sigfús fluttist á efri árum til Reykjavíkur. Margir hafa búið í húsinu um lengri eða skemmri tíma og á tímabili var KB bólstrun til húsa í Norðurgötu 50. Tvær íbúðir eru í húsinu og hefur svo verið frá upphafi, sem fyrr segir.

Norðurgata 50 er reisulegt og stæðilegt steinhús í mjög góðri hirðu. Það hefur nýlega fengið gagngerar endurbætur, m.a. nýjan múr og veggi og er sem nýtt að sjá. Allur er frágangur húss og lóðar, þ.m.t. steypts veggjar og járnavirkis á lóðarmörkum,  hinn snyrtilegasti og til fyrirmyndar. Húsið er þó næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1044, 8. mars 1946. Fundur nr. 1050, 12. apríl 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 282
  • Frá upphafi: 420255

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 196
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband