Hús dagsins: Norðurgata 53

Skapti Áskelsson, löngum kenndur við Slippinn, reisti Norðurgötu 53 árið 1947P4220996 ásamt bróður sínum, Þóri. Lóðina fékk hann í apríl 1946. Skapti hafði áður fengið Norðurgötu 51, en skipti á henni við Ármann Magnússon. Á sama fundi Bygginganefndar og lóðaskipti Ármanns og Skapta voru afgreidd fékk Skapti einnig leyfi til húsbyggingar á lóðinni. Fékk hann að reisa hús úr steinsteypu en tekið fram að loft yfir efri hæð, þak og nokkur hluti af skilrúmum efri hæðar verði úr timbri. Húsið yrði 13x11m og bílskúr 5x6,87m. Teikningarnar gerði Halldór Jónsson.

Norðurgata 53 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Á austurhlið er útskot og þar eru svalir til suðurs. Veggir eru steinaðir og bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Áfastur bílskúr er á norðurhlið og eru á honum einskonar svalir, en svalir til suðurs eru áfastir útskotinu að austan.

Þeir bræður Skapti (1908-1993)og Þórir (1911-2000) Áskelssynir voru uppaldir á Skuggabjörgum í Dalsmynni og sá síðarnefndi fæddur þar. Skapti var fæddur að Austari-Krókum í Fnjóskadal. Bjuggu þeir hér allt til dánardægra ásamt fjölskyldum sínu, Skapti og Guðfinna Hallgrímsdóttir á efri hæð en Þórir og Dóra Ólafsdóttir á neðri hæð. Skapti Áskelsson, „Skapti í Slippnum“ er nafn sem flestir Akureyringar og nærsveitarmenn kannast við. Hann var um árabil forstjóri Slippstöðvarinnar og var einn af helstu máttarstólpum í atvinnulífi bæjarins á síðari hluta 20. aldar. Gegndi hann starfi framkvæmdastjóra Slippstöðvarinnar í tæpa tvo áratugi og undir hans forystu fór fram mikil uppbygging og afrek unnin í skipasmíðum. Eftir að hann hætti hjá Slippnum stofnaði hann byggingarvöruverslun, Skapta hf. sem hann starfrækti í Furuvöllum, skammt frá heimili sínu. Var sú verslun við lýði fram undir 1995. Árið 1985 kom út ævisaga Skapta, rituð af Braga Sigurjónssyni, og heitir hún einfaldlega Skapti í Slippnum.

 Þórir Áskelsson stundaði sjómennsku en vann síðar við skipasmíðar, hjá Skipasmíðastöð KEA og Slippstöðinni. Hann stundaði einnig seglasaumar, hafði sveinspróf í þeirri iðn og var með verkstæði hér í Norðurgötu. Dóra Ólafsdóttir, ekkja Þóris Áskelssonar er frá Sigtúnum á Kljáströnd í Grýtubakkahreppi starfaði lengst af sem talsímakona hjá Símanum. Bjó hún hér allt til ársins 2012 er hún fluttist á hjúkrunarheimili á Höfuðborgarsvæðinu. Dóra er elsti núlifandi Íslendingurinn, varð 109 ára þ. 6. júlí sl.

Norðurgata 53 er reisulegt og traustlegt hús og tekur sem hornhús, þátt í götumyndum tveggja gatna, Norðurgötu og Grenivalla. Það er líkast til næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð, að ytra byrði, en er engu að síður í mjög góðri hirðu  og til mikillar prýði og lóð einkar gróskumikil, smekkleg og snyrtileg. Líkt og fram hefur komið í síðustu færslum er höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um þetta svæði svo ekkert verður fullyrt hér um varðveislugildi hússins eða húsaraðarinnar. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1051, 26. apríl 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 51
  • Sl. sólarhring: 51
  • Sl. viku: 315
  • Frá upphafi: 420253

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 220
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband