Hús dagsins: Ægisgata 31

Ægisgötu 31 reisti Sigfús Axfjörð árið 1946 eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. P5011014Fékk hann lóðina og leyfi til að reisa hús, á einni hæð á lágum grunni, 11,6x9m að stærð. Fleiri orð hafði bygginganefnd ekki um það.

Ægisgata 31 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í flestum gluggum.

Sigfús Snorrason Axfjörð (1916-1986) og Guðrún Sigurðardóttir (1918-1999) sem byggðu húsið bjuggu hér um nokkurra ára skeið. Sigfús var úr Skagafirði, skráður að Brókarlæk í Skefilsstaðahreppi í Manntali 1920 en Guðrún úr Öngulsstaðahreppi, en í sama Manntali er hún skráð að Brekku þar sem foreldrar hennar, Sigurður Júlíusson og Karólína Friðriksdóttir voru í húsmennsku. Sigfús og Guðrún hafa líkast til búið hér í 5 ár, en snemma árs 1952 er húsið auglýst til sölu. Bjuggu síðan ýmsir næsta hálfan annan áratuginn, en árið 1966 fluttu hingað Gestur Sæmundsson og Þorgerður Jóhanna Jónsdóttir og bjuggu hér um áratugaskeið. Hafði hann áður verið bóndi að Neðstalandi í Öxnadal en hún ráðskona, en þau gengu í hjónaband 1949. Gestur náði 100 ára aldri og bjó hér um nánast til æviloka. Enn er húsið í eigu sömu fjölskyldu.

Ægisgata 31 er, líkt og nærliggjandi hús, látlaust en reisulegt. Það er í afar góðri hirðu og hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald. Sem hornhús tekur það þátt í götumyndum tveggja gatna, Ægisgötu og Grenivalla og er til mikillar prýði, hús og lóð. Lóðin er prýdd mörgum trjám, birki nokkuð áberandi en einnig er á lóðinni mikið grenitré, á að giska 15 m hátt.  

Ægisgata 31 var síðasta húsið sem reis við Ægisgötu í aldarfjórðung en árið 1971 og 1990 voru reist hús við lóðir austanmegin sem löngum höfðu verið óbyggðar. Það er nánast hægt að rekja byggingarsögu Ægisgötu í aldursröð, enda var lóðunum oftar en ekki úthlutað í röð. Ægisgatan er stórmerkileg heild, heilsteypt götumynd keimlíkra húsa í funkisstíl P5011015með valmaþökum. Enda þótt húsin séu auðvitað gjörólík innbyrðis, hvað varðar stærð, grunnflöt, gluggasetningu og slíkt eru þau öll með þetta sama yfirbragð.  Það er nokkuð sérstakt, að við svo langa götu sé hvert eitt og einasta hús með svipuðu lagi. Þó byggt hafi verið við fjölmörg þeirra og þeim breytt er heildarsvipurinn en sá sami. Og mörgum hefur húsunum verið breytt á sama hátt. Og þótt síðuhafi sé einungis áhugamaður í þessum fræðum og hafi hvorki fagþekkingu né aðrar forsendur til að meta slíkt, er það einlæg afstaða, að Ægisgötu eigi að friða í heild sinni. Myndirnar eru teknar þann 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.1045, 1. mars 1946. fundur nr. 1046(?), 19. júlí 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll. VIKUBLAÐIÐ óskaði öllum NORÐLENDINGUM gleðilegra jóla og nýs árs. Ásthildur bæjarstjóri er kurteisari og óskar öllum lesendum gleðilegs árs, kannski af því að hún er ekki Norðlendingur. Ég hef lengi verið hissa á því hve oft Akureyringar tala eins og þeir séu allir úr Eyjafirði og nærsveitum. Þeir virðast ekki gera sér grein fyrir því hve mikið fólk af Austurlandi hefur lagt til uppbyggingar bæjarins, eins og oft sést í pistlum þínum. Ekki heldur hve mikilvæg Ak. hefur verið f. fólk að austan, einkum áður en framhaldsskólar komu á Austurland, þá fóru langflest til Akureyrar að sækja sér menntun. - F. nokkrum árum var Moggafólk á yfirreið á NA-horninu og töluðu þau við krakka í efsta bekk grunnskóla á Þórshöfn eða Raufarhöfn. Þau voru spurð hvort þau myndu ekki vilja taka fyrsta ár framhaldsskóla í heimabyggð. Svarið var einróma NEI. Þau vildu öll komast til AKUREYRAR í skóla, strax næsta ár.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 31.12.2021 kl. 13:26

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl og blessuð

Það er auðvitað sjálfsögð kurteisi að kveðjur séu til flestra sem við eiga- en auðvitað misjafnar skoðanir á því. Oft er bætt við "landsmönnum öllum" á eftir t.d. viðskiptavinum, eða þeim sem nefndir eru fyrstir, viðskiptavinum, vinum og vandamönnum o.s.frv. En Akureyri er, eins og held ég flestallir þéttbýlisstaðir  byggð upp af fólki úr nærliggjandi sveitum og raunar af landinu öllu. Þingeyingar og fólk af Austurlandi voru þar ansi margir, sem og Skagfirðingar og auðvitað Eyfirðingar.Og þessi frásögn af ungmennunum fyrir austan er kannski lýsandi dæmi um,  Akureyri sem sannkallaðan höfuðstað Norðurlands- að sjálfsögðu með fullri virðingu fyrir öðrum byggðarlögum í landshlutanum- svo það sé sagt. 

PS.

Gleðilegt ár og þökk fyrir samskiptin hér á árinu laughing

Arnór Bliki Hallmundsson, 31.12.2021 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 14
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 278
  • Frá upphafi: 420216

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 202
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband