Hús dagsins: Oddeyrargata 19

 

Haraldur Jónsson snikkari fékk lóð árið 1928 á milli húsa nr. 17 og 21 við Oddeyrargötu. Í mars árið eftir er honum heimilað að reisa hús á lóð sinni, íbúðarhús á einni hæð á kjallara og með kvisti. Hitt er svo annað mál- að þetta er eina heimildin sem ég hef fundið um hús nr.21 við Oddeyrargötu. P2210310Því hlið þessa húss stendur Oddeyrargata 23 og stóð raunar þegar þegar þetta hús var reist. Því hlýtur að vera um að ræða misritun í fundargerðum Bygginganefndar. Það er raunar ekki óalgengt í eldri götum Akureyrar að eitt og eitt númer vanti í röðina. Í sumum tilvikum er um að ræða lóðir sem aldrei voru byggðar en þá er hitt einnig til, að aðeins ein húsbreidd sé á milli. Skýringarnar á þessu er líkast til eins misjafnar og þær eru margar. Ég hvet þá lesendur, sem ganga um götur Akureyrar, til að reyna að finna t.d. Ægisgötu 9, Norðurgötu 14 eða Hafnarstræti 51.

Haraldur reisti árin 1929-30 það hús sem enn stendur á Oddeyrargötu 19, en teikningar gerði H. Jónsson (skv. Húsakönnun 2014, ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi). Þar er mögulega um að ræða Harald sjálfan. Húsið er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með háu risi og miðjukvistum að framan og aftan. Á norðurstafni hússins er forstofubygging með nokkrum steyptum yfirbyggðum tröppum upp að útidyrum. Margskiptir póstar eru í gluggum hússins og eru að öllum líkindum upprunalegir eða a.m.k. í samræmi við upprunalegt útlit, en stallað bárujárn á þaki. Þá klæðningu hef ég löngum kallað skífustál, vegna þess hve áferð þess líkist þakskífu.

Haraldur Jónsson bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni um áratugaskeið og starfrækti þarna húsgagnaverkstæði. Ég er að vísu ekki viss hvort að húsgagnaverkstæðið var starfrækt í húsinu eða hvort skúr eða verkstæðisbygging stóð á lóðinni, en alltént var vinnustofan starfrækt á þessu heimilisfangi. Húsgagnavinnustofa Haraldar var sem sagt starfrækt þarna lengi vel og þar smíðaði Haraldur hinar ýmsustu “mubblur” á borð við barnarúm sem sjá má í auglýsingu í tenglinum hér að framan. Hér má einnig sjá forláta stól frá Haraldi í auglýsingu frá haustinu 1950. Mögulega eru einhverjir lesendur sem annað hvort eiga eða a.m.k. muna eftir húsgögnum frá Haraldi í Oddeyrargötu , en það er ekki annað að sjá en að þetta hafi verið eigulegir gripir. Svo er það nú einu sinni svo, að það sem framleitt var á þessum áratugum var smíðað til að endast og því ekki ólíklegt að mörg þau húsgögnin sem smíðuð voru þarna séu enn í fullu fjöri. Oddeyrargata 19 er stórglæsilegt og vel hirt hús, og mun að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Þó voru gerðar nokkrar breytingar á þaki hússins árið 1982, m.a. þak hækkað á austurkvisti.  Ein íbúð er í húsinu. Margskiptir gluggapóstar gefa húsinu sinn sérstaka svip, en það er kallað að augnstinga hús þegar póstum er skipt út fyrir einfaldari og gluggaumbúnaður fjarlægður en Oddeyrargata 19 hefur svo sannarlega ekki orðið fyrir slíkum aðgerðum. Myndin er tekin þann 21.febrúar 2016.

 

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu húsa á Akureyri, teknar saman 1945-55.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Hús dagsins: Hrafnagilsstræti 8

Oddeyrargatan hefur nokkuð til umfjöllunar hér sl. vikur. Nú bregðum við okkur hins vegar sunnar og ofar á Brekkuna, nánar tiltekið á Hrafnagilsstræti. 

Eyrarlandsveginn hef ég tekið nokkuð skilmerkilega fyrir á þessum vettvangi. Hann liggur, eins og margir vita fremst á brún Suðurbrekkunnar og er eiginlega tvískiptur landfræðilega. Nyrðri hlutinn liggur frá Kaupangsstræti upp úr Grófargili og klífur brekkubrúnina nokkuð bratt að barmi Barðsgils, þar sem hinn frægi Menntavegur liggur, og heldur gatan áfram til suðurs eftir brekkubrúninni við Lystigarðinn og Menntaskólann. Sá sem keyrir upp Eyrarlandsveginn getur annars vegar valið um, að halda áfram Eyrarlandsveginn til suðurs eða sveigt upp og til hægri í beinu framhaldi upp götuna Hrafnagilsstræti. Sú gata liggur til vesturs upp á Brekkuna, samsíða Þingvallastræti. Hún er byggð á löngum tíma, elsti og neðsti hlutinn byggður á fjórða áratug 20.aldar en efstu húsin eru byggð um og upp úr 1960.

Hrafnagilsstræti 8 reisti Snorri Sigfússon skólastjóri. P5180329Árið 1931, þann 4.maí, fékk Snorri leyfi til að byggja íbúðarhús á lóðinni, ein hæð á kjallara og með háu risi og kvisti, byggt úr steinsteypu. Teikningarnar af húsinu gerði Halldór Halldórsson. Þær hafa varðveist og má skoða á slóðinni sem vísað er til í texta. Þar má m.a. sjá “Betri stofu” á hæðinni að norðaustanverðu en gegnt henni hefur Snorri haft skrifstofu. Baðherbergi var í kvisti, en oftast nær voru vatnsklósett og böð í kjöllurum húsa á þessum tíma.

Það var raunar ekki óskastaða Snorra að byggja á nákvæmlega þessum stað, því hann hafði augastað á tveimur öðrum stöðum í nágrenninu. Helst vildi hann byggja á barmi Grófargils, norðan Matthíasargötu, vestur og norður af hinum nýreista Barnaskóla. Ég átta mig ekki fullkomlega á þessari staðsetningu, en mögulega er þetta á gilbrúninni neðan við staðinn þar sem síðar Gagnfræðiskóli Akureyrar eða á svipuðum slóðum og kartöflugeymsla Akureyringa var um áratugaskeið (kartöflugeymslan stendur enn- en er nú skrifstofuhúsnæði). Hinum staðnum sem Snorri óskaði eftir var lýst sem "sunnan Matthíasargötu, norðan Bæjarstrætis á hornlóðinni". Það er líkast til á svipuðum slóðum og nú er suðurendi Gagnfræðaskólahússins. Ekki var heimilt að byggja á gilbarminum (ekki sá ég í bókunum hvers vegna- það var einfaldlega óheimilt- punktur!) og hinn staðurinn taldist lengra frá leiðslum og lögnum en svo, að forsvaranlegt væri að veita þar byggingarleyfi. Þannig að úr varð að Snorri fékk lóðina Hrafnagilsstræti 8, sem þá var sú efsta við Hrafnagilsstræti- og raunar við efstu mörk þéttbýlis á Akureyri, á horni Hrafnagilsstrætis og áðurnefnds Bæjarstrætis- sem síðar fékk nafnið Laugargata.

Hrafnagilsstræti 8 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með háu risi og með miðjukvisti á framhlið. Forstofubygging og steyptar tröppur upp að forstofudyrum eru á austurgafli hússins og ofan á þeim svalir. Krosspóstar eru í gluggum hússins og bárujárn á þaki. Kvistur er með steyptum, stölluðum kanti sem gefur honum- og jafnframt húsinu öllu ákveðinn svip.

Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús og virðist næsta lítið breytt frá upphafi- ef miðað er við upprunalegu teikningarnar. Það er engu að síður í mjög góðu ástandi og hefur líkast alla tíð hlotið fyrsta flokks viðhald og eflaust vel vandað til byggingu hússins í upphafi. Lóðin er einnig stór og vel gróin reyni- og birkitrjám. Nýlega var unnin Húsakönnun fyrir hinn svokallaða MA-reit og þar er Hrafnagilsstræti 8 metið með miðlungs (6.flokks) varðveislugildi sem hluti af götumynd klassískra Hrafnagilsstrætis sem og vegna byggingasögulegs gildis. Þessi mynd er tekin vorið 2016, þ.e. 8.maí.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 661. 4. maí. 1928. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

 

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu húsa á Akureyri, tekið saman 1945-55.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016)Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinnihttp://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

 


Hús byggð samkvæmt 619.fundi Bygginganefndar Akureyrar 17.sept 1928.

Helstu heimildir mínar við vinnslu þessara litlu greina eru fundargerðir Bygginganefndar Akureyrarbæjar. Það var eiginlega fyrir hálfgerða rælni sem ég rakst á þessar bækur á Héraðsskjalasafninu sumarið 2014. Þess má geta, að fæstir þeirra pistla sem birst hafa hér á síðunni hefðu getað orðið til, hefði þessara heimilda ekki notið við. Í þessum ágætu fundargerðum getur maður séð hver byggði húsin og hvernig þau litu út í upphafi. (Aðrar mikilvægar heimildir eru t.d. teikningar sem finna má á Landupplýsingakerfinu og timarit.is en þar getur maður séð nokkuð nákvæmlega hvort og þá hvenær einhver starfsemi var til húsa í húsunum sem ég fjalla um þá stundina). Það var því mikil "bylting" í þessu brölti mínu þegar ég uppgötvaði Bygginganefndarbækurnar. Það var raunar hliðstæð bylting fyrir mig að finna Jónsbók, en það mikla verk er afrakstur Jón Sveinssonar fyrrum bæjarstjóra sem á fimmta áratugnum skráði upprunasögu hvers einasta uppistandandi húss og lóðar á Akureyri 1933-35. Í þeirri bók er möguleiki að fletta húsunum upp, en í fundargerðum Bygginganefndar eru götur og númer h.u.b. aldrei tilgreindar. Þar er yfirleitt talað um að þessi fái lóð t.d. vestan götu, næst norðan húss hins mannsins. En nóg um það.

Ég hef síðustu vikur fjallað nokkuð um hús við Oddeyrargötuna, og þar standa þrjú hús sem öll eru byggð eftir leyfum sem Bygginganefnd veitti fyrir nákvæmlega 88 árum þegar þetta er ritað. Tvö önnur hús sem enn standa, við Bjarmastíg og Eiðsvallagötu, voru einnig byggð skv. leyfum frá þessum sama fundi og því eru húsin alls fimm.  Verkamaðurinn segir svo frá þann 22.sept 1928: 

Byggingarleyfi var veitt á síðasta bæjarstjórnarfundi fyrir 5 ný íbúðarhús. Þorsteinn Thorlacius og Elín Einarsdóttir byggja við Oddeyrargötu, Kristján Markússon við Gilsbakkaveg, Guðrún Sigurgeirsdóttir við Bjarmastíg og Magnús Einarsson við Eiðsvallarg. 

P1100303

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef marka má fundargerðir Byggingarnefndar gleymist raunar að nefna einn aðila þarna, en það er Pálmi Halldórsson, sem byggði við Oddeyrargötu 14 (sjá síðustu færslu). En hér eru umrædd hús:

P3050341

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þorsteinn Thorlacius byggði Oddeyrargötu 28

 

P1100302

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Elín Einarsdóttir byggði Oddeyrargötu 13. Á sama fundi var samþykkt að Sveinbjörn Jónsson annaðist bygginguna fyrir hana. 

 

PA310012

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Elín var sú yngsta (23)í hópi þeirra sem þarna fengu byggingarleyfi- og sú eina sem sem fædd var á 20.öld (1905). Aldursforseti húsbyggjenda var hins vegar hinn áttræði Magnús Einarsson organisti en hann fékk að byggja Eiðsvallagötu 3. Óskar Gíslason múrarameistari sá um byggingavinnuna fyrir Magnús.

P2280336

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eiðsvallagata 3 er elsta hús sem enn stendur við Eiðsvallagötu og þess má geta, að húsið sem Guðrún Sigugeirsdóttir fékk að byggja við Bjarmastíg er einnig það elsta við þá götu.

Kristján Markússon sótti um að fá að byggja við Gilsbakkaveg. Meirihluti nefndar lagðist hins vegar gegn veitingu leyfisins- en byggt var á þessum stað sjö árum síðar og þarstendur Gilsbakkavegur 1a.

P8180227

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir eru að sjálfsögðu sóttar í Fundargerðir Bygginganefndar 1921-30, fund nr. 619 þann 17.sept 1928 og á timarit.is, sjá tengil í texta. 


Hús dagsins: Oddeyrargata 14

Um daginn tók ég fyrir tvö hús við Oddeyrargötu, sem áttu það sameiginlegt, að byggingarleyfin fyrir þeim voru gefin út á fundi Bygginganefndar þann 17.september 1928. Það er fyrir réttum 88 árum þegar þetta er ritað. Alls fengu fimm aðilar húsbyggingarleyfi á þessum fundi nefndarinnar, og rötuðu þessi afköst nefndarinnar í blöð. Ég hef þegar tekið fyrir fjögur þessara húsa á þessum vettvangi og ekki úr vegi að taka það fimmta fyrir í dag, 17.september; á 88ára "byggingarleyfisafmæli" þess og hinna fjögurra. 

Á fundi bygginganefndar þann 17.september 1928 voru gefin út byggingaleyfi fyrir fimm húsum sem enn standa.P1100303 Þar af voru þrjú hús við Oddeyrargötu, hús Elínar Einarsdóttur og Þorsteins Thorlacius auk þess sem Pálmi nokkur Halldórsson fékk leyfi til að reisa tveggja hæða steinhús að ummáli 8,1x9 (þ.e. 73 fermetrar að grunnfleti). Þar er um ræða Oddeyrargötu 14, sem er eitt nokkurra sviplíkra húsa á vestanverðri Oddeyrargötu. Teikningarnar af húsi Pálma Halldórssonar gerði Halldór Halldórsson. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki á lágum grunni, fullbyggt 1929. Á upprunalegum teikningum eru sexrúðupóstar í gluggum en nú eru krosspóstar á efri hæð en einfaldir póstar á neðri hæð, fög ýmist lárétt eða lóðrétt. Bárujárn er á þaki og inngangur á norðausturhorni. Húsið virðist að mestu óbreytt frá upphafi að yrta byrði.

En húsið er ekki eina húsið á lóðinni því þar stendur einnig bakhús, einlyft timburhús með háu risi. Veggir bakhúss eru panelklæddir og pappi á þaki, og er það nýtt sem geymsla. Árið 1932 fékk Pálmi leyfi til að reisa bráðabirgðaskúr á lóð sinni með þeirri kvöð að húsið skuli “rifið hvenær sem bærinn krefst þess, bænum að kostnaðarlausu” (Jónsbók, bls. 242). Þessi bókun er gerð í mars, en í október 1932 er bókað að risinn sé skúr úr timbri með miklu risi sem fari í bága við bæði skipulags- og brunamálareglur. Og fyrst minnst er inn á brunamálareglur, má geta þess að eldur kom upp í bakhúsi þessu snemma árs 1977. og skall þar hurð nærri hælum. Oddeyrargata 14 þ.e. Framhúsið hefur alla tíð verið tvíbýlishús, ein íbúð á hvorri hæð þó einstaka herbergi hafi verið leigð út til fjölskyldna og einstaklinga á fyrstu árum og áratugum. Húsið er næsta lítið breytt frá upphafi og lítur vel út. Það er hluti mjög skemmtilegrar heildar sem í Húsakönnun 2015 er sögð varðveisluverð heild. Þessi húsaröð spannar númerin 10-22 og um er að ræða röð samstæðra (en ólíkra þó) tveggja hæða húsa með valmaþaki, byggð árin 1927-31. Bakhúsið virðist einnig í ágætu standi, en ekki fylgir sögunni hvort það hús hafi varðveislugildi. Lóðin er vel gróin líkt og gengur og gerist á þessum slóðum en þar sem er tekin 10.janúar (2016) sést sá gróandi ekki á henni.

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 619. 17. sept. 1928. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu húsa á Akureyri skráð 1945-55.Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


Hús dagsins: Oddeyrargata 38

Efsta hús við Oddeyrargötuna, á horninu við Þingvallastræti er númer 38. Þar er um að ræða steinhús byggt 1930 og fyrir þeirri byggingu stóð Gunnar Eiríksson formaður. P3050352Hann fékk leyfi til að reisa steinsteypt hús, eina hæð á háum kjallara með háu risi og kvisti. Ummál hússins, þ.e. grunnflötur skyldi vera 8,8x7,5m, sem gera 66 fermetra. Upprunalegar teikningar af húsinu eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, og í Húsakönnun Norður Brekku 2015 er hönnuður sagður óþekktur. Oddeyrargata 38 er tveggja hæða steinhús með háu risi og miðjukvisti. Neðri hæð er að hluta niðurgrafinn, enda nokkur hæðarmismunur á lóð. Ég hefði sagt húsið tvílyft með risi en í byggingarleyfi er húsið sagt ein hæð á háum kjallara- og þykir mér rétt að hlíta þeim “úrskurði”. (Málamiðlun væri e.t.v. að kalla neðstu hæð jarðhæð- en nú er ég mögulega kominn út í algjöran óþarfa orðhengilshátt wink). Krosspóstar eru í gluggum og þaki er nýlegt bárujárn, og gluggapóstar eru einnig nýlegir. Miðjukvistur er á framhlið en smærri kvistur með einhalla þaki á bakhlið. Efst á göflum eru tígullaga smágluggar, dæmi um smáatriði sem gefa húsum þó sinn sérstaka svip. Inngangur er fyrir miðju á neðri hæð, á norðurgafli en á bakhlið er verönd.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og líkast til hafa fleiri en ein og fleiri en fjölskyldur búið þarna samtímis á árum áður. Á fyrri hluta fjórða áratugarins bjó í húsinu Sigfús Blöndal Halldórsson, nefndur Sigfús Halldórs frá Höfnum, ritstjóri og skólastjóri en hann gegndi stöðu skólastjóra Gagnfræðaskólans og Iðnskólans á Akureyri 1930-35. Hér auglýsir hann setningu Gagnfræðaskólans haustið 1931 (Athuga má, að setning skólans er hvorki fyrr né síðar en 17.október- þ.e. tæpum tveimur mánuðum síðar en flestir skólar hefjast nú). Oddeyrargata 38 er reisulegt og glæst steinhús af klassískri gerð. Það er í fyrirtaks hirðu, var allt tekið til gagngerra endurbóta fyrir fáeinum árum. Lóðin er einnig vel gróin og snyrtileg, og steyptir kantar á lóðarmörkum setja sinn svip á hana. Líkt og á mörgum eldri húsum má enn sjá gamlar einangrunarkúlur, frá því rafmagn var allt leitt í hús eftir loftlínum, utan á húsinu nánar tiltekið á kvisti hússins. Það þykir þeim sem þetta ritar ævinlega setja skemmtilegan svip á hús, sem nk. minjar sem vitna um liðna tíð. Þessi mynd er tekin síðla vetrar 2016, þ. 5.mars.

 

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Sept. 2016
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 290
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 204
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband