Hús dagsins: Hríseyjargata 11

Hríseyjargötu 11 mun vera byggð árið 1933 af Þóri Sigurþórssyni. P5010524Í janúar það ár sækir Gunnar Guðlaugsson um lóð fyrir hans hönd við Hríseyjargötu, næst norðan við hús Lárusar Hinrikssonar (þ.e. Hríseyjargötu 11). Um vorið sækir Þórir um að fá að reisa hús á lóðinni, en er gerður afturreka vegna ófullkominna teikninga og þess, að hann hugðist innrétta íbúð í kjallara. Það gat bygginganefnd ekki fallist á, en á þessum árum voru kjallaraíbúðir bannaðar eða a.m.k. mjög illa séðar. En þann 15.júní 1933 heimilar Bygginganefnd Þóri Sigurþórssyni að reisa hús á lóðinni, timburhús á steyptum kjallara, 7x7,6m að stærð. Ekki fylgir sögunni hver teiknar húsið en upprunalegar teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Þar má hins vegar finna teikningar Guðmundar Hermannssonar að breytingu hússins árið 1957 en þar er líklega um að ræða kvistbyggingu á vesturhlið (bakhlið) þar sem innrétta á eldhús. Þá er eigandi hússins Gunnlaugur Friðriksson.P5010525

Hríseyjargata 11 er einlyft timburhús á háum kjallara með háu risi. Kvistur með einhalla aflíðandi þaki er á bakhlið hússins auk stigabygginga og inngönguskúrs. Veggir eru múrhúðaðir (forskalaðir) en líklega hefur húsið verið bárujárnsklætt í upphafi. Í gluggum eru einfaldir þverpóstar með þrískiptu efra fagi. Sem áður segir er kvistur frá 1957, eftir teikningum Guðmundar Hermannssonar og mögulega hefur húsið verið forskalað á svipuðum tíma. Húsið hefur sl. Áratugi verið einbýlishús en í upphafi voru íbúðir fleiri, líkast til ein á hæð og önnur í risi.

Þarna bjuggu um 1940 þau Olgeir Júlíusson bakari og Sólveig Gísladóttir Olgeir byggði árið 1900 á Barði, eða öllu heldur, flutti þangað húsið Auroru sem danskir vísindamenn höfðu notað í norðurljósarannsóknum Sonur þeirra var Einar, alþingismaður og verkalýðsforkólfur. Mögulega hafa Olgeir og Sólveig búið á neðri hæð hússins, en á rishæðinni bjuggu árið 1938 systkinin Guðrún, Sigurborg og Snæbjörn Björnsbörn. Guðrún lést síðla árs 1938 og virðist systir hennar hafa lent í einhvers konar deilum við Svein Bjarnason framfærslufulltrúa varðandi kistulagningu hennar. Þess má geta, að þarna stóðu öll spjót að Sveini vegna meintrar aðfarar hans varðandi kistulagningu og útför Guðrúnar Oddsdóttur, bæjarstyrkþega. Ég hyggst ekki rekja það mál hér en þessi skrif Sveinbjargar eru ágætis heimild um aðstæður innandyra í Hríseyjargötu 11. En hér rekur Guðrún í löngu máli aðstæður til líkkistuflutninga ofan af rishæð hússins og hefur sér til fulltingis fjóra virta iðnaðarmenn, Hermund Jóhannesson, Hermann Jóhannesson, Pál Friðfinnsson og Þorstein Stefánsson. Þeir votta m.a. að í stigauppgöngu séu svo þröngar beygjur að ógerningur sé að koma líkkistu þar niður nema reisa hana upp á rönd. Einnig kemur þarna fram að hæð upp að risglugga sé 5 1/2 metri. En Hríseyjargata 11 er reisulegt hús og stæðilegt og virðist í góðri hirðu og hefur hlotið ýmsar endurbætur undanfarin ár, t.d. Er verið að endurnýja þakklæðingu þegar þessar myndir eru teknar þann 1.maí 2017.

 

Heimildir:  

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“(Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur 690, 23.jan 1933, nr. 698, 1.maí 1933 og nr. 701, 15.júní 1933.

Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Klapparstígur - Krabbastígur

Ég reyni reglulega að gera færslurnar aðgengilegar gegn um einn tengil. Hér eru tenglar á greinar sem ég skrifaði í mars og apríl sl. um tvær stuttar götur á Neðri- Brekkunni, Klapparstíg og Krabbastíg.

Klapparstígur. Hinn Akureyrski Klapparstígur er mun styttri en nafni hans í miðborg Reykjavíkur, en við þann fyrrgreinda standa einungis fjögur hús. Húsin standa öll sömu megin, en handan götu eru áhorfendabekkir Akureyrarvallar.  

Klapparstígur 1 (1930)

Klapparstígur 3 (1933)

Klapparstígur 5  (1938)

Klapparstígur 7 (1967)

Við Krabbastíg standa aðeins þrjú hús:

Krabbastígur 1 (1930)

Krabbastígur 2 (1930)

Krabbastígur 4 (1936)

Meðalaldur húsa við Krabbastíg mun býsna drjúgur, eða um 83,5 ár, þar eð húsin sem við hann standa eru 81 og 87 ára. 

 


Úr myndasafninu: Svipmyndir af Fálkafelli

Ég á býsna margar húsamyndir, líkt og lesendur þessarar síðu hafa orðið varir við. Þær telja víst um 900 hefur mér sýnst - en af sumum húsum á ég fleiri en eina mynd og jafnvel fleiri en tvær. En hvert er það hús sem ég á flestar myndir af, hvaða hús hef ég ljósmyndað oftast? Því er fljótsvarað. Það er nefnilega skátaskálinn Fálkafell á norðaustanverðum Súlumýrum. Ég hef ekki tölu á þeim útilegum sem ég hef farið þangað uppeftir sl. 22 ár sem ég hef verið félagi í skátafélaginu Klakki og sl. tíu ár hefur myndavélin ætíð verið með í för. Þá hef ég oft brugðið mér í hjól- eða göngutúra uppeftir með myndavélina. Það er sannarlega við hæfi að birta hér myndaþátt um Fálkafell í dag, 22.maí 2017 því í dag eru liðin 100 ár frá stofnun fyrstu skátasveitarinnar á Akureyri. (Líklega verður kominn 23.maí þegar þessi færsla birtist) Var það danskur maður, Viggo Hansen (síðar Öfjörd) sem stóð fyrir stofnun sveitarinar. Fálkafell hefur drjúgan hluta þessarar aldar verið órjúfanlegur hluti skátastarfs á Akureyri, en skálinn var byggður aðeins hálfum öðrum áratug eftir upphaf skátastarfs í bænum. Elsti hluti skálans er byggður 1932 (skálinn hefur raunar verið stækkaður og breytt verulega í a.m.k. fjórum áföngum) og hefur hann verið í samfelldri notkun þessi 85 ár. Mun Fálkafell því vera elsti útileguskáli landsins sem enn er í notkun- og ætti með réttu að njóta einhverrar friðunar. Hér eru nokkrar myndir sem ég hef tekið af Fálkafelli, og einnig innandyra.

Hér er Fálkafell að sumarlagi, að kvöldi 9.júlí 2009. P7090026 Þess má geta, að ég hafði verið skáti í fimm ár og farið a.m.k. tíu útilegur í Fálkafell áður en ég kom þangað að sumri til.   

 

 

 

 

 

 

 

Það getur oft orðið snjóþungt við Fálkafell, en skálinn stendur í 370m hæð. Þessar myndir eru teknar þann 29.mars 2014

P3290078 P3290087

Að sjálfsögðu nýtti ég tækifærið þarna og brá mér upp á þak. Hér má sjá skemmtilegt sjónarhorn, Akureyri með skorstein Fálkafells í forgrunni.

P3290085

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér P9180463er horft á skálan frá suðvestri í haustsólinni þann 18.sept 2016. 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér eru komnar myndir frá vetri, sumri og hausti og þá er sjálfsagt að bæta við mynd, tekinni að vorlagi- nánar til tekið þann 13.maí 2006.

P5130012

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér eru skátar undir suðurvegg Fálkafells að elda eitthvað girnilegt, undir stjórn Árna Más Árnasonar, í febrúar 2007. Glugginn hægra megin er á eldhúsinu, en sá hluti hússins mun vera sá elsti. Glugginn vinstra megin er hins vegar á viðbyggingu frá 1965, en þá var skálinn lengdur til vesturs. 

P2240024

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Steinsnar norðan Fálkafells stendur eldiviðarskúr/kamar sem sjá hægra megin á þessari mynd, sem tekin er 6.mars 2016....

P3060344

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

...þá er einnig brunnhús u.þ.b. 70 metrum norðan skálans og þangað er allt neysluvatn sótt. Það geta aldeilis orðið átök þreyttum og stuttfættum skátum í mittisdjúpum snjó, að ekki sé talað um í kolbrjálaðri stórhríð í ofanálag. Þessir skátar fóru hins vegar létt með að sækja vatnið þennan góðviðrisdag 28.febrúar 2015.

 P2280025

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En nú skulum bregða okkur inn fyrir...

Hér má sjá svipmyndir af svefnlofti, borðsal og eldhúsi. Eins og sjá má eru þetta sérlega geðþekkar vistarverur.

P2280035PA250050

 

 

 

 

 

P3060351

P3060349

Skálinn er kyntur með kabyssu sem tengist inn á miðstöðvarkerfi. Ný kabyssa var sett upp haustið 2014 (mynd til vinstri) en forveri hennar var orðinn ansi slitinn- en hafði aldeilis skilað sínu. Kyndiklefinn- sem kallast yfirleitt kabyssuherbergi er norðanmegin í húsinu, hinu megin við eldhúsið. Sá hluti skálans mun vera að stofni til bíslag sem byggt var við upprunalegt hús um 1943. Sá hluti hússins var lengst af forstofa eða allt þar til núverandi forstofubygging var byggð 1982. 

P2280033PA250051

Fálkafell hefur töluvert breyst í áranna rás. Hér má sjá mynd af skálanum eins og hann leit út á fjórða áratugnum. 

Og svona leit hann út eftir fyrstu viðbyggingu, 1943. ATH. MYNDIN ER SPEGLUÐ. Núverandi kabyssuherbergi mun vera í bíslaginu sem er vinstra megin á mynd 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hús dagsins: Hríseyjargata 2

Sl. vikur hef ég tekið fyrir elstu og neðstu hús Hamarstígs en færi mig nú niður á Oddeyri í umfjölluninni, nánar tiltekið að hinu 94 ára gamla steinhúsi við Hríseyjargötu 2.

Hríseyjargata er ein margra þvergatna sem liggja til norðurs út frá Strandgötu. P9170457Hún liggur á milli húsanna Strandgötu 39 og 41. Á bakvið síðarnefnda húsið stendur einmitt Hríseyjargata en húsið var upprunalega reist á baklóð þess. En Hríseyjargötu 2 reisti Kristján Jónsson bakari í Strandgötu 41 árið 1923. Húsið var tvílyft steinsteypuhús með lágu risi. Húsið var í upphafi hænsnahús, fjós og geymsla enda þótt byggingarleyfið væri fyrir íbúðarhúsi. Húsið var innréttað sem íbúðarhús árið 1937 og gerði Tryggvi Jónatansson teikningar að þeirri breytingu. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið í upphafi.

Hríseyjargata 2 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi, með perluákasti á veggjum og bárujárni á þaki og krosspóstum í gluggum. Stafn hússins snýr að götu og snýr sá til vesturs en inngangar eru á suðurhlið hússins. Steyptar tröppur eru upp að inngangi á efri hæð, og áfastur þeim er mikill timburpallur. Norðanmegin er bílskúr og geymsluskúr sambyggður húsinu. Á teikningum frá 1937 eru geymslur á neðri hæð (sem er raunar að nokkru niðurgrafin) og íbúð á þeirri efri. Síðar var innréttuð íbúð á neðri hæð og hélst sú íbúðaskipan fram á 10.áratuginn. Skömmu fyrir 1990 var húsið tekið í gegn að utan, það múrhúðað og málað, eins og segir í Húsakönnun um Oddeyri 1990 (sbr.Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995). Húsið var einnig allt endurnýjað að innan um 1998-2000 og um svipað leyti var sólpallurinn byggður við uppgöngu á efri hæð. Húsið er því í góðu standi, að mörgu leyti sem nýtt. Lóðin er ekki stór en engu að síður vel nýtt og skipulögð. Í áðurnefndri Húsakönnun er húsið ekki talið hafa varðveislugildi en “geta orðið til prýði í framtíðarbyggð á Oddeyri” (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995: 95) Sá sem þetta ritar getur ekki annað en tekið undir það. Myndin er tekin 17.september 2016.

 

 

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Hús dagsins: Hamarstígur 8

 

Á horni Hamarstígs og Helgamagrastrætis, númer 8 við fyrrnefnda götu stendur einlyft steinhús. Það er frábrugðið húsunum neðan við þ.e. 2-6 sem eru stór steinsteypuklassík með háu risi og miklum kvistum. Nr. 8 er hins vegar dæmigert funkishús; ferkantað með horngluggum og flötu þaki. Þessi hús eru reist sitt hvoru megin við innreið funkisstíls í Akureyrskri húsagerði, 2-6 á árunum 1930-32 en nr. 8 var fullbyggt 1936.P1210484

En árið 1935 fékk Gunnar R. Pálsson byggingarleyfi á horni Helgamagrastrætis og Hamarstígs, næst vestan við hús Jóhanns Frímann og Kristins Þorsteinssonar, þ.e. Hamarstígs 4. Húsið skyldi vera ein hæð úr steinsteypu með kjallara undir hálfu húsinu og með flötu þaki. Gunnar teiknaði húsið sjálfur, en hann teiknaði einnig Hamarstíg 3 fyrir Ásgrím Garibaldason fáeinum árum áður. Ef rýnt er í teikningar, má sjá upprunalega herbergjaskipan m.a. dagstofu til suðurs og anddyri og eldhús í norðvesturhorni. Það er beint ofan við þvottahús, kyndiklefa og kolageymslu, en auk þeirra rýma er geymsla í kjallara, sem aðeins er undir hálfu húsinu- í samræmi við leyfi Bygginganefndar. En þarna er einnig teiknaður halli á þaki, enda eru fullkomlega flöt þök ekki sérlega hentug við íslenskar aðstæður (og raunar á það við víðar í heiminum). Þar kemur fram að þakhallinn skuli ekki vera minni en 1:70.

Hamarstígur 8 er einnar steinsteypuhús á kjallara, og virðist að mestu leyti óbreytt frá fyrstu gerð m.v. teikningar. Húsið er raunar tvær álmur, norðurhluti breiðari til vesturs en stofuhluti til suðurs eilítið mjórri. Í kverkinni á milli suður- og norðurhluta eru inngöngudyr og steyptar tröppur og eru þær yfirbyggðar, þ.e. þekja hússins nær yfir þær. Horngluggar, eitt einkenna funkisstefnunar eru á nokkrum stöðum, m.a. á öllum hornum til suðurs, en í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar. Skorsteinn hússins er stór og voldugur og má segja að hann setji ákveðinn svip á húsið.

Gunnar Pálsson, sá er teiknaði og byggði húsið bjó ekki lengi í húsinu, en 1937 er hann fluttur til Reykjavíkur. Húsateikningar hafði hann ekki að aðalstarfi a.m.k. ekki til langs tíma en starfaði m.a. á Ríkisútvarpinu á fyrstu árum þess. Hann var mikilvirkur söngvari, og söng með Karlakórnum Geysi meðan búsettur hér, en með Karlakór Reykjavíkur eftir að hann fluttist hafði numið. Hann varð líklega þekktastur fyrir flutning sinn á laginu “Sjá dagar koma”. (Akureyrarbær, Teiknistofa, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 20) Gunnar hafði numið söng í Bandaríkjunum og fluttist þangað síðar og bjó þar til æviloka 1996. Sama ár og Gunnar fluttist vestur, 1943, flytur í húsið Sníðastofa Dómhildar Skúladóttur og þremur árum síðar auglýsir Sigvaldi Þorsteinsson húsið til sölu. Síðan hafa margir átt húsið og búið þar, en öllum eigendum og íbúum hefur auðnast að halda húsinu vel við því það virðist í fyrirtaks hirðu. Það hefur lítið sem ekkert verið breytt eða stækkað frá upphafi, ef nokkuð. Lóðin er einnig vel hirt og gróin, líkt og gengur og gerist með flestallar lóðir á neðri Brekku og á lóðarmörkum er enn upprunaleg steypt girðing með skrautlegu járnavirki, sem er líkt og húsið í frábærri hirðu. Samkvæmt Húsakönnun 2015 er húsið í varðveisluflokki 1, og þá sem hluti funkisraðar við Helgamagrastræti. Þessi mynd er tekin þann 21.janúar 2017.

 

Á þessari slóð, á Soundcloud síðu Guðmundars Karls Einarssonar, má heyra flutning Gunnars Pálssonar á þessu valinkunna lagi Sigurðar Þórðarsonar við ljóð Davíðs Stefánssonar, Sjá dagar koma, ásamt karlakór Reykjavíkur. Undirleikari er Fritz Weishappel. Hljóðritunin er gerð 1937 eða tveimur árum eftir að Gunnar teiknaði og byggði Hamarstíg 8.

 

Sjá dagar koma

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða. -
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.


Davíð Stefánsson

 

Heimildir: 

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan,neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinnineðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur 755, 23.ágúst 1935, nr. 756 30.ágúst 1935.

Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2017
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 290
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 204
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband