Hús dagsins: Oddagata 5 og Oddagata 9

Hús dagsins eru tvö að þessu sinni, en þau standa bæði við Oddagötu en þau byggði sami maður árin 1926-28.

 

Oddagata 5

Oddagötu 5 mun Gunnar Jónsson lögregluþjónn hafa reist árið 1927. P7150117Vorið 1926 fékk Gunnar byggingarlóð leigða næst vestan við leigulóð Eggerts Melsteð slökkviliðsstjóra og leyfi til að reisa þar tvílyft íbúðarhús úr steinsteypu á kjallara með lágu risi að ummáli 7,5x8,8m. Ekki fylgir sögunni hver teiknaði húsið. Þá er tekið fram að þó “sé þakbrún steypt og þak sneitt á göflum” (Bygg.nefnd Ak. 1926,583). Húsið virðist að mestu óbreytt frá upphafi, allavega á lýsingin í bókun Byggingarnefndar enn við húsið, sem er tvílyft og með lágu valmaþaki. Þverpóstar eru í gluggum og bárujárn er á þaki og inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim á norðvesturhorni. Gunnar Jónsson bjó ekki lengi í húsinu, en árið 1930 er tvíbýlt í húsinu og þá eru íbúarnir þau Jóhannes Björnsson og Hólmfríður Júlíusdóttir annars vegar og Vilhjálmur Jóhannsson og Anna Margrét Ingimarsdóttir hins vegar. Ásamt börnum þeirra og leigjendum er íbúafjöldinn 12 manns árið 1930. Gunnar reisti skömmu síðar annað hús rétt ofan við, þ.e. Oddagötu 9 og var þar búsettur árið 1930. Í “registrum” Fundargerða Bygginganefnda frá þessu árabili leitaði ég nefnilega að nöfnum Jóhannesar, Hólmfríðar, Vilhjálms og Önnu Margrétar en fann hvergi, en oft má gera ráð fyrir því, að íbúar húsa skömmu eftir byggingu hafi byggt þau. Það á þó auðvitað alls ekki alltaf við, líkt og í þessu tilfelli. Oddagata 5 hefur alla tíð verið íbúðarhús með a.m.k.tveimur íbúðum, hvor á sinni hæð. Húsið er einfalt og látlaust og er í góðu ástandi. Ekki er talið að það hafi neitt sérstakt varðveislugildi umfram önnur hús í götunni sbr. Húsakönnun frá 2014 (tengill hér að neðan) en sá sem þetta ritar telur alla Oddagötuna mikilsverða heild og hvert hús hennar einstakt á sinn hátt. Það á raunar við um allar eldri götur Akureyrar. Þessi mynd er tekin 15.7.2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 583, 10.4.1926 .

Manntal á Akureyri 1930.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 

 

 

Oddagata 9

Sumarið 1927 fékk Gunnar M. Jónsson lögregluþjónn lóð og byggingarleyfi á leigulóð “Eggerts Melstað”.
P7150116 Var honum leyft að reisa þar íbúðarhús, 9,5x7,5 m með háu brotnu þaki og kvistglugga og á meðan byggingu stóð, þ.e. um vorið 1928 var honum heimilað að reisa verönd með tröppu á suðurhlið hússins. Teikningarnar að húsinu gerði Eggert Melstað. Gunnar hafði árið áður lokið byggingu Oddagötu 5. Oddagata 9 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu brotnu “mansard” risi. Þar sem það húsið stendur í mishæð, virðist það tvílyft séð úr austri. Miðjukvistur er á framhlið en minni kvistur með hallandi þaki á bakhlið. Inngangar eru á norðvesturhorni, á suðurstafni með steyptum tröppum og yfirbyggðri verönd með svölum en einnig er inngangur í kjallara á suðvesturhorni. Þverpóstar eru í gluggum hússins og bárujárn á þaki. Fáum árum eftir að húsið var reist fluttist O.C. Thorarensen apótekari í húsið ásamt fjölskyldu sinni og hélst það innan sömu fjölskyldu áratugum saman. Húsið er í góðu standi og hefur nýlega fengið yfirhalningu, bæði húsið sjálft og lóð að vestanverðu. Oddagata 9 er glæsilegt hús og stendur á áberandi stað og brotna risið gefur húsinu sérstakt yfirbragð. Ofarlega á stafni hússins má sjá þrjá uppsveigða járnkróka í með postulínskúlum standa í lóðréttri röð. Þessi umbúnaður bar áður heimtaugar rafmagns frá háspennulínum, en árið 1928 þegar húsið var byggt, var allt heimilisrafmagn á Akureyri flutt með loftlínum. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein í kjallara og önnur á hæð og í risi. Þessi mynd er tekin þann 15.júlí 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 599, 18.7.1927 .

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • P8291011
  • IMG 1478
  • IMG 1480
  • IMG 1476
  • IMG 1479

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 86
  • Sl. viku: 750
  • Frá upphafi: 417032

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 505
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband