Hús dagsins: Hrafnagilsstræti 4

Hrafnagilsstræti 4 reisti Jón Sveinsson lögfræðingur og þáverandi 

P5180332bæjarstjóri Akureyrar 1930-31. Hann fékk snemma sumars 1931 leyfi til að reisa íbúðarhús á lóð sinni, sem skyldi vera 8,40x8,60m að grunnfleti, ein hæð með háu risi og kvisti, forstofu við austurgafl og svölum yfir. Húsið yrði byggt úr steinsteypu með tvöföldum veggjum og þak yfir kjallara skyldi úr járnbentri steinsteypu. Húsið er afar svipað húsi nr. 8 og líklega er hér um “tvíburahús” að ræða en húsin eru byggð á sama tíma; Snorri Sigfússon sem byggði Hrafnagilsstræti 8 fékk sitt byggingarleyfi þann 4.maí en Jón þann 8.júní. (Þess má þó geta, að Hrafnagilsstræti 4 er í Fasteignaskrá skráð byggt 1930 en byggingarleyfið gefið út ári síðar). Teikningar Halldórs Halldórssonar af húsi nr. 8 hafa varðveist, og líklegt þykir að Halldór hafi því teiknað þetta hús (sbr. Hönnu Rósu Sveinsdóttur o.fl. 2016). Upprunalegar teikningar hafa hins vegar ekki varðveist af nr. 4. Mögulega hefur húsið verið byggt eftir teikningunni af nr. 8.

    Sú lýsing hússins sem Bygginganefnd mælti fyrir um á að mestu við enn í dag, enda mun húsið nánast óbreytt frá upphafi. Húsið er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með háu risi og miðjukvisti. Kvisturinn er með nokkurs konar steyptum, stölluðum mæniskanti og gefur sá frágangur húsinu ákveðinn einkennissvip, en sams konar kvistur er einnig á húsi nr. 8. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki.

   Jón Sveinsson var fyrsti bæjarstjórinn á Akureyri og gegndi því embætti árin 1919 til 1934, eða í hálfan annan áratug. Eftir að hann lét af embætti starfrækti hann lögmannsstofu, en hann var sem áður segir lögfræðingur að mennt. Hér má sjá minningargrein Jónasar G. Rafnar um Jón Sveinsson. Kona Jóns var Fanney Jóhannesdóttir frá Ísafirði. Þau bjuggu ekki lengi í Hrafnagilsstræti 4, fluttu í Aðalstræti 72 árið 1934, þ.e. árið sem Jón lét af embætti bæjarstjóra. Þau unnu árin 1945-55 mikið heimildaverk sem kallað hefur verið Jónsbók eftir Jóni. Þar er um að ræða upplýsingar um upprunasögu hverrar einustu lóðar og húss á Akureyri um það leiti er Jón lét af embætti bæjarstjóra, þ.e. um 1934. Mun Jón hafa safnað þessum upplýsingum en Fanney séð um uppsetningu verksins. Þar er tilgreint hver eða hverjir fengu leyfi byggingar húsanna og hvenær auk allra leyfisskyldra breytinga á húsunum. Þar er einnig tilgreint hver þáverandi (1933-35) eigandi er. Þessi ágæta bók, sem er handskrifuð með glæsilegri skrift, er varðveitt á Héraðskjalasafninu. Hún er ein af helstu heimildum mínum við skrif greinana, sem hér birtast. Ýmsir hafa búið í húsinu gegn um tíðina og lengst af mun það hafa verið einbýli, sem það er í dag. Húsið er í mjög góðu standi og til mikillar prýði í umhverfinu, og sömu sögu er að segja um lóðina sem er vel gróin. Myndin er tekin þann 18.maí 2016.

Hér má sjá Hrafnagilsstræti 4 og 8, og eins og sjá má eru líkindi húsanna töluverð. 

P5180332 P5180329

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 663, 8.júní 1931.

Óútgefið, óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933. Óútg. varðv. á Hsksjs. Ak.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 305
  • Frá upphafi: 420180

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 218
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband