Hús dagsins: Hafnarstræti 25

Ég hef síðustu vikur tekið fyrir miðhluta Hafnarstrætis frá 29 að 47 en ætla nú að færa mig niður fyrir húsaröð Jónasar og Sigtryggs númer 29 til 41.P9100030 Hafnarstræti 23 hef ég gert skil fyrir einhverjum árum en nú er það Hafnarstræti 25. Lóðin er ein þeirra  sem téðir Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Jóhannesson eignuðust 1904 og áttu þeir hana til 1908 en þá keypti Kristján Sigurðsson verslunarmaður lóðina. Árið 1912 var húsið hans sem enn stendur risið. Um er að ræða tvílyft timburhús á lágum en djúpum steyptum og með háu en aflíðandi risi. Húsið er bárujárnsklætt og ekki ósennilegt að svo hafi verið frá upphafi en bárujárn tók að berast hingað um þetta leyti og menn farnir að huga mikið að því að verja timburhús vegna tíðra stórbruna m.a. á Akureyri. Var þetta líklega ein öflugasta eldvörn þessa tíma. Ef það kviknaði í timburhúsi um 1910 var það hús eiginlega bara búið að vera en það gat oft skipt sköpum að verja næstu hús til að koma í veg fyrir "raðbruna". Á þessum tíma fer samhliða að draga úr byggingum stórra timburhúsa og steinsteypuöld hefst, t.d. reis eitt fyrsta stóra steinhús Akureyrar ári á eftir þessu húsi nokkrum lóðum neðar. Á framhlið hússins er miðjukvistur en tvílyft bakbygging með risi er á norðanverðu húsinu. Í gluggum er þverpóstar, en gluggar eru nokkuð stórir og breiðir. Ég hef tekið eftir því í húsagrúskinu gegn um árin að eftir því sem húsin eru yngri eru gluggar íbúðarhúsa almennt stærri. Hlutföllin milli hæðar og breiddar eru þó yfirleitt svipuð og það er almennt ekki fyrr en í funkishúsum frá því eftir 1930 sem gluggar verða ferningslaga og seinna fara að sjást stórir stofugluggar, meiri á breidd en hæð. Og talandi um glugga þá eru gluggar neðri hæðar hússins áberandi stærri enda var þar áður verslun. Kristján Sigurðsson verslaði þarna um árabil og  bjó á efri hæð. Árið 1915 reisti hann fjós og hlöðu á lóðinni og er þar um að ræða bárujárnsklæddu skúrbygginguna sem stendur norðan við húsið og sést á myndinni. Nú eru þar geymslur. Kristján hefur átt húsið í rösk 30 ár en eigendaskipti verða að öllu húsinu 1942 og átján árum seinna var neðri hæð innréttuð sem íbúð. Síðustu hálfa öldina hefur húsið þ.a.l. eingöngu verið íbúðarhús og í húsinu tvær íbúðir hvor á sinni hæð. Húsið er tiltölulega nýmálað og virðist í góðu ásigkomulagi. Þess má geta að neðri hæð er til sölu og sýnist mér á myndum að húsið sé einnig í góðu standi að innan. Hér geta áhugasamir skoðað neðri hæð Hafnarstrætis 25: http://eignaver.is/soluskra/eign/288285/ (ath. þessi tengill verður líkast til óvirkur þegar eignin selst og upplýsingar hverfa af síðu fasteignasölunnar) Þessi mynd er tekin í haustblíðunni 10.september 2013.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Hafnarstræti 47; Bakkahöllin

 P9100038Hafnarstræti 47 reistu þrír bræður þeir Haukur, Jón og Örn Péturssynir árið 1946. Húsið er þrílyft steinsteypuhús með háu risi en vegna þess hve húsið er breitt það ekki mjög bratt og virkar þ.a.l. frekar lágt. Veggir eru klæddir kvarsmúrblöndu, sem í daglegu tali er kallað skeljasandur og gluggar eru breiðir með einföldum póstum og er bárujárn á þaki. Bogadregið útskot er sunnarlega á framhlið 2. og 3.hæðar. Það er ekki mikil umfjöllun um Hafnarstræti 47 í Innbæjarbók Hjörleifs, enda húsið svosem ekki gamalt á mælikvarða húsasögunnar. Á þessu ári telst húsið "löggiltur ellilífeyrisþegi" sem fyrir hús í Innbænum telst ekki hár aldur þar sem stór hluti bygginga er komin vel á annað hundraðið í aldursárum. En þar kemur allavega fram að húsið er 1570 rúmmetrar að stærð. Á risinu eru tveir flatir kvistir hvor á sinni hlið en mér er ekki ljóst hvort þeir séu seinni tíma viðbót eða hafi verið á húsinu frá upphafi. Á bakhlið eru svalir á kvistinum en svalir eru bakatil á húsinu á öllum hæðum utan jarðhæð sem er niðurgrafin á brekkuhlið. Húsið hefur löngum verið kallað Bakkahöllin og hélt ég lengst af að það kæmi til af því að þegar það var reist stóð það vissulega á sjávarbakkanum og var talsvert stórt og háreist miðað við næstu hús- hálfgerð höll. En í einhverri sögugöngunni um Innbænum heyrði ég að þetta viðurnefni hússins kæmi til af því að þeir bræður sem reistu það voru frá Bakka (fylgdi ekki sögunni hvar á landinu sá Bakki væri, en þeir eru jú nokkrir Bakkabæirnir). Í húsinu eru fjórar íbúðir og hafa verið síðustu áratugi en mér dettur í hug að upprunalega hafi bræðurnir innréttað hver sína íbúð á sinni hæð en íbúð í risi komið seinna. Þrír sambyggðir bílskúrar eru við húsið norðanmegin. Húsið er traustlegt og stæðilegt og í góðri hirðu sem og umhverfi hússins sem er býsna skemmtilegt. Þessi mynd af Bakkahöllinni er tekin 10.september 2013.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.


Hús dagsins: Hafnarstræti 45

Hafnarstræti 45 reistu þeir Karl Ásgeirsson og Jón Þorvaldsson árið 1923.P9100036 Húsið er tvílyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Á þessum tíma var algengast að steinhús væru með timburhúsalagi þ.e. annað hvort með háu risi eða tvílyft með lágu (líkt og t.d. húsaröðin á undan) og alltént áberandi lengri en þau voru breið. Hafnarstræti 45 er hinsvegar nærri ferningslögun og með valmaþaki og minnir að því leyti á funkisstíl og byggingarlag sem varð algengt nærri miðri 20.öld. Svipuð hús frá sama tíma eru t.d. Litli-Garður,  og Brekkugata 31. Það fylgir ekki sögunni hver teiknaði húsið en mér þykir freistandi að giska á annaðhvort Tryggva Jónatansson eða Halldór Halldórsson. Hússins er ekki getið í ævisögu Sveinbjarnar Jónssonar en þar er jafnframt tekið fram að ekki séu öll kurl komin til grafar og ekki hafi tekist að hafa uppi á öllum húsateikningum hans. Ég gæti nefnilega alveg trúað að húsið sé verk Sveinbjarnar. Húsið er næsta lítið breytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði en þó virðast upprunalega hafa verið krosspóstar í gluggum (byggi þetta á mynd frá 1938-40 en hún er á bls. 53 í Steindóri:1993 og sýnir m.a. þetta hús)   og áfastur steyptur garðveggur við suðurhlið er seinni tíma bygging. Húsið er líkt og flest hús í nágrenninu í frábærri hirðu sem og allt nærumhverfi þess. Nýlega hafa verið byggðar voldugar timbursvalir út af annarri hæð bakatil, þ.e. vestan megin. Í því eru þrjár íbúðir hvor á sinni hæð auk einnar í kjallara. Kjallaraíbúð hefur verið innréttuð eftir 1986 en í bók Hjörleifs síðan þá um Innbæinn er aðeins minnst á íbúðir á hæðunum tveimur. Þessi mynd er tekin 10.sept. 2013.

Heimildir: Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi

Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Hafnarstræti 41

Nyrsta húsið í langri röð sviplíkra tvílyftra timburhúsa með lágu risi við Hafnarstræti er hús númer 41.P9100037 Það er jafnframt það elsta en það er reist árið 1903 af Hallgrími Einarssyni ljósmyndara en mér þykir freistandi að áætla að timburmeistararnir Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Jóhannesson hafi komið þar nærri, en þeir munu hafa reist alla röðina 33-39. Ári seinna kaupa þeir svo allar lóðirnar og byggja næstu hús að lóð númer 31, en fyrir henni lá að standa óbyggð í tæpa öld eftir að byggt hafði verið sitt hvoru megin við hana. En Hallgrímur var einn af fyrstu atvinnuljósmyndurunum á Akureyri og ef skoðaðar eru rúmlega gamlar myndir frá Akureyri þá eru góðar líkur á að þær séu eftir Hallgrím. Í húsinu hafði hann ljósmyndastofu eða atelíer, sem var á efri hæð en skrifstofa og verslun var í kjallara en líkast til hefur neðri hæð verið íbúð. Hallgrímur lést 1948 og stundaði ljósmyndaiðn í húsinu allt til dauðadags en synir hans Jónas og Kristján tóku við rekstrinum eftir hans dag en árin 1965-70 skiptist húsið milli nýrra eiganda í þrjá eignarhluta. Þegar Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga er skrifuð, 1986, á Hallgrímur Guðmundsson, afkomandi Hallgríms Einarssonar allt húsið en ekki er mér kunnugt um eigendasöguna síðan þá. Allavega virðist vera að í húsinu séu tvær íbúðir og geymslurými í kjallara og er húsið í frábæru standi og hefur líkast alla tíð fengið gott viðhald og fékk ágæta andlitslyftingu fyrir einhverjum árum síðan. Það sem helst gefur húsinu svip eru svalir á framhlið sem skreyttar eru útskurði og er þetta dálítið í ætt við Sveitserstílinn norska. Þessi mynd er tekin 10.sept. sl.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Hafnarstræti 37 og 39

 Hafnarstræti 37, gult að lit t.v. á mynd.P9100035

Sigtryggur og Jónas reistu þetta hús árið 1905 fyrir Sigurð Sigurðsson bóksala. Húsið var og er, því það er að mestu óbreytt frá upphafi að ytri gerð, tvílyft timburhús með lágu risi og á steinkjallara. Tvílyft stigabygging er á bakhlið. Húsið er nú allt bárujárnsklætt en er líklegast mest lítið breytt að ytra byrði frá fyrstu gerð. Krosspóstar og þverpóstar eru í gluggum. Sigurður bjó og starfaði í húsinu en framan af 20.öld var það algengt að menn byggju og sinntu rekstri í sömu húsunum. Oftast voru verslanir og iðnaður þá á jarðhæðum eða kjöllurum og íbúðarrými á efri hæðum. Það var tilfellið hér en í kjallaranum var bókabúð Sigurðar, á neðri hæð hafði hann bókbandsverkstæði og stofur en bjó á efri hæðinni. Bóksala var starfandi í húsinu áratugum saman en Þorsteinn M. Jónsson keypti verslunina eftir lát Sigurðar árið 1923 og rak hana til 1938. Um líkt leyti hefur neðri hæð og kjallari verið tekin til íbúðar og hefur að ég held verið svo frá því. Þó getur verið að einhver starfsemi eða verslun hafi farið fram í húsinu eftir 1940 án þess að þess sé getið í rituðum heimildum.

Hafnarstræti 39, blátt að lit t.h. á mynd.

Fyrstu eigendur þessarar lóðar voru þeir Helgi og Ólafur Gunnarssynir en þeir fengu hana keypta af bænum árið 1902, en þeir reistu þó ekki hús þarna. Fyrir núverandi húsi er byggingarleyfi ekki sagt finnast (Hjörleifur Stefánsson 1986: 129) en fyrsti eigandi er skráð Vilborg Grönvold og talið líklegast að Jónas og Sigtryggur hafi reist húsið fyrir hana um 1905.  1916 er eigandi hússins Páll Skúlason og húsinu var árið 1968 skipt í tvær íbúðir. Húsið er eilítið styttra á langveginn en hin húsin í röðinni en er með sama lagi, tvílyft timburhús með lágu risi og á steinkjallara. Gluggar á götuhlið eru stórir, sexrúðu krosspóstar en einnig eru einfaldir krosspóstar á húsinu. Einlyftur forstofuskúr með lágu risi er á suðurhlið og þar hafa verið reistar svalir en einnig er einlyft bakbygging við húsið. Ekki veit ég hvort þarna er um upprunalegar byggingar að ræða (það kemur ekki fram sérstaklega í Innbæjarbókinni) en líklegast þykir mér að allavega suðurbygging sé seinni tíma viðbygginga. Svalirnar eru alltént frá því um 1995-2000. Húsið leit ekki alltof vel út um það leyti en hefur síðan þá fengið góða yfirhalningu og virðist í ágætu standi. Það er timburklætt að utan með bárujárn á þaki og tvær íbúðir munu í húsinu.

Þessi mynd er tekin 10.september sl.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

Hafnarstræti 37 brann til ösku þann 19. maí 2020. Svo voveiflega vildi til, að bruninn varð mannskæður, en einn maður fórst. cry

P5190960


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Okt. 2013
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 13
  • Sl. sólarhring: 39
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 450405

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 176
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband