7.12.2019 | 11:41
Hús dagsins: Helgamagrastræti 49
Helgamagrastræti 49 byggði Böðvar Tómasson byggingameistari eftir eigin teikningum. Hann fékk lóðina og byggingaleyfi vorið 1942. Böðvar fékk að byggja hús úr steinsteypu, eina hæð með kjallara undir hálfu húsinu, að stærð 10x7,72m auk útskots að stærð 1,25x4,40m. Byggingaleyfið var veitt með því skilyrði, að húsið yrði byggt með valmaþaki en Böðvar sóttist eftir því að hafa þakið með skúrlagi líklega einhalla aflíðandi. Þannig má telja ljóst, að bygginganefnd hefur lagt áherslu á, að húsin við götuna bæru sama svipmót þ.e. öll með valmaþaki.
Húsið er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með lágu valmaþaki. Steiningarmúr er á veggjum og bárujárn á þaki, en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Horngluggar eru til suðurs og útskot á norðurhluta framhlið. Í kverkinni á milli er inngangur og slútir þak yfir. Áfast suðurhlið hússins er sólpallur úr timbri.
Böðvar Tómasson byggingameistari og kona hans, Kristín Jóhannesdóttir, sem byggðu Helgamagrastræti 49 bjuggu hér allt til dánardægra, en hún lést árið 1981 og hann tíu árum síðar (hafði þá dvalið á Dvalarheimilinu Hlíð um nokkurt skeið). Böðvar var frá Bústöðum í Austurdal í Skagafirði en hún frá Syðra Hvarfi í Skíðadal. Bróðir Böðvars var Eyþór Tómasson framkvæmdastjóri, sem Akureyringar þekktu og þekkja auðvitað enn sem Eyþór í Lindu. Böðvar og Kristín voru metnaðarfull og vandvirkt garðyrkjufólk og byggðu gróðurhús á lóðinni. Þar mun Kristín hafa unað löngum stundum við ræktun rósa og annarra skrautblóma. Kristín Jóhannesdóttir, sem kenndi sig við Syðra Hvarf var skáld og sendi frá sér ljóðabækur, Liljur í lundi (1962) og Rósir í runni (1965). Eflaust hefur garðræktin í gróðurhúsinu og garðinum við Helgamagrastræti 49 veitt henni innblástur, svo sem ráða má af titilljóði síðarnefndu bókarinnar; Rósir í runni:
Ég vil rækta rósir
i runni við mitt hús.
Það eykur yndi og gleði,
ég er til þess svo fús.
A sælu sumarkveldi
ég sit og horfi á þær.
Ein er hvítust allra,
hún er svo fin og skær.
Hér er rauða rósin,
sem regnið vætti i dag.
Hun breiðir út blöðin fögru
svo blítt um sólarlag.
Og rósin gula gleður,
með grænu blöðin sin.
Það hlýjar mér um hjarta
að hugsa um blómin mín.
Nú moldin milda angar,
svo mjúk við foldarbarm.
Og nóttin, þýð og þögul,
þreyttan hvílir arm.
Kristín Jóhannesdóttir frá Syðra Hvarfi.
Sjálfsagt heyrir margt af rósum og runnum Kristínar og Böðvars sögunni til, en engu að síður er lóðin enn þann í dag mjög gróskumikil. Þar standa nokkur stæðileg lerkitré og fleiri tré, sem þau heiðurshjón hafa eflaust gróðursett á sínum tíma. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og í góðri hirðu. Ein íbúð er í húsinu og hefur verið svo alla tíð.
Helgamagrastræti 49 er næst nyrsta húsið í langri funkishúsaröð við Helgamagrastrætið og hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af þeirri áhugaverðri heild. Frá upphafi virðist einmitt hafa verið lögð áhersla á, að götumyndin væri samstæð og heildstæð, sbr. þá staðreynd, að Böðvari var uppálagt að byggja hús sitt með valmaþaki en ekki skúrþaki. Enda er það svo, að öll íbúðarhúsin, hvert og einasta við Helgamagrastrætið frá nr. 32-51 eru með valmaþaki. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 30. apríl 1942. Fundur nr. 8. maí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Kristín Jóhannesdóttir. (1965). Rósir í runni. Selfoss; Prentsmiðja Suðurlands.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2019 | 10:56
Hús dagsins: Helgamagrastræti 48
Helgamagrastræti 48 reistu þeir feðgar Kolbeinn Ögmundsson og Ögmundur Ólafsson árið 1945, eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Kolbeinn fór fyrir þeim feðgum í samskiptum við Bygginganefnd og var honum úthlutuð lóðin á útmánuðum 1944 og fékk á henni byggingarleyfi . Kolbeini var heimilað að byggja hús úr steinsteypu, eina hæð á kjallara og með valmaþaki. Stærð að grunnfleti 9,15x7,3m auk útskots að stærð 3,8x1,4m að vestan.
Helgamagrastræti 48 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki (kjallari raunar svo hár, að segja mætti húsið tvílyft). Í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum, og horngluggar til SA. Útskot er nyrst á framhlið (vesturhlið) og í kverkinni á milli inngöngudyr á efri hæð og steyptar tröppur upp að þeim.
Kolbeinn Ögmundsson sem reisti húsið, var fæddur í Hafnarfirði. Hann var búfræðingur að mennt en gegndi lengst af stöðu framkvæmdastjóra hjá Kassagerð KEA. Kona hans var Guðfinna Sigurgeirsdóttir frá Flatey á Skjálfanda. Þau bjuggu hér um áratugaskeið en þau fluttu til Hafnarfjarðar árið 1981. Faðir Kolbeins, Ögmundur Ólafsson og seinni kona hans Oddný Sigurgeirsdóttir bjuggu einnig hér, en húsið er tvíbýli frá upphafi, eins og svo mörg tveggja hæða húsin við Helgamagrastræti. Húsið hefur líklega alla tíð hlotið gott viðhald og er til mikillar prýði í glæstri götumynd. Það er nánast óbreytt frá upphafi, gluggapóstar í samræmi við upprunalegar teikningar og ekki hefur verið byggt við það, svo fátt eitt sé nefnt. Á lóðarmörkum er girðing með steyptum stöplum með steiningarmúr og járnavirki og er henni vel við haldið. Aðdáunarvert má heita, hversu margar stein- og járnavirkisgirðingar standa enn við Helgamagrastrætið (og margar aðrar götur frá miðbiki 20. aldar) og hafa verið haldið vel við.
Helgamagrastræti 48 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 968, 17. mars 1944. Fundur nr. 986, 18. ágúst 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2019 | 17:23
Hús dagsins: Helgamagrastræti 47
Guðmundur Tómasson fékk þessa lóð haustið 1941. Hann reisti húsið eftir eigin teikningum árið eftir. Guðmundur fékk leyfi til að reisa hús á einni hæð með lágu valmaþaki og kjallara undir hálfu húsinu, stærð 16,46x7,82m, auk útbyggingar, 1,2x1,7m úr vesturhlið. Fram kemur í bókun bygginganefndar, að nefndin krefst loftræstingar úr baðherbergjum. Um haustið 1942, þegar húsið var risið afsalaði hann húsinu til tveggja manna, norðurhluta til Þorleifs Sigurbjarnarsonar og suðurhluta til Ragnars Jóhannssonar.
Helgamagrastræti 47 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með valmaþaki. Bárujárn er á þaki, múrhúð á veggjum og einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnu eru til suðurs. Húsið er parhús og nokkuð stærra að grunnfleti en nærliggjandi hús, ekki ósvipað Helgamagrastræti 46 í stórum dráttum. Suðurhluti hússins telst Helgamagrastræti 47a en norðurhluti b.
Þegar heimilisfanginu Helgamagrastræti 47 er flett upp á timarit.is birtast 21 niðurstaða, sú elsta frá febrúar 1946, tilkynning um 75 ára afmæli Páls Bergssonar, fyrrverandi kaupmanns og útgerðarmanns frá Hrísey, sem þarna er búsettur. Það er raunar mikill heimildasjóður sem kemur upp, ef húsum er flett upp þar, bæði um íbúa gegn um tíðina að ekki sé minnst á, ef um einhverja starfsemi, skrifstofu eða verslun hefur verið að ræða í húsunum. Svo sem vænta má um 77 ára gamalt hafa fjölmargir átt hér heima um lengri eða skemmri tíma. Í norðurhluta, b, bjuggu um áratugaskeið þau Sigurbjörn Þorvaldsson bifreiðarstjóri og Steinunn Jónsdóttir . Húsið er að mestu leyti óbreytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði og er vel við haldið og sama er að segja af lóðinni. Hús og lóð eru til mikillar prýði í glæstri götumynd.
Helgamagrastræti 47 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild, þ.e. þeirri löngu, samfelldu og heilsteyptu röð funkishúsa sem Helgamagrastrætið er. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 886, 3. Okt. 1941. Fundur nr. 24. apríl 1942. Fundur nr. 928, 9. okt. 1942. Fundur nr. 930, 23. okt. 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2019 | 18:45
Hús dagsins: Helgamagrastræti 46
Árið 1942 fengu feðgarnir Kári Karlsson og Karl Sigfússon lóð við Helgamagrastræti 46 ásamt byggingarleyfi fyrir húsi 13,7x8,0m að stærð, ein hæð á háum kjallara, byggt úr steinsteypu með timburgólfum og járnklæddu timburþaki. Teikningarnar að húsinu gerði Páll Friðfinnsson, en hann á heiðurinn af þó nokkrum húsum við Helgamagrastrætið, þ.á.m. húsum nr. 42, 44, 45. Upprunalegar teikningar að Helgamagrastræti 46 eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu.
Helgamagrastræti 46 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir en einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í gluggum. Húsið er parhús og nokkuð stærra að grunnfleti en nærliggjandi hús. Á norðurhlið er forstofubygging með flötu þaki, byggð árið 2003.
Karl Sigfússon sem var frá Víðiseli í Reykjadal og kona hans Vigfúsína Vigfúsdóttir frá Hvammi í Þistilfirði bjuggu hér, ásamt stórfjölskyldu, til dánardægurs, Karl lést 1962 en Vigfúsína 1967. Karl var rokkasmiður en sú iðngrein hefur vafalítið átt nokkuð undir högg að sækja þegar leið á 20. öldina. Kári Karlsson bjó einnig hér um áratugaskeið ásamt fjölskyldu sinni, en kona hans var Alda Rannveig Þorsteinsdóttir. Kári, sem fæddur var á Rauðá í Bárðardal starfaði lengst af hjá Gefjun en varð síðar yfirbréfberi hjá Póstinum á Akureyri. Sonur Karls og bróðir Kára var Þráinn (1939-2016), einn af ástsælustu leikurum þjóðarinnar. Þráinn var einn helstu máttarstólpa Akureyrskrar leiklistar í hálfa öld og tók þátt í flestum sýningum Leikfélags Akureyrar á því tímabili. Hann fór einnig með hlutverk í kvikmyndum á borð Útlagann, Hrafninn flýgur og Stellu í Orlofi.
Helgamagrastræti 46 var, í hluta eða í heild, í eigu sömu fjölskyldu fram undir aldamót en síðan hafa ýmsir átt hér og búið. Húsið er að mestu leyti óbreytt frá upphafi, að undanskilinni forstofubyggingu á norðurhlið og sólpalli úr timbri á suðurhlið. Húsið er í góðu standi og traustlegt og hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald. Sömu sögu er að segja af lóð, sem er vel gróin og hirt og enn stendur hluti af steyptum vegg með stöplum framan við húsið. Helgamagrastræti 46 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 907, 30. apríl 1942. Fundur nr. 913, 5. júní 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.7.): 1
- Sl. sólarhring: 34
- Sl. viku: 276
- Frá upphafi: 451044
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 211
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar