23.2.2021 | 17:38
Hús dagsins: Kaupvangsstræti 4
Hin þéttingsbratta en fjölfarna gata úr Miðbænum upp á Brekku um Grófargil, í daglegu tali kallað Gilið (eða Listagilið), nefnist Kaupvangsstræti. Neðarlega við götuna, skammt neðan við hið valinkunna Kaupfélagshorn liggur Skipagatan til norðurs frá Kaupangsstrætinu og áleiðis að Ráðhústorgi. Á mótum gatnanna stendur Kaupvangsstræti 4. Það hús er reist í áföngum á síðari hluta 4. áratugarins, og hófst bygging þess árið 1934.
Haustið 1934 fékk Tómas Björnsson verslunarmaður að byggja hús á lóð sinni við Kaupangsstræti og Skipagötu, samkvæmt uppdrætti og byggingalýsingu. Húsið átti að vera steinsteypt, tveggja hæða og kjallaralaust 14 og 13,90m meðfram götu, 8m skáa á horni, álmurnar 10 m breiðar. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Fullbyggt telst húsið 1939, það er a.m.k. skráð byggingarár, en elstu heimildir um Kaupvangsstræti 4 sem timarit.is finnur eru frá 1937, þegar kosningaskristofa Bændaflokksins og afgreiðsla Bændablaðsins var þarna til húsa.
Kaupvangsstræti 4 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki, undir þakkanti á framhlið. Þakdúkur er á þaki og gróf múrhúð á veggjum, einfaldir þverpóstar í gluggum efri hæðar en síðir verslunargluggar á jarðhæð. Gluggar efri hæðar eru innrammaðir með steyptum böndum að ofan og neðan. Á bakhlið er einlyft álma, viðbygging frá því um 1966. Húsið er áfast Skipagötu 18 að norðan og er innangengt á milli húsanna.
Tómas Björnsson, sem byggði húsið, var Þingeyingur, fæddur árið 1895 að Ljósavatni. Hann var umsvifamikill verslunarmaður með bygginga- og lagnavörur en hann stofnaði eigin byggingavöruverslun árið 1923 og rak hana allt til ársins 1958. Í Kaupvangsstræti 4 rak hann einnig fataverslun á fimmta áratugnum.
Kaupvangsstræti 4 hefur alla tíð verið verslunar- og skrifstofuhúsnæði og hýst hina ýmsu starfsemi. Þegar heimilisfanginu er flett upp á timarit.is koma upp hartnær 2000 niðurstöður, þar af 38 ef götuheitið er skrifað án v-s. En gatan heitir nokkuð örugglega KaupVangsstræti og er kennd við kaupvang (sbr. leikvang, fólkvang) eða svæði þar sem verslað er. (Kaupvangur gæti verið ágætt orð yfir verslunarmiðstöð...) Gatan er m.ö.o. ekki kennd við bæinn og kirkjustaðinn Kaupang í Eyjafirði, sem skrifaður er án v-s. Það heiti skildist höfundi einhvern tíma, að væri upprunið úr norsku sbr. Kaupanger. Það er svosem ekki skrýtið að þetta valdi misskilningi, enda margar götur bæjarins kenndar við Eyfirsk höfuðból.
Það yrði of langt mál að telja upp alla þá starfsemi sem Kaupvangsstræti 4 hefur hýst. Sem áður segir var húsið aðsetur Bændaflokksins og þar var skrifstofa Bændablaðsins. Breska setuliðið starfrækti skrifstofu skaðabóta- og leigumála í húsinu og þá var Sjúkrasamlag Akureyrar með afgreiðslu hér. Síðla árs 1949 opnaði Flugfélag Íslands afgreiðslu sína í Kaupvangstræti og var hún starfrækt hér fram á sjötta áratuginn. Síðar voru þarna m.a. kjötmarkaður, verslunin Tölvutæki/Bókval og leikfangaverslunin Dótakassinn á jarðhæð um aldamótin 2000. Í vesturhluta hússins hefur JB úrsmíðaverkstæði Jóns Bjarnasonar verið starfrækt um áratugaskeið. Á efri hæð hafa löngum verið skrifstofur og þjónustustarfsemi, og þá hafa þar einnig verið íbúðir. Þá hafði Sjálfstæðisflokkurinn þarna aðsetur um árabil og afgreiðsla dagblaðsins Íslendings. Svo fátt eitt sé nefnt af því, sem haft hefur aðsetur á Kaupvangsstræti 4. Nú er í húsinu sportvöruverslunin Hornið, áðurnefndir úrsmiðir, JB úr og skart og skrifstofurými á efri hæðum.
Kaupvangsstræti 4 er reisulegt og glæst og í mjög góðri hirðu og hefur væntanlega alla tíð hlotið hið besta viðhald. Húsið er í samræmi við götumyndir Miðbæjarins t.d. við Ráðhústorg og norðar við Skipagötu, en þessar götur eru að mestu byggðar eftir fyrir fyrsta Aðalskipulagi Akureyrar, sem samþykkt var árið 1927. Húsið er syðsti hluti þriggja húsa samstæðu, en áfast að norðan er Skipagata 18 (Bifröst), sem byggð er á svipuðum tíma, 1935 og nyrst er fjögurra hæða stórhýsi Pedrómynda, Skipagata 16. Það hús er reist meira en hálfri öld síðar, eða 1992. Í Húsakönnun, sem unnin var um Miðbæjarsvæðið árið 2014 er húsið metið með ótvírætt varðveislugildi, sem hluti húsaraðar sem er [...] í heild sinni er einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins[...] (Landslag arktitektastofa 2014: 48). Myndin er tekin þann 24. júlí 2015.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 729, 29. sept. 1934. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2021 | 16:58
Hús dagsins: Kotá (Kotárgerði 26)
Þar sem er þéttbýli hefur, nokkurn veginn undantekningarlaust, áður verið dreifbýli. Akureyrarkaupstaður er t.d. byggður upp á nokkrum jörðum. Drjúgur hluti Brekkunnar er t.a.m. byggður á landi Stóra- Eyrarlands og Nausta. Það var á áratugunum um og fyrir aldamótin 1900, að Akureyrarbær tryggði sér eignarhald á þessum jörðum og lögsagnarumdæmi. Innan þess voru mörg býli á 20. öld gátu lendurnar, sem nú eru komnar undir Brekkuna og Naustahverfi, framfleytt ýmsum búpeningi. Flest umrædd býli innan bæjarlandsins, sunnan Glerár, voru byggð úr landi Stóra- Eyrarlands og Nausta, en utarlega á Brekkunni má finna eina smærri jörð sem alla tíð var sjálfstæð þ.e. var ekki hjáleiga eða byggð úr öðrum jörðum. Það er Kotá.
Íbúðarhúsið á Kotá stendur nr. 26 við samnefnda götu, Kotárgerði, og það reistu þau Sigfús Jónsson og Brynhildur Þorláksdóttir árið 1949. Húsið er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki og einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Bílskúr, steinsteyptur með flötu þaki er áfastur við húsið norðanmegin. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið.
Hversu langt má rekja sögu Kotár er óljóst en víst, að um forna jörð er að ræða. Í Manntali 1703 búa þar Jón Þórarinsson og Guðrún Halldórsdóttir. Uppi hafa verið (umdeildar) kenningar um, að Kotá sé mögulega Syðri- Glerá, sem Helgi magri gaf vini sínum Ásmundi Öndóttssyni, eða a.m.k. reist á tóftum þess býlis. (Guðmundur, Jóhannes og Kristján 1990: 663). En réttum 1000 árum eftir að Helgi magri nam Eyjafjörð, árið 1890 bjuggu á Kotá þau Stefán Jónasson og Guðrún Jónasdóttir ásamt fjórum börnum þeim Stefaníu, Jónasi, Aðalbirni og Svanfríði. Eigandi jarðarinnar þá var Daníel Halldórsson prófastur. Það var árið 1893 að Akureyrarbær keypti Kotá, ásamt Stóra- Eyrarlandi. Síðarnefndu jörðina hugði bærinn beinlínis undir byggingarland en Kotá ætlaði bærinn að leigja til ábúðar í heilu lagi. (Það hefur e.t.v. þótt fjarstæðukennt á þeim tíma, að bærinn byggðist hingað upp eftir- enda varð sú ekki raunin fyrr en komið vel fram yfir miðja 20. öld). Fjórum áður síðar seldi bærinn húsakostinn og túnin á erfðafestu Þorláki Einarssyni frá Skjaldarvík. Stundaði hann hér búskap um áratugaskeið, en þegar líða tók á 20. öldina saxaðist smám saman á túnin enda voru mörg smærri býli hér í nágrenninu. Laugardaginn 20. september 1947 varð sá voveiflegi atburður að eldur kom upp í íbúðarhúsinu á Kotá og þar fórst Þorlákur Einarsson er hann reyndi að bjarga búslóðinni. Hann var þá orðinn 81 árs.
Tveimur árum eftir hinn hræðilega harmleik á Kotá byggði dóttir Þorláks, Brynhildur og maður hennar Sigfús Jónsson frá Sauðhauga í Vallahreppi í Múlasýslu nýtt íbúðarhús, sem enn stendur. Ekki stóð búskapur þeirra lengi, því Sigfús lést fyrir aldur fram vorið 1950 og seldi Brynhildur býlið, Birni Eiríkssyni og syni hans Kristni Björnssyni. Þeir feðgar voru stórhuga í búskap, byggðu nýtt fjós og svínahús og segir í Byggðum Eyjafjarðar 1990 að bústofn þeirra hafi talið 25 nautgripi, 5 gyltur með grísum, 40 ær, auk varphænsna. Hins vegar settu landfræðilegar aðstæður búskap þeirra feðga nokkrar skorður; sem áður segir var Kotárlandið að stórum hluta komið undir smábýli (m.a. Skarð) og erfðafestulönd. Auk þess var þéttbýlið nokkuð farið að þrengja að. Um 1950 markaði Byggðavegur nokkurn veginn efri mörk þéttbýlis Akureyrar, en þangað eru aðeins um 300 metrar að Kotá. Mýrahverfið tók að byggjast á 6. Áratugnum og Gerðahverfið á þeim sjöunda. Kotárgerði tók að byggjast um 1965, en 1966 telst búskap ljúka á Kotá. Hafa síðan margir átt húsið og búið þar.
Húsinu hefur væntanlega alla tíð verið vel við haldið og lítur vel út. Lóð og nánasta umhverfi hafa greinilega hlotið endurbætur á síðustu árum, steyptur veggur og vegleg verönd og pallur úr timbri í forgrunni við götu. Á framhlið hússins er skilti með nafni þess, Kotá. Höfundur hefur nokkrum sinnum lýst þeirri skoðun, að fyrrum sveitabæjarhús í þéttbýli eigi að njóta einhvers varðveislugildis eða friðunar. Það á að sjálfsögðu við um í tilfelli Kotár. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 12. júní 2020.
Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. II bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Bloggar | Breytt 12.4.2022 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2021 | 17:02
Hús dagsins. Sundlaug Akureyrar (Þingvallastræti 21)
Sundlaug Akureyrar skipar ekki bara stóran sess í hugum Akureyringa heldur flestra sem bæinn hafa heimsótt. Rétt er þó að geta þess, að laugin er ekki sú eina á Akureyri því norðan Glerár er einnig Glerárlaug og þá eru vitaskuld sundlaugar í Hrísey og Grímsey. Sundlaugin og sundlaugarhúsið frá miðri síðustu öld, eftir Guðjón Samúelsson og Bárð Ísleifsson, stendur efst í Grófargilinu, andspænis húsum nr. 10-18 við Þingvallastræti. Telst laugarsvæðið standa við Þingvallastræti 21, liggur það einnig að Þórunnarstræti að vestan, en aðkoma og bílastæði er af Skólastíg. Sundlaugarhúsið var formlega tekið í notkun 1956, eftir margra ára byggingarframkvæmdir, en þá þegar var orðin löng hefð fyrir sundiðkun á þessum stað. Saga sundaðstöðu í einhverri mynd á þessum stað spannar liðlega 120 ár.
Sjálfsagt er óvitlaust, að miða formlegt upphaf hugmynda að sundaðstöðu í Grófargili, við fund Bæjarstjórnar Akureyrar þann 28. maí 1895, að Eggert Laxdal bæjarfulltrúi bar upp þá tillögu, að veitt yrði fé, 20-30 krónur til sundkennslu eða komið yrði upp sundpolli. Í kjölfarið var kosin þriggja manna nefnd til að sinna þessum málum og samanstóð hún af áðurnefndum Eggert Fr. Kristjánssyni og J.V. Havsteen. Ári síðar, eða 13. maí 1896 ákveður bæjarstjórnin að verja 75 krónum til þess að koma upp sundpolli í Grófargili, með von um svipaðan styrk úr landssjóði, og í framkvæmdanefnd völdust þeir E. Laxdal, J.V. Havsteen og Páll Jónsson. Þetta eru alltént með elstu heimildunum, þar sem nefndur er sundpollur í Grófargili. Aðstaða þessi fékkst einfaldlega með því að stífla lækinn sem rann um Grófagilið. Þessar framkvæmdir fóru líklega fram snemma vors 1897, en 4. maí það ár nefnir Eggert það á bæjarstjórnarfundi að sundpollur hafi runnið fram og grunar hann, að stíflugarður hafi verið ,,sprengdur af mannavöldum Var í kjölfarið lagt lögbann á töku uppfyllingarefnis úr stíflugarðinum.
Sundpollur þessi, sem auðvitað var aðeins uppistöðulón af lindar- og leysingarvatninu var, eins og gefur að skilja, bæði óhreinn og kaldur en Tryggvi Þorsteinsson lýsir sundpollinum mjög gaumgæfilega í bókinni Varðeldasögum: [...]hlaðinn var mikill torfgarður þvert fyrir Grófargilið, þar sem sundlaugarlækurinn rennur. Neðst í stíflugarðinum var tréstokkur og þegar honum var lokað myndaðist dálítil tjörn ofan við garðinn. Hún lagaði sig alveg eftir landslaginu, svo þarna mátti sjá nes og voga, og langt til vesturs lá hlykkjóttur fjörður upp lækjarfarveginn og nefndist það ,,hafsvæði Skottið. Þar náði vatnið okkur í ökkla og drullan eða leirinn í botninum náði líka í ökkla svo samanlagt náði þessi vaðall okkur í miðja kálfa. Annars var mesta dýpið austast við stíflugarðinn og upp eftir miðri tjörninni. Vatnið var eins og súkkulaði á litinn, en það var ekki neitt súkkulaðibragð af því og það vissum við vel, því æði oft fengum við okkur sopa, - svona óvart. Sérstaklega þeir sem ekki þorðu að stinga sér, því vatnið var oftast 11-15 gráðu heit og margir supu hveljur þegar þeir óðu út í þetta. (Tryggvi Þorsteinsson 1973: 22-23).
Þetta mun hafa verið um 1920. Á þessum tíma var eina byggingin við pollinn lítill skúr, sem lýst er í Fasteignamati 1918 sem sundskáli, en hann var úr timbri með hallandi þaki, 3,1x3,1m ein hæð ósundurþiljuð og metinn á 100 kr. Það má nefna til samanburðar, að í sama fasteignamati er ekki óalgengt, að meðalstór einbýlishús séu metin á 5-7000kr. En árið 1922 voru kantar steyptir í laugina og heyrðu þá nesin og vogarnir (sbr. frásögn Tryggva) væntanlega sögunni til, en það var hins vegar ekki fyrr en 1936 að botn var steyptur, þ.a. líklega hefur súkkulaðiliturinn haldist að mestu í vatninu fram að því. En árið 1933 varð mikil bylting í sundaðstöðu bæjarbúa. Þá var nefnilega leitt heitt vatn eftir leiðslum úr heitum laugum í Glerárgili. Þeirri miklu framkvæmd, lagningu veitustokks um 3 km leið ofan úr Glerárdal stýrði Höskuldur Baldvinsson verkfræðingur. Eftir þessar endurbætur varð laugin að jafnaði 25-26 gráðu heit, sem þykir enn í dag nokkuð ákjósanlegt fyrir keppnislaugar en er ívið of kalt fyrir þá sem aðeins vilja liggja og slaka á við bakkann.
Hér má sjá ansi hreint áhugavert myndband, sem sýnir fólk í Sundlaug Akureyrar sumarið 1939 (sem var annálað fyrir hlýindi) og sýnir það nokkuð glögglega aðstöðuna. Auk þess má sjá, að á þessum tíma var sundlaugin við efri mörk þéttbýlis. Myndbandið er á Youtube-rás Gylfa Gylfasonar, sem kallast einfaldlega Akureyri.
Það var síðan á fimmta áratug 20. aldar (jafnvel fyrr) sem farið var að huga að byggingu sundhallar og hófust framkvæmdir við hana 1948. Á baksíðu Íslendings þann 16.ágúst 1950 er að finna útlitsteikningu af fyrirhugaðri sundhöll og kemur þar fram að búið sé að steypa kjallara og fyrstu hæð, og jafnframt að hönnuður sé Bárður Ísleifsson. En byggingin var teiknuð á teiknistofu Húsameistara ríkisins, þ.e. Guðjóns Samúelssonar. Ekki gat höfundur fundið neinar bókanir hjá Bygginganefnd um Sundhöllina. Hins vegar er nokkuð um það, að fjallað sé um byggingu Sundhallar í dagblöðum Akureyrar á fyrri hluta 6. áratugar 20. aldar og er þar oftast talað um seinagang við byggingu og erfiðleika við fjármögnun. Í Degi þann 25. febrúar 1953 segir t.d. að sundhöllin hafi verið í smíðum í mörg en þokist lítið nær lokatakmarkinu Það var því aldeilis ekki hlaupið að byggingu sundhallarinnar en það var loks í júlí 1956 að húsið var tekið í notkun við hátíðlega athöfn.
Sundlaugarhúsið frá 1956 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki og smærri álmu að norðvestanverðu. Sú álma skagar nokkra metra til vesturs og var sú ráðstöfum væntanlega hugsuð sem e.k. varðturn þar sem þar er stór gluggi sem vísar að lauginni, þar sem afgreiðsla var staðsett allt til 1999 að nýbygging var tekinn í notkun. Gluggasetning byggingarinnar er nokkuð regluleg, en á fram- og bakhlið eru raðir af gluggum, 12 að tölu á hvorri hæð. Þá eru kringlóttir gluggar, á norðurgafli og undir þakskyggni að sunnanverðu. Á norðausturhorni er inngangur og dyraskýli og þar fyrir ofan þrír smáir ferhyrningslaga gluggar. Þessar dyr voru aðalinngangur sundlaugarinnar í rúm 40 ár en er nú starfsmannainngangur.
Árin 1998-2000 var ráðist í miklar byggingarframkvæmdir og var byggt við húsið til suðurs. Var það Arkitektastofan Form sem átti veg og vanda að hönnun þeirrar byggingar. Sú bygging er einlyft steinsteypubygging með flötu malarþaki en áfastur henni er glerskáli mikill sem hýsir yfirbyggðan heitan pott, sambyggðan lauginni. Þar er hægt að setjast niður og synda út í laug í gegnum dyr á glerbyggingunni. Í nýbyggingu eru búningsklefar kvenna, afgreiðsla og kaffitería auk áðurnefnds potts undir glerhvelfingunni. Í eldri byggingunni eru búningsklefar karla á neðri hæð en þar hafa þeir verið frá upphafi. Þar var allt endurnýjað um aldamótin þegar viðbygging var byggð. Á efri hæð, þar sem áður voru kvennaklefarnir, er nú m.a. aðstaða starfsfólks og saunabað. Í kjallara er innilaug og er sú mun sú aðstaða að mestu óbreytt frá upphafi. Þá eru ótalin mikil lagna- og tækjarými undir laug og laugarhúsi. Aðrar byggingar á svæðinu eru varðturn miðsvæðis, eimbað skammt vestur undir sundlaugarbyggingunni og útiklefar, þ.e. þaklausir búningsklefar suðvestanvert á svæðinu.
Á sundlaugarsvæðinu eru tvær stórar laugar, önnur keppnislaug sunnar og ofar en laug nær byggingu er frekar nýtt fyrir almenning og leik barna. Þá eru þarna þrír heitir pottar, þar af einn stór vestur undir glerskálanum og vaðlaug næst byggingu. Rennibrautir eru alls þrjár, og nefnast þær Flækja, Trekt og Foss og leystu þær af hólmi eldri rennibraut frá 1994. Sú var, eftir því sem höfundur kemst næst, nafnlaus. Höfundur hefur ekki séð, að Sundhöllin hafi verið metin til varðveislu í nokkurri Húsakönnun en varðveislugildi Sundhallarinnar frá miðri 20. öld hlýtur að vera nokkurt. Bæði er byggingin mjög stílhrein og glæsileg og stendur á áberandi stað, auk þess sem húsið er verk Húsameistara ríkisins. Nýbyggingin er einnig vel heppnuð, sem og tenging hennar við eldri byggingu, sem fær algjörlega að njóta sín óháð þeirri nýju og njóta báðar byggingar sín til fullnustu. Þá spannar saga Sundlaugarinnar sem sundstaðar yfir 120 ár. Myndin sem sýnir sundlaugarbygginguna að framanverðu er tekin 8. apríl 2018. Yfirlitsmynd af Sundlaugarsvæðinu er tekin 19. júní 2015 en myndin af rennibrautinni er tekin 13. maí 2018.
Það er að sjálfsögðu ekki annað hægt en að mæla með heimsókn í Sundlaug Akureyrar, hvort sem ætlunin er að synda, busla í vaðlauginni, hafa það náðugt í gufubaðinu, slaka á í pottinum og ræða landsins gagn og nauðsynjar við náungann svo sem þar tíðkast. Eða taka salibunu í nýjum rennibrautum. Flækjan mun vera lengsta rennibrautin á landinu þegar þetta er ritað, 86 metrar (m.ö.o. lengri en gatan Krabbastígur!) Höfundur sækir laugina nokkuð oft en viðurkennir fúslega, að meiri tíma er varið í pottunum en lauginni sjálfri.
Heimildir:
Bæjarstjórn Akureyrar. Gjörðabók 7.febr 1879 29. júní 1900. Fundir þ. 28. maí 1895, 13. maí 1896 og 4. maí 1897. Á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Fasteignamat á Akureyri 1918.
Hermann Sigtryggsson og Eiríkur Björn Björgvinsson. 2000. Íþróttamannvirki á Akureyri. Íþrótta- og tómstundaráð Akureyrar. Pdf aðgengilegt á https://www.akureyri.is/static/files/ithrottamal/ithrottamannvirki-a-akureyri-arid-2000.pdf
Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Tryggvi Þorsteinsson. 1973. Varðeldasögur. Akureyri: Skjaldborg.
Bloggar | Breytt 25.4.2022 kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.7.): 4
- Sl. sólarhring: 33
- Sl. viku: 252
- Frá upphafi: 451262
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 200
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar