Hús dagsins: Hlíðargata 11

Hlíðargata 11 stendur á horni götunnar og Hamarstígs, PA090832töluvert neðar en næsta hús nr. 9 en Hlíðargatan er afar brött á þessum kafla næst Hamarstíg. Árið 1942 falaðist Jakob Frímann kaupfélagsstjóri KEA eftir lóð undir verslunarhús og fékk lóðina næst norðan við hús Jóns Sigurðssonar myndasmiðs sunnan Hamarstígs. Hús Jón Sigurðssonar myndasmiðs er að sjálfsögðu Hlíðargata 9, en Byggingarnefnd lýsti framan af ævinlega staðsetningu lóða og húsa á þennan hátt; þ.e. afstöðu miðað við lóð eða hús tiltekinna manna. En þetta nýja verslunarhús KEA reis árið 1943 og fékk félagið leyfi til að reisa verslunarhús, tvær hæðir úr steinsteypu með flötu þaki og steyptu lofti og veggjum. Stærð hússins 10,0x7,3m auk útskots að sunnan, 7,8x3,7m.

En Hlíðargata 11 er reisulegt tvílyft steinsteypuhús með aflíðandi einhalla þaki sem innrammað er með háum kanti. Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson. Á suðurhlið er bakálma og í kverkinni á milli inngangur á efri hæð auk steyptra trappa með stölluðu handriði. Á framhlið hússins (til NA) er "bogadregið horn" og þar er steyptur toppur á þakkanti. (Bogadregið horn kann e.t.v. að hljóma svolítið mótsagnarlegt, e.t.v. svipað og t.d. ferkantað hjól) Krosspóstar eru í flestum gluggum hússins og á neðri hæð eru stórir "verslunargluggar", arfur frá fyrra hlutverki hússins.

 Á fimmta áratug 20. aldar og eftir miðja 20. öld spruttu upp fjölmargar KEA verslanir eða útibú, á borð við verslunina í Hlíðargötu en flest liðu þau undir lok um eða upp úr 1980. Nú er starfsemi KEA fyrst og fremst fjárfestingar og hefur félagið ekki beina aðkomu að verslunar- eða fyrirtækjarekstri árum saman.  Fullbyggt mun húsið hafa verið 1943, og verslunin væntanlega verið opnuð um það leyti. Elstu heimildir um Útibú KEA á Hamarstíg semtimarit.is finnur er frá haustinu 1945. Gengið var inn í verslunina frá Hamarstíg, enda þótt húsið standi á Hlíðargötu.  Árið 1962 var byggt við verslunina til vesturs, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar, og sumarið 1963 var opnuð glæný „nýtízku kjörbúð KEA við Hlíðargötu 11“. Verslunin þjónaði íbúum ytri Brekkunnar með glæsibrag í fjóra áratugi en vorið 1984 leið hið rótgróna útibú KEA á Hlíðargötu 11 undir lok. Nú eru íbúðir á báðum hæðum hússins, en viðbyggingin frá 1962 sem reist var sem vörulager og uppvigtunarrými mun nú þjóna sem bílskúr. Á efri hæð hefur hins vegar alla tíð verið íbúð. Hlíðargata 11 er sérlega svipmikið og glæst hús, sem tekur þátt í götumynd bæði Hlíðargötu og Hamarstígs. Húsið er í góðri hirðu og hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi sem hluti af heild, líkt og flestöll húsin á Hlíðargötu. Það er álit þess sem ritar, að sem fyrrum hverfiskjörbúð til áratuga hljóti húsið að skipa nokkurn sögulegan sess. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48.  Fundur nr. 904, 27. mars 1942. Fundur nr. 945, 11. júní 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Hlíðargata 10

Vorið 1943 fengu þeir Adolf Davíðsson, Oddeyrargötu 38 og Björn Guðmundsson í Hólabraut 17 lóðina við Hlíðargötu 10, og snemma sumars byggingarleyfi á lóðinni. PA090833Fengu þeir leyfi til að byggja tveggja hæða steinsteypuhús með flötu þaki, að stærð 8x8,3m og fullbyggt mun húsið hafa verið 1944. Teikningarnar að húsinu gerði Jón Sigurjónsson. Hann gerði einnig teikningarnar að viðbyggingu við húsið  til norðurs árið 1949, þ.e. forstofubyggingu með tröppum upp á aðra hæð.

Hlíðargata 10 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki, með kjallara undir hluta hússins og  með flötu þaki, forstofubyggingu, jafnhárri húsinu að norðan en timbursvölum að sunnan. Þakpappi er á þaki og lóðrétt opnanleg fög í gluggum og horngluggi í anda funkisstefnunnar á suðurhlið. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús með sinni íbúð á hvorri hæð. Ekki hefur húsið tekið stórum breytingum frá upphafi, forstofubyggingin var byggð mjög snemma og fyrir um áratug voru byggðar voldugar svalir á suðurhlið hússins.  Húsið stendur nokkuð lægra en gatan og er nokkur hæðarmismunur á lóðinni. Hlíðargatan ber nefnilega nafn með rentu, liggur um stutta og bratta hlíð þar sem Brekkan hækkar nokkuð skarpt að efstu brúnum Grófargils.  Húsið er mjög snyrtilegt og vel hirt, einfalt og látlaust í anda funkisstefnunar. Það hefur skv. Húsakönnun varðveislugildi af fyrsta stigi sem hluti samstæðrar heildar, og er þar er væntanlega átt við þessa samstæðu heild funkishúsa við Hlíðargötu. Á lóðarmörkum er einnig steypt girðing með tréverki.

Sunnan við Hlíðargötu 10 stendur býsna stæðilegt tré, sem höfundur giskar á að sé P5150349fjallaþinur (?) eða a.m.k. þintré frekar en greni. (Mér "trjáfróðari" lesendur mega endilega setja inn ábendingar, í ummælum eða gestabók) Þinurinn er a.m.k. 15 m hár og sérlega beinvaxinn og reglulegur. Neðsti hluti stofnsins er greinalaus, og ekki ólíklegt að sú aðgerð hafi verið framkvæmd þegar svalirnar voru reistar um 2008 en efri hluti trésins dafnar býsna vel að því er virðist. Setur þetta tré skemmtilegan svip á umhverfið, rétt eins og húsið og lóðin. Myndin af trénu er tekin þann 15. maí 2016 en myndin af húsinu þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48.  Fundur nr. 941, 30. apríl 1943. Fundur nr. 945, 11. júní 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Hlíðargata 9

Hlíðargötu 9 mun Jón nokkur Sigurðsson, myndasmiður, hafa reist árin 1939-40. PA090836Þess má geta, að höfundur fann ekki byggingarleyfi til handa  Jóni Sigurðssyni í fundargerðum Byggingarnefndar fyrir það tímabil en slíkt er ekki einsdæmi. En alltént stendur „Hús Jóns Sigurðssonar“ á raflagnateikningum Vilhjálms Hallgrímssonar frá apríl 1940. Teikningarnar að húsinu gerði Ásgeir Austfjörð. Möguleiki er, að annar maður hafi fengið lóðina og byggingarleyfið og síðan afsalað því til Jóns, hugsanlega án milligöngu Byggingarnefndar. Þá er sá möguleiki vitaskuld einnig fyrir hendi, að höfundur hafi hreinlega ekki leitað nógu gaumgæfilega í bókunum Byggingarnefndar.  En nóg um það; húsið reis af grunni og stendur enn með glæsibrag.

Hlíðargata 9 er einlyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki og stölluðum þakkanti. Á framhlið eru inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim, og yfir þeim dyraskýli sem er sambyggt steyptu handriði og skjólvegg til norðurs. Svipaðan dyraumbúnað má einnig sjá á húsinu handan götunnar, Hlíðargötu 8.  Í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum, veggir múrsléttaðir en þakpappi á þaki. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og ýmsir átt hér heima í lengri eða skemmri tíma en húsið er einbýli og hefur líkast til verið svo alla tíð. Jón Sigurðsson myndasmiður hefur líklega ekki búið hér um langt skeið, en 1948 er hann fluttur norðar á Brekkuna, á Munkaþverárstræti 31. Í Húsakönnun 2015 fær húsið, líkt og húsin við gjörvalla Hlíðargötu varðveislugildi 1 sem hluti af samstæðri heild funkishúsa. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel og á lóðarmörkum er steypt girðing með stöplum.

Á lóðinni standa m.a. tvö stæðileg lerkitré. Hvort um er að ræða Evrópulerki, SíberíulerkiPA090834 eða einhverjar aðrar tegundir lerkis er þeim sem þetta ritar hins vegar ekki kunnugt um. Lerki, eitt barrtrjátegunda fellir barr að hausti  og eru haustlitir þess sérlega fallega gulir og jafnvel gylltir. En það var einmitt þann 9. október (2018) sem höfundur var á vappi um Hlíðargötu með myndavélina, og skörtuðu trén þá sínu fegursta.  

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Hlíðargata 8

Hlíðargötu 8 reistu bræðurnir Hörður og Brynjar Eydal árið 1939,PA090838 en þeir fengu að reisa hús; ein hæð á kjallara, steinsteypt með flötu þaki að stærð 7,75x9,7m.  Teikningarnar að húsinu gerði Halldór Halldórsson. Hlíðargata 8 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með einhalla aflíðandi þaki, klætt pappa og innrammað stölluðum, steyptum þakkanti. Útskot er til suðausturs. Horngluggar eru á framhlið til suðurs, sem og á útskoti og í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum. Yfir inngöngudyrum að framan er steypt  dyraskýli, sambyggt að norðan við steypt, stallað handrið. Ekki ópraktísk hönnun, sem auk þess að vera skemmtilegur svipauki á húsinu, veitir einnig skjól fyrir norðanáttum.

Húsið er teiknað sem tvíbýli, og hafa þeir Hörður og Brynjar væntanlega búið hvor á sinni hæð ásamt fjölskyldum sínum. Hörður og kona hans, Pálína Eydal bjuggu hér um áratugaskeið, en ýmsir hafa átt hér og búið sl. 2 - 3 áratugi. Öllum hefur þó auðnast að halda þessu látlausa en glæsta funkishúsi vel við.  Sonur Harðar og Pálínu Eydal var Ingimar, tónlistarmaður með meiru en hann og hljómsveit hans þarf vart að kynna fyrir lesendum. Hljómsveit Ingimars Eydal hélt, eins og kunnugt er, uppi fjörinu í Sjallanum um árabil og naut mikilla vinsælda á 7. og 8. áratugnum. Og enn í dag nýtur hljómsveit Ingimars fádæma vinsælda og er fyrir löngu orðin sígild. Meðal fjölmargra ódauðlegra laga frá hljómsveit Ingimars má nefna Vor í Vaglaskógi (1965), Á sjó (1965) og Í sól og sumaryl (1972). Í bæklingi, sem fylgir með hljómdiskinum Kvöldið er okkar, kemur fram að Ingimar hafi verið fæddur í húsinu Jerúsalem, sem stóð á Hafnarstræti 93, en í upphafi stríðs hafi fjölskyldan flutt „upp í sveit“ á Hlíðargötuna- sem nú er nánast í miðbænum (Kristján Sigurjónsson, 1996: 4). En Hlíðargatan var á þessum tíma við efri mörk þéttbýlis á Akureyri. Finnur, bróðir Ingimars, var einnig mikilvirkur tónlistarmaður og lék m.a. með bróður sínum en einnig með eigin hljómsveit, Hljómsveit Finns Eydal  . Hér má heyra lagið Hvítur stormsveipur, (1969) þar sem Finnur leikur hreint og beint óviðjafnanlega á klarinett og er lagið eitt af mörgum snilldarverkum bræðranna úr Hlíðargötu 8.

Húsið er sem áður segir, látlaust og glæsilegt steinhús í funkishús, lítið breytt frá upphafi og fær varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015. Húsið er lítið sem ekkert breytt að ytra byrði frá upphafi, a.m.k. ef núverandi útlit er borið saman við teikningarnar frá 1939. Húsið er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í götumyndinni og lóð er vel gróin og hirt, þar eru m.a. gróskumikil reynitré. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 9. október 2018.  

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 842, 18. sept 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Kristján Sigurðsson (1996). Píanistinn verður til. Í bæklingi (bls. 4-5) með hljómdiskinum Kvöldið er okkar. Kópavogur: Spor útgáfa.


Hús dagsins: Hlíðargata 7

Vorið 1939 fékk Jakob Ruckert vélsmiður lóð á leigu við vestanverða Hlíðargötu,PA090837 þá fjórðu frá Lögbergsgötu. Fylgdi sögunni að ekki væru taldar líkur á lagningu götunnar það árið. Skömmu síðar fékk Jakob byggingarleyfi fyrir húsi úr r-steini; ein hæð á kjallara með steyptu þaki, 8,2x8,9m að stærð. Teikningarnar að húsinu gerði Halldór Halldórsson Eins og flestir vita var  Ísland hernumið af Bretum í maí 1940 og hefur Jakob þá líklega verið tiltölulega nýlega lokið við byggingu hússins. En við hernámið var Jakob , sem var þýskur, handtekinn af hernámsliðinu og fluttur af landi brott sem stríðsfangi. Jakob sneri þó aftur til Íslands tveimur árum eftir stríðslok eða 1947. Kona Jakobs, Anna Lárusdóttir Rist bjó áfram á Hlíðargötu 7 í nokkur ár og einnig bróðir hennar, Sigurjón Rist sem þá ók vörubílum og rak bifreiðaverkstæði. Hann varð síðar vatnamælingamaður og forstöðumaður vatnamælinga hjá Orkustofnun í áratugi, valinkunnur fyrir störf sín og frumkvöðull á því sviði.

Hlíðargata 7 er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með flötu þaki og háum þakkanti, með pappa á þaki og múrsléttuðum veggjum. Horngluggar eru til suðurs og einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Á miðri framhlið er inngangur, að þeim steyptar tröppur og dyraskýli sem skagar fram úr þakkanti. Á bakhlið er sólskáli og sólpallur úr timbri. Sólskálinn var byggður árin 1991 eftir teikningum Bjarna Reykjalín. Þakkantur mun einnig síðari tíma viðbót en að öðru leyti er þetta látlausa og snyrtilega funkishús óbreytt frá upphafi. Húsið er snyrtilegt og í góðri hirðu, sem og lóð sem er vel gróin. Þar er m.a. mjög gróskumikið grenitré (mögulega sitkagreni, ágiskun undirritað) norðaustanverð auk stæðilegs reynitrés norðvestanmegin. Húsið og lóðin er til mikillar prýði í umhverfinu og það er einnig skemmtilegur veggur á lóðarmörkum. Hann er lagður hraunhellum en að ofan er sérstök steypt girðing með e-k n-laga stöfum og þríhyrndum tindum að ofan. Húsið er metið með 1. stigs varðveislugildi í Húsakönnun 2015 og er einmitt veggur nefndur þar sérstaklega. Meðfylgjandi mynd er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr.833 , þ. 5. maí  1939. Fundur nr. 839, 1. ágúst 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Hlíðargata 6

Árið 1944 fékk Guðmundur nokkur Jónsson, PA090839 leyfi til að reisa hús við Hlíðargötu 6. Húsið yrði ein hæð á kjallara úr steinsteypu með steinlofti og skúrþaki, 10,5x6,8m að stærð auk útskots að vestan að stærð 5x1,4m. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1948, en það er a.m.k. skráð byggingarár hússins. Fullbyggt er e.t.v. skilgreiningaratriði, en árið 1964 var byggt við húsið til suðurs og vesturs, álma jafn há húsinu. Var sú bygging reist eftir teikningum Guðlaugs Friðþjófssonar, en hann teiknaði einnig upprunalega húsið.

Guðmundur Jónsson, sem byggði húsið, var um áratugaskeið forstjóri Olíusöludeildar KEA en var áður vörubílsstjóri hjá Stefni og aðstoðarforstjóri (annar forstjóri) þar. Kona hans var Jóhanna Gunnlaugsdóttir og bjuggu þau hér í 44 ár, eða til 1988. Síðan hafa ýmsir átt húsið og búið þar og alla tíð hefur húsið verið vel við haldið.

Hlíðargata 6 er tvílyft steinsteypuhús með lágu skúrþaki. Tvær smáar álmur eru til austurs þ.e. á framhlið og suðvesturs og við þá síðarnefndu eru svalir. Í kverkinni milli álma á framhlið eru inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru á húsinu, lóðréttir póstar í gluggum og stórir og víðir gluggar til suður á suðurálmu. Sú álma, sem er viðbygging, er múrsléttuð en upprunalegi hluti hússins er klæddur steiningarmúr. Bárujárn er á þaki. Á lóðarmörkum er steypt girðing með járnavirki, sem er í stíl við handrið á uppgöngu við útidyr og á svölum. Er hann í góðu standi, eins og húsið sjálft. Í húsinu eru tvær íbúðir. Í Húsakönnun 2015 er húsið metið með 1. stigs varðveislugildi sem hluti samstæðrar raðar húsa í funkisstíl.

Fremst á lóð stendur mjög gróskumikið og stæðilegt birkitré, P8310024væntanlega gróðursett af þeim Guðmundi og Jóhönnu um miðja 20. öld. Tréð er meðal hæstu birkitrjáa bæjarins og rataði það á sínum tíma í bækling Skógræktarfélags Eyfirðinga „Merk Tré“ árið 2005. Þar er hæð trésins sögð 12,25m en mögulega er það komið yfir 13 metra í upphafi árs 2019.  Hér má sjá mynd sem ég tók í Trjágöngu Skógræktarfélagsins um Brekkuna þann í ágústlok 2013, en myndin af húsinu er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.975 , þ. 12. maí  1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

afa.pdf 


Hús dagsins: Hlíðargata 5

Í mars 1941 fékk Friðjón Axfjörð lóð við Hlíðargötu,PA090840 að vestan, þá þriðju frá Lögbergsgötu. Um haustið fékk hann að reisa steinsteypt íbúðarhús, 10,85x8,50m að stærð, eina hæð á háum kjallara með skúrþaki. Friðjón, sem jafnframt teiknaði húsið, var afkastamikill múrara- og byggingameistari og byggði eða kom að byggingu margra húsa, stórra jafnt sem smárra, og þá oft í félagi við Gaston Ásmundsson. Á teikningum sínum að húsinu  kallar Friðjón einmitt húsið „Hús Friðjóns og Gastons“. Nokkrum árum síðar byggði Friðjón hús á Bjarkarstíg 3,  en hann hefur líklega ekki verið búsettur lengi hér. Á meðal allra fyrstu íbúa hússins var frú Hólmfríður Jónsdóttir en hún lést 1944 og margir hafa búið hér síðan. Hlíðargata 5 er reisulegt funkishús, steinsteypt á kjallara með einhalla aflíðandi þaki og stölluðum þakkanti, og mjóu útskoti til norðausturs og inndregnum inngöngudyrum í kverk á milli. Þak er pappaklætt og einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Húsið einfalt og látlaust og í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Húsið mun nokkurn veginn óbreytt frá upphafi að ytra byrði. Í Húsakönnun 2015 telst það hafa varðveislugildi sem hluti þeirrar samstæðu heildar sem húsaröðin við Hlíðargötu er. Þar er einnig tekið fram, að „Athuga mætti litaval betur með hliðsjón af stíl hússins“ (Ak.bær, Teiknistofa arkitekta 2015: 115). Þá var húsið grænleitt, en þegar meðfylgjandi mynd er tekin þann 9. Október skartar húsið hvítum lit. Ein íbúð er í húsinu.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr.868 , þ. 7. mars  1941. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 884, 17. sept. 1941. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Hlíðargata 4

Árið 1942 fékk Georg Jónsson lóð við Hlíðargötu og leyfi til að byggja hús, eina hæð á háum kjallara, byggt úr steinsteypu með skúrþaki. Húsið að stærð 10,1x7,45m að auki útskot að sunnanverðu 4,4x2,3m. Teikningar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.PA090842

Hlíðargata 4 er einlyft steinsteypuhús með aflíðandi einhalla þaki, innrammað með stölluðum kanti og útskoti eða lítilli álmu til suðurs. Í kverkinni milli suðurálmu og húss eru steyptar tröppur og forstofubygging út timbri með miklum gluggum. Þak mun pappaklætt og einfaldir lóðréttir póstar í flestum gluggum en steiningarmúr á veggjum.  Steiningin (stundum ranglega kölluð skeljasandur) hefur það orð á sér að vera viðhaldsfrí, en víst er, að slitsterk og endingargóð er hún. Þessi klæðning var afar algeng á steinhúsum um og fyrir miðja 20. öld og í mörgum tilfellum sér lítið sem ekkert á eftir 70 – 80 ár. Fljótt á litið virðist svo vera tilfellið með Hlíðargötu 4 en ljóst má vera að húsið er í afbragðs góðri hirðu og hefur líkast til verið alla tíð. Árið 1992 var byggð lítils háttar viðbót við húsið, forstofubygging og tröppur eftir teikningum Gísla Kristinssonar. Að öðru leyti er húsið óbreytt á upphafi. Það hefur varðveislugildi skv. Húsakönnun 2015 sem hluti af samstæðri heild funkishúsa.  Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð og hefur verið svo frá upphafi, ef marka má teikningar. Myndin er tekin þ. 9. okt. 2018.

 

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.901 , þ. 6. mars  1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Hlíðargata 3

Hlíðargötu 3 reisti Björgvin V. Jónsson málarameistari, frá Vatnsenda í Eyjafirði, PA090841árin 1943-44. Hann fékk lóð við „Hlíðarveg“  og byggingarleyfi í júní 1943, fékk að reisa íbúðarhús byggt úr steinsteypu, eina hæð á háum kjallara og með valmaþaki. Stærð hússins 7,4x10m auk útskota: að sunnan, 1,5x4,7m og að norðan 1,1x6,1m. Teikningarnar að húsinu gerði Páll Friðfinnsson.  Björgvin Jónsson kona hans Laufey Sigurðardóttir , sem byggðu húsið bjuggu hér um áratugaskeið, fram á efri ár. Hún var frá Torfufelli í Eyjafirði, en þess má geta að Torfufell er steinsnar- um tvo kílómetra-  Vatnsenda. Þessir tveir bæir eru framarlega í firðinum, í fyrrum Saurbæjarhreppi.  Björgvin og Laufey unnu ötullega að ýmsum félagsmálum og stofnuðu m.a. Minningarsjóð Hlífar til styrktar Barnadeildar FSA ( nú Sak). Hann lést 1983  en Laufey bjó hér áfram um nokkurt árabil. Húsið mun mest alla tíð hafa verið einbýlishús.

   Hlíðargata 3 er einlyft á mjög háum kjallara, raunar fast að því að teljast heil hæð, með flötu þaki sem er rammað inn af háum þakkanti. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru á suðurhlið, á báðum hornum og einnig á útskoti. Þar eru einnig tröppur upp að inngöngudyrum á efri hæð. Lóðréttir póstar eru í gluggum og pappi á þaki hússins.  Þá eru steyptar tröppur að götu og hellulögðu bílaplani sunnan og framan við húsið. Á norðurhlið hússins er áfastur bílskúr, byggður 1963 eftir teikningum Hauks Viktorssonar. Húsið er reisulegt og svipmikið hús og í mjög góðri hirðu og til prýði í skemmtilegri götumynd funkishúsa við Hlíðargötu. Í Húsakönnun 2015 er húsið metið með varðveislugildi sem hluti af samstæðri heild. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.945 , þ.11. júní 1943. Fundur nr. 947, 25. júní 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Hlíðargata 1

Þrjár þvergötur liggja upp og vestur úr Oddeyrargötu. Neðst og styst er Krabbastígur, fyrir miðri götunni er Hamarstígur, og efst er Lögbergsgata. Tvær tiltölulega stuttar götur liggja á milli þessara tveggja gatna, sú neðri nefnist Hlíðargata. Gatan liggur í A-V og er nokkuð brött neðst við Hamarstíg. (Mögulega klóra einhverjir sér í kollinum yfir þessari staðarlýsingu) Hlíðargata er að öllu leyti byggð árin 1939-48, enn þess má geta, að í upphafi árs 2019 er þar hús í byggingu. Hlíðargata er um 130 m löng, skv. lauslegri mælingu undirritaðs á kortavef ja.is .

Árið 1939 fékk Guðmundur Tómasson  lóð norðan við Lögbergsgötu ogPA090845 vestan Hlíðargötu, m.ö.o. hornlóð þessara tveggja gatna, og leyfi til að byggja íbúðarhús á einni hæð á kjallara með hallandi þaki, að stærð 9,25x7,0m með útskotum. Guðmundur gerði sjálfur teikningarnar að húsinu. Guðmundur Tómasson, sem var trésmiður, teiknaði nokkur hús á ytri Brekkunni, m.a. við Munkaþverárstræti. Hann var einnig forstjóri hinnar valinkunnu kexverksmiðju Lórelei. Hann bjó ekki lengi á Hlíðargötu 1 en fljótlega eftir byggingu fluttist hingað Arnheiður nokkur Skaptadóttir, lengst af skrifstofumaður og gjaldkeri hjá KEA. Margir hafa átt hér heima í lengri eða skemmri tíma, en húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús.

  Hlíðargata 1 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með hallandi þaki. Horngluggi er á SA horni en  „sneiðingur“ , 45°,  á SV horni. Húsið má heita nokkuð margbrotið en á suðurhlið, sem snýr að Lögbergsgötu er útskot og á vesturhlið er einnig útskot eða mjó álma þar sem eru inngöngudyr. Inngöngudyr á snýr mót suðri, inndregin og steyptar tröppur upp að henni, en inngöngudyr á kjallara til vesturs. Þá er viðbygging við húsið til norðurs, sem fellur vel að upprunalega húsinu. Sú bygging var reist árið 1967 eftir teikningum Birgis Ágústssonar. Í flestum gluggum hússins eru einfaldir lóðréttir póstar og bárujárn á þaki. Steining er á upprunalega hluta hússins en viðbygging múrsléttuð. Húsið er stórbrotið og skemmtilegt hús, útskotin gefa nokkurs konar „stuðla“ yfirbragð. Húsið er í góðri hirðu og til mikillar prýði. Þá setur frumlegt skraut, steypt skeifa ofan útidyra og vagnhjól á framhlið skemmtilegan svip á húsið, ásamt klifurjurt í kverk milli suðurhliðar og útskots. Lóð er vel hirt og gróin og þar eru m.a. gróskumikil reynitré. Í Húsakönnun 2015 er húsið sagt „Reisulegt og sérstakt hornhús í funkisstíl“  (Ak. Bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 113) og hefur 1. stigs varðveislugildi sem hluti heildar eða götumyndar.  Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 834, þ. 30.maí 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 240
  • Frá upphafi: 446782

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 167
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband