Hús dagsins: Strandgata 39

Á Strandgötu 39 var fyrst byggt árið 1894 og þar var að verki maður að nafni Árni Pétursson. P7100029Ekki varð það hús sérlega langlíft, því það brann til kaldra kola árið 1907. Núverandi hús var byggt sama ár af Kristínu Árnadóttur. Það er háreist, tvílyft timburhús með lágu risi og á háum kjallara. Á bakhlið er bakbygging eða stigahús og á vesturhlið stendur steinsteyptur skúr sem þjónar einnig sem inngöngupallur og tengir hann húsið við Strandgötu 37. Af pallinum var fyrir um tveimur áratugum byggðar tröppur og inngöngupallur uppá efri hæð hússins, en fram að því hefur forstofa efri hæðar væntanlega verið sameiginleg með þeirri neðri. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús eftir því sem ég best veit en í kjallara hefur verið iðnaðar- eða verslunarrými. Húsið er nokkuð stórt að grunnfleti miðað við það sem gekk og gerðist á þeim tíma sem það var byggt og vel gæti ég trúað í því hafi verið nokkrar íbúðir e.t.v. tvær á hvorri hæð. Í Akureyrarbók Steindórs Steindórssonar segir að kviknað hafi í húsinu fimm sinnum! En húsið stendur enn og í góðu standi og næsta lítið breytt frá upphafi a.m.k. að ytra byrði. Það er allt bárujárnsklætt og þverpóstar eru í gluggum. Líkt og raunar mörg húsin við Strandgötuna var húsið orðið frekar hrörlegt um 1990 en hlaut yfirhalningu um það leyti. Þessi mynd er tekin skömmu eftir miðnætti 10.júlí 2013.

Í þessu myndasafni má m.a. sjá myndir af einu þeirra skipta sem kviknaði í Strandgötu 39. Ártal er ekki gefið upp- en mig grunar að þetta sé nálægt 1965-70... http://www.slokkvilid.is/is/eldvarnareftirlit/myndir/eldri-myndir

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Hús dagsins: Strandgata 37

Fyrsta aðalskipulag Akureyrar sem samþykkt var árið 1927 gerði ráð fyrir svokölluðum randbyggingum á Oddeyrinni.P7150022 Átti þá að rísa hér hverfi raðhúsa eða blokka sk. randbygginga og ef rýnt er í skipulagsuppdráttinn gæti maður ímyndað sér, að ef þessu hefði orðið liti þessi hluti Oddeyrar út ekki ósvipað og -Vallagöturnar í Vesturbæ Reykjavíkur (Hofsvallagata, Ásvallagata og Brávallagata o.fl.) Ekki svo að skilja að það sé þó neitt slæmt eða leiðum að líkjast; Vesturbær Reykjavíkur þykir mér einstaklega smekklegt og geðþekkt hverfi. Það neikvæða við skipulagið nýja var hins vegar að gert var ráð fyrir að mörg gömlu timburhúsanna við t.d.Lundargötu og Norðurgötu að víkja fyrir þessum byggingum. En það fór nú svo að aðeins risu þrjú hús eftir þessu skipulagi  sem standa sem minnisvarðar um stórhuga Aðalskipulagið frá 1927. Hvers vegna þessu skipulagi var ekki fylgt meira eftir en þetta hef ég ekki séð neitt um en freistandi er að álykta sem svo að Kreppan mikla sem skall á með fullum þunga hér á landi nokkrum árum seinna hafi haft eitthvað með það gera. En þessi þrjú hús eru Gránufélagsgata 39-41 og 43 og húsið hér á myndinni, Strandgata 37. 

Strandgötu 37 reisti Stefán Sigurðsson árið 1931 eftir að upprunalega hús lóðarinnar, timburhús frá 1899 hafði brunnið. Húsið , steinsteypuhús, var aðeins ein hæð fyrst um sinn en efri hæðirnar voru byggðar á það 1946-1950 og þá hafði húsið fengið það lag sem það nú hefur. Húsið er fjögurra hæða steinsteypuhús með lágu risi en á bakhlið er risið brattara og kvistir og svalir. Tvílyft bygging er bakatil á húsinu og gegnum húsið liggja undirgöng, þaðan sem gengið er inná stigagang. Neðsta hæð hússins hefur alla tíð verið verslanarými, lengi vel var Brauðgerð Kristjáns Jónssonar þarna en hann eignaðist húsið á 5.áratug síðustu aldar. Nú er jarðhæðin tvískipt þar eru hárgreiðslustofa og skrifstofurými en í bakhúsi er einnig samkomusalur og skrifstofur Sálarrannsóknarfélagsins. Þrjár íbúðir eru í húsinu, ein á hverri hæð. Húsið er í góðri hirðu og lítur býsna vel út en er óneitanlega nokkuð frábrugðið næstu húsum að stærð og gerð. Þessi mynd er tekin 15.júlí 2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Næst á dagskrá: Strandgata

Eins og lesendur hafa tekið eftir hef ég verið staddur í Strandgötunni í síðustu færslum og mun ég halda áfram með hana næstu daga. Hús númer 27, 33 og 35 hef ég þegar tekið fyrir í sér pistlum en röðina frá 37-45 tók ég á hundavaði í þessari færslu hér.  Ég hef hins vegar ákveðið að taka hvert hús í þessari röð fyrir sig í sér færslum, þau eru heldur fljót afgreidd hjá mér þarna. Næst ætla ég því að taka fyrir Strandgötu 37 og svo koll af kolli upp að 45 þannig að lesendur geta beðið spenntir...


Hús dagsins: Strandgata 25b

Síðast tók ég fyrir húsið Alaska við Strandgötu 25 en hér er það hús sem stendur á baklóð aftan við það hús. En Strandgata 25b stendur mitt á milli húsa nr. 25 og 27, um 20 metra frá götubrún. P7150021En húsið reisti maður að nafni Guðmundur Seyðfjörð árið 1924. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og miðjukvisti á austurhlið, en gaflar hússins snúa í norður-suður. Tröppur uppá efri hæð eru einnig forstofubygging fyrir neðri hæð.  Þverpóstar eru í  gluggum. Ég veit ekki annað en húsið hafi verið íbúðarhús alla tíð og líkast til hafa íbúðir alltaf verið tvær, hvor á sinni hæð- líkt og í dag. En Strandgata 25b er hús sem leynir á sér- eins og gjarnt er með bakhús. Það er alls ekki áberandi frá götu en er þó traustlegt, vel viðhaldið og glæsilegt hús og því fylgir einnig ágætis lóð sem nýtur þarna skjóls af húsunum við Strandgötu og Lundargötu. Þessi mynd er tekin 15.júlí sl.

Hús dagsins: Strandgata 25; Alaska

Á þessa lóð var fyrst sett hús árið 1875 og ég segi sett en ekki byggt því það var flutt hingað. P7150020Var það maður að nafni Kristján Sigurðsson sem stóð fyrir því en þar var um að ræða lítið einlyft timburhús. Var hús flutt innan úr Fjöru , nánar tiltekið af Aðalstræti 76 og mun húsið hafa verið dregið á ís yfir Pollinn! En upprunalega húsið var byggt 1857 og í því húsi fæddist skáldið og Vesturfarinn Kristján Níels Jónsson eða Káinn 7.apríl 1860. En í húsinu var rekin greiðasala og síðar verslun sem kölluð var Alaska. Það nafn fluttist svo yfir á núverandi hús.

En húsið sem nú stendur við Strandgötu 25 reisti Sigvaldi Þorsteinsson árið 1914. Það var í upphafi einlyft steinsteypuhús með lágu risi á lágum grunni en nokkuð breitt miðað við lengd. Húsið hefur tekið miklum breytingum frá upphaflegri gerð. Árið 1931 var húsið hækkað um eina hæð og fékk þá það lag sem það nú hefur og byggt var við norðurhlið hússins 1940 og 1961 var byggt við húsið til vesturs. Nú er húsið tvílyft með flötu þaki og með stórum og miklum gluggum á efri hæð en búðargluggar eru á jarðhæð enda hefur húsið verið verslunarhús frá upphafi.Kaupfélag Eyfirðinga var lengi vel með verslunarrekstur þarna en auk þess hafa mörg starfsemi verið í húsinu á þessari tæpu öld frá því húsið reis. Um tíma var neðri hæðin tvískipt og á síðustu árum 20.aldar og fram til 2002 var afgreiðsla DV í austurhlutanum. Mín fyrsta atvinna var einmitt að bera út DV í Miðbænum og á Eyrinni og var ég í því 1998-2003 og þá var afgreiðsla DV hér. Eins og gefur að skilja fór sú vinna ekki fram í þessu húsi en þarna fór maður um mánaðamótin og sótti kvittanaheftin og fór að rukka og skilaði af sér og fékk útborgað- beint í vasann í seðlum! Þetta innheimtu- og greiðsluform lagðist af á mínum tíma þarna- að mig minnir áramótin 2001-2. En nú er starfrækt í húsinu hljóðfæraverslunin Tónastöðin á allri neðri hæð og búið á efri hæð en þar er ein íbúð. Þessi mynd er tekin 15.júlí 2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og  Örlygur.


Hús dagsins: Aðalstræti 72

Funkisstíllinn ruddi sér til rúms hér á landi uppúr 1930 og mikið var byggt undir þeim áhrifum eftir 1935 , á heimstyrjaldarárunum seinni og eftir. P6240011Elstu húsin undir þeim stíl á Akureyri eru sennilega tvö tvílyft steinsteypuhús sunnarlega í Aðalstræti en þau eru eftir Sveinbjörn Jónsson og teiknaði hann þau 1933. Sveinbjörn mun seinna hafa gerst fráhverfur Funkisstílnum enda hentar þessi byggingargerð þar sem einkennandi eru horngluggar og flöt þök e.t.v. ekki endilega íslenskum aðstæðum.

Þetta mun vera þriðja húsið á þessari lóð en upprunalega stóð þarna torfbær, byggður 1857 af Jens Stæhr en 1873 reisti Bjarni Jónsson snikkari timburhús þarna en hann var afi Soffíu Jóhannesdóttur, sem reisti núverandi hús. Soffía lét rífa timburhúsið sem Bjarni byggði 60 árum áður og byggði þarna núverandi hús árið 1933, sem áður segir eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar. Það er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki og á lágu þaki. Hvort þakið er alveg marflatt efast ég um, líkast til er einhver halli á því á bakvið þakkantana. Mikil forstofubygging er framan á húsinu og ofan á henni svalir með tveimur útgöngum. En grunnflötur er h.u.b. ferningslaga og framhlið samhverf þ.e. hægri hlið er spegilmynd vinstri hliðar og hringlaga gluggi er fyrir miðjum spegilás. Húsið er einstaklega glæsilegt að sjá og virðist frá upphafi vandað og vel viðhaldið alla tíð. Sérstæð gluggaskipan gefa húsinu sinn sérstaka svip sem og tveir voldugir reykháfar. Umhverfi hússins er einnig mjög glæsilegt og í góðri hirðu, húsið stendur nokkuð inn á lóðinni líkt og mörg hús á þessu svæði en þessar lóðir, fremst í Aðalstræti, eru geysi víðlendar margar hverjar. Þessi mynd er tekin 24.júní 2013.

Heimildir: Steindór Steindórsson (1993): Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi.


Hús dagsins: Aðalstræti 58; Kirkjuhvoll.

Ég hef í síðustu Húsapistlum verið staddur efst í Spítalavegi  en nú færum við okkur niður í Fjöruna og næstu tveir pistlar eru um tvö sviplík fúnkíshús, sennilega með þeim allra elstu á Akureyri , sunnarlega í Aðalstræti. Höfundur þeirra er Sveinbjörn Jónsson. 

P6240012

 Aðalstræti 58 var reist árið 1934 af Sveinbirni fyrir  Balduin Ryel, danskan stórkaupmann, en frá aldamótunum 1900 hafði Gróðrastöð Akureyrar verið staðsett á lóðinni og enn er þarna myndarlegur skrúðgarður, Minjasafnsgarðurinn, framan við húsið sem stendur hátt ofan Aðalstrætis, líklega eina 50 metra frá götunni. En Balduin Ryel keypti gróðrastöðvarreitinn af Akureyrarbæ 1933 og reisti sér þetta volduga einbýlishús en það er tvílyft steinsteypuhús á háum kjallara og með flötu þaki. Húsið er skiptist í grófum dráttum í  tvær nær ferningslaga álmur og í kverkinni milli álmanna er inngangur og bogadregnar svalir beint ofan við. Ryel fjölskyldan bjó í þessu húsi í um þrjá áratugi en árið 1962 var húsið keypt undir Minjasafn Akureyrar sem þá var verið að koma á fót og fylgdi trjágarðurinn mikli frá aldamótum með í kaupunum og gengur síðan undir nafninu Minjasafnsgarðurinn. Þó Kirkjuhvoll sé mikið hús var Minjasafnið fljótt að sprengja utan af sér húsið og um 1980 var byggt við húsið til suðurs. Sú álma er einlyft með kjallara  steinsteypt og gengur suður úr húsinu og er hún sérstaklega byggð til minjageymslu en það er alls ekki sama hvernig fornminjar eru geymdar m.t.t. raka og hitastigs. Húsið fellur mjög vel við eldra húsið og eru byggingarnar í frábæru standi enda vel við haldið alla tíð og eru hús Minjasafnsins og lóðin öll til mikillar prýði. Ég gæti skrifað langan, langan pistil um Minjasafnið, hvað það geymir og starfsemi en ætla að láta nægja að setja hér tengil á síðu safnsins http://www.minjasafnid.is/ 

Myndin af Kirkjuhvolli er tekin þ. 24.júní 2013 en það er ekki hlaupið að því að mynda húsið vegna trjágróðurs Minjasafnsgarðsins. En hér eru svipmyndir úr garðinum, teknar sumarið 2006 nánar tiltekið þann 19.júní.

Heimildir: Steindór Steindórsson (1993): Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi.


Hús dagsins: Spítalavegur 21

Efsta húsið við Spítalaveg og eflaust fyrir mörgum efsta hús Innbæjarins er Spítalavegur 21. P7100017Húsið reistu Alfreð Steinþórsson og Sigurgeir Jónsson árið 1945- en efstu húsin í Spítalavegi eiga það öll sameiginlegt að hafa verið af tveimur mönnum sem tvíbýli frá upphafi. Spítalavegur 21 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki og á kjallara. Sunnan hússins stendur bílskúr með valmaþaki. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð og ekki þykir mér ólíklegt að einnig sé íbúð í kjallara. Húsið mun lítið breytt frá upphafi og er í frábæru ásigkomulagi og lítur vel út og sama á við um umhverfi þess. Þessa mynd tók á miðnæturhjóltúr þ. 10.júlí sl.


Hús dagsins: Spítalavegur 19

Spítalaveg 19 reistu Árni Þorgrímsson og Ólafur Sumarliðason árið 1908.P7100020 Líkt og númer 17 hefur það skipst milli eigendanna í tvo eignarhluta, líklegast hafa þeir búið á hvorri hæð frekar en húsinu hafi verið skipt að miðju. En húsið er af algengri gerð timburhúsa, tvílyft með lágu risi og á steyptum kjallara. Beint niður undir húsinu, við Hafnarstræti stendur mikil torfa svipaðra húsa og Spítalavegur 19, sem reyndar eru nokkuð stærri bæði að grunnfleti og hæð. Bakbygging með hallandi þaki gengur út úr húsinu á norðvesturhorni og á norðurgafli er inngönguskúr. Allt er húsið bárujárnsklætt og krosspóstar eru í gluggum.  Eins og raunar öll þessi efsta húsaröð Spítalavegs er húsið og umhverfi þess allt hið glæsilegasta, húsið í góðri hirðu og lóð gróin og vel hirt. Ein íbúð er í húsinu. Þessi mynd er tekin 10.júlí sl.


Hús dagsins: Spítalavegur 17

Spítalavegur er merkileg gata sem tengir Innbæinn og Brekkuna. P7100022Hún beygir til hægri frá Lækjargötu og klífur brekkuna til norðurs og endar við Eyrarlandsveg við Lystigarðinn. Gatan, sérstaklega neðri hluti hennar er mjög þröng og var gerð að einstefnugötu fyrir fáeinum árum neðan Tónatraðar sem gengur uppfrá götuna skammt neðan Spítalavegar 15. Húsin við Spítalaveg standa nokkuð strjált enda undirlendið af skornum skammti en efst standa fjögur hús í röð, áðurnefnt númer 15, 17, 19 og 21. Síðasttalda húsið er lang yngst en húsin standa raunar í aldursröð og eru byggð 1906-´07 og´08 en Spítalavegur 21 er byggður 1944-45.

En Spítalaveg 17, sem sést á þessari mynd byggði Eggert Melsteð timburmeistari árið 1907 fyrir þá Pétur Halldórsson og Hjört Lárusson. Þá mun húsið hafa skipst í tvo eignarhluta og bjuggu þeir Pétur og Hjörtur með fjölskyldum sínum á hvorri hæðinni. Húsið er einlyft timburhús með portbyggðu risi og á háum steyptum kjallara. Miðjukvisturinn er nokkuð sérstakur og helsta sérkenni hússins en hann gengur  á að giska meter fram úr risinu. Þá er bakbygging aftan á húsinu og inngönguskúrar á göflum. Ekki veit ég hvort kvistur eða útbyggingar hafi verið á húsinu frá upphafi en á flestum gömlum myndum sem ég hef séð þar sem sést í húsið er kvisturinn á því. Húsið er allt bárujárnsklætt og þá klæðningu hefur húsið líkast til fengið ekki mörgum árum eftir að það var byggt. Það var um 1910-20 sem almennt var farið að klæða timburhús járni, blikki og steinskífu. Húsið hefur verið einbýlishús síðustu árin en var lengst af tvíbýli og var það enn árið 1986 þegar húsakönnunarbók Hjörleifs Stefánssonar um Innbæinn var rituð. Húsið er í góðu standi og vel við haldið og garður gróskumikill og mikil prýði í umhverfinu. Útstæður kvisturinn gefur húsinu sinn einstaka svip. Þessi mynd er tekin skömmu eftir miðnætti þann 10.júlí 2013.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 67
  • Sl. sólarhring: 149
  • Sl. viku: 386
  • Frá upphafi: 450670

Annað

  • Innlit í dag: 63
  • Innlit sl. viku: 298
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 62

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband