Lystigarðurinn á Akureyri

Fyrir um tveimur árum síðan fjallaði ég um Eyrarlandsstofu sem stendur í Lystigarðinum og í neðanmálsgrein gat ég þess að Lystigarðurinn væri efni í sérstaka færslu og e.t.v. kæmi pistill um hann innan fárra vikna. Yfirleitt hef ég nú farið varlega í að lofa einu né neinu í sambandi við þessa síðu. Samanber það, að vikurnar frá því að ég skrifaði um Eyrarlandsstofu 8.sept. 2011 eru í dag rétt innan við 100! Myndin hér til hliðar sýnir einmitt síðuhöfund sitja og njóta á bekk í Lystigarðinum. P6190022

En Lystigarðurinn er klárlega einn af helstu ferðamannastöðum Akureyrar. Eins og líklega flestir landsmenn vita stendur garðurinn á brekkubrúninni milli lóða Menntaskólans á Akureyri og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, beint upp af Hafnarstræti. Hann telst standa við Eyrarlandsveg en efri hluti þeirrar götu fylgir brekkubrúninni  og sveigir upp að Sjúkrahúsinu og mætast þar Eyralandsvegur og Spítalavegur rétt undir suðausturhorni Lystigarðsins. Þar myndi ég segja að mættust bæjarhlutarnir tveir Innbærinn en Brekkan en mér skilst að það séu skiptar skoðanir hvorum bæjarhlutanum Spítalavegur ,að hluta eða í heild, tilheyrir. En semsagt Lystigarðurinn afmarkast af Eyrarlandsvegi í austri, Sjúkrahúslóðinni í suðri, Menntaskólalóðinni í norðri og Þórunnarstræti í vestri eða að ofan. Raunar er það aðeins hluti garðsins sem nær að síðasttöldu götunni. En Lystigarðurinn rekur sögu sína til ársins 1910 er stofnað var Lystigarðafélag Akureyrar en helsti hvatamaður þess var frú Anna Cathrine Schiöth og tveimur árum síðar, 1912 hófst gróðursetning á afgirtu landi sem félagið hafði fengið úr landi Stóra- Eyrarlands. Þar voru á ferðinni nokkrar húsmæður undir forystu Önnu og eftir lát hennar 1921 tók tengdadóttir hennar, Margrethe við stjórninni og vann hún mikið starf við ræktun, umhirðu og uppbyggingu garðsins næstu áratugina. Var hún gerð að heiðursborgara Akureyrar árið 1941 mikið og fornfúst starf í þágu bæjarins við Lystigarðinn.  Eftir því sem líða tók á öldina fór að kvarnast úr Lystigarðafélaginu og var það nánast ekki til nema að nafninu til árið 1953 þegar Akureyrarbær var afhentur garðurinn. Eiginlega voru það bara frú Schiöth, þá orðin 82 ára, og Vilhelmína Sigurðardóttir sem eftir voru af félaginu. Fyrsti forstöðumaður garðsins eftir að bærinn tók við honum var Jón Rögnvaldsson frá Fífilgerði. Undir hans forystu var garðurinn stækkaður mjög þegar opnaður var Grasagarðurinn árið 1957 en hann byggðist að mestu á plöntusafni sem hafði verið í einkaeigu hans. Þar má finna flestar íslenskar plöntutegundir, um 400 auk margra heimskautaplantna og munu plöntutegundir þar vera um 7000. Lystigarðurinn hefur þrisvar verið stækkaður og á árunum 101 sem hann hefur verið til elsti hluti hans hefur að mestu leyti haldið sér hvað varðar afstöðu stíga. Flatarmál garðsins er nú 3,7 hektarar. Í garðinum eru nokkrir gosbrunnar og tjarnir, sá stærsti og elsti mun frá því um 1930 og er gengið beint að honum upp frá innganginum við Eyrarlandsvegi. Skammt ofan er buslutjörn með brú  en hún var gerð um 1990. Þarna eru einnig þó nokkrar styttur og listaverk og nýjasta viðbótin við garðinn er kaffihúsið Café Flóra sem opnað var sumarið 2012. Ég ætla að láta myndir að mestu tala sínu máli hér- enda segja þær meira en þúsund orð. Myndirnar tók ég á góðviðrisdegi, 19.júní 2013.

Að neðan: Hluti Íslensku flóru beðanna, í suðausturhorni garðsins- einirunnar í forgrunni.

P6190026   P6190018

Til hægri má sjá hátíðarflötina ofarlega í garðinum. Á milli trjábeðanna stendur brjóstmynd af frú Margrethe Schiöth, afhjúpaður 1951.

P6190020 P6190027

Til vinstri má sjá Café Flóru en kaffihúsið stendur miðsvæðis í garðinum, skammt norðan Eyrarlandsstofu og neðan við hátíðarflötina. Til hægri er brjóstmynd af Matthíasi Jochumssyni eftir Ríkharð Jónsson en hún var reist í tilefni áttræðisafmælis Matthíasar árið 1915 og er því elsta styttan í garðinum. Hún stendur neðarlega  í garðinum og blasir við af Eyrarlandsveginum gegn um trjáþykknið.

P6190016  P6190015

Vatn hefur geysilegt aðdráttarafl og veitir mikinn yndisauka í görðum. Elsti gosbrunnurinn er steyptur fyrir 1930 og stendur um 100m ofan Eyrarlandsvegar, norðarlega í garðinum og er hann á myndinni til hægri. Steinatjörnin- áðurnefnd buslutjörn- með bogabrúnni er skammt fyrir ofan gosbrunnin og er mjög vinsæl hjá börnum til leiks.

P6190032Þetta er nýjasti inngangurinn inní Lystigarðinn og er hann í norðvesturhorni hans við Menntaskólann. Þegar ég var að yfirgefa garðinn þennan góðviðrisdag voru ekki færri en þrjár rútur að koma þar með ferðamenn og svona straumur inní garðinn eins og sjá má á þessari mynd er ekki einsdæmi heldur al vanalegt.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um Lystigarðinn er hér heimasíðan: http://www.lystigardur.akureyri.is/

Heimildir eru fengnar af áðurnefndri heimasíðu, úr bókinni Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs e. Steindór Steindórsson (1993) og af upplýsingaskiltinu sem sést á myndinni hér ofan við.


Hús dagsins: Sómastaðir

Um síðustu helgi var ég staddur á Neskaupsstað að kíkja á þungarokkshátíðina Eistnaflug og á bakaleiðinni var stoppað og þá smellti ég mynd af þessu húsi, sem stendur spölkorn utan þéttbýlisins á Reyðarfirði- gengt álveri Fjarðaáls. En það eru Sómastaðir. P7140017

Sómastaði byggði Hans Jakob Beck árið 1875 sem íbúðarhús en fyrir var torfbær á jörðinni. Húsið er einlyft með háu risi, grjóthlaðið úr ótilhöggnu grjóti sem mun fengið úr klettaborgum í næsta nágrenni. Það eru aðeins veggir sem eru hlaðnir en ris er úr timbri. Einhverntíma var byggð við húsið tvílyft viðbygging úr timbri vestan á húsinu en hún var rifin um 1950 þegar reist var nýtt íbúðarhús á Sómastöðum. Nú er aðeins lítill inngönguskúr úr timbri á vesturgafli. Það er spurning hvers vegna aðeins viðbyggingin var rifin, hvort að það hafi verið vegna varðveislusjónarmiða varðandi grjóthlaðna húsið. Eða hvort það hafi einfaldlega verið vegna þess að það var ekki eins hlaupið að því að rífa þykka grjótveggina eins og timburhúsið. En húsið hefur bæði verið íbúðarhús og einnig kaþólskt bænhús. Hvenær Sómastaðir fóru í eyði er mér ókunnugt um en alltént hefur húsið verið í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1988 sem hluti húsasafnsins. Húsið er eitt fárra grjóthlaðinna húsa hérlendis, en meðal annarra mætti nefna Þingeyrarkirkju, Alþingishúsið, Hegningarhúsið og Gömlu Prentsmiðjuna við Norðurgötu 17 á Akureyri. Allar þessar byggingar eru fáeinum árum yngri, utan Hegningarhúsið sem er er árinu eldra. Sómastaðir eru þó líkast eina húsið sem hlaðið er úr ótilhöggnum steini. Húsið var allt tekið í gegn árin 2008-2010 m.a. með styrk frá Alcoa og er húsið stórglæsilegt að sjá, viðgerð hefur greinilega tekist óaðfinnanlega. Húsið er áberandi í umhverfinu, blasir við af þjóðveginum milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Þessa mynd tók ég í gær, 14.júlí 2013 en heimildirnar hef ég af upplýsingaskilti sem er staðsett við húsið.


Hitamistur í Eyjafirði

Eftir einmunablíðu hér norðan heiða í gær lá óvenju þykkt hitamistur yfir Eyjafirðinum seint í gærkvöldi. Ég ákvað því að skella mér í hjóltúr með myndavélina uppúr miðnættinu og hér er afraksturinn. Ég skellti mér upp Þórunnarstrætið og niður Spítalaveginn og svo norður eftir Hafnarstrætinu á Eyrina aftur.

P7100010  P7100011

T.v. Hlíðarskál í Hlíðarfjalli séð gegnum mistrið frá Brekkunni. Hægra megin er horft fram í Garðsárdal frá höfðanum við Fjórðungssjúkrahúsið, flugbraut Akureyrarflugvallar fyrir miðju.

P7100019  P7100028

Vinstra megin er horft yfir Oddeyrina og er það húsaröðin við Strandgötu sem er þar fremst. Drottningarbrautin sveigir þarna framan við Brekkuna. Hægra megin er ég hinsvegar kominn í Strandgötuna og horft fram Eyjafjörðinn.

Það eru alltaf einhver hús sem ég á eftir að mynda og fjalla um, en í leiðinni myndaði ég m.a. þrjú efstu húsin við Spítalaveg, nr. 17-21 og verða þau Hús dagsins einhvern tíma á næstu vikum...

P7100022  P7100020 P7100017


Hús dagsins: Naustabæirnir

Í síðasta pistli tók ég fyrir Hamrabæina tvo en nú færum við okkur norðar og framar á höfðanum mikla neðan Súlumýra þar sem m.a. er Brekkan og Naustaborgir. Naust eru fornt býli staðsett á brekkubrúninni ofan Krókeyrar. Hallgrímur Jónsson frá Naustum var uppi á 18.öld (1717-1785) og var hann annálaður útskurðarmeistari og trésmiður og einnig sonur hans Jón sem nam trésmíðar í Danmörku. Annar sonur Hallgríms var Þorlákur, kenndur við Skriðu, skógræktarfrömuður en sonur Þorláks, Jón tók upp ættarnafnið Kærnested og er því ættfaðir þeirrar ættar. Afkomendur Hallgríms Jónssonar á Naustum telja vafalítið nokkur þúsund í dag og þeirra á meðal er sá sem þetta ritar. Ég er semsagt komin af Ólöfu Hallgrímsdóttur sem var fædd hér 1743 en fluttist í Kasthvamm í Laxárdal og var þar húsfreyja. En að Naustabæjunum. Hér eru það fyrst og fremst byggingarnar sem eru til umfjöllunar en fyrir þá sem vilja kynna sér búskaparsöguna nánar má benda á bækurnar Byggðir Eyjafjarðar 1990 og hina nýútkomnu Byggðir Eyjafjarðar 2010.

Nú eru Naustabæirnir fjórir og var það á 3. og 4.áratug síðustu aldar sem mikil uppbygging átti sér P6180008stað á Naustum og voru þar á ferðinni fjórir bræður frá Syðra-Hóli í Öngulsstaðahreppi. Fyrstur var það Jón Guðmundsson sem reisti Naust II árið 1928. Sá bær stendur efst og suðvestast af bæjunum. Það er einlyft timburhús með portbyggðu risi og ári síðar reisir hann fjós áfast íbúðarhúsinu. Þessar byggingar sjást til vinstri á myndinni en braggi og steypt skemma fremst á mynd eru seinni tíma viðbyggingar. Búskapur var stundaður á Naustum 2 út 20.öldina eða til ársins 2000 en það er enn búið í húsinu og fjárhúsin nýtt til geymslu. Íbúðarhús hefur á síðustu árum verið tekið til endurbóta og byggð við það álma til vesturs.

Næstelstur Naustabæjana eru Naust III en þar byggði Halldór Guðmundsson árið 1931 núverandi P6180005íbúðarhús, tvílyft steinsteypuhús með lágu risi og á kjallara og 1936-37 voru reist áföst fjós og hlaða. Þessi hús standa syðst Naustabæjana um 200m sunnan við Naust II og eru komin inn í Naustahverfi og standa við götuna Tjarnartún. Hér lauk búskap árið 1994 en um tíu árum síðar var Naustahverfi komið alveg að bæjarhúsunum. Fjárhús og hlaða eru nýttar sem geymslur. Byggingar eru í góðu standi og til mikillar prýði í umhverfinu.

Bróðir þeirra Halldórs og Jóns, Guðmundur Guðmundsson reisti árið 1935 Naust I  lítið P6180006tvílyft steinsteypuhús með hallandi skúrþaki. Það hús stendur um 150m beint austan við Naust 2 sunnan við þar sem Naustagatan sveigir upp fyrir Naustahverfi. Íbúðarhúsið er einfalt og látlaust hús og er í góðu standi. Þar lauk búskap árið 1961 en hér hefur um árabil verið rekin trésmiðja, Trénaust og hefur hún aðsetur í útihúsunum beint ofan íbúðarhússins.

Beint á móti Naustum I, norðan við Naustagötu stendur húsið Naust IV en það er einlyft P6180007steinsteypuhús með valmaþaki byggt árið 1948 af Ólafi Guðmundssyni, þeim fjórða af Syðra-Hólsbræðrunum sem byggðu að Naustum. Naust 4 telst nú standa við Tjarnartún og er númer 33 við þá götu en sú gata liggur í N-S á milli Nausta 3 og 4 út frá Naustagötu þar sem hún sveigir til vesturs, upp meðfram Naustahverfi. Enn eru íbúar Nausta 4 með fjárbúskap þó útihús séu horfin en fjárhús eru staðsett ofan við þéttbýlismarka. Naust 4 eru í frábæru standi, nýlega tekið í gegn og er húsið og umhverfi þess til mikillar prýði.

Á þessari mynd sem tekin er af Kjarnabraut sjást allir Naustabæirnir utan einn. Til vinstri eru Naust 2, en fyrir miðju og fjær eru Naust 4 og Naust 1 er til hægri. Flest hús á Naustum er vel við haldið og hefði ég sagt að Naustabæirnir ættu allir að njóta friðunar!. Það er ómetanlegt í nýrri hverfum að eitthvað standi eftir af eldri húsum líkt og er í Glerárþorpi og við byggingu Naustahverfis viku mörg eldri býli.

P6180014

Allar myndirnar í þessari færslu eru teknar síðdegis þann sólríka þriðjudag 18.júní 2013.

Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson, Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2013. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.


Hús dagsins: Hamrar I og II

Í bæjarlandi Akureyrar hafa löngum verið mörg býli, sum stórbýli en önnur minni en eðlilega hefur þeim fækkað mikið eftir því sem þéttbýlið hefur aukist. P6180010Flest þessara býla hafa vikið þegar byggð voru ný hverfi en t.d. Í Glerárþorpi standa mörg gömul bæjarhús og fyrrum stórbýlið Lundur stendur enn efst á Brekkunni. En sunnan Naustahverfis eru miklar túnlendur og klettaborgir, Naustaborgir og ná þessar lendur af brekkubrúninni að rótum Löngukletta (Hamrakletta) að vestan og Kjarnaskógi að sunnan. Þarna voru einnig fjöldi smærri býla (Vökuvellir, Sunnuhvoll, Hlíð, Brún o.fl.) sem flest eru nú horfin undir þéttbýli í Naustahverfi. En í krikanum efst upp við Kjarnaskóg standa Hamrar. Bæjarhúsin eru um 6km frá Miðbæ Akureyrar og loftlína hingað að þéttbýlismörkum Naustahverfis er líklega um kílómeter.

Hamrajörðin tilheyrði um aldir stórjörðinni Kjarna en mun hafa orðið sjálfstætt býli á 18.öld og var lengst framan af ríkiseign en árið 1944 eignaðist Akureyrarbær jörðina en þá var enn búið hér í torfbæ. Þá bjuggu þar Jóhann Jósefsson og Jónína Rósa Stefánsdóttir en þau fluttust hingað 1925. Þau reistu Hamra I árið 1951 en það hús er einlyft steinsteypuhús með lágu skúrþaki og miklum steyptum köntum og dregur talsverðan dám af Funkis-stíl. Tvær litlar útbyggingar eru á húsinu önnur á suðurhlið og hin bakatil og líklega hafa þær verið frá upphafi. Bakvið Hamra I standa gömul útihús og hlaða, ekki er mér kunnugt um byggingarár þeirra en sennilega eru þær byggingar frá svipuðum tíma og íbúðarhúsið. P6180012

Hamrar II standa 100 metrum vestar uppi á hól nokkrum. Það hús reisti Stefán Jóhannsson, sonur Jóhanns og Jónína á Hömrum árið 1958 og er það einlyft timburhús á lágum steyptum grunni og með lágu risi. Húsið er tvær álmur og snýr önnur gafli til austurs og hin snýr norður-suður og er risið eilítið hærra á þeim hluta hússins. Skammt suðaustan og neðan íbúðarhússins stendur mikil steinsteypt hlaða sem byggð var 1968, einnig af Stefáni. Hann bjó hér til ársins 1972 en bróðir hans Valtýr bjó í eldri bænum til 1979 og þá telst búskap ljúka þar en búið var á Hömrum II til ársins 1990. Síðustu árin voru aðeins fáein hross á Hamrabæjunum. Það er nú svo að í Byggðum Eyjafjarðar 1990 eru Hamrar I sagðir fara í eyði 1979 en Hamrar II árið 1990. Samt var búið mikið lengur í fyrrnefnda húsinu eða allt til 1998. P6180013

Um 1990 hófst nýr kafli í sögu Hamra þegar Skátafélagið Klakkur fékk afnot af Hömrum II, hlöðunni og lélegum bragga sem stóð þarna.Mikil uppbygging fram næstu árin á sá sem þetta ritar þar ófá handtök, bæði sem sjálfboðaliði hjá skátunum en einnig sem starfsmaður svæðisins sumurin 2002-2011. Nú er þarna rekið eitt stærsta og fullkomnasta tjaldsvæði á landinu (ath. ég er kannski ekki alveg hlutlaus þarna Smile) Tjaldsvæðið er rekið af Hömrum, Umhverfis- og útilífsmiðstöð skáta og var einmitt opnað fyrir réttum 13 árum, 29.júní 2000 með skátamótinu Skjótum rótum. (Það má fylgja sögunni að þar var ég fjarverandi- var staddur í sumarbústað austur í Eyjólfsstaðaskógi). Þá þegar  var ákveðið að Landsmót Skáta færi þarna fram árið 2002 og sú mikla uppbygging sem fram hafði farið árin áður hélt nú áfram og af enn meiri krafti, þarna voru útbúnar tjaldflatir á gömlum túnum og mýrum og grafnar þrjár leiktjarnir sem mynduðust við stíflun Brunnár, gróðursettar ýmsar trjáplöntur og margt, margt fleira. Landsmótið var haldið hér 2002 með glæsibrag og aftur 2008 og hér verður næsta Landsmót skáta eftir rúmt ár, í júlí 2014. Ótal starfsmenn, sjálfboðaliðar og skátar og aðrir velunnarar komu að uppbyggingu Hamrasvæðisins en þeir sem höfðu yfirumsjón með þessari vinnu voru þeir Tryggvi Marinósson og Ásgeir Hreiðarsson.

 En að húsunum og núverandi ástandi og notkun þeirra. Hamrar I eru að miklu leyti í upprunalegu horfi að utan sem innan og mætti segja að húsið sé komið á viðhald. Þó hefur að sjálfsögðu ýmsu verið skipt út og breytt (m.a. gólfefnum og eldhúsinnréttingum) frá því húsið var íbúðarhús. Frá aldamótum hefur Útilífsskólinn haft aðsetur í þessu húsi og haustið 2005 fluttist almenn starfsemi Skátafélagsins Klakks hingað. Fígúran sem er í "tvíriti" framan á húsinu nefnist Laufi og var hann einkenniskall Landsmóts Skáta sem haldið var í Kjarnaskógi 1993 og varð síðar tákn Útilífsskólans. Laufarnir voru settir framan á húsið þann 22.júní 2002 á vinnumóti og þar átti ég hlut að máli. Hamrar II voru endurbyggðir alveg frá grunni 1999-2000 eftir bruna sumarið 1998 og vorið og sumarið 2000 mætti ég á mörg vinnukvöld þar sem ég m.a. pússaði loftklæðningu og hrærði steypu í hjólbörum, en sú steypa fór í kringum svelg á baðherbergi. Ég tók einnig þátt í pallasmíði og einnig negldi ég einhverjar fjalir utan á húsið sem nú er stórglæsilegt að sjá og í frábæru standi. Húsið þjónar nú sem aðstaða fyrir tjaldgesti en þar komast þeir í setustofu með sjónvarpi, bað og eldhús. Hlaðan var geymsluaðstaða fyrir Skátafélagið og Hamra fram undir 2002 að hún var gerð að mötuneyti fyrir Landsmótsstarfsfólk. Milliloft var byggt í austurenda um 1993 og það en var endurbyggt 2008. Gólf var lagt í hlöðuna á einum degi, 12.júlí 2002 og fyrir hádegi var ég að slétta undirlagið með handvaltara og fram eftir kvöldi vorum við að bera inn ótal vörubretti og skrúfa spónagólf á þær. Síðustu árin hefur hlaðan verið notuð sem samkomuhús, undir skátakvöldvökur og einnig leigð fyrir veislur og slíka fögnuði en hefur þann leiða ókost að vera mjög köld á vetrum og erfið og dýr í kyndingu, enda ekkert einangruð. Einlyfti timburskúrinn var sem stendur framan við Hlöðuna var fluttur hingað árið 2011 og nú í vor var hann tekinn í notkun sem skrifstofuhúsnæði fyrir Hamra hins vegar og Skátafélagið annars vegar. Þá ætla ég að láta staðar numið hér, enda orðinn óvenju langorður. En fyrir þá sem vilja kynna sér Hamra Umhverfis- og útilífsmiðstöðvar skáta og starfsemi þeirra er þessi heimasíða www.hamrar.is. Myndirnar af Hamrabyggingunum eru teknar þann 18.júní 2013.

 

Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

 

 


Hús dagsins: Stöðvarhús Glerárvirkjunar

Af fáum húsum sem ég hef tekið fyrir hér á ég myndir af meðan þau eru í byggingu. Enda eru flest húsin hér á síðunni oftar en ekki margfalt eldri en ég - oft mörgum áratugum eldri en nokkur núlifandi maður!337 En einhverntíma hef ég birt myndir af stöðvarhúsi Glerárvirkjunar sem ég tók á útmánuðum 2005 og lofaði að ég myndi setja inn mynd af því eins og það lítur út nú. En Glerárvirkjun var upprunalega tekin í notkun haustið 1922 og var stíflan yfir Glerárfoss og stöðvarhúsið um eitt ár í byggingu. Yfirmaður byggingarinnar var Svíi að nafni Olof Sandell. Stöðvarhúsið stóð (stendur) um 50m neðar í gilinu og er fallhæðin frá lónsyfirborði og niður í hús um 15metrar. Upprunalega húsið sem byggt var 1922 var einlyft með valmaþaki og. Um aldamótin 2000 höfðu virkjunarmannvirkin staðið ónotuð í áratugi. Rekstri virkjunar var hætt 1960 og var stöðvarhús rifið um 1980, komið í talsverða niðurníðslu. Göngubrú var reist yfir stífluna 1998 og  árin 2003-04 var ráðist í að endurreisa Glerárvirkjun og var það Norðurorka og Verkfræðistofa Norðurlands sem stóðu fyrir því. Stöðvarhúsið P2240003nýja er reist á grunni eldra hússins og líkir að mestu eftir útliti upprunalega hússins. Myndirnar hér eru teknar 18.febrúar 2005-á meðan húsið var í byggingu- og réttum átta árum síðar, 24.febrúar 2013.

Hér eru nánari upplýsingar um Glerárvirkjun.


"Hús dagsins" 4 ára.

Þann 25.júní 2009 eða fyrir nákvæmlega fjórum árum birti ég fyrsta pistilinn sem ég kalla "Hús dagsins". Ég hafði þá þegar um nokkurra ára skeið grúskað nokkuð um húsasögu Akureyrar og átti ágætis myndasafn af þessum gömlu og sögufrægu og þótti nú um að gera að deila þessum myndum og fróðleik. Ætlunin var svosem ekki að þetta yrði einhver sérstök húsasíða- enda hef ég af til laumað öðru efni með- eða heldur að halda þessum pistlum mikið lengur áfram en myndirnar entust. En ég hef rakið þessa sögu nokkuð oft og ætla hér einungis að endurbirta fyrsta pistilinn sem var um Norðurgötu 17, Gömlu Prentsmiðjuna.

Hús dagsins: Norðurgata 17

Ég hef í nokkrar vikur birt myndir sem ég á af húsum á Akureyri og stutta umfjöllun um þau á Facebook. Hérna mun halda áfram með það. Eru þetta yfirleitt gömul hús á Oddeyri eða Innbænum en ég á orðið ágætis myndasafn af þeim. Heimildir um byggingarár og sögu húsanna eru fengnar úr öllum mögulegum bókum um byggingarsögu Akureyrar auk þess sem ég hef sótt a.m.k. eina sögugöngu Minjasafnsins um þessi eldri hverfi á hverju sumri síðan 1997. P6050029

Hús dagsins er Norðurgata 17, einnig kallað Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan. Húsið er það eina á Akureyri sem hlaðið er úr blágrýti svipað og Alþingishúsið og Hegningarhúsið. Byggingarár mun vera 1880 og er þetta hús í 3.-4.sæti yfir elstu hús á Oddeyri. Í þessu húsi var lengst af starfandi prentsmiðja en ýmis önnur starfsemi hefur einnig verið stunduð í húsinu á 130 árum.

Ég minntist á að þetta væri 3.-4. elsta hús Oddeyrar. Sjálfsagt mál er að telja upp þau hús á Oddeyri sem teljast eldri en Steinhúsið. Norðurgata 11 er jafn gamalt (1880), Lundargata 2 (1879), Strandagata 27 (1876) og elst er Strandgata 49, Gránufélagshúsið, (1874).


Hús dagsins: Grundargata 5 (ásamt endurbirtingu nr. 6 og 7)

Ég hef síðustu daga verið staddur í Grundargötu, stystu og einni af elstu þvergötum Strandgötunnar og hér loka ég umfjölluninni um götuna, en hús nr. 6 og 7 hef ég áður tekið fyrir.P6060005 En á þessari mynd er það Grundargata 5. Nú er það svo að þeim tveim heimildum sem ég hef helst stuðst við í skrifunum mínum ber ekki um saman um byggingarár hússins eða hver byggði. Guðný Gerður og Hjörleifur (1995) segja húsið byggt 1896 af bræðrunum Sveini og Stefáni Ólafssonum, sem fengu þarna byggingarleyfi árið áður en Steindór Steindórsson (1993) segir húsið byggt 1898 af Jónatan Jónssyni og Einari Sveinssyni. Þetta gæti í sjálfu sér hvort tveggja verið rétt, þ.e. hinir síðarnefndu gætu hafa keypt húsið, hugsanlega hálfbyggt, af bræðrunum en það er ekkert einsdæmi að upprunasaga húsa á þessum aldri sé óljós. En þegar húsið var virt til brunabóta 1916 er það sagt einlyft timburhús á lágum kjallara og með háu portbyggðu risi. Og þess má geta að tæpri öld síðar á nákvæmlega þessi lýsing enn við húsið sem er að stórum hluta óbreytt að ytra byrði frá fyrstu gerð. Húsið er ágætis mælikvarði á breytingarnar á næstu húsum, númer 3 og 6 því fyrsta áratug 20.aldar voru þessi  þrjú hús mjög svipuð að gerð og lögun. Húsið var klætt steinblikki á sínum tíma en um 1995 var sú klæðning fjarlægð og húsið klætt láréttum timburborðum; panel. Á norðvesturhorni lóðarinnar stendur steinsteyptur bílskúr frá 1964. Húsið er einbýlishús og hefur verið um áratugaskeið. Þessi mynd er tekin 6.6.2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og

Og hér koma pistlarnir um númer 6 og 7:

VIÐAUKI I: Um Grundargötu 6 fjallaði ég haustið 2011.

Hús dagsins: Grundargata 6; Hjaltalínshús

Grundargötu 6 reisti maður að nafni Jón Jónatansson árið 1903. P8240313 Húsið er stórt einlyft timburhús með portbyggðu risi. Ris er af svokallaðri mansard gerð. Mansardi mætti sjálfsagt best lýsa þannig að risið sé á "tveimur hæðum", efra risið að mæni er aflíðandi en upp frá veggjum er risið bratt. Þannig er brot í risinu. En húsið var ekki svona í upphafi. Vitað er að árin 1915 og 1920 byggði þáverandi eigandi, Ólafur Ágústsson tvisvar við húsið og í millitíðinni 1918 var húsið virt og þá var það einlyft með portbyggðu risi og viðbyggingu sem hýsti verkstæði. (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995) Árið 1920 er talið að húsið hafi fengið það lag sem það hefur nú en mér dettur í hug að þá hafi mansardþakið verið byggt ofaná einlyftu viðbygginguna. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, sennilega hefur fjöldi íbúða verið breytilegur gegn um tíðina, en síðustu áratugi hefur húsið verið einbýli. Ég hef heyrt húsið kallað Hjaltalínshús, en ekki kann ég söguna á bakvið það viðurnefni.

Ekki eru til lýsingar hvernig húsið leit út upprunalega, en á þessari mynd hjaltalinshus_upprunalegtutlit er ég búinn að teikna líklegt útlit upprunalega hússins gróflega miðað við rislínuna. Er þetta eina myndin hingað til sem ég hef birt hér sem eitthvað hefur verið átt við eða breytt. Annars koma allar myndir á þessa síðu eins og þær koma fyrir úr myndavélinni. Notaði ég ósköp einfalt teikniforrit, Paint (undir Accesories) til verksins. Þegar steinblikkklæðningu var flett af húsinu í ágúst sl. komu nefnilega í ljós útlínur upprunalega hússins, greinileg skálína á gafli og einnig má sjá lítinn glugga undir súð sem hefur verið lokað fyrir. Ég stökk auðvitað til og tók þessa mynd af húsinu. Húsið var fyrir fáum árum farið að láta verulega á sjá en eins og sjá má er húsið í gagngerum endurbótum, bæði að utan. Það stefnir allt í að þetta 108 ára timburhús verði hið stórglæsilegasta eftir endurbætur og verður spennandi að sjá afraksturinn. Þessi mynd er tekin 24.ágúst 2011.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

VIÐAUKI II Grundargötu 7 tók ég stuttlega fyrir í pistli 13.júlí 2009 um nokkur eldri steinhús... http://www.arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/912866/

P4190045 Grundargata 7, hér til hliðar, er reist 1920. Þarna má sjá einstakan stíl, ekki aðeins fyrir steinhús heldur er húsið afar sérstakt að lögun. Er það byggt sem tvær álmur, önnur mun breiðari en hin sem snýr að Gránufélagsgötu ( þaðan sem myndin er tekin ) er lengri en breiddin og stendur út af. Þannig myndar grunnflötur hússins einskonar "L". Á suðurgafli er eldvarnarveggur, sem getur bent til þess að byggja hafi átt við það samskonar hús. Steinhús héldu almennt "timburhúsalaginu" fram yfir 1920 en upp úr 1930 fóru að koma fram sérstakar byggingarstefnur í steinhúsum á borð við t.d. fúnkís. Grundargata 7 er stundum kallað Ólafsfjarðarmúli vegna sérstakrar lögunar. Myndirnar í þessari færslu eru allar teknar 19. apríl 2008.


Þjóðhátíðardagurinn á Akureyri.

Hér koma nokkrar myndir sem ég tók fyrr í kvöld- ætla að mestu að láta þær tala sínu máli:

P6170013  P6170017

Tryllitæki margskonar eru ævinlega áberandi í bæjarlífinu um þjóðhátíðardaga en Bíladagar hafa verið haldnir hér um árabil og hæst ber auðvitað sýningin á 17. Ég missti reyndar af henni í dag en í Skipagötunni voru þessir tveir Chevrolet-ar, Bel Air (sá dökki) og Malibu, árgerðir líklega sitt hvoru megin við 1960.

P6170011P6170020

P6170027

Hápunktur hátíðahaldanna er eflaust í huga margra þegar nýstúdentar úr MA marséra inn í Miðbæinn nærri miðnætti. Þetta slær ævinlega botninn í hátíðahöldin um kvöldið en í þetta sinn tóku Hvanndalsbræður tvö lög eftir að stúdentarnir yfirgáfu svæðið.


Hús dagsins: Grundargata 4

Við höldum okkur í Grundargötunni og tek ég hana fyrir í númeraröð.P6060004 En Grundargata 4 var byggð sem pakkhús eða geymlsuhús árið 1902, af athafmanninum J.V. Havsteen í Strandgötu 35 sem stendur einmitt á horni þeirra götu og Strandgötu. Fljótlega keypti Guðmundur Guðmundsson húsið og breytti því í íbúðarhús og mun það mjög snemma hafa orðið tveir eignarhlutar. Guðmundur nefndi húsið Blárófu, og skyldi þá ætla að húsið hafi verið blátt að lit í þá daga. Upprunalega mun húsið hafa verið einlyft timburhús á steyptum kjallara með portbyggðu risi en líkt og húsið á móti, nr. 3 má sjá á húsinu sögu mikilla stækkana og breytinga. Stærstu breytingarnar á húsinu munu hafa orðið 1926 en þá var risi lyft að aftan og byggð einlyft viðbygging á sömu hlið en síðar var einnig byggð forstofubygging á suðurgafl. Nú er húsið járnklætt með þverpóstum í gluggum og tveimur litlum kvistum á risi sem líklega komu frekar snemma. Grundargata 4 er nú parhús og hefur verið í áratugi  eða því sem næst frá upphafi en líklegt þykir mér að fyrir 1930 hafi búið þarna fleiri en tvær fjölskyldur. Þessi mynd er tekin 6.júní 2013. Í næsta pistli mun ég taka fyrir Grundargötu 5 en einnig endurbirta pistla um númer 6 og 7.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 13
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 332
  • Frá upphafi: 450616

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 247
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband