Hús dagsins: Grundargata 3

Elsta húsið við Grundargötu er þetta hús, Grundargata 3 en það var reist 1886 af Einari Sveinssyni. P6060003Þá var það töluvert öðru vísi en nú og líkast til ekki óáþekkt næsta húsi, Grundargötu 5 (sem var reyndar byggt rúmum áratug síðar) einlyft timburhús á lágum kjallara með lágu risi. Fyrir sléttri öld eða 1913 mun fyrst hafa verið byggt við húsið og þá til suðurs og var það þáverandi eigandi, Steinn Jóhannsson sem stóð að því. Það var tvílyft steinsteypt álma sem sneri göflum A-V en húsið snýr líkt og gatan N-S. Þegar húsið er virt 1918 er það allavega sagt einlyft timburhús með risi með tvílyftri viðbyggingu að norðan og þá var mun það hafa verið orðið allavega tveir eignarhlutar. Tveim árum síðar, eða 1920 er húsið enn stækkað en þá líkast til suðurs og var húsið eftir lengi vel eftir það eiginlega þrjár álmur, sú nyrsta tvílyft með lágu risi, í miðið var upprunalega húsið, einlyft með bröttu risi og kvisti og nyrst tvílyfta steinsteypuálman frá 1913. Löngu seinna var svo risið hækkað á miðhluta og nú er húsið tvílyft með lágu risi, múrhúðað timburhús og steinsteypt að hluta en bakhlið er bárujárnsklædd. Þverpóstar eru í gluggum. Hvenær nákvæmlega húsið fékk þetta lag sem það nú hefur er mér ókunnugt um.  En allavega er húsið nú tveir eignarhlutar og skiptist í miðju og hefur verið svo í áratugi. Eigendur, leigjendur og aðrir íbúar hússins gegnum þessi tæpu 130 ár hljóta að skipta mörg hundruðum og ljóst er að nokkrum sinnum hefur það sprungið utan af innbyggjurum sínum. Margar og miklar viðbyggingar segja oft slíka sögu, en oft var búið mjög þröngt á Eyrinni á fyrri hluta 20.aldar. Í mörgum tilvikum hefur eflaust ekki veitt af að byggja við ýmis hús en fjárráð ekki leyft það. En Grundargata 3  lítur í dag vel út og virðist í góðu standi. Þessi myndir er tekin á lognkyrru sumarkvöldi, 6.júní 2013.

P6060005Grundargata 5, byggð 1898. Grundargata 3 var fyrstu 25 árin ekki ósvipuð þessu húsi að lögun og gerð. Ég mun fjalla um þetta hús í þar næsta pistli. Til hægri sést í norðurhlið Grundargötu 3 en þar steyptur gluggalaus veggur; eldvarnarveggur.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Hús dagsins: Grundargata 1

Ég hef haldið mig Oddeyrina síðustu vikurnar og mun halda áfram næstu daga en nú ætla ég að taka fyrir stystu þvergötuna út úr Strandgötu, Grundargötuna á einu bretti í fjórum pistlum. P6060002Tvö hús hef ég áður tekið við götuna og mun ég endurbirta þá umfjöllun í síðasta pistli mínum um Grundargötuna. En við götuna standa aðeins sex hús, frá 1-7 en Grundargata 2 fyrirfinnst ekki og ekki veit ég til þess að það hús hafi nokkurn tíma staðið.

En byrjum á húsinu hér á myndinni, þ.e. Grundargötu 1. En húsið er byggt 1924  af Ólafi Ágústssyni húsgagnasmiði sem reisti og átti Strandgötu 33 og var þetta hús byggt sem smíðaverkstæði. . Það var stækkað fjórum árum seinna , hvort að risið var byggt ofan á húsið þá. Síðar voru þessi tvö hús tengd saman með einlyftri steinsteypubyggingu og húsið innréttað sem íbúð en í tengibyggingunni milli hússins og Strandgötu var um tíma sjónvarpsver Stöðvar 2 og seinna kvikmyndafyrirtækið Samver.  Grundargata 1 glæsilegt hús í góðu sandi. Það er einlyft steinsteypuhús með háu risi og miðjukvisti. Þak er klætt járni sem líkir eftir steinskífuklæðningu en slík klæðning mun upprunalega hafa verið á þaki- skv. gömlum myndum. Margskiptir póstar eru í gluggum. Húsið er einbýlishús en önnur íbúð er í tengibyggingu sem ég er ekki viss hvort telst vera númer 1a eða 1b eða mögulega Strandgata 33a eða b. Þessi mynd er tekin að kvöldi 6.júní 2013.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 12 (áður 28)

Ég hef haldið mig nokkuð við Oddeyrina sl. vikur í húsaumfjölluninni og mun líklegast halda því áfram. 197121_1019015091079_4856933_n[1]Sem fyrr er það tilviljanakennt hvort það líða tvær vikur eða tveir dagar milli færsla hjá mér- - en það er svosem ekki ofarlega á forgangslistanum hjá mér þessa dagana að sitja við tölvuna nú þegar langþráð sumar hefur látið sjá sig hér fyrir norðan. En nóg um það. Ég fór um daginn að ljósmynda Grundargötu en fann einnig gamla mynd í safninu hjá mér af þessu húsi sem er Gránufélagsgata 12.

En Gránufélagsgata 12 var lengst af númer 28 og var númerinu breytt um 2000. Hvernig á því stóð, bæði upprunalega númerinu og hvers vegna því var breytt hef ég ekki græna glóru um enda númerakerfi Gránufélagsgötunnar hin mesta ráðgáta. Líklega var þó númerinu breytt til þess að húsin stæðu í réttari röð, því næst ofan hússins er númer 10 og 16 neðar við götuna. En Gránufélagsgötu 12 (eða 28) reisti Sigtryggur Helgason árið 1931 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar en meðal annarra bygginga sem teiknaði er t.d. Sambyggingin (1929) neðar við Gránufélagsgötu og Langavitleysa (1942) við Hríseyjargötu. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og hefur haldist að miklu leyti lítið breytt frá upphafi.   Rishæð eða vesturherbergi þess var leigt út fram yfir miðja 20. öld en stærstur hluti rishæðar var lengi vel geymsla og oft notuð til að þurrka þvott þegar ekki viðraði til þess úti.  Gluggar eru þó líklegast breyttir en í þeim eru þverpóstar, hafa sennilega verið krosspóstar í upphafi. Tvær íbúðir eru í húsinu á neðri hæð og á efri hæð og risi og hefur sú skipan líkast til verið frá upphafi. Húsið lítur vel út og er í góðu standi og lóð er stór og gróin. Geymsluskúr var áður á lóðinni sunnarlega, einnig stór kartöflugarður austast á lóðinni. Þessa mynd tók ég fyrir um fjórum árum, á miðnætti eftir Sumarsólstöður, 22.júní 2009.


Hús dagsins: Fróðasund 11

 Fróðasund 11 var byggt árið 1890 og stóð þá við Norðurgötu. Húsið var reist árið 1890 af manni að nafni Guðmundur Jónsson. Það hefur hinsvegar ekki alltaf staðið þarna, enda er gatan sem slík miklu yngri en svo. Húsið var nefnilega reist um 100m suðaustar á Eyrinni eða við Norðurgötu 9 og var flutt á núverandi stað um 1945.P5050005

 

Árið 1945 voru húsin nr. 7 og flutt í heilu lagi á auðar lóðir milli Lundargötu og Norðurgötu við götustubbinn Fróðasund, á lóðir númer 10a og 11 og bæði húsin standa enn á þeim stöðum. Fróðasund 11 er töluvert breytt frá því húsið stóð við Norðurgötu, bæði að utan og innan en það er þó enn einlyft timburhús með háu risi og á steyptum grunni. Byggt var við húsið 1954 og einnig hefur verið byggð forstofubygging á framgafl og sólskáli á suðurhlið og væntanlega er gluggaskipan töluvert breytt frá því sem var í upphafi. Húsið er allt bárujárnsklætt og er í mjög góðu standi og lítur vel út og umhverfi hússins vel frágengið. Húsið er einbýlishús og hefur verið að ég held alla tíð- alltént frá því það kom á þennan stað. Þessi mynd er tekin 5.maí 2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 21

Jæja, ætli það sé ekki alveg kominn tími á uppfærslu hér, tæpar tvær vikur síðan síðast. En nú  færum við okkur yfir hornið hjá Lundargötu 9 og yfir götuna að öðru stæðilegu húsi, Gránufélagsgötu 21.P5050001

Hvenær elstu hlutar hússins eru byggðir er eiginlega á huldu en í bók Guðnýjar Gerðar og Hjörleifs um Oddeyrina er húsið byggt árið 1919 uppúr geymsluskúr sem stóð á baklóð Gunnar Guðlaugssonar húsasmiðs við Lundargötu 10. Það er sumsé ekki vitað hvenær sá skúr var byggður en hér miða ég við byggingarárið 1919.  Raunar var húsið byggt í áföngum fram eftir þriðja áratugnum en eigandi árið 1922 er L. Rasmussen. Þá er húsið virt til brunabóta sagt einlyft timburhús með lágu risi en Guðrúnu Funck-Rasmussen, konu hans er leyft að stækka húsið 1927 og hefur það þá líklega fengið það lag sem það nú hefur. Þó hefur múrhúð væntanlega komið mun seinna eða um miðja 20.öld; húsið mun hafa verið skífuklætt snemma eða í upphafi.  Nú er húsið einlyft á háum kjallara með háu risi og er suðvesturhorn hússins með sneiðingi. Lítill hallandi kvistur er á framhlið.  Guðrún Funck-Rasmussen var mikilvirkur ljósmyndari og rak þarna "atelier" eða ljósmyndastofu í risinu og bjó á neðri hæð. Ljósmyndastofan var starfrækt í húsinu um árabil en síðustu áratugina hefur húsið verið einbýlishús. Húsið virðist í ágætu standi og lítur vel út.  Þessa mynd tók ég á myndatúr þ. 5.maí sl.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Hús dagsins: Lundargata 9

Síðasta Hús dagsins var Lundargata 7 og Gránufélagsgata 10 (sem telst eða taldist Lundargata 7b) og nú er það bara næsta hús en það stendur á horni þessara tveggja gatna og afmarkast lóðin af bílaplaninu við Gránufélagsgötu 10 að vestan.P5050002 En Lundargötu 9 reisti séra Pétur Guðmundsson um 1897*. En húsið er einlyft timburhús á steyptum kjallara með háu portbyggðu risi og miðjukvisti. Öfugt við mörg önnur hús í nágrenninu hefur ekki verið byggt við húsið eða risi lyft- en ekki er mér kunnugt um hvort kvisturinn á framhlið hafi verið frá upphafi. Hinsvegar hefur húsið á sínum tíma "lent í því" að vera forskalað með skeljasandsmúr en á árunum kringum 1950 var það "heitasta" í endurgerð gamalla húsa að forskala þau  þ.e. múrhúða og skipta gömlu sexrúðu-og eða krosspóstunum út fyrir einfalda þverpósta. Slík aðgerð hefur verið kölluð að augnstinga húsin- eins miður geðfellt og það heiti er. Enda þykir þetta ekki í dag geðfelld meðferð á gömlum timburhúsum. Ég er nú hins vegar á því að þó timburhús sé forskalað geti það allt eins verið fallegt og smekklegt eins og timbur- eða járnklæddu húsin. Þetta liggur allt í viðhaldinu og umhirðunni.  Séra Pétur bjó í húsinu til dauðadags en það var ekki lengi því hann lést 1902. Sonur hans, Hallgrímur bjó í húsinu áfram og rak þar bókbandsstofu og gaf þarna út bókaflokkinn Nýjar kvöldvökur hinar fyrri og gaf einnig út Annál 19.aldar sem faðir hans hafði byrjað að rita en ekki enst aldur til að klára. Hvort einhver önnur starfsemi var í húsinu eftir bókband Hallgríms er mér ókunnugt um en þykir svosem ekkert ólíklegt. Síðustu áratugina hefur húsið verið íbúðarhús með einni íbúð. Fyrir um áratug var húsið tekið í gegn að mörgu leyti, settir í það nýjir sexrúðupóstar og inngangi breytt, hann færður frá miðri framhlið í norðvestur horn hússins. Húsið lítur vel út og virðist í góðu standi. Þessi mynd er tekin 5.maí sl.

*Þess má kannski geta að þeim tveim heimildum sem ég styðst við í þessum pistli ber ekki saman um byggingarár hússins. Guðný Gerður og Hjörleifur segja 1898 en Steindór Steindórsson segir 1896. Hér einfaldlega fer ég bil beggja og segi byggingarárið 1897 með þessum varnagla "um". Aftur á móti má geta þess að þar sem húsið er um 115 ára eru þetta skekkjumörk uppá innan við 2%.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Lundargata 7 (og Gránufélagsgata 10)

Lundargötu 7 byggði Ólafur Jónatansson járnsmiður árið 1895.P5050003 Þá var húsið einlyft timburhús með háu portbyggðu risi. Hann bjó í húsinu en byggði einnig smiðju á lóðinni sem kölluð var Svartiskóli. Hvort að sú smiðja rann svo inn í miklar viðbyggingar við húsið eða hvort hún vék er ég hins vegar ekki klár á. En smiðjan varð síðar íbúð og einhverntíma mun einnig hafa verið járnsmiðja í framhúsinu.  En a.m.k. fjórum sinnum hefur verið byggt við framhúsið, fyrst er talað um steinsteypta viðbyggingu árið 1913 og er þá risinu líklega lyft um leið að aftan. 1931 var svo enn byggt við húsið og nú einlyftur steinsteyptur skúr á bakhlið. Það vakti athygli hjá mér þegar ég athugaði sögu hússins að það liðu ævinlega 18 ár á milli byggingaráfanga, þ.e. framhúsið byggt 1895 og bakbygging 1913-átján árum síðar og næsta bygging 1931- átján árum þar á eftir. Þangað til síðasti áfanginn, einlyft steinsteypt hús með söðulþaki var byggt sambyggt húsinu, en það hús var reist 15 árum eftir áfangan á undan, eða 1946. Það var reist sem þvottahús fyrir Þvott h/f. Það hús telst núna síðustu árin til Gránufélagsgötu 10 enda er aðkoman að húsinu Gránufélagsgötu megin. Yngra húsið er sem áður segir einlyft steinsteypuhús með söðulþaki og er mikið stærra hús að grunnfleti en framhúsið. Ég taldi ófært annað en að mynda bæði húsin en fjalla samt um þau sem eina sambyggða heild. Framhúsið er nú einlyft með portbyggðu risi sem búið er að lyfta að aftan. Það er klætt steinblikki, þ.e. elsti hlutinn sem er timburhúsið frá 1895. Hinar byggingarnar eru steinsteyptar. Lundargata 7 hefur alla tíð verið íbúðarhús og um tíma járnsmiðja en hversu margar íbúðir hafa verið í því er ég ekki klár á. Í næsta húsi við hliðina, Lundargötu 5, sem er ekki stærra hús að flatarmáli  voru um tíma fjórar íbúðir og vel gæti verið að á fyrri hluta 20.aldar hafi nokkrar fjölskyldur búið þarna í einu. Það er eiginlega tilfellið með mörg þessi hús  sem ég fjalla um hér að þau hafa óskaplega mörg ár fram yfir mitt minni- og ekki ratar allt í söguheimildir! Wink Núna er húsið hinsvegar einbýli og hefur verið síðustu áratugi. P5050004Af bakhúsinu er það hins vegar að segja að eftir að það var lengi vel félagsheimili, "Hús aldraðra" eftir að það lauk hlutverki sínu sem þvottahús- en vel gæti verið að það hafi þjónað öðrum hlutverkum í millitíðinni. Verkalýðsfélög höfðu þarna aðsetur eftir miðja öldina og og kallaðist húsið þá Alþýðuhúsið eða Allinn og var einn helsti dansstaður Akureyringa.  Eða þar til að að Sjálfstæðishúsið, Sjallinn var tekinn í notkun árið 1963. Síðasta áratuginn hefur hinsvegar verið veitingahúsastarfsemi í húsinu. Bæði húsin virðast í góðu standi og hafa nýlega (á sl. áratug)  fengið einhverja yfirhalningu að utan og innan. Þessar myndir af húsunum tók ég sl. sunnudag 5.5.2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


"Listaverk"

Stundum á ég það til að grípa penna, blýant eða jafnvel vatnsliti og oftar en ekki verður útkoman einhvers lags húsamynd. Stundum hefur það verið sagt við mig að ég sé flinkur að teikna en ég veit ekki með það- það eina sem ég kann að teikna eru hús, bílar og fjöll! Þannig að kannski er ekki endilega fjölhæfninni fyrir að fara. En hér eru allavega tvær myndir af tveimur húsum á Oddeyrinni:

P1280045

Gránufélagshúsin, Strandgata 49 byggð 1873. Vatnslitamynd á A3-blað síðan í janúar 2013.

PC080085

Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan við Norðurgötu 17, byggt 1880. Önnur vatnslitamynd á A4blaði, frá nóvember sl.

Svo er spurning hvort næsta "mission" verði að mála þau hús bæjarins sem ég hef ljósmyndað síðustu 7 árin. Það er verðugt verkefni- svo ekki sé meira sagt.


Hús dagsins: Hríseyjargata 9.

Hús þessa kjördags til Alþingis er 85 ára timburhús við Hríseyjargötu. P1120042En hún er neðsta íbúðaþvergatan sem gengur norður úr Strandgötu- og einnig sú langyngsta- hún er að mestu byggð 1920-45 á meðan næsta gata ofan við Grundargata, Norðurgata (að Eiðsvallagötu) og Lundargata eru að stórum hluta byggðar á tveimur síðustu áratugum 19.aldar.

En Hríseyjargötu 9 byggði Lárus Hinriksson árið 1928 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. Húsið gæti hafa átt að vera steinhús upprunalega en á þessum tíma hafði dregið mjög úr byggingu timburhúsa- þó auðvitað hún hafi aldrei lagst af. En húsið er einlyft timburhús á lágum steyptum kjallara og með háu risi. Einlyft bygging er á norðurbygging, hvort hún er upprunaleg eða ekki er mér ókunnugt um en á risi er stór miðjukvistur á framhlið og minni kvistur á bakhlið. Húsið er bárujárnsklætt og gæti hafa verið svo frá upphafi en á þeim tíma sem húsið var byggt var mikið farið að járnverja eldri timburhús. Í Húsakönnun Guðnýjar Gerðar og Hjörleifs (1995) er húsið sagt sérstakt fyrir þær sakir hversu seint það er byggt, en á þessum tíma þ.e. 1928 var steinshúsabygging nánast alls ráðandi. Sennilegt er að eldhræðsla hafi haft eitthvað um það að segja að timburhús urðu óvinsælli, en árin 1901-1912 urðu t.d. þrír "bæjarbrunar" á Akureyri og ýmsir stórbrunar víða um land. Á þessum tíma voru eldvarnir auðvitað mjög frumstæðar- ef þær á annað borð voru til staðar- og ef kviknaði í timburhúsi var næsta líklegt að eldurinn læsti sig í næsta hús og svo koll af kolli. Járnklæðningar og steinskífa utan á húsum gátu þá skipt sköpum. En aftur að húsinu. Hríseyjargata 9 er einfalt og látlaust að gerð, snyrtilegt og í góðri hirðu. Sama á við um lóð og umhverfi hússins. Í áðurnefndri Húsakönnun er sagt að gluggum hafi verið breytt, en nýlega hefur verið skipt um glugga og settir sexrúðupóstar sem líklega er í samræmi við upprunan. Húsið er einbýli og hefur alla tíð verið og ekki mun húsið hafa skipt oft um eigendur. Þessi mynd er tekin 12.janúar 2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Gleðilegt sumar :)

Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegs sumars og þakka fyrir veturinn. Hér fyrir norðan hefur veturinn verið langur, heilsaði raunar með krafti hvorki meira né minna en 10.september með stórhríð og norðanáhlaupi sem olli búsifjum, fé fennti inni og í fyrsta skipti í töluvert mörg ár fór rafmagnið af Akureyri vegna veðursins. Snjór hefur legið hér yfir meira og minna samfleytt frá því í nóvember en fyrri part vetrar komu nokkrir hríðarkaflar. Og Eyjafjörðurinn virkar að öllu jöfnu þannig að snjóalög aukast eftir því sem utar dregur; á Dalvík er miklu meiri snjór en á Akureyri og þar er t.d. allt á kafi enn- og hefur verið frá því í haust og hefur manni skilist að mörgum þar ytra þyki þetta vera orðið ansi gott af snjónum. Þá eru menn uggandi yfir því hvernig tún koma undan vetrinum því hann var afar óhagstæður með sínum snjóa- og þýðuköflum en slíkt skapar kjöraðstæður fyrir kalskemmdir. En nú er allavega sumarið komið samkvæmt almanakinu hvað sem öllum snjóalögum líður. Þessi sumarlega mynd er (þótt ótrúlegt megi virðast Wink) ekki tekin á Akureyri eða Eyjafjarðarsvæðinu heldur í bænum Cocoa Beach á vesturströnd Florida, þ.29.5.2008.

 P5290006


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 113
  • Sl. sólarhring: 115
  • Sl. viku: 413
  • Frá upphafi: 450600

Annað

  • Innlit í dag: 79
  • Innlit sl. viku: 267
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 76

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband