Hús dagsins: Hamrar I og II

Í bæjarlandi Akureyrar hafa löngum verið mörg býli, sum stórbýli en önnur minni en eðlilega hefur þeim fækkað mikið eftir því sem þéttbýlið hefur aukist. P6180010Flest þessara býla hafa vikið þegar byggð voru ný hverfi en t.d. Í Glerárþorpi standa mörg gömul bæjarhús og fyrrum stórbýlið Lundur stendur enn efst á Brekkunni. En sunnan Naustahverfis eru miklar túnlendur og klettaborgir, Naustaborgir og ná þessar lendur af brekkubrúninni að rótum Löngukletta (Hamrakletta) að vestan og Kjarnaskógi að sunnan. Þarna voru einnig fjöldi smærri býla (Vökuvellir, Sunnuhvoll, Hlíð, Brún o.fl.) sem flest eru nú horfin undir þéttbýli í Naustahverfi. En í krikanum efst upp við Kjarnaskóg standa Hamrar. Bæjarhúsin eru um 6km frá Miðbæ Akureyrar og loftlína hingað að þéttbýlismörkum Naustahverfis er líklega um kílómeter.

Hamrajörðin tilheyrði um aldir stórjörðinni Kjarna en mun hafa orðið sjálfstætt býli á 18.öld og var lengst framan af ríkiseign en árið 1944 eignaðist Akureyrarbær jörðina en þá var enn búið hér í torfbæ. Þá bjuggu þar Jóhann Jósefsson og Jónína Rósa Stefánsdóttir en þau fluttust hingað 1925. Þau reistu Hamra I árið 1951 en það hús er einlyft steinsteypuhús með lágu skúrþaki og miklum steyptum köntum og dregur talsverðan dám af Funkis-stíl. Tvær litlar útbyggingar eru á húsinu önnur á suðurhlið og hin bakatil og líklega hafa þær verið frá upphafi. Bakvið Hamra I standa gömul útihús og hlaða, ekki er mér kunnugt um byggingarár þeirra en sennilega eru þær byggingar frá svipuðum tíma og íbúðarhúsið. P6180012

Hamrar II standa 100 metrum vestar uppi á hól nokkrum. Það hús reisti Stefán Jóhannsson, sonur Jóhanns og Jónína á Hömrum árið 1958 og er það einlyft timburhús á lágum steyptum grunni og með lágu risi. Húsið er tvær álmur og snýr önnur gafli til austurs og hin snýr norður-suður og er risið eilítið hærra á þeim hluta hússins. Skammt suðaustan og neðan íbúðarhússins stendur mikil steinsteypt hlaða sem byggð var 1968, einnig af Stefáni. Hann bjó hér til ársins 1972 en bróðir hans Valtýr bjó í eldri bænum til 1979 og þá telst búskap ljúka þar en búið var á Hömrum II til ársins 1990. Síðustu árin voru aðeins fáein hross á Hamrabæjunum. Það er nú svo að í Byggðum Eyjafjarðar 1990 eru Hamrar I sagðir fara í eyði 1979 en Hamrar II árið 1990. Samt var búið mikið lengur í fyrrnefnda húsinu eða allt til 1998. P6180013

Um 1990 hófst nýr kafli í sögu Hamra þegar Skátafélagið Klakkur fékk afnot af Hömrum II, hlöðunni og lélegum bragga sem stóð þarna.Mikil uppbygging fram næstu árin á sá sem þetta ritar þar ófá handtök, bæði sem sjálfboðaliði hjá skátunum en einnig sem starfsmaður svæðisins sumurin 2002-2011. Nú er þarna rekið eitt stærsta og fullkomnasta tjaldsvæði á landinu (ath. ég er kannski ekki alveg hlutlaus þarna Smile) Tjaldsvæðið er rekið af Hömrum, Umhverfis- og útilífsmiðstöð skáta og var einmitt opnað fyrir réttum 13 árum, 29.júní 2000 með skátamótinu Skjótum rótum. (Það má fylgja sögunni að þar var ég fjarverandi- var staddur í sumarbústað austur í Eyjólfsstaðaskógi). Þá þegar  var ákveðið að Landsmót Skáta færi þarna fram árið 2002 og sú mikla uppbygging sem fram hafði farið árin áður hélt nú áfram og af enn meiri krafti, þarna voru útbúnar tjaldflatir á gömlum túnum og mýrum og grafnar þrjár leiktjarnir sem mynduðust við stíflun Brunnár, gróðursettar ýmsar trjáplöntur og margt, margt fleira. Landsmótið var haldið hér 2002 með glæsibrag og aftur 2008 og hér verður næsta Landsmót skáta eftir rúmt ár, í júlí 2014. Ótal starfsmenn, sjálfboðaliðar og skátar og aðrir velunnarar komu að uppbyggingu Hamrasvæðisins en þeir sem höfðu yfirumsjón með þessari vinnu voru þeir Tryggvi Marinósson og Ásgeir Hreiðarsson.

 En að húsunum og núverandi ástandi og notkun þeirra. Hamrar I eru að miklu leyti í upprunalegu horfi að utan sem innan og mætti segja að húsið sé komið á viðhald. Þó hefur að sjálfsögðu ýmsu verið skipt út og breytt (m.a. gólfefnum og eldhúsinnréttingum) frá því húsið var íbúðarhús. Frá aldamótum hefur Útilífsskólinn haft aðsetur í þessu húsi og haustið 2005 fluttist almenn starfsemi Skátafélagsins Klakks hingað. Fígúran sem er í "tvíriti" framan á húsinu nefnist Laufi og var hann einkenniskall Landsmóts Skáta sem haldið var í Kjarnaskógi 1993 og varð síðar tákn Útilífsskólans. Laufarnir voru settir framan á húsið þann 22.júní 2002 á vinnumóti og þar átti ég hlut að máli. Hamrar II voru endurbyggðir alveg frá grunni 1999-2000 eftir bruna sumarið 1998 og vorið og sumarið 2000 mætti ég á mörg vinnukvöld þar sem ég m.a. pússaði loftklæðningu og hrærði steypu í hjólbörum, en sú steypa fór í kringum svelg á baðherbergi. Ég tók einnig þátt í pallasmíði og einnig negldi ég einhverjar fjalir utan á húsið sem nú er stórglæsilegt að sjá og í frábæru standi. Húsið þjónar nú sem aðstaða fyrir tjaldgesti en þar komast þeir í setustofu með sjónvarpi, bað og eldhús. Hlaðan var geymsluaðstaða fyrir Skátafélagið og Hamra fram undir 2002 að hún var gerð að mötuneyti fyrir Landsmótsstarfsfólk. Milliloft var byggt í austurenda um 1993 og það en var endurbyggt 2008. Gólf var lagt í hlöðuna á einum degi, 12.júlí 2002 og fyrir hádegi var ég að slétta undirlagið með handvaltara og fram eftir kvöldi vorum við að bera inn ótal vörubretti og skrúfa spónagólf á þær. Síðustu árin hefur hlaðan verið notuð sem samkomuhús, undir skátakvöldvökur og einnig leigð fyrir veislur og slíka fögnuði en hefur þann leiða ókost að vera mjög köld á vetrum og erfið og dýr í kyndingu, enda ekkert einangruð. Einlyfti timburskúrinn var sem stendur framan við Hlöðuna var fluttur hingað árið 2011 og nú í vor var hann tekinn í notkun sem skrifstofuhúsnæði fyrir Hamra hins vegar og Skátafélagið annars vegar. Þá ætla ég að láta staðar numið hér, enda orðinn óvenju langorður. En fyrir þá sem vilja kynna sér Hamra Umhverfis- og útilífsmiðstöðvar skáta og starfsemi þeirra er þessi heimasíða www.hamrar.is. Myndirnar af Hamrabyggingunum eru teknar þann 18.júní 2013.

 

Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 291
  • Frá upphafi: 420166

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 205
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband