Færsluflokkur: Bloggar
10.2.2013 | 17:19
Hús dagsins: Setberg og Skarð (við Hamragerði)
Í síðustu færslu fjallaði ég um stórbýlið Lund sem stendur ofarlega á Suðurbrekkunni. En á Brekkunni, líkt og í Glerárþorpi voru þó nokkur býli fram yfir miðja 20.öld, þó miklu færri og stærri á Brekkunni en í Þorpinu og flest þeirra viku fyrir byggð. En um 500 metrum norðaustan við Lund standa tvö hús við götuna Hamragerði sem skera sig nokkuð úr, eru greinilega talsvert eldri en flest hús við götuna (sem byggðist að mestu sitt hvoru megin við 1970) og afstaða og lega öðru vísi og lóðir víðáttumeiri. En hér eru fyrrum bæjarhús.
Skarð stendur við Hamragerði 11. Þar var upprunalega byggt árið 1923 af Sigþóri Jóhannssyni en næsti ábúandi eftir honum var Tryggvi Emilsson rithöfundur frá 1931-1937. Upprunalega bæjarhúsið brann í mars 1937 og var bærinn í eyði nokkur ár þar til Jón G. Guðmann settist þarna að og reisti núverandi hús árið 1940. Skarð er nokkuð dæmigert fúnkíshús, einlyft á kjallara með flötu þaki og horngluggum. Ég er hreinlega ekki viss hvort húsið er timburhús eða steinhús en allavega eru veggir járnklæddir. Einhvern tíma hefur verið byggt við húsið til norðurs. Landareign Skarðs hefur líklegast afmarkast af Gleránni og náð yfir mest það svæði þar sem nú eru Dalsgerði, Háagerði og S-gerðin, og yfir Lækjardalinn svokallaða þar sem Kotárlækur rennur, og Dalsbraut var lögð 2003-04. Háskólinn á Akureyri á Sólborg stendur í landi Skarðs en Sólborg var upprunalega reist sem sambýli um 1970 á landi sem Akureyrarbær keypti úr landi Skarðs. Á Skarði var ætíð myndarlegur bústofn, bæði nautgripir, fé og hænsni en þar hefur greinilega verið mikil trjárækt. Því víðáttumikil lóðin sem eftir stendur af jörðinni er þétt vaxin skógi sem er í góðri hirðu eins og allt umhverfi hússins og húsið sjálft. Það hefði ekki verið viðlit að mynda þetta hús af götunni að sumarlagi því þá hverfur húsið nánast alveg inn í trjáþykknið.
Setberg stendur litlu norðar eða við Hamragerði 15 og það hús var reist árið 1934 af Sigurði Jóhannessyni sem hafði fengið úr landi Skarðs 2 dagsláttur undir smábýli. Setberg er einlyft steinsteypuhús með lágu risi, en hefur líkast til eitthvað verið stækkað gegn um tíðina og einnig byggður bílskúr á lóðinni. Þegar mest var komst bústofninn í Setbergi upp í 12 kýr og 40 kindur en kýrnar voru hýstar um tíma í kjallara hússins en annar bústofn í útihúsum sem löngu eru horfin. Sigurður Jóhannesson bjó hér til dánardægurs árið 1957 og þá hefur búskap væntanlega verið hætt því í Byggðum Eyjafjarðar (1990) telst Setberg fara í eyði þá. En húsið sem slíkt er aldeilis ekki í eyði, það er nú einbýli og er í góðu ásigkomulagi. Bakatil á lóð hússins stendur enn súrheysturn eða neðsti hluti hans eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem tekin er frá Dalsbraut, en hún liggur bakvið og neðan Hamragerðis um Lækjardalinn.
Þessi tvö hús, Skarð og Setberg setja skemmtilegan svip á götumynd Hamragerðis, frábrugðin öðrum húsum við götuna og bera þess á margan hátt greinilega merki að vera fyrrverandi sveitabæir. Myndirnar með þessari færslu eru teknar 2.feb. 2013.
Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2013 | 15:46
Hús dagsins: Lundur
Lundarhverfi er efsta hverfi Suðurbrekkunnar og afmarkast af Þingvallastræti í norðri og Mýrarvegi í austri og eftir 2008 Miðhúsabraut að vestan og ofan en áður voru það Háubrekkur, neðstu hlíðar Súlumýrastallsins sem tóku eftir að efstu götum sleppti. Lundarhverfi reis að mestu á 8.áratug síðustu aldar og er að miklu leyti raðhúsa- og fjölbýlishúsabyggð. Hverfið heitir eftir húsinu á myndinni en það er býlið Lundur og stendur húsið við götuna Viðjulund en gatan er raunar aðkeyrslan og planið að Lundarhúsunum, sem annars standa húsin við Skógarlund. Lundur var reistur árið 1924 af Jakobi Karlssyni kaupmanni og bónda. Árið 1924 var þessi staður um 1500m frá þéttbýlismörkum Akureyrar en efstu hús bæjarins stóðu þá við Oddeyrargötu og Eyrarlandsveg og áratugum saman var Lundur úti í sveit. En Lundur er einlyft steinsteypuhús (gæti mögulega verið byggt úr r-steini) á kjallara með háu risi, gaflsneiddu og litlum bogadregnum kvisti á suðurhlið. Á vesturhlið er einlyft viðbygging úr steinsteypu, sennilega frá því eftir 1950. Sambyggt íbúðarhúsi voru mikil steinsteypt útihús, fjós var fyrir 20-30 gripi, hlaða og súrheysturnar sem nú eru horfnir. Í tíð Jakobs var þarna eitt stærsta kúabú við Eyjafjörð og var gripunum beitt á tún þar sem síðar varð Lundarhverfi. Síðar var þarna rekið tilraunastöð fyrir nautgriparæktun en öllum búrekstri var hér hætt um 1975, er Lundarhverfi var nánast fullbyggt. Útihúsin hafa í seinni tíð verið notuð undir iðnað og verslun, Hjálparsveit Skáta á Akureyri hafði þarna sína aðstöðu frá því um 1980 til 2000 og þarna var á tímabili hestaverslun en nú er þarna jógamiðstöð; svokallaður Orkulundur. Enn er búið í íbúðarhúsinu. Lundarhúsin eru glæsileg að sjá enda segir Tryggvi Emilsson í endurminningum sínum (1977:214) að búgarðurinn hafi verið [...] ein vandaðasta bygging sem þá hafði risið undir Súlutindum [...]. Þessi mynd er tekin 2.feb 2013.
Heimildir: Tryggvi Emilsson (1977). Baráttan um brauðið. Reykjavík: Mál og menning.
Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2013 | 19:36
Hús dagsins: Þingvallastræti 25
Þingvallastræti er ein elsta og helsta umferðaræð Brekkunnar en gatan er hálfur annar kílómeter og liggur uppaf Gilinu og áleiðis í átt að fjallsrótum. Gatan tengdist Hlíðarbraut, stofnbraut Glerárþorps með brú á Glerá um 1980 en þá náði hafði byggðin teygt upp að býlinu Lundi, sem stendur undir svokölluðum Háubrekkum við rætur Súlumýra. Fyrstu húsin við Þingvallastræti voru reist um 1930 og lengi vel náði byggðin aðeins upp að Helgamagrastræti, þvergötu norður úr Þingvallastræti sem tók að byggjast eftir 1935. En 1936 var þetta hús, sem nú stendur við Þingvallastræti 25 byggt. Það stóð um 200 metra spöl ofan við Sundlaugina og var efsta hús þéttbýlisins og taldist eiginlega á mörkum þéttbýlis og sveitar. Lundur, sem stendur nærri kílómeter ofar á Brekkunni taldist uppi í sveit, en þangað náði þéttbýlið ekki fyrr en eftir 1970. Líklega hefur þetta hús verið byggt sem grasbýli en á Brekkunni voru á þessum tíma mýrar, mógrafir og beitarlönd; Eyrarbúar áttu kýr sem teymdar voru upp og niður Gránufélagsgötu og Oddeyrargötu sem kallaðar voru Kúagötur.
En Þingvallastræti 25 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki og á lágum kjallara. Það er undir áhrifum frá fúnkísstefnu, nánast ferningslaga á grunnfleti en þó nokkuð óhefðbundið útlits, gluggasetning ekki eins fastskorðuð og oft var á funkishúsum t.d. við Helgamagrastræti og Ægisgötu. Stórir og sérstæðir gluggar og bogadreginn dyraumbúnaður gefur húsinu sinn sérstaka svip. Húsið er klætt grjótmulningi. Á austurmörkum lóðar stendur bílskúr, sem líklega er einhverjum áratugum yngra en húsið sjálft. Umhverfi hússins ber þess merki að það er reist í þáverandi dreifbýli, en lóðin er geysi víðlend og mikið stærri en næstu lóðir. Ekki var farið að byggja að ráði í næsta nágrenni hússins fyrr en árin um og eftir 1950 og þá á móti húsinu. En húsið er einbýli og hefur líkast alla tíð verið. Það er í mjög góðu standi og umhverfi þess til fyrirmyndar. Þessi mynd er tekin 8.des 2012.
PS. Ef einhver kannast við að Þingvallastræti 25 hafi haft nafn má endilega upplýsa mig og lesendur um það hér í athugasemd eða gestabók. Einnig hvort einhvers lags búskapur hafi verið í tengslum við húsið sem var útvörður þéttbýlis í efri byggðum Akureyrar um miðja 20.öld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2013 | 20:30
Hús dagsins: Brekkugata 14
Brekkugata 14 er stórt og sérlega áberandi hús þar sem það stendur eitt og sér austan Brekkugötu, á norðausturhorni gatnamótanna Oddeyrargötu- Brekkugötu. Húsið reisti Jón C.F. Arnesen, ræðismaður og útgerðarmaður árið 1929 og mun það þá hafa verið eitt stærsta einbýlishús á Akureyri. En ég gæti trúað að heildarflatarmál hússins sé yfir 400 fermetrar þegar kjallari, hæð og tvær rishæðir eru teknar með. En húsið er steinsteypt, einlyft á kjallara með mjög háu risi, en það er á tveimur hæðum. Framan á húsinu er stór kvistur eða útbygging á norðurgafli ásamt minni bogadregnum kvisti við hliðina og miklar svalir eða forstofubygging á norðurhlið. Þó þetta hús sé komið vel á níræðisaldur hafa ekki eigendaskipti ekki verið tíð, en Oddfellowreglan eignaðist húsið rétt fyrir 1940 og hafði þar félagsheimili fram undir aldamót en þá var húsið endurbyggt sem íbúðarhús, en nú munu vera þrjár íbúðir í þessu stórglæsilega húsi. Þessi mynd er tekin 8.des. 2012.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2013 | 17:19
Hús dagsins: Brekkugata 15
En höldum við okkur við Brekkugötuna og erum nú stödd á horni hennar og Oddeyrargötu, sem skásker Brekkuna til suðvesturs uppfrá Gránufélagsgötu. Sitt hvoru megin við hornið skáhallt móti hvort öðru standa tvö aldin stórhýsi, hús númer 14 og 15 en þar sem hið síðarnefnda stendur neðar við götuna, sunnan Oddeyrargötu mun ég taka það fyrir á undan, þrátt fyrir einum hærra númer. En Brekkugötu 15 reisti Friðjón Jensson árið 1915. Það var reist á grunni svokallaðs Rauðhúss sem brann þremur árum áður en ekki er vitað hvenær það var byggt. Friðjón átti húsið í fimm ár en næsti eigandi á eftir honum Jónas Sveinsson nefndi það Uppsali. Brekkugata 15 er einlyft timburhús á háum kjallara og með háu portbyggðu risi. Á því er stór miðjukvistur með gaflskrauti í anda Sveitser húsa en einnig er eru tveir minni kvistir sitt hvoru megin við hann. Ekki er ég viss hvort minni kvistirnir hafi verið á húsinu frá upphafi. Húsið er bárujárnsklætt og gæti hafa verið svo frá upphafi en talað er um sk. bárujárnssveitser. Á þeim tíma sem húsið er byggt var farið að klæða timburhús mikið með bárujárni og í sumum tilvikum steinskífu til brunavarna í kjölfar stórbruna sem urðu m.a. á Akureyri 1901, 1906 og 1912. Steinblikkið kom svo örlítið seinna en áratugum seinna hugkvæmdist mönnum að dulbúa timburhús sem steinhús og múrhúða þau eða "forskala". Tvær íbúðir eru í Brekkugötu 15, hvor á sinni hæð. Húsið er áberandi í götumyndinni stendur hátt á víðlendri og gróinni lóð á horni fjölfarinna gatna, kvistskraut og stórir gluggar setja sterkan svip á það. Þessi mynd er tekin 8.des. 2012. Í næstu tveimur færslum mun ég klára myndaskammtinn frá þeim degi með Brekkugötu 14 og þar á eftir verður það Þingvallastræti 25. Þar á eftir er von á nokkrum myndum sem ég tók á Oddeyrinni 12.jan sl.
Heimildir: Steindór Steindórsson (1993): Akureyri, Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2013 | 16:46
Hús dagsins: Brekkugata 9
Fyrir rúmum mánuði ljósmyndaði ég nokkur hús neðarlega í Brekkugötunni og minnti endilega að þetta hús hefði verið eitt þeirra og byrjaði á færslu þ. 21.des. Þannig að ég var kominn með færsluna en vantaði húsið en lét loksins verða af því í dag að mynda það. Hús dagsins í dag er tæplega nírætt r-steinhús ofan við Ráðhústorg en það er Brekkugata 9. Húsið er eitt af fjölmörgum húsum sem Sveinbjörn Jónsson teiknaði en það var byggt árið 1924 fyrir Harald Björnsson leikara. Húsið er tvílyft r-steinhús á háum kjallara með háu söðulþaki og kvistum en í upphafi var húsið með flötu þaki og steinsteyptu skrauti á köntum; ferköntuðu kögri líkt og á kastala. Þá voru gluggar öðruvísi í upphafi, í efri hluti glugga voru margpósta skrautrúður. Ekki veit ég hvenær söðulþakið kom á húsið en á gamalli mynd sem er á bls. 39 í bókinni "Líf í Eyjafirði" er búið að byggja núverandi þak- en kvistir ekki komnir. Ártal er ekki gefið uppá þeirri mynd en mér sýnist hún geta verið tekin um 1940-50. En af þeirri mynd er ljóst að gluggum var breytt á eftir þakinu því þar eru ennþá upprunalegir póstar. Haraldur Björnsson bjó ekki mjög lengi í húsinu en meðal margra íbúa hússins gegn um tíðina var Sesselja Eldjárn veitingakona og slysavarnarfrömuður. Hún stofnaði kvennadeild Slysavarnarfélagsins árið 1935 og sæluhús Slysavarnafélagsins á Öxnadalsheiði, Sesseljubúð hét eftir henni. Sesselja bjó í hluta hússins og rak þarna veitingasölu en líkast til hefur kjallarinn alla tíð hýst einhvers lags verslun eða þjónustu. Nú er þarna tískuverslunin Kvenfélagið og íbúðir, líklega einar þrjár á efri hæðum. Þrátt fyrir að vera þó nokkuð breytt frá upphaflegri gerð er húsið engu að síður stórglæsilegt og í góðri hirðu. Þessa mynd tók ég rétt áðan, 26.jan 2013.
Heimildir: Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, ritstj. Bragi Guðmundsson (2000): Líf í Eyjafirði. Akureyri: höfundur.
Steindór Steindórsson (1993): Akureyri, Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2013 | 19:30
Hús dagsins: Brekkugata 8; Brekkukot.
Brekkugötu 8 reistu hjónin Einar Stefánsson skipstjóri og Rósa Pálsdóttir árið 1925. Eins og önnur hús í næsta nágrenni er þetta mikið og stórbrotið steinsteypuhús, tvílyft með lágu risi og flötum þakköntum sem eru skreyttir steyptu kögri. Á horni við inngang eru inndregnar svalir og á bakhlið er risið misbratt, þ.e. lágt og aflíðandi eftir ca. helming þekjunnar sunnanmegin (eins konar kvistur sem liggur að þakkanti) en brattara og hærra að norðurgafli. Húsið var íbúðarhús fyrstu áratugina og þá einbýlishús en árið 1976 keypti Akureyrarbær húsið og opnaði þar skóladagheimilið Brekkukot. Þá voru skólar bæjarins margir hverjir tvísetnir, þ.e. sumum árgöngum kennt sitt hvoru megin við hádegið. Brekkukot var starfandi í húsinu allt til ársins 1995 en þá fluttist þessi starfsemi inn í grunnskólana, sem þá voru allir orðnir einsetnir. Nú er Frístund innan allra grunnskóla en hún leysti skóladagheimili á borð við Brekkukot af hólmi- og margir starfsmenn dagheimilina fluttust inní Frístund. Eftir 1995 hefur verið rekið gistiheimili í húsinu og ber það sama nafn, Brekkukot. Lóðin er stór og vel gróin og t.d. var ekki vinnandi vegur að mynda þetta hús að sumarlagi Brekkugötumegin því þá er það falið í laufskrúði. Gráösp (Populus x canescens) sem stendur á suðvesturhorni lóðarinnar var útnefnd "Tré ársins 2012" af Skógræktarfélagi Íslands. Gráösp er næsta sjaldgæf hér á landi og er blendingur silfuraspar (Populus alba) og blæaspar (Populus tremula) en þetta tré ber sterkari einkenni fyrrnefndu tegundurinnar. Öspin sem er 13,5m há er talin vera um 80ára gömul, gróðursett um miðjan 4.áratug þessarar aldar og þá væntanlega af þeim Einari og Rósu. Á þessari mynd er tréð lengst til vinstri en hér má sjá mynd af því fullum skrúða: http://www.skog.is/index.php?option=com_content&view=article&id=659:tre-arsins-2012-utnefnt&catid=18&Itemid=100021 Brekkugata 8 og allt umhverfi hússins er í frábæri hirðu og til mikils sóma í umhverfi sínu. Þessi mynd er tekin 8.12.2012.
Heimildir: Guðrún Arndís Tryggvadóttir (2012). Tré ársins 2012 á natturan.is. Slóðin: http://natturan.is/frettir/7181/
Laufblaðið, fréttablað Skógræktarfélags Íslands (vefútgáfa pdf) 2012 (2) Ritstj. Ragnhildur Freysteinsdóttir. Slóðin: http://www.skog.is/skjol/lbl_2012_2/index.html
Steindór Steindórsson (1993): Akureyri, Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Sérstakar þakkir langar mig til að færa Hrefnu Hjálmarsdóttur, fyrrum starfsmanni barnaheimilisins Brekkukots og forstöðumanni þar til margra ára en hún veitti mér góðfúslega góðar og gagnlegar upplýsingar m.a. um starfsemi Brekkukots. .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2013 | 20:07
Hús dagsins: Brekkugata 11
Enn erum við stödd neðst í Brekkugötunni og nú er það hús númer 11 sem ég tek til umfjöllunar. En hér er um að ræða einlyft timburhús byggt árið 1904 af Frímanni Jakobssyni. Húsið er einlyft timburhús með háu portbyggðu risi og miðjukvisti að framan en bakatil er skástæð útbygging og kvistur nær suðvesturhorni og á suðurgafli er forstofubygging með skrautgluggum. Hár steyptur kjallari er undir húsinu sem stendur á víðlendri lóð, hátt upp af götunni. Húsið er undir dálitlum áhrifum frá norska Sveitser stílnum og ekki tel ég útilokað að það hafi komið tilhöggvið frá Noregi. Um það hef ég hinsvegar engar heimildir. En sonur Frímanns var Jakob, kaupfélagsstjóri KEA til margra ára, bæjarfulltrúi og heiðursborgari Akureyrar og ólst hann upp í þessu húsi- en var hins vegar eldri en svo (f.1899) að hann væri fæddur hér. Að utan sýnist mér þetta vera asbestklæðning utan á húsinu en hún hefur líkast verið sett á um miðja 20.öld. Þó asbest sé almennt ekki vel séð er þetta þó mikið skárri ráðstöfun en múrhúðun (forskalning) timburhúsa sem einnig tíðkaðist mjög á þeim tíma í endurgerð eldri timburhúsa. Að öðru leiti er húsið lítið breytt frá upphafi, það er einbýlishús í dag og hefur líkast til alla tíð verið. Í gluggum eru T-póstar sem gefa húsinu vissan svip. Húsið virðist traustlegt í góðu standi, sem og vel gróin lóð. Þessi mynd er tekin 8.des. 2012.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2013 | 23:26
Hús dagsins: Hafnarstræti 106
Þá er loksins komið að fyrstu Húsafærslu ársins 2013. Næstu vikurnar mun ég taka fyrir nokkur hús neðarlega við Brekkugötuna, hef nú þegar tekið frá 1 til 6. En fyrir þá sem ekki vita liggur Brekkugatan til norðurs uppfrá Miðbænum, í beinu framhaldi af Hafnarstræti þar sem það endar við Ráðhústorg, og nær allt upp að Hamarkotsklöppum og sveigir þar að Þórunnarstræti. En áður en við höldum lengra upp Brekkugötuna skulum við færa okkur niður í göngugötuna en að næst efsta húsi hins rúmlega 2km langa Hafnarstrætis, Hafnarstræti 106.
En Hafnarstræti 106 hefur staðið á þessum stað í tæpa öld en húsið var flutt á þennan stað árið 1915. Var það flutt á tunnufleka hingað frá Hrísey, en þess má geta að á þessum tíma var þessi staður flæðarmálinu í krika Oddeyrar. Nú gæti ég trúað að það séu um 150m í sjávarmál frá húsinu stystu leið. Var það Ásgeir Pétursson sem stóð fyrir framkvæmdinni. Upprunalegt byggingarár hússins í Hrísey er mér ekki kunnugt um né heldur hvort húsið hafi verið stækkað á þessum stað. En Hafnarstræti 106 er tvílyft bárujárnsklætt timburhús á lágum grunni og með lágu risi. Það tengist næstu húsum með einlyftum viðbyggingum úr timbri með flötum þökum. Hvenær þær tengibyggingar voru reistar er mér ókunnugt um; miðað við gamlar myndir sem ég hef séð virðist það hafa verið nálægt miðri 20.öld. En húsið hefur alla tíð verið verslunar- og skrifstofuhús og íbúðarrými á efri hæð. Richard Braun verslunarmaður eignaðist húsið fljótlega eftir byggingu og opnaði þar verslun, nefnda eftir sér, Brauns verslun. Páll Sigurgeirsson keypti verslunina (sem þó hélt nafni sínu) uppúr 1930. Bræður hans voru Eðvarð og Vigfús Sigurgeirssynir og höfðu þeir ljósmyndastofur sínar í húsinu um árabil- fyrst Vigfús og svo seinna Eðvarð. Og framyfir árið 2000 var þarna ljósmyndabúð framköllunarstofa, Filmuhúsið. Elstu húsamyndina á þessum vef, myndin af Lækjargötu 6 frá 1998 lét ég einmitt framkalla þarna. (Hér má sjá myndina og umfjöllunina frá sumrinu 2009: http://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/917847/ ) Nú er þarna barnafataverslunin Kitty og Co. Gallabuxnabúðin og segja má þar hafi starfsemin í húsinu færst nálægt upprunanum því Brauns verslun var klæðaverslun. Þessi mynd er tekin 8.des 2012.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.1.2013 | 17:00
Nýjárskveðja
Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs, þakka öll innlitin og ummælin á liðnu ári.
Ég er ekki frá því að á liðnu ári hafi almennur áhugi bæjarbúa og nærsveitunga (já og etv. fleiri) á byggingasögu og sögu Akureyrar aukist verulega, einkum í kjölfar afmælis kaupstaðarins. Þannig að þetta "sérstæða" áhugamál mitt hafi hreinlega komist í tísku og er það bara frábært.( Held það sé nú líka tilfellið að þessi áhugi hafi alla tíð verið mjög almennur- hann hafi bara komið meira í ljós á afmælisárinu .)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.5.): 0
- Sl. sólarhring: 122
- Sl. viku: 386
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 244
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar