Færsluflokkur: Bloggar

200. Húsapistillinn- kominn í hús ;)

Mér telst til að síðasti húsapistill sé sá tvöhundraðasti ef marka má listan í færslunni frá lokum síðasta árs þar sem ég númeraði alla pistlana og gaf upp á þá tengla- og komst m.a. að því að hátíðarpistillinn minn númer 150 var í raun númer 154 Blush Ég held að engin önnur ein færsla hafi verið eins tímafrek og yfirlitið hjá mér- það er engin smá vinna að afrita næstum 200 fyrirsagnir úr færslulista yfir í Word og aftur hingað í ritil og slóðirnar fyrir tengla- ég tók margar hálftíma-klukkutíma tarnir. Þess má geta að það er yfirleitt hámarkstími sem ég sit við pistlaskrif í senn, ég er þá frekar nokkra daga með pistil en að sitja marga klukkutíma í einu. En við svona "tímamót" er náttúrulega sjálfsagt að líta um öxl. Fyrsti húsapistillinn minn birtist fyrir að verða fjórum árum, 25.júní 2009 og tók ég þá fyrir Norðurgötu 17. (sjá tenglasafn hér að neðan). Hann var mjög stuttur en upprunalega voru þetta aðeins myndirnar og nokkur orð um byggingarár, hver byggði og stutt lýsing á húsi. Árið 2009 hafði ég myndað nokkur af eldri húsum Akureyrar í Innbæ og Oddeyri, elstu myndirnar frá 2005-6 (ef frá er talin ein mynd af Lækjargötu 6 frá 1998) og haft þetta sérstæða áhugamál; gamlar byggingar á Akureyri í rúman áratug og langaði til að deila þessu. Ég ætlaði að klára myndasafnið sem taldi 80 myndir- ef ég nennti þ.e.a.s. En þá fór boltinn bara af stað. Mér fannst að fyrst ég tók þetta hús fyrir, þá yrði ég eiginlega að taka það næsta eða einhvern hátt sambærilegt hús fyrir o.s.frv. Svo fór ég reglulega í myndagöngutúra og hjóltúra til að bæta við. Svo hefur maður gegn um þessi fjögur ár uppgötvað ýmislegt, t.d. fékk ég bókina um Sveinbjörn Jónsson í afmælisgjöf frá foreldrum mínum og bræðrum í júní 2010 og hóf þá að mynda húsin hans og fjalla um þau. Svo uppgötvaði ég vorið 2011 að Glerárþorp hafði alveg orðið útundan hjá mér og við það mátti ekki sitja...OG SVO FRAMVEGIS. Hús dagsins eru að öllu jöfnu á Akureyri, en ég hef einnig stöku sinnum tekið fyrir hús í Reykjavík, Eyjafjarðarsveit og Stykkishólmi og síðsumars og í haust var Ísafjörður til umfjöllunar hjá mér.  En á ég eftir eitthvað af húsum en ég get þó sagt að ég er nokkurn veginn farinn að sjá hvar ég get farið að setja punktinn við þessa pistla. Eftir Eyrarlandsveginn eru nokkur hús í Innbænum og Eyrinni og einhver býli í Þorpinu og þá held ég að sé hægt að segja þetta gott- allavega í þessu formi. Svo er spurningin hvað svo? Margir hafa hvatt mig til að koma þessu í bók, svo er mögulega hægt að setja þetta í einhvern gagnagrunn en svo verður þetta auðvitað alltaf hér. Einnig hefur mér dottið í hug að kannski taka fyrir götu og götu í stað einstakra húsa og hugsanlega "kovera" stóran hluta Akureyrarbæjar þannig! En það kemur bara í ljós þegar þar að kemur. En hér er smáræðis tölfræði og punktar varðandi Hús dagsins:

Tölfræðiágrip Húsapistlarnir eru orðnir 200, skrifaðir frá 25.júní 2009 til 15.mars 2013. Í sumum pistlum hef ég fjallað um fleiri en eitt hús, svo húsin sem ég hef fjallað um eru sennilega nálægt 250.

Hver pistill tekur mig þetta hálftíma-klukkutíma í skrifum. Mestur tíminn fer oft í að fara yfir villur eða koma setningum saman svo þær verði sem best skiljanlegar. Svo getur stundum verið hábölvað að koma myndum almennilega fyrir. Ef við segjum að ég sé þá að meðaltali 45 mínútur þá gera það alls 9000 mínútur sem ég hef setið við skriftir. Það eru 150 klukkustundir eða tæpar 4 vinnuvikur!

Nokkur meginviðmið Ég reyni að hafa færslurnar styttri en lengri. Byggingarár kemur alltaf fram, hver byggði eða teiknaði en einnig stutt lýsing á húsinu og umhverfi þess, hversu margar íbúðir og yfirleitt nefni ég það ef hús lítur vel út og ef það hefur verið gert upp. Ég sé hinsvegar enga ástæðu til þess að minnast sérstaklega á það ef húsi er illa viðhaldið eða lítur illa út, þá verða bara myndirnar að tala sínu máli!

Ég leyfi mér stundum að geta í eyðurnar í sögu húsa út frá byggingarlagi eða frágangi eða þess háttar. Ég nota mikið orðin "sennilega" og "líklega" sem varnagla um að láta ekki út einhverja bölvaða vitleysu og svo fletti ég upp í þeim bókum sem ég hef tiltækar. Ef það er eitthvað sem mér finnst vafasamt þá sleppi ég frekar að hafa það með- sbr. "regluna" mína um styttri en lengri pistla. Svo treysti ég að hluta til á það sem ég man sjálfur í sambandi við húsin. Það dugar vægast sagt skammt enda má nærri geta um hversu ójafnan leik er að ræða þar sem ég er ekki fæddur fyrr en 1985 og húsin sem ég fjalla um oftast ekki bara mörgum áratugum heldur margfalt eldri en ég!

Ég er ekki að skrifa þessa pistla sem fræðimaður heldur áhugamaður, enda hef ég enga prófgráðu á þessu sviði. Enda uppfylla þessir textar og vinnubrögðin við skriftir ekki kröfur til fræðilegs frágangs og vinnubragða, og það svosem ekki ætlunin. Hér eru bara myndir af húsunum , kynning og ágrip af lýsingu og sögu þeirra í bland og hugsanlegar getgátur frá mér um söguna- ekki tæmandi fræðilegt söguyfirlit.

Ég reyni að hafa umfjöllunina hlutlæga- ég er ekkert að segja hvort hús séu ljót eða þess háttar eða blanda því inní umfjöllunina hvað mér finnist í sambandi við húsin. Frá þessu er skýlaus undantekning:  Ég get þess að sjálfsögðu ef hús líta vel út eða þau hafa verið gerð upp eða haldið við á glæsilegan hátt Smile.

Myndirnar á síðunni Ég nota eingöngu eigin ljósmyndir á þessa síðu og engin þeirra, hvorki fyrr né síðar, hafa farið gegn um Photoshop. Þær fara bara inn eins og þær koma af "beljunni". Ef ég notast við aðrar ljósmyndir þá er það gegn um tengla á aðrar síður. Myndavélin sem allar myndirnar frá 2006 eru teknar er hvorki dýr né merkileg; Olympus Fe120, keypt í mars 2006 í Hagkaup!

Viðbrögð við pistlum. Ég hef nánast eingöngu fengið jákvæð viðbrögð frá lesendum ,flestir mjög ánægðir með þetta framtak. Ég hef ekki fengið eitt einasta "yfirdrull" a.m.k. ekki á þessum vettvangi enda efnistökin svosem hvorki viðkvæm né umdeild.

Af hverju vísa ég stundum í heimildir og stundum ekki? Ein meginregla. Ef ég þarf að fletta uppí bók eða vefsíðu við vinnslu pistils þá gef ég upp heimildaskrá í lok pistils. Vísa í blaðsíðu ef heimild er mjög sértæk t.d. frásögn af einstaklingi eða gömul mynd í bók. Margir pistlar eru skrifaðir beint eftir minni, það sem ég man eftir lestur margra bóka gegn um tíðina og ef ég get ekki heimilda þá bara einfaldlega man ég þessar upplýsingar utanað! Svo hefur margt sem fram kemur hér á síðunni aldrei ratað í bók heldur er eitthvað sem ég hef heyrt t.d. í Sögugöngum sem ég hef stundað h.u.b. hvert sumar frá 1997!

Af hverju get ég þess alltaf ef hús líta vel út en minnist aldrei á ef þau eru í niðurníðslu eða er illa við haldið? Myndirnar verða bara að tala sínu máli ef hús líta illa út. Mér finnst sjálfsagt að einblína á það jákvæða og minnast á það sem er vel gert í viðhaldi gamalla og skrautlegra húsa. En ég er enginn húsaviðhaldslögga og mér finnst ég ekkert eiga með að setja út á hvernig húseigendur hirða um eigur sínar. Oft eru einhverjar ástæður þar að baki og auðvelt að gagnrýna án þess að setja sig inn í málin. Ég minnist á það sem vel er gert- en finnst hitt einfaldlega óþarfi, það er víst alveg nægt framboð af efni þar sem einblínt er á það neikvæða. 

Og hér eru tenglar á alla 200 Húsapistlana:  

http://www.arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/1266657/


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 16. HÚS DAGSINS NR.200 !

P2230066Mér telst til að þetta sé húsapistill númer 200- en ég ætla ekki að dvelja við það hér, bendi á næstu færslu sem er svona "tímamótapistill" En við höfum verið á ferðinni upp Eyrarlandsveginn síðustu daganna og vikurnar og næst er það hús númer 16. En Eyrarlandsveg 16 reisti séra Friðrik Jónasson Rafnar víglsubiskup árið 1928. Ekki er mér kunnugt um hver teiknaði húsið en sá hefur verið mikill smekkmaður enda húsið æði skrautlegt og íburðarmikið. En Eyrarlandsvegur 16 er ekki ósvipað næsta húsi neðan við að stærð og lögun, gæti jafnvel ímyndað mér að þau séu eftir sama teiknara. Húsið er einlyft steinsteypuhús á kjallara og með háu misbröttu eða brotnu risi með gaflsneiðingum og litlum kvistum efst á göflum. Einlyft bakbygging aftan hússins en ekki er mér kunnugt um hvort hún er upprunaleg eða seinni tíma viðbygging. Stór miðjukvistur er á húsinu og ásamt voldugri forstofubyggingu og svalir ofan á henni framan kvists. Krosspóstar eru í gluggum. Húsið hefur að ég held alla tíð verið einbýlishús og hefur sennilega hlotið frábært viðhald frá fyrstu tíð- allavega lítur það stórglæsilega út. Lóðin er stór og vel hirt og eins og húsin við Eyrarlandsveg stendur húsið hátt ofan götu. Þessa mynd tók ég laugardaginn 23.febrúar sl.


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 14

Enn held ég áfram umfjölluninni um Eyrarlandsveg og nú er það hús nr. 14. P2230061En það reistu hjónin Sveinn Þórðarson og Sigurlaug Vilhjálmsdóttir árið 1928. Eyrarlandsvegur 14 er einlyft steinsteypuhús með háu risi og á háum kjallara og með háu risi og miðjukvisti. Ris er misbratt eða brotið, brattara að og gaflsneitt; efri hluti riss má segja að sé hálfgert valmaþak. Stór miðjukvistur er framan á húsi og inngönguskúr með skrautrúðu á suðurhlið og svalir ofaná. Ekki er mér kunnugt um teiknara hússins en húsið hefur greinilega átt að vera glæsilegt og íburðarmikið- sem það og er. En Eyrarlandsvegur mun hafa verið gata efnafólks á þessum tíma og húsin stærri og veglegri en gekk og gerðist annars staðar í bænum Gluggar eru tiltölulega stórir- líklega hugsað til þess að veita sem mestri birtu inn og gluggapóstar á framhlið margskiptir. Sennilega  hefur  húsið fengið gott viðhald alla sína tíð og þannig náð að halda sínum upprunalegu einkennum gegn um tíðina. Allavega er húsið í frábærri hirðu og setur skemmtilegan svip á umhverfið. Ein íbúð er í húsinu og hefur líkast til alltaf verið svo. Þessi mynd er tekin 23.feb. 2013.


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 12

Í síðasta pistli vorum við stödd neðst í Eyrarlandsvegi og mun ég halda mig þá götu, en ég stökk út og myndaði hana fyrir rúmum tveimur vikum.P2230059 Næstu vikurnar munu því birtast pistlar um húsin í Eyrarlandsvegi upp af Hrafnagilsstræti. En húsið á meðfylgjandi mynd fagnar níræðisafmæli á þessu ári, eins og raunar mörg steinsteypt stórhýsi hér í bæ. En Eyrarlandsveg 12 reistu þeir Einar Jóhannsson og Ásgeir Austfjörð árið 1923. Bjuggu þeir ásamt fjölskyldum sínum hvor á sinni hæð í húsinu um áratugaskeið. En húsið er háreist tvílyft steinsteypuhús með háu risi og á háum kjallara, jafnvel svo háum að álitamál mætti teljast hvort húsið er tvílyft eða þrílyft. Tvær bakbyggingar ganga út úr húsinu og aftast er lítill inngönguskúr með svölum á þaki. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og síðastliðin ár hafa verið þrjár íbúðir í húsinu, á kjallara, á 1.hæð og 2.hæð og risi. Húsið er í góðu standi og glæsilegt að sjá og setur skemmtilegan svip á stórglæsilega götumynd Eyrarlandsvegar. Lóðin er gróin og einnig til mikillar prýði. Þessi mynd er tekin 24.feb. 2013.


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 8; Æsustaðir.

Eyrarlandsvegur er ein af þessum áberandi og glæsilegu eldri götum Akureyrar, P2230070heitir eftir stórbýlinu Eyrarlandi * sem lagði til stóran hluta bæjarlands Akureyrar sunnan Glerár. Gatan liggur frá Akureyrarkirkju og klífur á brekkubrúninni til suðurs uppá barma Barðsgils ofan  Samkomuhússins og heldur svo áfram framhjá Menntaskólanum og Lystigarðinum að Sjúkrahúsinu, þar sem Spítalavegurinn steypist niður í Innbæinn. Húsin við þá götu eru nokkur þeirra sem hafa verið á lista hjá mér yfir einhver sem ég verð að taka fyrir á þessari síðu og laugardaginn 23.febrúar sl. brá ég mér í göngutúr og myndaði neðri hluta götunnar en þar heilsteypt torfa stórra skrautlegra steinsteypuhúsa frá 3.áratug 20.aldar, auk þessa 107ára timburhúss neðst við götuna, gegnt Akureyrarkirkju.

 Þetta er Eyrarlandsvegur 8, einnig kallað Æsustaðir. Húsið er það þriðja elsta við Eyrarlandsveginn á eftir Sigurhæðum(110) og Gamla Skóla(109) það er reist árið 1906 af Jóni Guðmundssyni en fljótlega eignaðist Pálmi Jónsson húsið og bjó þar lengi. Hann var frá Æsustöðum og þaðan fékk húsið nafnið. Eyrarlandsvegur 8 er tvílyft timburhús með lágu risi og á tiltölulega háum steinsteyptum kjallara.

P2230060

Húsið er raunar tvær álmur og grunnflöturinn vinkillaga, önnur snýr meðfram götunni  í N-S en hin er talsvert mjórri og snýr í A-V. Húsið er klætt steinblikki og bárujárni á þaki og þverpóstar eru í gluggum. Á inngangi á suðurenda og horni eru bogadregnir dyraumbúnaður og bogadregnir gluggarammar á hæð fyrir ofan-hugsanlega hafa einhverntíma verið skrautrúður þar. Hugsanlega hefur húsið upprunalega aðeins verið þessi eina fremri álma og bakbygging komið seinna. Það er virðist nefnilega algengara en hitt þegar þetta gömul hús eiga í hlut að þeim hafi verið breytt eða byggt við þau- enda má nærri geta hversu mikið kröfur fólks  til húsnæðis hafa breyst frá t.d. árinu 1906! En Eyrarlandsvegur er traustlegt og vel við haldið hús og unhverfi þess einnig en húsið stendur á gróinni og stórri lóð. Nú munu vera tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Sem fyrr segir eru þessar myndir teknar þ. 23.febrúar sl.

*Í færslunni sem tengillinn um Eyrarland vísar á tala ég um færslu um Lystigarðinn innan fárra vikna. Færslan er frá september 2011 og eftir 18 mánuði er engin færsla komin Blush. Ég býst hinsvegar við því að fara í Lystigarðinn í sumar og mynda og birta þá langþráða  Lystigarðsfærslu!

Heimildir:

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Hús dagsins: Glerárgata 1.

Um áratugaskeið, var núverandi hluti Þjóðvegar 1 í gegn um Akureyri, Glerárgatan aðeins ein af þvergötum Strandgötu líkt og Lundargata, Norðurgata og Grundargata. P1120045lengi vel lá þjóðleiðin um Hafnarstræti og Aðalstræti og upp Brekkugötu, ofan SíS verksmiðjanna og yfir elstu brúna á Glerá, skammt neðan stíflunnar. Við síðasta áfangan á breikkun Glerárgötunnar uppúr 1980 viku mörg eldri hús við Glerárgötuna og nú standa aðeins örfá eftir neðan Grænugötu. Glerárgata 1 er eitt þeirra sem eftir standa en hús nr. 3, sem var tvílyft hús með lágu risi vék ekki fyrir breikkun götunnar, en var hinsvegar rifið 2004. Glerárgata 1 er byggð um 1900, einlyft timburhús á háum steyptum kjallara með háu portbyggðu risi og miðjukvisti af nokkuð dæmigerðri gerð timburhúsa frá þessum tíma. Á bakhlið er stigabygging og inngönguskúr á suðurgafli. Á bakhlið er einnig minni kvistur með hallandi þaki. Húsið er einbýlishús og hefur líkast til verið síðastliðna áratugi en ekki er ósennilegt að á fyrri hluta 20.aldar hafi nokkrar fjölskyldur búið í húsinu í einu. Það var t.d. ekki óalgeng skipting í húsum af þessari gerð að tvær fjölskyldur byggju í hvor í sínum enda rishæðar og aðrar tvær í sitt hvorum enda hæðar. Kvistir voru oft gerðir á ris og rishæðum stundum lyft til að rýmka en í tilfelli þessa húss er það ekki raunin. Ég er reyndar ekki klár á því hvort kvistur er upprunalegur eður ei. En Glerárgata 1 er stórglæsilegt bárujárnsklætt timburhús og sómir sér ágætlega á einum fjölförnustu gatnamótum Akureyrarkaupstaðar. Frá áramótum mun húsið vera friðað en þá tóku í gildi ný lög þar sem öll hús eldri en 100ára eru friðað. Þessi mynd er tekin 12.janúar 2013.


Hús dagsins: Fróðasund 3

P1120046Ef talað er um "stór nöfn" í húsbyggingasögu Akureyrar á fyrri hluta 20.aldar er Tryggvi Jónatansson einn þeirra. Hann var um langt árabil byggingafulltrúi hér í bæ og teiknaði mörg hús í fúnkísstíl þegar hann var allsráðandi um 1935-50. Ægisgatan er t.d. að mestu leyti teiknuð af Tryggva. En þetta hús, Fróðasund 3, sem stendur aðeins fáeina metra frá Þjóðvegi 1 í gegn um Akureyri, Glerárgötu, er meðal fyrstu verka hans. En húsið var reist árið 1925 af Jónasi Hallgrímssyni. Ekki var það nú listaskáldið góða úr Öxnadal , (enda var þetta tæpri öld eftir hans dag) en þessi sami mun hafa reist Gránufélagsgötu 29 nokkrum árum fyrr. Fróðasund 3 var upprunalega einfalt og látlaust hús, einlyft steinsteypuhús með háu risi og mjög lágum grunni. Árið 1966 var húsinu breytt töluvert, byggt við það einlyft inngöngubygging á bakhlið auk bílskúrs og flatir kvistir á fram og bakhlið, einfaldur á bakhlið en sá á framhliðinni nær eftir allri þekjunni og munar raunar ekki nema nokkrum centimetrum að telja megi að risi hafi verið lyft. Kvisturinn mikli er mjög ráðandi í svipgerð hússins og dökkur litur undirstrikar það mjög. Í Oddeyri; Húsakönnun eru kvistir og viðbygging sögð bera húsið ofurliði. Líklegt þykir mér að ris hafi ekki verið innréttað sem íbúðarrými áður en kvistir voru byggðir og þáverandi íbúar hafi viljað stækka húsið um helming. Nú er húsið einbýli og hefur verið lengi. Húsið lítur vel, kvisturinn mikli gefur því mjög sérstakan svip. Það sómir sér ágætlega á þeim "opinbera" stað sem það stendur á, við fjölförnustu götu bæjarins og Þjóðveg 1, allir sem keyra beinustu leið gegn um Akureyri til eða frá Miðbæ eða gegn um bæinn sjá þetta hús. Umhverfi þess er líka í góðri hirðu, lóð er stór (á mælikvarða elsta hluta Oddeyrar) og vel gróin reynitrjám og ýmsum gróðri. Þessi mynd er tekin 12.janúar 2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Kal á túnum og grasflötum

Ég segi hérna einhversstaðar að ég muni skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars. Nú ætla ég að sýna smá viðleitni í að standa fyrir máli mínu því hér hef ég nánast eingöngu birt Húsapistla í allavega hálft ár. Ef undan er skildar nýjárs - og jólakveðjur. Hér ætla ég því að ræða aðeins um kalskemmdir. En nú þegar farið er að líða á veturinn eru margir spenntir eða kannski öllu heldur uggandi um það hvernig tún og grasflatir munu koma undan vetri. Þessi vetur a.m.k. hér norðanlands hefur nefnilega verið einstaklega slæmur hvað varðar hættu á kalskemmdum. Snjór hefur verið yfir meira og minna samfleytt frá því í nóvemberbyrjun og jafnvel fyrr og um jólaleytið kyngdi niður snjó. Síðan hefur hitastigið mikið til rokkað um og yfir núllið- sem aftur veldur því að snjórinn bráðnar og frýs á víxl og það sem áður var tuga centimetra jafnfallinn snjór er nú oftar en ekki orðinn "massívur" svellbunki. Til eru margar gerðir kalskemmda en svellkal er einmitt sú gerð sem oftast hrjáir grasflatir. Í stuttu einföldu máli verður svellkal til þannig að grösin anda undir svellinu og gefa frá úrgangsefni á borð við koldíoxíð, etanól og mjólkursýru. Enda þótt grösin nái að anda geta ekki komist í burtu gegn um svellið og grösin beinlínis kafna í eigin úrgangsefnum. Þegar snjóa leysir á vorin eða í löngum þíðuköflum kemur þessi súrbeiska lykt af sverðinu, sumir kalla hana vorlykt eða sveitalykt en einnig kallast hún lokalykt. Sú lykt verður til við efnabreytingar þegar úrgangsefnin og sem grösin anda frá sér komast í tæri við súrefni og það myndast  allskonar "viðbjóður". Það er ekki svo að grös þoli ekki að liggja undir svelli, en þegar þetta er orðið langur tími eða meira en þrír mánuðir þá er veruleg hætta á kalskemmdum. Þegar þetta er ritað hafa sumar grasflatir og tún legið undir snjó og svelli frá því í október eða fjóra mánuði og mikla og langvarandi hláku og ausandi rigningu með þarf til að losa mestu svellin! Mér dettur þetta í hug því á laugardaginn átti ég leið framhjá íþróttavelli hér í bæ þar sem veghefill var á ferðinni fram og aftur; líklega til að láta lofta um grasflötina. Og þar gaus upp einhver sú megnasta lokalykt sem ég hef nokkurn tíma fundið- þetta minnti á kæsingarlykt. Þannig að það hafði greinilega nóg af efnum safnast fyrir undir svellinu, en vonandi að þetta sleppi til. Kalskemmdir eru nefnilega ekkert grín og íþróttavellir, tjaldflatir og golfvellir eru töluvert viðkvæmari fyrir þeim heldur en beitartún.  


Hús dagsins: Gránufélagsgata 20

Eitt elsta hús sem enn stendur við Gránufélagsgötu verður 105 ára á þessu ári. Það stendur á horni hennar og Hríseyjargötu, skáhallt á móti síðasta Húsi dagsins, Gránufélagsgötu 29. P1120043En það er þetta hús, Gránufélagsgata 20. Húsið, eða öllu heldur eystri hluta þess reistu systurnar Anna og Kristbjörg Kristbjarnardætur árið 1908. Ekki þekki ég til nánar til sögu þeirra en þær hafa eflaust verið miklar kjarnakonur; það var allavega sjaldgæft á þessum árum að konur stæðu einar í húsbyggingum.  Mér hefur sjálfum fundist lagið á þessu húsi minna svolítið á skó eða stígvél, en húsið er einlyft að hluta og tvílyft að hluta og stendur á háum hlöðnum kjallara. Eystri hlutinn, sá eldri er einlyftur úr timbri með háu risi og tveimur smákvistum en vestari endinn er tvílyftur með lágu risi, nánast ferningslaga að grunnfleti og mun sá hluti hússins steyptur. Vesturendinn, sem er hálfpartinn eins og  kastalaturn er viðbygging frá 1927. Kjallari hússins er hár og djúpur og vel gæti ég trúað að hann hafi einhverntíma á þessari rúmu öld hýst einhvern iðnað eða verkstæði eða verslun. En á fyrri hluta 20.aldar voru skil milli iðnaðar- og íbúðarhúsnæðis ekki heilög, raunar var algengast var að  iðnaðarmenn eða verslunarmenn sem vour einyrkjar stunduðu vinnu sína og byggju í sama húsinu. Síðustu áratugina hefur húsið allavega verið íbúðarhús, nú eru líklega þrjár íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð í austurenda og ein í vesturhlutanum. Þegar Húsakönnun Guðnýjar Gerðar Gunnarsdóttur var unnin fyrir um tveimur áratugum voru fjórar íbúðir í húsinu. Húsið er í góðu standi og setur mjög skemmtilegan svip á umhverfi sitt, enda svolítið óhefðbundið í laginu. Þessi mynd er tekin 12.jan 2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. 


Hús dagsins: Gránufélagsgata 29

Um Gránufélagsgötuna hef ég nokkrum sinnum fjallað hér á þessari síðu, en númeraröðun húsa er svolítið sérstök- svo ekki sé meira sagt.P1120044 En næst neðan Norðurgötu stendur hús númer 27 en þar neðan við er síðan Sambyggingin, sem er númer 39-41 og þar neðan er Gránufélagsgata 43, sem er samskonar hús, nema bara einn hluti af tveimur eða þremur. Húsin standa í aldursröð, byggð 1926 (nr.27), 1929 og 1930. En neðan við 43 má segja að þráðurinn sé tekinn upp að nýju því þar stendur Gránufélagsgata 29- sem sést hér á myndinni.

En Gránufélagsgötu 29 reistu þeir Aðalsteinn Þórðarson og Jónas Hallgrímsson árið 1917. Það er einlyft timburhús með portbyggðu háu risi á háum og mjög svo verklegum steyptum kjallara, en veggir kjallara standa á að giska 30 cm út fyrir veggi. Krosspóstar eru í gluggum. Árið 1924 var húsið stækkað, byggð mjó einlyft bygging með skúrþaki við bakhlið og forstofuskúr á austurgafl. Líklega hefur steinblikkklæðningin sem nú er einnig komið þá en vel má vera að hún hafi verið frá upphafi, ekki viss hversu snemma Gunnar Guðlaugsson húsasmiður  var farinn að flytja hana inn en það var í kringum 1920. Líklegt er talið að húsinu hafi við þessar breytingar einnig verið lyft eða hnikað til og þá steyptur undir nýr grunnur. Á svipuðum tíma voru einnig eldri hús við Norðurgötu 11 og 13 gerð upp og m.a. sett á hærri kjallara. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og lengst af einbýli en vel getur verið að því hafi á fyrri hluta tuttugustu aldar verið skipt í fleiri íbúðir og leiguherbergi. Húsið virðist í góðu standi og vel við haldið og er til prýði í götumynd Gránufélagsgötu- þar sem gætir mikillar fjölbreytni í húsagerð. Lóðin er einnig nokkuð stór miðað við nærliggjandi lóðir og er hún vel gróin. Þessi mynd er tekin laust fyrir hádegi sunnudaginn 12.janúar 2013.

Sem áður segir er húsið byggt 1917. Það er því nokkru eldra en húsaröðin fyrir ofan, sem er reist eftir Aðalskipulagi frá 1927. Hugsanlegt er að samkvæmt skipulaginu hafi átt að stokka upp númerakerfinu og hús nr. 39-43 reist eftir því kerfi. En síðan fór það nú svo að ekki var byggt meira eftir þessu skipulagi (utan Strandgata 37) og þ.a.l. númeraröðinni ekki breytt né heldur númer nýju húsanna leiðrétt. Það er alltént sú kenning sem ég hef oftast heyrt mögulega talin líklegust en annars hef ég ekki lesið það í neinni bók eða rekist á nokkurn sem veit með vissu hverju þessi númeraröð sætir! Ekki veit ég til að nokkurn tíma hafi staðið til að leiðrétta þetta. Ég hefði sagt að úr því sem komið er ætti alls ekki að hrófla við þessari númeraröðun vegna aldurs og hefðar; þetta ætti beinlínis að njóta friðunar. Veit að pizzasendlar og póstberar sem hafa senst í Gránufélagsgötuna eru e.t.v. ekki sammála mér þarna Smile

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Að ógleymdum munnlegum heimildum úr ýmsum áttum í Sögugöngum um Oddeyrina, sem ég hef stundað frá sumrinu 1997.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • P6171048
  • IMG_2893
  • IMG_2889
  • IMG_3045
  • P6171046

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 457
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 304
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband