Færsluflokkur: Bloggar

Hús dagsins frá upphafi II

Fyrir um hálfu ári síðan birti ég lista eða efnisyfirlit yfir Hús dagsins færslur frá því ég byrjaði á þessum skrifum 22.6.2009. Eitthvað hefur bæst við og hér eru þeir pistlar:

Oddeyri

Gránufélagsgata 18

Grundargata 6; Hjaltalínshús

Hríseyjargata 3  (ATH. Er í fyrirsögn ranglega sagt nr.5)

Hríseyjargata 5

Lundargata 12; Gamli Iðnskólinn

Norðurgata 1

Norðurgata 3

Norðurgata 26

Norðurgata 31

Strandgata 19

Brekka

Eyrarlandsstofa

Fjósið

Helgamagrastræti 6

Munkaþverárstræti 1

Þingvallastræti 2

 

Innbær

Hafnarstræti 63; Sjónarhæð

Lækjargata 7

Lækjargata 9 og 9a

Lækjargata 18 og Lækjargata 22

Glerárþorp

Lundeyri, Sandvík, Brautarholt.

Skarðshlíð 36-40, Undirhlíð 3

Frá 8.maí eru þetta 21 pistill. Hér eru allir pistlar húsapistlarnir frá 22.6.2009 til maí 2011, alls 112. Þannig eru "Hús dagsins" pistlarnir orðnir 133, og skiptast þannig á milli staðsetningar:

  • Innbær 52 pistlar,
  • Oddeyri 38 pistlar,
  • Brekka 18 pistlar
  • Miðbær 15 pistlar,
  • Glerárþorp 7 pistlar

og utan Akureyrar eru 5 pistlar. 1 pistil hef ég skrifað um hús sem búið er að rífa.


Lauf á reynitrjám á Eyrinni 23.okt. 2011

Á haustin, eins og alkunna er, fara lauf trjáa að gulna og sölna og verða á endanum rauð eða rauðbrún og á endanum falla þau. En það gerist alls ekki samtímis hjá öllum trjám eins og meðfylgjandi myndir bera með sér, en þær  eru allar teknar í dag á svipuðum slóðum á Oddeyrinni og Miðbæ Akureyrar.   Þetta eru Ilmreynitré (Sorbus aucuparia ). Sum tré eru nánast algræn á meðan önnur hafa fellt öll lauf. Ef út í það er farið, eru margir þættir sem hafa áhrif á lauffall trjáa, bæði í umhverfinu og erfðum trjánna. En hér eru nokkrar myndir.

PA230023 PA230021

PA230019

Og hér er til samanburðar, mynd úr Innbænum sem er tekin fyrir nákvæmlega ári, 23.okt. 2011 við Aðalstræti 36. Þarna er reynitrén aðeins farin að gulna örlítið en hinsvegar er jörð hvít, ólíkt því sem er í dag:

pa230007.jpg


Nokkur "listaverk"

Eitt af því sem ég hef gaman af er að rissa myndir á blað. Þá er sjaldnast um mikla eða merkilega listsköpun að ræða. Onei, yfirleitt gríp ég þá bara blýant, tússliti eða penna og krota á A4 blað og er svona korter-hálftíma. En sumt af þessum "listaverkum" mínum hef ég ljósmyndað og hyggst deila hér.

P7250042

Hér eru tveir karlar að drekka kaffi saman. Út um eldhúsgluggan gætu glöggir greint Súlutind, Akureyrarkirkju og hús á Brekkunni. Þetta er skrúfblýantsteikning frá janúar 2009. Mér finnst oft ágætt að teikna með skrúfblýanti, hann er fínni en hefðbundinn blýantur.

PB080071

Pallbíll af óræðri gerð á ferð um sveitaveg. Framsvipurinn svipar til Land Rover Defender en annað lag bílsins er sótt í Nissan Double Cab eða Mitsubishi L200 eða þess háttar bíla. Ekki er þetta neitt sérstakt umhverfi en sjálfsagt eru mörg áþekk útihús víða. Þetta er skrúfblýants, penna og vatnslitamynd, teiknuð 2009.

P8130020

Þetta ágæta fjall á þessari tússlita- og kúlupennateikningu þarf nú varla að kynna...en að sjálfsögðu á þetta að vera Herðubreið og Herðubreiðarlindir.

P8130021

Hús dagsins? Þarna hafði ég í huga norsk timburhús frá aldamótum 1900, og sjálfsagt minnir þetta mikla timburhús einhverja á Gamla Skóla. En svona verða margar teikningarnar mínar til, maður sækir kannski fyrirmyndir í raunveruleg hús, bíla eða fjöll og skapar svo eitthvað út frá því.

 


Hús dagsins: Þingvallastræti 2

Þingvallastræti er ein af lengri götum Akureyrar og ein aðalgatan gegn um Brekkuna. Hún byrjar á gilbrúninni við Sundalaugina og nær upp að Súluvegi við athafnasvæði BM Vallár (Malar og Sands til áratuga), rétt ofan við Lund og telst líklegast enda við brúnna yfir Glerá neðan Réttarhvamms, þar sem Hlíðarbraut byrjar hinu megin við brúna. P8210310Gatan er rétt innan við 2km á lengd. Helstu þvergötur sem Þingvallastrætið skera eru Þórunnarstræti, Byggðavegur, Mýrarvegur, Dalsbraut og efst gengur Skógarlundurinn suður úr götunni. Elstu hús götunnar eru neðst, byggð á 4.áratugnum, mikið til tvílyft steinhús með risi, á borð við húsið á myndinni hér, en ofan Þórunnarstrætis eru yngri hús, frá 1945-60, en ofan við Mýrarvegin standa fjölbýlishús og verslunarhús byggð 1970-80. 

En húsið á myndinni, Þingvallastræti 2 stendur neðst við götuna á barmi Grófargils (eða Gilsins eins og það kallast í daglegu tali). Það er byggt 1928 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Er húsið einlyft steinsteypuhús með risi á kjallara, byggt í tveimur álmum, önnur sem gengur austur-vestur (samsíða Þingvallastræti) og hin er mjórri og gengur norður-suður. Sú álma má heita að sé tvílyft en rishæð er brotin (mansard) þ.e. er neðri partur riss mjög brattur en efri hluti aftur aflíðandi og aðeins "efra risið" er yfir vesturálmunni. Húsið er byggt í sk. gullaldarstíl eða klassíkisma en helstu einkenni hans eru stórir og margpósta gluggar og skraut á stafnbrúnum, sem svipar til jugendstíls. Ekki er ég sérfróður um byggingargerðir* en ég myndi halda að þessir byggingarstílar séu náskyldir. En Þingvallastræti 2 er stórglæsilegt og svipmikið hús, sem er í góðri hirðu, sem og umhverfi þess. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en ég er ekki viss hvort húsið sé einbýli eða tvíbýli. Þessi mynd er tekin 21.ágúst 2011.

Heimildir: Bragi Guðmundsson (2000): Grenndarfræði. Í Bragi Guðmundsson (ritstjóri) Líf í Eyjafirði. Akureyri: Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri.


Siglufjörður fyrir réttu ári, aldeilis ekki hvítt.

Ég hef oft gaman af því að skoða veðurfar milli sömu eða svipaðra dagsetninga. Október er einmitt mjög skemmtilegur mánuður hvað það varðar, en hann getur boðið uppá allt "gallerýið" af íslenskum veðrum, stundum getur verið sól og 2ja stafa hitatölur  en einnig miklar stórhríðir og frost. Þessar myndir eru teknar á Siglufirði fyrir nákvæmlega 52 vikum, sunnudaginn 10.október í fyrra (10.10.´10) - og þá var sko alls ekki hvít jörð, heldur sól og heiðskírt og hvort að hitinn var ekki 10-12°C. Allavega var maður á skyrtunni

PA100052  PA100051 

Efri myndirnar tvær eru teknar við útskot skammt neðan gangnamunna Héðinsfjarðarganga og horft yfir á Siglufjörð. Og eins og glögglega má sjá á undirrituðum á vinstri myndinni, þá var "skyrtuveður" þennan dag. Neðri myndin er tekin hinu megin við fjörðinn, rétt ofan við bæinn. Tindarnir tveir á miðri mynd heita Staðarhólsfjall og Hestskarðshnjúkur, sá síðarnefndi um 850m en sá fyrrnefndi eilítið lægri.

PA100037


mbl.is Hvít jörð í Siglufirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Helgamagrastræti 6

P8210309Fúnkís var nokkuð ráðandi byggingarstíll í steinsteypuhúsum eftir 1930-35 og framyfir miðja öldina. Helgamagrastræti 6 er mjög gott dæmi um slíkt hús, en það er byggt 1937 eftir teikningum Þóris Baldvinssonar. Það er tvílyft steinsteypuhús, því sem næst ferningslaga að grunnfleti með horngluggum. Gluggar eru yfirleitt breiðari en á hæðina og póstar einfaldir, í þessum húsum voru krosspóstar og sexrúðugluggar fyrri tíðar víðs fjarri. Einhverntíma heyrði ég það, á þessum tíma væri fyrst farið að hugsa um stærð glugga og afstöðu herbergja til sólar og dagsbirtu við byggingu húsa. Hitt er annað mál, að notagildi var algjört lykilatriði við byggingu fúnkíshúsa. Hver einasti fermetri nýttur til fulls og ekkert óþarfa prjál. Helgamagrastræti 6 er eitt margra tveggja hæða fúnkíshúsa sem Þórir Baldvinsson teiknaði og voru reist 1936-37 fyrir starfsmenn KEA. Eru þetta á annan tug líkra húsa sem standa við efri hluta götunnar. Helgamagrastræti byggðist einmitt upp af þessum húsum, en þá var gatan sú efsta á Akureyri. Öll standa þessi hús enn, en sumum hefur verið breytt og byggt við eins og gengur og gerist. Númer 6 liggur nokkuð vel við myndatöku, en það virðist lítið breytt frá upphafi og auk þess er það vel sjáanlegt frá götu en mikill trjágróður er framan við mörg húsin við Helgamagrastrætið og mörg hálf hulin. (Ekki svo að skilja að það sé neitt neikvætt heldur þvert á móti, garðar með miklum trjágróðri eru mjög aðlaðandi!) Helgamagrastræti er önnur tveggja gatna þar sem er heilsteypt röð lítt breyttra fúnkíshúsa frá 1936-40, en hin er Ægisgata á Oddeyrinni, sem ég fjallað aðeins um hér. Hvort þessar götumyndir eru friðaðar veit ég ekki, en það væri eflaust athugunarvert.  Þessi mynd er tekin 21.ágúst 2011.


Haustlitir í Vaðlaheiði

Um helgina brá ég mér í  félagsútilegu Skátafélagsins Klakks í Vaðlaheiði, en þar á félagið skálan Valhöll. Við drifum mannskapinn að sjálfsögðu í gönguferð um nágrennið, þrátt fyrir hellirigningu og dálitla norðangolu. Að sjálfsögðu var myndavélin með í för og haustlitir voru í algleymingi. Berjalyngið rautt, grösin gulleit en ljónslappar og maríustakkar grænir. Það er nú einusinni þannig að í úrkomu skerpist öll litadýrð haustsins og hér eru nokkrar myndir, sem hver um sig segir auðvitað meira en 1000 orð!

P9240323  P9240328

P9240326  P9240325


Hús dagsins: Fjósið, íþróttahús MA

Þessi pistill hefði raunar átt að koma í beinu framhaldi af þessum hér sem birtist fyrir einu og hálfu ári síðan nánast uppá dag.P8090251 En á lóð Menntaskólans standa þessi tvö rúmlega aldargömlu timburhús, Gamli Skóli fremst, háreist og glæsilega bygging eitt stærsta timburhús Akureyrar. Þetta hér er öllu minna og látlausara og er kallað Fjósið. Húsið stendur á bakvið Gamla Skóla og er þar hálfpartinn í felum. Fjósið var reist árið 1905 sem leikfimihús fyrir Menntaskólann (eða Gagnfræðaskólann eins og hann var þá) en þá var upprunalega var húsið einn stór geymir. Árið 1910-12 var byggt við húsið tvílyft fordyri, sem og útbygging sunnantil, einlyft með risi. Í suðurbyggingunni voru salernisklefar en einnig rými fyrir kýr en þær sáu mötuneyti skólans fyrir mjólk, og þaðan kemur viðurnefnið Fjósið. Þannig var húsið raunar ekki fjós upprunalega heldur leikfimihús frá upphafi. Tvisvar hefur húsið verið tekið algjörlega í gegn 1944 og 1979 en í seinna skiptið fékk húsið það lag að innan sem það hefur enn. Síðast var byggt við húsið árið 1985 en það var einlyft bakbygging með skúrþaki. Upprunalega var þar vélageymsla en 2003 var þar innréttaður líkamsræktarsalur. Fjósið er þannig fjórar álmur, ein tvílyft með lágu risi (íþróttasalur) sem snýr N-S með jafnhárri forstofubyggingu til austurs. Suðurálman (búningsklefar) er einlyft með háu risi en einnig er einlyft bakbygging með skúrþaki vestan við. Húsið er bárujárnsklætt timburhús og hefur örlítil einkenni Sveitserhúsa, þó ekki fari mikið fyrir skrauti- en sperrutær eru útskornar. Þrátt fyrir að salur þessa 106ára húss sé örlítill miðað við nýmóðins íþróttahús eru enn kenndar íþróttir í  Fjósinu- og verður eflaust enn um ókomin ár. Þessi mynd er tekin 9.ágúst 2011.

Heimildir: Saga Menntaskólans á Akureyri, 4.bindi. (2008) Ritstj. Jón Hjaltason. Akureyri: Völuspá í samvinnu við Menntaskólan á Akureyri.


Hús dagsins: Grundargata 6; Hjaltalínshús

Grundargötu 6 reisti maður að nafni Jón Jónatansson árið 1903.P8240313Húsið er stórt einlyft timburhús með portbyggðu risi. Ris er af svokallaðri mansard gerð. Mansardi mætti sjálfsagt best lýsa þannig að risið sé á "tveimur hæðum", efra risið að mæni er aflíðandi en upp frá veggjum er risið bratt. Þannig er brot í risinu. En húsið var ekki svona í upphafi. Vitað er að árin 1915 og 1920 byggði þáverandi eigandi, Ólafur Ágústsson tvisvar við húsið og í millitíðinni 1918 var húsið virt og þá var það einlyft með portbyggðu risi og viðbyggingu sem hýsti verkstæði. (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995)  Árið 1920 er talið að húsið hafi fengið það lag sem það hefur nú en mér dettur í hug að þá hafi mansardþakið verið byggt ofaná einlyftu viðbygginguna. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, sennilega hefur fjöldi íbúða verið breytilegur gegn um tíðina, en síðustu áratugi hefur húsið verið einbýli. Ég hef heyrt húsið kallað Hjaltalínshús, en ekki kann ég söguna á bakvið það viðurnefni.

Ekki eru til lýsingar hvernig húsið leit út upprunalega, en á þessari mynd hjaltalinshus_upprunalegtutliter ég búinn að teikna líklegt útlit upprunalega hússins  gróflega miðað við rislínuna. Er þetta eina myndin hingað til sem ég hef birt hér sem eitthvað hefur verið átt við eða breytt. Annars koma allar myndir á þessa síðu eins og þær koma fyrir úr myndavélinni. Notaði ég ósköp einfalt teikniforrit, Paint (undir Accesories)  til verksins.  Þegar steinblikkklæðningu var flett af húsinu í ágúst sl. komu nefnilega í ljós útlínur upprunalega hússins, greinileg skálína á gafli og einnig má sjá lítinn glugga undir súð sem hefur verið lokað fyrir. Ég stökk auðvitað til og tók þessa mynd af húsinu.  Húsið var fyrir fáum árum farið að láta verulega á sjá en  eins og sjá má er húsið í gagngerum endurbótum, bæði að utan. Það stefnir allt í að þetta 108 ára timburhús verði hið stórglæsilegasta eftir endurbætur og verður spennandi að sjá afraksturinn. Þessi mynd er tekin 24.ágúst 2011.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

 


Gránar í fjöll

Það hefur verið kuldalegt útlitið hér norðan heiða síðustu daga. Grátt í fjöll, hitinn um þetta um 4° og norðangjóla. Menn hafa þurft að snúa við á Víkurskarði og við Mývatn hef ég heyrt að ekki hafi sést milli húsa og í útvarpinu var talað um að færð væri að spillast á Sprengisandsleið og Öskjuleið lokuð. Er haustið þá komið? Ég veit það ekki, en ég held að við eigum nú eftir að fá nokkra sumardaga, því það er jú enn sumar- september ekki hálfnaður og tvær vikur í haustjafndægur. Það þarf meira en smá hret til að það teljist haust!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • P6171048
  • IMG_2893
  • IMG_2889
  • IMG_3045
  • P6171046

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 24
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 481
  • Frá upphafi: 447398

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 324
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband