Færsluflokkur: Bloggar

Hús dagsins: Eyrarlandsstofa

P8090250Lystigarðurinn á Akureyri er einn af vinsælli áfangastöðum þeirra sem þeir sem heimsækja Akureyri. Þar eru þúsundir plöntutegunda, bæði innlendra plantna og erlendra skrautplantna og margt tjarna og gosbrunna- sá elsti frá því fyrir 1930.*  En Lystigarðurinn stendur í landi Stóra Eyrarlands, en mestallt land sem Akureyrarbær stendur á tilheyrði Eyrarlandi.  

Eina bæjarhús Eyrarlands sem enn stendur er íbúðarhús, stofa, byggð 1848. Er það einlyft timburhús með háu risi af algengri húsgerð þess tíma, áþekkt t.d. Aðalstræti 50 og 52 og Laxdalshúsi. Var það Geirþrúður Thorarensen sem átti býlið árið 1848 og sennilegast hefur hún reist húsið. Eyrarlandsstofa stendur enn í Lystigarðinum en eins og gefur að skilja lagðist búskapur af á Eyrarlandi snemma á 20.öld. Síðasti bóndinn á Eyrarlandi hét Jón Helgason en hann hóf búskap 1896 og hefur væntanlega búið í þessu húsi en hugsanlega hefur hann búið í gömlum torfbæ sem þarna stóð fram undir 1950. Eyrarlandsstofa hefur vissulega tekið miklum breytingum gegn um tíðina, húsið var tekið algjörlega í gegn að utan sem innan fyrir um 2-3 áratugum og er nú starfsmannaaðstaða fyrir Lystigarðinn. Að ytra byrði er húsið líkast til nálægt upprunanum, klætt timburborðum (súð) á veggjum og þaki og með sexrúðugluggum. Mér þykir reyndar líklegt að upprunalegir gluggar hafi verið minni. Þessi mynd er tekin á góðvirðisdegi, 9.ágúst 2011.

*Lystigarðurinn sem slíkur er auðvitað efni í sérstaka færslu. Ég tek það mál til athugunar og e.t.v. kemur pistill um hann innan fárra vikna :)


Hús dagsins: Lækjargata 18 og 22.

Efstu tvö íbúðarhúsin í Búðargili, og raunar efstu húsin, eftir að hesthúsin sem stóðu ofar voru rifin eru Lækjargata 18 og Lækjargata 22. P8210295Á lóð nr. 20 hefur ekki staðið hús í áratugi. En nr. 18 er rúmlega 130 ára gamalt, byggt 1880. Það er einlyft bárujárnsklætt timburhús á háum steinkjallara. Það hefur verið nokkrum sinnum við það, bæði einlyft bakbygging og svo hefur húsið einnig verið lengt til norðurs. Nú er húsið parhús og skiptist í 18 og 18a.  

 

 

 

 

Lækjargata 22 er mikið yngra hús, en það er byggt 1915, P8210296tvílyft timburhús með lágu risi. Það er einnig parhús, 22 og 22a en við það hefur einnig verið byggt mikið við gegn um tíðina.  Húsið er nú í gagngerum endurbótum en það var dálítið farið að láta á sjá að utan og sennilega hefur það líka verið komið á viðhald að innan. Það verður gaman að sjá hvernig húsið mun líta út að endurbótum loknum. Líkt og aðrar myndir úr syrpunni minni úr Búðargili eru þessar myndir teknar sunnudaginn 21.ágúst 2011.


Hús dagsins: Lækjargata 9 og 9a

Sunnanmegin í Búðargilinu, þar Lækjargatan er bröttust og þrengst standa þessi tvö látlausu timburhús, Lækjargata 9 og 9a. P8210294Þau eru bæði byggð á sama tíma, árið 1894 af þeim Hafliða Þorkelssyni og Jóhannesi Jónssyni- en í þeirri heimild (Akureyrarbók Steindórs) ég styðst við hér kemur þó ekki fram hvor þeirra byggði hvort húsið. Hugsanlega hafa þeir etv. byggt bæði húsin í sameiningu. En húsin voru reist í stað torfbæjar sem stóð þarna áður. En húsið næst á myndinni, hægra megin- stendur alveg uppvið götuna er Lækjargata 9. Það er einlyft  múrhúðað timburhús á háum steyptum kjallara með háu risi. Einlyft viðbygging er á vesturgafli og er hún með skúrþaki. Nýir sexrúðupóstar eru í gluggum- en þeir koma í stað þverpósta sem voru í gluggunum um áratugi. Sennilega voru þverpóstarnir settir um svipað leyti og húsið var múrhúðað. En þessi tíska, að múrhúða eða forskala eldri timburhús var móðins um miðja 20.öld. Um leið og hús voru forsköluð voru yfirleitt gluggapóstum skipt út og allt timburskraut-ef var til staðar- tekið burt. Númer 9a, stendur vinstra megin við nr.9 er einnig timburhús, einlyft með háu risi. Það er ekki stórt að grunnfleti, áberandi mjótt en svipað á lengdina og framhúsið Er það næsta lítið breytt að utan frá upphafi, á mynd frá 1915 lítur það nánast eins út og í dag. Þá, sem nú, var húsið panelklætt að utan og með krosspóstum í gluggum. Bæði húsin eru bæði í góðri hirðu og líta vel út. Þau standa á skemmtilegum stað og í grónu umhverfi lóðarinnar rennur Búðarlækurinn opinn. Bæði húsin eru einbýlishús og hafa líkast til alla tíð verið. Í Akureyrarbókinni kemur fram að niðjar Jóhannesar og Hafliða hafi búið í húsunum lengi vel eftir þeirra dag. Þessa mynd tók ég í ljósmyndaleiðangri um Búðargilið sl. sunnudag 21.8.2011.

Heimild: Steindór Steindórsson (1993.) Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Hús dagsins: Lækjargata 7

Í beinu framhaldi af umfjöllun og myndasyrpu úr Búðargili er rétt að taka fyrir nokkur hús sem þar standa, í Lækjargötu,P8210293 en sú gata liggur upp gilið frá Aðalstræti og kemur upp á Þórunnarstræti eða Höfðavegi,sem liggur að Kirkjugarði Akureyrar. Fyrir rúmum áratug var maður kominn uppí sveit þegar maður kom upp Lækjargötuna, því í beinu framhaldi af götunni var heimreiðin að býlinu Hlíð (fór reyndar í eyði um 1995, rifið 2001) og handan Þórunnarstrætis voru beitarlönd. Nú eru gatnamót Þórunnarstrætis og Miðhúsabrautar ofan Búðargils og þar Naustahverfi, sem byggst hefur upp eftir 2002.

En húsið hér á myndinni stendur hinsvegar neðarlega í Búðargili og er númer 7 við Lækjargötu. Húsið er byggt 1877, tvílyft timburhús með lágu risi á lágum grunni. Hugsanlegt gæti verið að það hafi verið einlyft í upphafi og risinu lyft síðar, en alltént var það komið með núverandi útlit um 1915. Lækjargata 7 er látlaust og einfalt hús, það virðist í góðu standi og vel við haldið og staðsetning þess er einkar skemmtileg hátt ofan við götuna á dálitlum hól í gilkjaftinum. Ein íbúð er í húsinu en gætu vel hafa verið fleiri í langri tíð hússins. (Aldur hússins er tvöfaldur aldur löggilts ellilífeyrisþega, 134ár sem er tvisvar 67 Wink )  Bárujárn er á þaki og þverpóstar í gluggum en ég er hreinlega ekki viss hvort húsið er múrhúðað eða asbestklætt. Þessa mynd tók ég sl. laugardag 21.8.2011, í ljósmyndaleiðangri um Búðargilið.


Búðargil öðru nafni Lækjargil

Í byrjun síðasta árs fjallaði ég um gilin mörgu sem skera Brekkuna á Akureyri. En þeirra mest er Búðargilið eða Lækjargilið eins og það er einnig kallað en það er væntanlega tilkomið vegna Lækjargötunnar sem liggur um gilið. En Búðarlækurinn sem rann- og rennur vissulega enn um Búðargilið (að stórum hluta í lokræsi) skapaði hina eiginlegu Akureyri en sú eyri er fyrir löngu kominn inn í land með seinni tíma uppfyllingum. Byggð fór að myndast í Búðargili fljótlega uppúr miðri 19. öld og var þar um að ræða efnalítið fólk sem ekki fékk inni í byggðinni við Fjöruna og Akureyri. Enda sést greinilega munur á húsakosti Lækjargötunnar og Aðalstrætis og Hafnarstrætis, í fyrrnefndu götunni eru húsin mun lágreistari og látlausari. En í Búðargilinu hófu Akureyringar að rækta kartöflur árið 1808 og þar eru enn nokkrir kartöflugarðar og þá voru lengi vel vinsælar skíðabrekkur í gilinu á vetrum. Gripahús stóðu einnig lengi vel í gilinu og voru síðustu hesthúsin rifin um 2006. Hér eru nokkrar myndir sem ég tók úr Búðargilinu í gær- en í sömu ferð ljósmyndaði ég einnig nokkur hús í Lækjargötunni, sem væntanlega verð hús dagsins næstu daga eða fáeinar vikur. P8210298   P8210297

Hér er horft niður Lækjargötu u.þ.b. í gilinu miðju.Hús nr. 22 og 18 við götuna sjást til vinstri,  Neðri hluti götunnar var malbikaður 2003 en á myndinni sést hvar það endar. Gatan er sennilega ein sú brattasta á Akureyri (og hér er alveg nóg af bröttum götum) og brattasti kaflinn er einmitt neðan við nr. 18- en sá partur er jafnframt sá þrengsti. Á myndinni hægra megin má sjá Spánarkerfil (Myrrhis odorata) en hann vex í stórum breiðum í efri hluta Búðargils. Plantan er svipuð skógarkerfli en er stórvaxnari og ljósgrænni og ekki eins ágengur en skógarkerfillinn verður víða plága þar sem hann leggst yfir.

P8210301  P8210300     T.v. Horft yfir á flatan sunnanmegin í gilinu en þar stóðu hesthús í áratugi, þau elstu voru frá fyrri hluta 20.aldar, en ég man örugglega eftir nýju hesthúsi í byggingu veturinn 1997-98. Öll hesthús voru hins vegar rifin 2006 og hesthús Akureyringa eru nú ofan bæjarins í Breiðholtshverfi neðan við Súlumýrar og við Lögmannshlíð. Viðarplatan á ljósastaurnum fyrir miðri mynd var notuð sem tilkynningatafla til hestamanna- og má segja að sé það eina sem eftir stendur af hesthúsahverfinu.  Á hægri myndinni má sjá Búðarlækinn sjálfan en hann er opinn á nokkrum stöðum í gilinu. Þarna  kemur hann úr lokræsi undir grunnum hesthúsanna, sýnist þetta ræsi hlaðið úr gömlum steyptum kantsteinum.   Lækurinn er ekki ýkja vatnsmikill en hann getur en í miklum leysingum getur hann hinsvegar orðið að "ólgandi stórfljóti".

 


Hús dagsins: Norðurgata 26

Norðurgata 26 er eitt af mörgum húsum sem Sveinbjörn Jónsson teiknaði en það er reist árið 1926.  P7310221En húsið er tvílyft steinsteypuhús með tiltölulega lágu risi eða söðulþaki og hefur frá upphafi verið skipt í tvær íbúðir, byggt fyrir tvær fjölskyldur af þeim Magnúsi Halldórssyni og Jóni Sigurðssyni. Ekki er því þó skipt þannig að hvor íbúð sé á sinni hæð heldur skiptist það í miðju og er hvor íbúð á tveimur hæðum í hvorum enda. Húsinu hefur lítið verið breytt frá upphafi a.m.k. að utanverðu; í vesturenda eru upprunalegir gluggapóstar með einföldum glerjum sem gefa húsinu ákveðinn svip en skipt hefur verið um pósta í austurhluta. Hár skorsteinn er einnig áberandi- en þegar kynt var með kolum eða mó gat verið ágætt að hafa skorsteina í hærra lagi til að beina reyk hærra upp.  Annars er Norðurgata 26 nokkuð látlaust og einfalt að gerð og fellur vel inní götumynd Norðurgötu. Þessi mynd er tekin að kvöldi 31.júlí sl. farið er að halla sumri og tekið að rökkva á kvöldin.


Hús dagsins: Hafnarstræti 63; Sjónarhæð.

Undir bröttu brekkunni sem liggur að segja má milli Innbæjar og Miðbæjar standa nokkur glæsileg stórhýsi frá því um aldamótin 1900. P7090150Stærst og mest áberandi eru Samkomuhúsið (1906) og Gamli Barnaskólinn (1900) en syðst og elst er Hafnarstræti 49, Hvammur (1895). Þessi hús voru reist eftir "nákvæmum" mælingum á miðjunni milli Oddeyrar og Innbæjar en staðsetningin var í meira lagi óhentug, snarbrött og illfær brekka niður í sjó.  En nyrst í þessari húsatorfu, á einni víðlendustu lóð innan þéttbýlis á Akureyri, stendur þetta glæsihýsi, Hafnarstræti 63. Húsið á stórafmæli í ár, 110ára, en það reisti breskur maður, Frederic Jones árið 1901.  Húsið er tvær- þrjár álmur, önnur tvílyft með lágu risi, nærri ferningslaga að grunnfleti en hin er einlyft og talsvert löng, með lágu risi. Kjallari er undir húsinu og suður úr honum er steinsteypt, einlyft bygging með flötu þaki. Gæti ég trúað að það sé seinni tíma viðbygging. Einlyfta byggingin er sennilega byggð sem samkomusalur en tveggja hæða álman sem íbúðarhús, en Frederic var trúboði og reisti húsið undir safnaðarstarfsemi en hann stofnaði, ásamt öðrum landa sínum, Arthur Gook  Sjónarhæðarsöfnuðinn. Sá síðarnefndi gegndi um áratugaskeið forstöðu í söfnuðinum, sem enn hefur sitt aðsetur í húsinu og er etv. þekktastur fyrir hinar vinsælu sumarbúðir fyrir börn á Ástjörn, en þær hófu starfsemi 1946 og var Gook meðal upphafsmanna þeirra. Arthur Gook var um margt merkilegur maður, mikill grúskari og frumkvöðull á mörgum sviðum. Hann starfaði við kennslu og mun t.d. fyrstur manna hafa kynnt knattspyrnu fyrir Akureyringum 1908, stundaði lækningar og einnig mikilvirkur í fjölmiðlun; starfrækti blaðaútgáfu og 1928 startaði hann útvarpsstöð á Sjónarhæð- tveimur árum áður en Ríkisútvarpið hóf útsendingar! En sem áður segir þá hefur söfnuðurinn enn aðsetur í húsinu. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig það er innréttað en líklegt þykir mér að salur sé í lágu byggingunni og íbúð í þeirri hærri en í kjallaraútbyggingu er hins vegar prentsmiðja. Húsið í mjög góðu ásigkomulagi sem og umhverfi þess; lóðin, sem telur þúsundir fermetra upp að brekkubrún við Eyrarlandsveg,  er mikið gróin og skógi vaxin. Þessi mynd er tekin að kvöldlagi 9.júlí 2011.

Heimildir: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri, höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur. 

Einnig netheimildir sem ég vísa beint í með tenglum í texta.


Hús dagsins: Hríseyjargata 3

Húsið á myndinni, Hríseyjargötu 3 byggði Jón Eðvaldsson P4030997eftir teikningum Halldórs Halldórssonar árið 1937, en segja má að Halldór hafi verið eitt af "stóru nöfnunum" í húsateikningum á Akureyri áratugina 1920-40, ásamt þeim Sveinbirni Jónssyni og Tryggva Jónatanssyni. Önnur hús eftir Halldór má nefna Gránufélagsgötu 39-41 (1929) og Hríseyjargötu 21(1942) en þar er um ræða ein fyrstu fjölbýlis- og raðhúsin á Akureyri.  Hríseyjargata 5 er nokkuð einfalt og látlaust tvílyft steinhús með lágu risi, en það er undir talsverðum áhrifum frá Fúnkís byggingargerð sem var einmitt ráðandi árið 1937 þegar húsið var byggt. Áðurnefndur Tryggvi Jónatansson teiknaði mörg slík hús sem standa við Ægisgötu. Helsta fúnkís einkennið á húsinu eru horngluggarnir.  Eitthvað hefur verið byggt við húsið gegn um tíðina og í Oddeyrarbók Guðnýjar og Hjörleifs er það rakið;  þvottahúsbygging árið 1941 og bílgeymsla 1980. En Hríseyjargata 3 er einbýli og hefur líkast til verið alla tíð, það er í góðu standi og hefur lóð verið nýlega tekin í gegn. Myndin er tekin 3. apríl 2022.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

 


Hús dagsins: Gránufélagsgata 18

Gránufélagsgata 18 P6220118er elsta húsið við Gránufélagsgötuna en hún liggur samsíða Strandgötunni um 100m norðar á Oddeyrinni. Gatan hefur sennilega eina furðulegustu númeraröð sem þekkist á byggðu bóli hérlendis. T.d. eru húsin á móti þessu, 18, númer 29 og 31 en sléttu númer götunar standa að öllu jöfnu 10 númerum lægra. En á milli húsa nr. 27 og 29 standa hús nr. 39-43 en frá 29 helst númeraröð nv. rétt. Í öllu mínu fræðagrúski um sögu þessa bæjarhluta og í öllum Sögugöngum sem hafa verið farnar um Eyrina hef ég aldrei rekist á skýringuna á þessu. En númeraröð götunnar hefur um árabil vafist töluvert póstburðarfólki og sendlum sem ekki þekkja til.

En hús nr. 18 við þessa stórmögnuðu götu reisti maður að nafni Ólafur Árnason árið 1906. Er þetta einlyft timburhús með háu risi á steinkjallara og á austurgafli er lítil forstofubygging- hugsanlega seinni tíma viðbót en gæti allt eins verið upprunaleg. Húsinu hefur alltént ekki verið mikið breytt að utan, ekki stækkað eða risi lyft eins og algengt er með hús á þessum aldri og þessari stærð. Að vísu er húsið áfast einlyftri, steinsteyptri byggingu á vesturgafli en mér sýnist sú bygging ekki vera stækkun á húsinu, heldur að húsin séu samlæg en ótengd innan frá- líkt og raðhús. En bygging þessi tengir hús nr. 16 og 18 saman. Á sínum tíma, líklega um 1950 var húsið forskalað og gluggum breytt mjög og það sem mér fannst dálítið sérkenni á húsinu þá var hringlaga gluggi; kýrauga vinstra megin á götuhlið en honum var breytt í upprunalegt horf við endurbætur. Þær fóru fram um 1999 og eru einstaklega vel heppnaðar eins og sjá á húsinu, sem lítur stórglæsilega út og er mikil prýði í götumynd Gránufélagsgötu. Þessi mynd er ein þeirra sem ég tók á "misheppnaðri" sólstöðumyndagöngu á miðnætti 22.júní sl. en þar sem miðnætursólin faldi sig bakvið ský þá fór ég bara á  "almenna" myndagöngu Smile


Svipmyndir frá sumarkvöldum.

P6300129Hér koma nokkrar myndir sem ég hef tekið á göngutúrum um götur Akureyrar á sumarkvöldum sl. vikur. Sumarið hefur reyndar ekki verið alveg með besta móti, a.m.k. júnímánuður en júlí hefur þó verið skárri. En hér eru nokkrar sumarkvöldmyndir teknar núna fyrr í sumar.

Til hliðar: Hlíðarskálin er reyndar ekkert mjög sumarleg að sjá á, enda þótt þarna sé kominn 30.júní. Snjórinn er þakinn grárri ösku úr Grímsvötnum. Nú verður hinsvegar spennandi að sjá í haust hvort Hlíðarskálin fari í sundur, þ.e. bráðni á milli efri og neðri fannar eða hvort hret fram eftir vori og sumri nái að bjarga henni. (Ef ég legði það á annað borð í vana minn að "fótósjoppa" eða breyta myndunum mínum myndi ég klárlega þurrka út þennan helming af umferðarmerki í horninu. En þetta þvælist ekki mikið fyrir mér)

Súlutindur eða Ytri Súla P6300128(1167m) er heldur ekki mjög sumarleg en þessi mynd er tekin á nákvæmlega sama punkti, þ.e. neðan við svæði Háskólans á Akureyri á Sólborg. Þarna eru byggingarnar, Sólborg og fyrir miðju er nýjasti áfangi húsnæðisins sem vígður var 28.ágúst í fyrrahaust, nákvæmlega sama dag og Menningarhúsið Hof. Nýbyggingin ber í brekkuna miklu Súlumýrum sem standa þarna undir Súlutindi. Fremst á mýrunum má greina hvítan blett, en það skátaskálinn Fálkafell.

 

 

 

P7040136

 "Hefðbundnar" sólarlagsmyndir eru að öllu jöfnu teknar í kringum  fjöll eða sveitir eða smekklega byggð. Hér er ég með eina öðruvísi; sólarlag yfir iðnaðarsvæði en hér er sólin að setjast þann 4.júlí 2011 með athafnasvæði Slippsins og austurenda Nótastöðvarinnar Odda í forgrunni. Kaldbakur (1167m- jafn hár og Súlutindur) sést til hægri.

 

 

 

 

Hér var ég á göngu um Hafnarstrætið þ. 9.júlí. P7090155Ský dró fyrir kvöldsólina og úr varð þessi skemmtilega birta yfir Drottningarbraut og Pollinn. Örlítið fjær er Oddeyrin, húsaröðin við Strandgötu en sjá má að einhver sól skín á Vaðlaheiðina og Blámannshattinn lengst til vinstri.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • P6171048
  • IMG_2893
  • IMG_2889
  • IMG_3045
  • P6171046

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 421
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 272
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband