Færsluflokkur: Bloggar

Hús dagsins: Hríseyjargata 5

P6220119Hríseyjargatan er neðst af þvergötunum sem ganga norður úr Strandgötu neðan Glerárgötu og ofan Hjalteyrargötu. Byggðin við hana er talsvert yngri en við efri göturnar Grundargötu, Norðurgötu og Lundargötu. En húsið á myndinni, Hríseyjargötu 5 byggði maður að nafni Þorgrímur Þorsteinsson árið 1922. Húsið er einlyft timburhús á steinkjallara, en á þessum tíma var orðið sjaldgæfara að byggð væru timburhús; steinsteypan var farin að vera allsráðandi. Árið 1927 var byggð bakbygging, einlyft með skúrþaki af þáverandi eiganda, Júlíusi Hafliðasyni og aftur var byggt við 1967. (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995: 97)  Þannig hefur húsið, sem vart getur talist mikið stórhýsi, í raun verið stækkað tvisvar frá upphafi! En Hríseyjargata 5 er stórglæsilegt hús, látlaust og einfalt að gerð. Helsta séreinkenni hússins er sérstakt brot efst á risinu og skv. Guðnýju Gerði og Hjörleifi er þetta rislag  kallað mansard. Húsið er klætt báruáli og þverpóstar í gluggum og er það í góðri hirðu. Nú er húsið einbýli en gæti hafa verið tví- eða þríbýli einhverntíman. Þessi mynd er tekin á miðnætti 22.júní 2011.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Hús dagsins: Lundargata 12; Gamli Iðnskólinn

Húsið hér á myndinni, Lundargata 12 var reist árið 1927 af Iðnaðarmannafélagi Akureyrar sem skólahús fyrir Iðnskólann, en félagið stofnaði þann skóla 1905. P7090145Starfsemi hans lá hinsvegar niðri meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð en var endurvakin uppúr 1920 og einn af þeim sem fyrir því stóð var Sveinbjörn Jónsson byggingameistari. En hann teiknaði og stjórnaði byggingu skólahússins sem reist var úr r-steini, líkt og flestöll hús Sveinbjarnar. Húsið er einlyft með háu risi og miðjukvisti og virðist líkja dálítið eftir gömlum timburhúsum frá 18. og 19. öld (sjá t.d. Laxdalshús), þ.a. veggir tiltölulega lágir m.v. ris sem er bratt og mjög hátt.  Miðjukvistur hefur einhverntíma verið stækkaður niður á við og byggðar svalir framan á hann. En í húsinu voru 2 kennslustofur á neðri hæð, þaraf  önnur stór sem hægt var að loka í miðju og fá út tvær minni. Á efri hæð var svo teiknistofa ("dráttlist" stendur á teikningum Sveinbjarnar) og herbergi, líkast til kennaraherbergi. Iðnskólinn var þarna til húsa í 13 ár en 1940 fluttist hann í nýbyggt hús Gagnfræðaskólans. En sl. áratugi hefur húsið verið íbúðarhús og er nú einbýlishús. Það er í mjög góðu ásigkomulagi, hefur líkast til alla tíð verið vel við haldið og er mikil prýði í götumynd Lundargötunnar. Á húsið hefur verið settur skjöldur með söguágripi hússins. Þessi mynd er tekin sl. laugardag, 9.júlí 2011.

Heimildir: Friðrik Olgeirsson, Halldór Reynisson, Magnús Guðmundsson (1996). Byggingameistari í stein og stál. Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi.

Steindór Steindórsson (1993) Akureyri, Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


R-steinar á Iðnaðarsafninu

Um Sveinbjörn Jónsson og húsin sem hann byggði og teiknaði hef ég fjallað þó nokkuð á síðunni hér. Enda var hann með eindæmum stórtækur í teikningum og byggingum húsa á Akureyri og nágrenni á 3. og 4. áratugnum. Hús Sveinbjarnar voru yfirleitt byggð úr R-steini sem var sérstakur hleðslusteinn sem hann fann upp og hóf framleiðslu á 1919. Hér gerði ég tilraun til að lýsa r-steininum en nú get ég boðið betur því hér er mynd af R-steinum, P7100165en ég rakst  þá  á Iðnaðarsafninu í gær. Þar er má ennfremur líta vélina sem notuð var til að móta og steypa þessa steina.

 

 

 

 

 

 

 

P7100167

En ég mæli eindregið með heimsókn á Iðnaðarsafnið, þar er svo sannarlega í mörg horn að líta. Bæði eru þar framleiðsluvélar frá ýmsum tíma Akureyrsks iðnaðar og einnig sýnishorn af framleiðslunni sjálfri- gamlar gosdrykkjaumbúðir og mjólkurfernur og niðursuðudósir o.s.frv.

Hér eru nokkrir pistlar um r-steinahús: Brekkugata 10 og 31, Knarrarberg-Kaupangskirkja-Syðri- Varðgjá, Norðurgata 16, Oddeyrargata 1


Hús dagsins: Strandgata 19

p6220124.jpgStrandgötu 19 reisti Norðmaðurinn  Johan Jacobsen árið 1886. Ég hef tekið eftir því, í grúski mínu um byggingasögu Akureyrar að það eru raunar ótrúlega mörg hús sem voru byggð 1886 og merkilegt nokk- standa ennþá! Fá hús, sem enn standa, virðast hafa verið byggð 1880-'85 og svo áratuginn '87-'95 en mikill kippur verður í byggingum eftir 1895, t.d. eru óhemju mörg hús byggð 1898. Hægt er að leika sér að ýmsum kenningum varðandi þetta; 1886 var kannski einhvers konar "2007" þess tíma, góðæri; mikið byggt og rífandi uppgangur. En 1887 var hins vegar alræmt harðindaár sbr. að aldrei fluttu fleiri Íslendingar til Vesturheims en einmitt það ár!  Svo er annað í þessu, í einhverjum tilvikum getur nefnilega skeikað fáeinum árum á uppgefnum byggingarártölum húsa frá þessum tíma.

Strandgata 19 er tvílyft timburhús með lágu risi á lágum steinkjallara. Upprunalega var húsið einlyft með háu risi en skömmu eftir 1900 var efri hæðin byggð. Þá hefur einnig einhverntíma verið byggt við húsið að aftan en þar er tvílyft bakbygging með skúrþaki. Neðri hæð hússins hefur verið verslunarhúsnæði mjög lengi en lengi vel rak maður að nafni Brynjólfur Stefánsson verslun þarna, Bröttuhlíð og var húsið kallað Brattahlíð lengi á eftir- eins og oft vill verða með nafntogaðar verslanir. En allskonar verslunarrekstur hefur verið í þessu húsi, þarna man ég eftir videóleigu, Videólandi um 1990 en frá 1998 hefur verið þarna handverks- og hönnunarverslanir, Gallerý Grúska lengi vel. Ein íbúð er á efri hæðinni. Þessi mynd er tekin skömmu eftir miðnætti 22.júní sl.


Hús dagsins: Norðurgata 3

p6220122.jpgEnn erum við stödd í neðst í Norðurgötu, síðast var nr. 1 en húsið á þessari mynd er Norðurgata 3. Það er jafn gamalt nr. 1, byggt 1899 af Valdimar Gunnlaugssyni skósmiði. Líklega hefur hann haft skósmíðastofu í kjallara eða hæð. Á þessum tíma voru nefnilega sérstök iðnaðarhúsnæði- eða verslunarhúsnæði sjaldgæf, iðnaðarmenn (eða verslunarmenn) bjuggu oftast og stunduðu iðju sína í sama húsi, eða alltént á sömu lóð- etv. með verkstæði í bakhúsum. Í kjallaranum í húsinu mun hafa verið brunnur sem þjónaði næstu húsum í Norðurgötu. En bak við húsið, milli Norðurgötu og Lundargötu rann lækur eða síki sem kallaður var Fúlilækur. En þangað var allt skólp Eyrarinnar losað og nafnið Fúlilækur trúlega ekki komið til af ástæðulausu! Brunnurinn mengaðist auðveldlega af læk þessum, einkum í leysingum og flóðum og það skapaði, eins og nærri má geta, hættu á ýmsum sóttkveikjum og pestum. Þetta vandamál var einn helsti hvatinn að því að vatnsveita var lögð á Akureyri árið 1914, enn frárennsliskerfi komu örugglega eitthvað seinna. En um 1930 voru flest öll ný hús búin þessum helstu nútímaþægindum, rennandi vatni, frárennsli og rafmagni- þó sjálfsagt hafi verið allur gangur á slíkri væðingu eldri húsa. Enn aftur að húsinu. Norðurgata 3 er einlyft timburhús á háum steinkjallara, með portbyggðu risi og stórum miðjukvisti. Á bakhlið er stór flatur kvistur, raunar hefur risinu verið lyft* að hluta (einhvern tíma heyrði ég svona kvisti kallaða Hafnarfjarðarkvisti) og einnig eru svalir á efri hæð og nýlega hafa verið byggðar svalir á neðri hæð. Húsið er allt bárujárnsklætt og krosspóstar í gluggum. Íbúðaskipan hefur líklega tekið miklum breytingum gegn um tíðina, þarna hafa vafalítið búið margar fjölskyldur saman í eina tíð en nú eru í húsinu 3 íbúðir, tvær á hæð og ein í risi. Þessi mynd er tekin á miðnætti 22.júní sl.

*Stundum er önnur hlið risþaka byggð upp, þ.a. það verði eins og heil hæð og þak er þá aflíðandi eða flatt. Það er kallað að risi sé lyft.


Hús dagsins: Norðurgata 1. "Hús dagsins" 2 ára

Í dag eru tvö ár frá því ég hóf að birta "Hús dagsins". Þá hafði ég tekið af og til myndir af gömlum og/eða skrautlegum húsum á Akureyri í dálítinn tíma eftir að hafa árum saman haft áhuga á sögu bæjarins og húsanna. Þótti mér því um að gera að deila þessu og varð þessi síða fyrir valinu. Þar áður hafði ég reyndar prófað myndasíður á borð við Flickr en langaði að bæta við meiri texta, en fyrst voru það og eru myndirnar sem voru aðalatriðið. Ég leggst sjaldan í mikið fræðagrúsk fyrir hvern pistil, læt yfirleitt fylgja nokkrar línur sem ég hef lesið í bókum eða heyrt í sögugöngum og man þá stundina. Stundum fer ég þó í  uppfletti- og rannsóknarvinnu og með myndum fylgja greinargóðar "smáritgerðir".   En ég vil heldur stilla lengd pistlanna í hóf og hafa þá stutta og hnitmiðaða, því sjálfum þykir mér langir textar óþægilegir aflestrar af tölvuskjá og netið er þannig miðill að fólk vafrar- og vill  kannski ekki staldra lengi við langa texta. Fyrsta húsið sem ég fjallaði um fyrir tveimur árum síðan 25.júní 2009 var Norðurgata 17, Gamla Prentsmiðjan

Og enn berum við niður í Norðurgötunni.P6220121Hús nr. 1 við þá götu reisti maður að nafni Jón Borgfjörð árið 1899 en hann var búsettur í Strandgötu 27og var húsið í raun bakhús á þeirri lóð. Norðurgata 1 er  einlyft timburhús með háu risi og tvöföldum miðjukvisti. Að aftanverðu er stigahús og flatur kvistur. Þá er sólpallur eða svalir bakatil. Húsið er mjög svipað næsta húsi, nr. 3 og handan götunnar er röðin 2-6 öll mjög svipuð, einlyft hús með kvisti. Þó eru öll þessi hús í raun mjög ólík t.d. eru bakhliðar þeirra allar ólíkar m.t.t. síðari tíma viðbygginga og kvista. Að innan eru þessi síðan gjörólík líka. Líklegast hefur Norðurgata 1 verið tvíbýli í upphafi, en svo íbúðum fjölgað eftir því sem á leið. Húsið var allt tekið til gagngerra endurbóta fyrir 1990, bæði að utan sem innan og nú er húsið einbýli. Þessi mynd er tekin á miðnætti 22.júní 2011, er ég hugðist mynda miðnætursól sem ekki lét sjá sig. Þannig að ég myndaði nokkur hús á Eyrinni í staðinn sem koma væntanlega hérna á síðuna á næstu dögum og vikum.


Svipmyndir af bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar 17.júní 2011

Að venju kíkti ég á Bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar 17.júní sl. og að venju var ég með myndavélina með mér. Þarna kenndi að sjálfsögðu ýmissa grasa, þarna voru gljáfægðir sportkaggar, gamlir traktorar, jepplingar, jeppar og risatrukkar og bara allskonar tryllitæki. Hér koma nokkrar svipmyndir en ég læt myndirnar mest tala sínu máli.

P6170053   P6170055

Hér eru t.v. Cadillac Sedan Deville árgerð 1965. Vélin er V8 429 (sem þýðir 429 kúbiktommur eða u.þ.b. 7000 rúmcentimetrar ). En þessum er búið að breyta þ.a. að hann gengur líka fyrir vetni! Til hægri má svo sjá Porsche 911 Supercharged. Hann er með 3,6 l SC vél sem skilar litlum 400 hestöflum.

P6170063 p6170058_1093382.jpg

Hér er 2011 árgerð af Chevrolet Camaro. Þessi 426 hestafla kaggi er sprautaður eins og einn af Transformers tryllitækjunum, Bumblebee (Hugnangsfluga). Hann er í svipuðum litum, Ford Mustanginn til hægri en hann er töluvert miklu eldri, árgerð 1970. Vélin er 351 kúbiktommur eða ca. 5,7l og hestöflin hlaupa örugglega á hundruðum.

P6170067        P6170078

 P6170076  P6170073

Hér eru nokkrir valinkunnar fulltrúar jeppa, allir komnir á virðulegan aldur. Land Roverinn, er af árgerð 1970, dísilknúinn en þessi gengur dags daglega á matarolíu eða lífdísil. Opnun húdds er afar sérstök eins og sést, líkt og sardínudós. Til hægri að ofan er svo frambyggður bíll af gerðinni UAZ 467 en flestir þekkja svona trukka undir nafninu Rússajeppar. Þessi er árgerð 1974. Ford Broncoinn að neðan t.v. er einnig árgerð 1974. Range Rover er jafnan talin fyrsti "lúxusjeppinn" en framan af voru jeppar almennt mjög gróf og "hrá" farartæki, etv. frekar í ætt við landbúnaðartæki eða vinnuvélar. Þetta eintak er árgerð 1982. 

P6170083  P6170080       Og hér eru tveir knáir á sextugsaldri, Land Roverinn er árgerð 1954 en Willysin árinu eldri, árgerð 1953. Þessi Land Rover var  fyrsti læknabíllinn sem kom á Hvammstanga og er verið að gera hann upp.  Sjálfsagt er einnig mikil saga á bakvið Willysin líka en geta má nærri að þessir bílar hafa reynt ýmislegt á tæpum 60 árum. 

Ef einhver kannast við einhver þessara tryllitækja, tæknilegar upplýsingar eða sögu á bakvið þau þá er slíkt vel þegið hérna  í ummælakerfið. Ég læt aðallega myndirnar tala sínu máli en alltaf gaman að fá frekari upplýsingar. 


Sumarsólstöður.

Í dag eru líkt og allir vita sumarsólstöður, þ.a. að dagurinn er lengstur hér á norðurhveli. Sólin skín, þegar þetta er ritað 23.40, skært yfir Reistarárfjöll. Daginn  hefur verið að lengja frá 22.des og fer nú að stytta. Margir tengja þennan dag við að sumri fari að halla og senn að hausta- en það er nú bara "hystería". Því sumarið byrjar nefnilega þá fyrst að daginn hættir að lengja, sbr. júlí og ágúst eru að öllu jöfnu hlýrri mánuðir og júní og veður betri. Eins er þetta að vetrinum. Er vetrinum farið að halla á vetrarsólstöðum, 21.des? Onei, þá fyrst byrjar gamanið- janúar og febrúar með sínum frostum, myrkri og hríðarbyljum. Þannig að, þegar daginn fer að stytta byrjar sumarið fyrir alvöru og þegar hann fer að lengja byrjar veturinn af fullri hörku. Þannig er nú það.

p6220115.jpgKl. 00.00: Rétt fyrir miðnætti dró ský fyrir sólina en þó gægist hún hér á milli sementssílóa og asfaltstanks við Slippinn. Myndin tekin á Hjalteyrargötu, austan við Hagkaup. 


Komin tími á nokkur TRYLLITÆKI.

Ég hef af og til birt myndir af allskonar bílum, trukkum og tryllitækjum en nú er orðið langt um liðið síðan síðast, svo ekki er úr vegi að bæta úr því. Þess má kannski geta að ég á um 400 myndir af bílum og tryllitækjum, svona til samanburðar eru húsamyndirnar mínar rétt um 150! Þannig að þar er af nógu að taka. Svo má auðvitað benda á að um komandi helgi verða svokallaðir Bíladagar haldnir hér á Akureyri svo um að gera að koma og kíkja. Þar er hápunkturinn auðvitað 17.júní bílasýningin sem haldin hefur verið í áratugi, sl. 4 ár í Boganum en svo er keppni í götuspyrnu, "drifti" og margt fleira mótorsport tengt.

PB300090Þessi verklegi Ford F350 var á sýningunni Vetrarsport 2009 (sem reyndar var haldin 2008, 30.nóvember) í KA Heimilinu. Hann er á 46 tommu dekkjum og það mátti stíga uppí og skoða, því hann er auðvitað búinn öllum mögulegum fjarskipta- og leiðsögutækjum. (Oft er umhverfi ökumanns svona trukka líkara flugstjórnarklefa heldur en hefðbundnu mælaborði). Það er til marks um stærðina að þarna hefur tröppu verið komið fyrir við stigbrettið, svo að allir geti skoðað inn enda ekki á allra færi að príla í svona tryllitæki. 

 

 

 

 

Volvo XC70Þetta er Volvo XC70 árgerð 2004. Það er alltaf skemmtilegt að kíkja á sýningar eins og þessa í Brimborg Þórshamri, setjast uppí og kíkja undir húddið. Volvoinn er einhvernvegin alltaf auðþekkjanlegur, það er t.d. greinilegur svipur með þessum eðalvagni og gömlu  245 Station bílunum frá ca. 1980. Þessi er fjórhjóladrifin og mig minnir að hann hafi verið um 250 hestöfl. En þessa mynd tók ég sem áður segir á umboðssýningu í Brimborg 10.janúar 2004. 

 

 

 

 

 

Ford ExplorerHér er á ferðinni (reyndar er hann ekkert á ferðinni því hann stendur grafkyrr Smile) Ford Explorer árgerð 2005. Þessi mynd er einnig tekin á umboðssýningu hjá Brimborg ári seinna en myndin af Volvonum, 28.jan. 2005.

 

 

 

 

 

 

DeLorraene Svona kagga þekkja eflaust margir úr myndunum Back To The Future I-III  , en þetta DeLorean DMC-12, árg. 1981 eða 2. (Hann var raunar aðeins framleiddur á þessum tveimur árum). Á svona grip ferðuðust þeir Dr. Emmet Brown (Cristopher Lloyd) og Marty McFly (Michael J. Fox) frá árinu 1985 (þegar fyrsta myndin var frumsýnd) til áranna 1955, 2015 og loks aftur til 1885. Til að rjúfa "tímamúrinn" þurfti að ná 88mílum á klst. (145km/klst) og virkja svokallaðan straumþétti eða flux captacitorsem var uppfinning Dr. Brown.  Bíllinn er úr ryðfríu stáli líkt og eldhúsvaskur- og það var einmitt ryðfríi eiginleikinn sem var nauðsynlegur í tímaferðalög. Þessi mynd er tekin á bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar 17.júní 2004.

 

 

P5280118

Og talandi um DeLorean tímavélina hans Dr. Brown, þá er hérna eitt eintak af henni Smile. Þessi er í Universal myndverinu í Orlando, Florida. Myndin er tekin 28.maí 2008.

 

 


Hús dagsins: Norðurgata 31

PA100004Norðurgata er ein lengsta íbúðargatan á Oddeyrinni, nær frá Strandgötu að verslunar- og iðnaðargötunni Furuvöllum til norðurs.  Liggur hún í sveig norður Eyrina og tekur beygju við Grænugötu en á því horni stendur þetta reisulega steinsteypuhús. Á svipuðum stað stóð eitt af fyrstu húsum á Oddeyrinni, torfbær byggður um 1850. Hann stóð reyndar ekki lengi, mun hafa verið rifin uppúr 1880 og var þá timburhús reist á lóðinni af konu að nafni Níelsína Jensen. Það hús var rifið skömmu fyrir 1930.  

Núverandi hús var byggt 1926, en það var eitt af stærstu húsum Oddeyrar á þeim tíma. Er þetta tvílyft steinsteypuhús með háu risi, og er risið raunar á tveimur hæðum (manngengt háaloft) sbr. glugga efst á gafli og á kvisti. Bakvið húsið er tvílyft útbygging með risi og kvisti. Steyptir þakkantar á göflum og kvisti standa uppfyrir þak og krossast; eiga að líkja eftir bjálkum sem ganga saman. Setur þetta látlausa skraut skemmtilegan svip á húsið. Nú eru í húsinu fimm íbúðir, þrjár í framhúsinu og tvær í bakhúsinu ein á hverri hæð hvoru megin. Húsið er í góðri hirðu, sem og gróskumikil lóð. Þessi mynd er tekin í haustblíðunni 10.10. 2010.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • P6171048
  • IMG_2893
  • IMG_2889
  • IMG_3045
  • P6171046

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 424
  • Frá upphafi: 447411

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 275
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband