Færsluflokkur: Bloggar
30.12.2011 | 17:04
Hús dagsins: Lyngholt 10; Lyngholt.
Síðasta Hús dagsins á árinu 2011 stendur í Glerárþorpi og nær lóðin að Hörgárbraut, þjóðleiðinni gegn um bæinn. En þessa mynd fann ég í safninu mínu, hún er ein af fáum sem ég hef ekki þegar birt og skrifað pistil og er um gera að bæta úr því. En húsið heitir Lyngholt og er nr. 10 við götuna Lyngholt- sem væntanlega heitir eftir húsinu. En Lyngholt er tvílyft steinsteypuhús á kjallara með lágu risi, byggt árið 1927. Inngönguskúrar eru á norður og austaurhliðum hússins. Það hefur sennilega verið með háreistari húsum á þessum slóðum á sínum tíma en í Glerárþorpi á fyrri hluta 20.aldar var yfirleitt hvorki hátt til lofts né vítt til veggja. Húsið er núna tvíbýli, það er í góðri hirðu sem og lóðin í kringum húsið. En hún er nokkuð víðáttumikil- enda húsið gamalt smábýli. Þessi mynd er tekin 18.júní 2011.
Byggingasögu Akureyrar og gömlu byggðunum hafa verið gerð mjög góð skil á síðustu áratugum og eru margar frábærar bækur til þess efnis. En ein er sú bók sem ég hef ekki fundið- og það er byggingasaga Glerárþorps. Það myndi ég telja þarft verk ef unnin yrði einhvers lags húsakönnun um Glerárþorp og sögu gömlu húsana þar gerð skil og gefið út á bók. Eitt er víst- að ég myndi fagna útkomu slíks öndvegisrits.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2011 | 12:45
Jólakveðja
Það var svo sannarlega jólalegt um að litast hér á Oddeyrinni um hádegisbil, eins og þessar myndir sýna. Trjágróðurinn skartaði sínu jólalegasta og bjart og kyrrt yfir.
Ég óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegra jóla. Jólakveðja, Arnór B. Hallmundsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.12.2011 | 19:29
Vetrarsólstöður
Í dag er myrkrið mest, eða alltént stendur lengst en þó dregur úr því frá og með morgundeginum, Þorláksmessu. Hvort að dagurinn lengist ekki um ca. 30 sekúndur eða mínútu á dag þ.a. næsta nótt verður eilítið styttri en sú síðasta. En það fer varla að finnast fyrir lengingu dags fyrr en um miðjan janúar og strax í febrúar er það orðið greinilegt að sólin er komin hærra á loft; mánaðamótin febrúar/mars er orðið bjart um sjöleytið á morgnana og dimmir rétt fyrir kvöldmatarleyti. En það er misskilningur að tengja lengingu dags við vorkomu, því eftir vetrarsólstöður byrjar veturinn fyrst fyrir alvöru. Daginn er búið að lengja í rúma þrjá mánuði áður en fer að vora að ráði. Verstu veðrin og mesti kuldinn er nefnilega oftar en ekki í janúar og febrúar.
Ps. Ef ég skrifa ekkert hérna fyrir aðfangadag, þá óska ég ykkur öllum nær og fjær gleðilegra jóla og góðs nýs árs
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2011 | 18:24
Á göngu um götur Akureyrar
Eftirfarandi grein skrifaði ég á vordögum 2009 sem grein í blað. Held það þurfi engan frekari formála en hér er lýst nokkrum gönguleiðum um götur Akureyrar.
Gengið um Akureyri
Fátt er meira hressandi en að skella sér út í göngutúr. Það skemmir heldur ekki fyrir ef gangan er í skemmtilegu umhverfi. Innan marka Akureyrar er að finna urmul af áhugaverðum gönguleiðum til styttri göngutúra og vel er hægt að gera sér dags gönguferðir innan bæjarmarkana. Alls staðar er eitthvað áhugavert að sjá og við það að ganga um götur og göngustíga bæjarins sér maður hann á allt annan hátt heldur en þegar maður brunar í gegn á hraðferð. Hér á eftir er upptalning á nokkrum fyrirtaks gönguleiðum innanbæjar.
Hlíðarbrautar- Þingvallastrætishringur
Þetta er raunar litli hringurinn um bæinn en leiðin þræðir umferðaræðarnar Hlíðarbraut-Þingvallastræti-Glerárgötu- Hörgárbraut gegn um Þorpið, Brekkuna og Eyrina. Leiðin er röskir 6km og tekur á góðum degi rúma klukkustund. Bætist að sjálfsögðu við tími og vegalengd eftir því hvar göngufólk leggur af stað. Útsýni er á köflum nokkuð skemmtilegt og eitthvað er af bekkjum til að hvílast á leiðinni. Ekki spillir fyrir að við Hlíðarbraut, neðan við Giljahverfi er stígur gegn um skógarreit sem þar er og þar er um að gera að taka smá krók frá aðalgötunni.
Borgarbrautarhringur, litli og stóri
Þetta er raunar hringur um hálfan bæinn en þarna er gengin Borgarbraut í stað þess að taka krókin upp Hörgárbraut- Hlíðarbraut. Afar áhugavert útsýni er frá Borgarbrautinni svæðið sem hún liggur lætur nærri að vera landfræðilegur miðpunktur bæjarins. Stóri hringurinn er að ganga suður Hlíðarbrautina, ( og raunar má lengja hringinn enn meira ef Borgarbrautinni er fylgt eftir upp í Giljahverfi og farið eftir Merkigili ). Litli hringurinn er hins vegar ef beygt er upp Dalsbrautina en þar er komið upp á Þingvallastræti við KA heimili. Dalsbrautin liggur um svokallaðan Lækjardal, afar fallegt svæði og er ég næsta viss um að fáir hafa vitað af honum áður en þessi braut var lögð. ( Að sjálfsögðu var þetta miklu áhugaverðara svæði áður en Dalsbrautin kom ) Þá er afar áhugaverður stígur gegn um Sólborgarsvæðið sem liggur upp í Gerðahverfi og hægt að fylgja eftir framhjá Hrísalundi að Skógarlundi. Þessar hringleiðir eru frá 3-5 km og taka frá hálftíma til klukkutíma en þar við bætist tími og vegalengd eftir því hvar göngufólk leggur af stað.
Hringur um Akureyri
Vilji menn taka hring um allan bæinn og þræða öll helstu hverfin liggur sú leið ( gerum ráð fyrir að byrja í miðbænum ) eftir Drottningarbraut, upp hjá Skautahöll, beygt inn í Kjarnagötu, upp Miðhúsabraut á Hlíðarbrautina upp Merkigil, Vestursíðu, niður Hlíðarbraut að Krossanesbraut- Hjalteyrargötu- Strandgötu. Þessi leið er um 13 km löng og tekur ekki innan við 2,5klst. á góðum degi. Full langt mál er að telja upp allt áhugavert sem er að sjá á þessari leið, en helst má nefna að útsýnið á Miðhúsabrautinni nýju yfir Brekkuna og upp til fjalls er afar sérstakt. Síðan er miklu áhugaverðara að þræða göturnar Hafnarstræti og Aðalstræti í stað Drottningarbrautar.
Glerárgil
Hér er um að ræða einstaka náttúruperlu inn í miðjum bænum. Glerárgilið skiptist í Efra og Neðra Gil en neðrihlutinn er sá sem liggur frá steypustöðinni og niður að Glerárhverfi. Um og við neðragil liggja ágætir nýlegir stígar gegn um skóglendið neðan Hlíðarbrautar niður að stíflu. Neðan stíflu var lagður stígur svo til alveg við ána um 2006 frá virkjunarhúsi að brúnni við Olís og á góðviðrisdögum er þetta alveg einstök leið. Í gilinu má sjá nokkra litla hellisskúta, þarna er plöntulíf fjölskrúðugt sem og fuglalíf, sérstaklega við lónið. Þessi leið nýtur sín best um hásumar en síst er hún áhugaverðari um vetur. Eða bara hvenær sem er. Að ganga eftir stígunum við Neðra Gil frá Olís að steypustöð tekur ca. 15-20 mínútur á fullu stími en um að gera er að taka sér góðan tíma að njóta þessarar skemmtilegu leiðar.
Stígakerfið
Þeir sem ganga um götur bæjarins að ráði kannast við að þéttriðið stíganet liggur um bæinn. Síðustu 5-10 árum hefur einmitt verið gert mikið skurk í stígamálum og er það vel. Gegn um Norðurbrekku má t.a.m. þræða stíg frá Þórunnarstræti gegn um Ásveg að Byggðavegi og heldur sá stígur áfram litlu ofar á Byggðaveginum áfram alveg upp í Gerðahverfi og þar er komin tenging við Sólborgarstíg. Hann heldur svo áfram að Lundarskóla en þar liggur annar stígur fram hjá KA svæði niður í Einilund. Til norðurs heldur stígurinn áfram hjá Sólborg í undirgöng undir Borgarbraut og áfram gegn um Þorpið framhjá Þórssvæði að Hörgárbraut. Við Glerárgilið er síðan tenging við stíginn sem lýst er í kaflanum um Glerárgilið. Í Þorpinu eru einnig ágætir stígar, frá Hlíðarbraut upp í Giljahverfi, liggur ofan Giljaskóla að gatnamótum Borgarbrautar að Bugðusíðu. Annar stígur neðar liggur við blokkirnar neðst í Drekagili og Tröllagili yfir Borgarbraut að Tungusíðu. Þá má einnig nefna sérlega áhugaverðan stíg ofan Aðalstrætis sem liggur frá Lækjargili að Nonnahúsi. Þarna er útsýnið frábært og segja má að sagan drjúpi þarna af hverju strái. Þá eru ótaldir fjölmargir aðrir styttri stígar innan hverfa bæjarins. Flestum finnst heppilegra að ganga eftir göngustígum inni í hverfunum frekar en við umferðargötur auk þess sem margir þessara stíga stytta leiðir milli bæjarhverfa allverulega. Þá skal því komið á framfæri hér að vetrarviðhald á þessum stígum, þ.e. snjómokstur og hálkuvarnir er til fyrirmyndar og fá þeir sem að því standa hér með hrós og þakklæti fyrir.
Arnór B. Hallmundsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2011 | 21:09
Trukkar af ýmsum stærðum og gerðum
Trukkur getur í sjálfu sér verið geysi víðtækt hugtak, og ekki endilega skýr mörk hvað telst trukkur og hvað ekki. Margir sjá fyrir sér, þegar talað er um trukk, risavaxna flutningabíla aðrir mikla fjallajeppa eða ógurleg torfærutröll eða allt þetta í senn. Trukkur er raunar íslensk hljóðmynd af enska orðinu "truck" en það orð er notað yfir flutningabíla, vörubíla og pallbíla. Hér eru hinir síðasttöldu oft frekar taldir til jeppa enda eru þeir oft á samskonar grind og jepparnir nema hvað í stað farangursrýmis er pallur. Eða þeir eru bara einfaldlega kallaðir pallbílar. Mér hefur fundist tilhneigingin frekar vera sú að ekki sé talað um jeppa eða pallbíla sem trukka nema þeir séu breyttir fyrir stór dekk og orðnir nokkuð vígalegir. En fyrst vikið er að orðinu jeppa má að sjálfsögðu minnast á það að það er íslensk mynd af orðinu "Jeep" sem er auðvitað ekkert annað en ein tiltekin bandarísk bílategund. Bílar sem hér kallast jeppar eru kallaðir SUV (Sport Utility Vehicle) uppá enskuna, eða a.m.k. í Bandaríkjunum. En jeppahugtakið er í sjálfu sér einnig fljótandi, rétt eins og trukkshugtakið. En hér eru nokkrir sem klárlega mætti flokka undir trukka eða "trucks" uppá enskuna.
Hér er Scania R580, dráttartrukkur eða "trailer" sem þarna dregur sementstank. Hann er á 10 hjólum, á þremur öxlum. Í þessum er notaleg gistiaðstaða fyrir ökumann, og annan til, enda hannaður með margra daga ferðalög í huga og að ökumenn séu tveir. Scania er mjög stórt nafn í flutningum hérlendis, en MAN og Volvo eru sennilega svipað algengir. Þessi mynd er tekin í ofanverðu Naustahverfi 23.okt. 2010.
Hérlendis eru flutningabílar nánast undantekningalaust frambyggðir, öfugt við það sem gerist í Bandaríkjunum þar sem voldugir "húddarar" þeysa um þjóðvegina. Þeir eru af gerðum á borð við Mack, Peterbilt og Kenworth. Bandarísku trukkarnir oft með mikið stærri og meiri ökumannshúsum, nánast eins og húsbílar enda vegalengdir langar og ferðalög flutningabílstjóra mikið lengri þar.
Þeir verða nú ekki öllu ROSALEGRI en þessi! Þetta er MAN (veit ekki undirtegundina) hertrukkur sem líklega þjónar hlutverki eins konar fjallarútu. Þessi er á þremur öxlum, sex hjólum sem mér sýndist fljótt á litið vera nálægt 50 tommum á hæð. Þessi mynd er tekin við KS í Varmahlíð 20.ágúst 2011.
Einhversstaðar las ég það að Ford F-Series pallbíllinn væri vinsælasti bíllinn í Bandaríkjunum. Þetta er hinsvegar Excursion, bíll sem er byggður á sömu eða svipaðri grind en með SUV laginu. eða Þessi er að mig minnir eitthvað yfir 400hestöfl með V8 dísilvél, "46" breyttur og á klárlega skilið að kallast trukkur. Eins og sjá má er upplýsingaspjald framan við bílinn og oft reyni ég að leggja slíkar upplýsingar á minnið- einkum ef hugmyndin er að setja myndirnar hingað inn. En þarna, á sýningu Bílaklúbbs Akureyrar í Boganum 17.júní 2009, gaf ég mér engan tíma til þess- enda á ferðinni hálftíma fyrir lokun og aldeilis nóg annað að skoða.
Ford Econoline, "46" breyttur. Slíkir bílar kallast uppá "amerískuna" ekki trucks heldur Vans eða sendibílar. Þessi er hins vegar klárlega algjör trukkur- en Econoline er ekki framleiddur sem torfærubíll í verksmiðjunum heldur sendibíll og er það sér íslenskt fyrirbæri að breyta þeim á þennan hátt. Einhverntíma hugkvæmdist einhverjum að Econoline væri hentugt að breyta í fjallatrukka, en þessir bílar eru á sterkri grind og auk þess mjög rúmgóðir. Þeir hafa gegn um síðustu 2-3 áratugina verið mjög vinsælir hjá björgunarsveitum og ferðaþjónustu, þegar flytja þarf fólk og búnað um fjöll og firnindi. Þá eru þeir til sem innrétta svona trukka sem húsbíla og eru þannig komnir með "fjallaskála á hjólum". Þessi mynd er einnig tekin í Boganum 17.júní 2009.
Bloggar | Breytt 7.12.2011 kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2011 | 17:13
Hús dagsins: Hafnarstræti 85-89; Hótel KEA.
Stundum er ekki auðvelt að slá föstu um byggingarár húsa. Tökum sem dæmi síðasta Hús dagsins, Icelandair Hotel. Byggingarár þess er 1969. En í rauninni var húsið eins og það lítur út núna að mestu byggt sl. vetur 2010-11, þ.m.t. öll efsta hæðin og stór hluti hússins sem snýr í suðurs. Allar lagnir og innviðir eru væntanlega eins og um nýbyggingu sé að ræða, og sennilega er þegar upp er staðið aðeins hluti útveggja og einhverjir burðarveggir sem eru frá 1969.
Það sama gildir um Hús dagsins í þessari færslu, það er byggt í mörgum áföngum, elsti hlutinn um áttrætt en síðast var hluti hússins allur tekinn í gegn fyrir örfáum misserum. En ég held mig í hótelunum og á þessari mynd er sennilega gamalkunnasti gististaður Akureyrar, nefnilega Hótel KEA. En þetta stórglæsilega steinsteypuhús á fjórum hæðum var upprunalega reist árið 1933. Syðsta hluta hússins, nr. 85, sem raunar sést ekki á þessari mynd reisti Hjalti Sigurðsson húsgagnasmiður og var þar með verslun. Síðar hafa verið margar verslanir á jarðhæð, fasteignasala síðustu árin en hótel á efri hæðum. Hét það Hótel Harpa lengi vel en Hótel Stefanía þar áður. Fyrir skömmu voru gistirými Hótel Hörpu sameinuð Hótel KEA. Nyrsti hluti sambyggingarinnar, Hafnarstræti 89, sést hér á myndinni en hann hefur margoft verið stækkaður og allavega einusinni verið byggð ofaná hann aukahæð. Er það hið eiginlega Hótel KEA og var upprunalega reist sem slíkt 1933. Í nr. 87 var lengi vel Brauðgerð KEA, apótek og verslunarrými hafa einnig verið á jarðhæð nr. 89, þarna hafa einnig verið kjötbúð og mjólkurbúðir. Um 1990 var þarna Kaffiterían Súlnaberg en nú er þarna matsalur hótelsins. Hér eru nánari upplýsingar um Hótel KEAfyrir þá sem hafa áhuga, en hótelið státar af á annað hundruð vel búnum herbergjum og eru húsakynnin öll hin glæsilegustu, enda vinsælt að halda þarna ráðstefnur og samkomur. Húsið sem slíkt er einnig einn af hornsteinunum fjórum sem ramma inn Kaupfélagshornið svokallaða, eitt þekktasta og líklega mest myndaða götuhorn Akureyrar, þar sem Hafnarstrætið sker Kaupangsstrætið og síðarnefnda gatan heldur svo áfram upp Gilið. Þessi mynd er tekin 21.ágúst 2011.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2011 | 17:19
Hús dagsins: Þingvallastræti 23; Gamli Iðnskólinn, Icelandair Hotels.
Eitthvað á ég enn af myndum af húsum sem vert er að fjalla um hér, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað í síðustu færslu. Hér er eitt af merkari stórhýsum Akureyrar, Þingvallastræti 23. En húsið var reist árið 1969 og hýsti Iðnskóla Akureyrar í um hálfan annan áratug, en skólinn rann í Verkmenntaskólann á Akureyri þegar hann var stofnsettur árið 1984. Háskólinn á Akureyri hafði lengi aðsetur sitt í húsinu en hann var stofnaður 1987. Skólinn stækkaði hratt og fluttist að hluta á Sólborg um 1995 þar sem mikil uppbygging hófst næstu árin og áratuginn þar á eftir. Kennaradeild skólans var áfram í húsinu allt til vorsins 2010 en nú er öll starfsemi Háskólans komin á Sólborgarsvæðið. Þess má geta að undirritaður lauk Kennslufræðum til Kennsluréttinda við HA veturinn 2009-2010 og var ég í síðasta árganginum sem sat fyrirlestra í þessu húsi- vorið 2010 var ég eingöngu í tímum í þessari byggingu. Húsið vantaði töluvert uppá að uppfylla kröfur til nútíma skólahúsnæði; var t.d. rekið á undanþágum frá Brunavarnareftirliti og það var dálítið sláandi munur á aðstöðunni þarna og í nýbyggingunum í Sólborg. En afskaplega skemmtilegt og þægilegt hús þrátt fyrir það. Veturinn 2010-11 fóru fram umfangsmiklar endurbætur á húsinu og má segja að fátt standi eftir upprunalegt utan útveggir og nokkrir burðarveggir að innan. Það var og stækkað töluvert, hækkað um eina hæð og lengt til suðurs, auk þess sem grafið var frá kjallara þ.a. hann var byggður upp sem hæð. Þetta hús sem hafði hýst Iðnskóla og síðar Háskóla í 40 ár var breytt í fyrsta flokks hótel. Nú er húsið allt hið stórglæsilegasta, sem og umhverfi þess og þarna er nú Icelandair Hotel Akureyri. Efsta myndin er tekin 21.ágúst 2011 en hér að neðan eru myndir sem sýna upprunalega útlit hússins og einnig meðan það var í endurbyggingu. Húsið sést í efra horni hægra megin á vinstri myndinni, sem tekin er 25.sept. 2010 en seinni myndin er tekin sex mánuðum síðar 28.mars 2011.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2011 | 21:44
Hvað er að frétta af "Húsum dagsins"?
Rauði þráðurinn á þessum vef hafa verið myndaþættir og söguágrip af eldri eða skrautlegum húsum á Akureyri. Þeir sem heimsækja þessa síðu reglulega kunna að hafa tekið eftir því að ekki hefur komið Húsapistill í rúman mánuð. Og því eflaust einhverjir sem kunna að spyrja að þessu. En staðreyndin er sú að ég er búinn að skrifa um lang flestar húsamyndir sem ég á og ekki komið mér í að taka fleiri myndir. Það stendur alveg örugglega til bóta. Það verður líka sífellt erfiðara að muna hvaða hús ég er búinn að mynda og fjalla um eða ekki- þ.e. ég er ekki með það á hreinu þegar ég fer út með myndavélina, hvort hús sé í hópi þeirra rúmlega 130 sem ég hef tekið fyrir. En flest sögufræg eða byggingarsöguleg hús á Akureyri hef ég fjallað um hér auk margra annarra húsa. Grundvallarreglan í þessum skrifum mínum er sú að í hverjum Húsapistli er mynd af húsinu- og myndina verð ég að hafa tekið sjálfur.En ég get nokkurn vegin lofað því að Hús dagsins verða fleiri. Sem dæmi má nefna að ég á eftir að taka fyrir margar byggingar í Miðbæ Akureyrar og einhver býli í Glerárþorpi á ég eftir að taka fyrir. En það mun kannski líða talsverður tími á milli. Ég var einhvern tíma búinn að lýsa því yfir að ég myndi láta vita þegar þessum pistlum yrði formlega hætt en er eiginlega búinn að skipta um skoðun hvað það varðar. Því auðvitað yrði það þannig að strax eftir að ég lýsti því yfir að Hús dagsins yrðu ekki fleiri myndi ég uppgötva einhverja byggingu til að fjalla um eða mér bent á hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2011 | 17:50
Góðar fréttir
Það er nú rétt vonandi að það rætist úr þessu hjá körlunum. Einhvern vegin finnst mér ég hafa séð svipaðar fréttir áður en það hafi svo reynst stórlega ýkt. Black Sabbath eru í talsverðu uppáhaldi hjá mér, ég á flesta diskana þeirra og þ.m.t. "Never Say Die" frá 1978- en skv. fréttinni virðist ný plata eiga að heita það sama. (Sjálfsagt einhver misskilningur á ferðinni). Þessi skipan hljómsveitarinnar er sú upprunalega en margir hafa komið við sögu í starfstíð Black Sabbath- sem spannar meira en 40 ár! Má þar nefna m.a. Ian Gillan úr Deep Purple, Vinnie Appice, Bev Bevan og Glenn Hughes að ógleymdum meistara Ronnie James Dio, sem lést á síðasta ári. Meðlimir Sabbath, með Dio í fararbroddi höfðu sl. ár starfað undir nafni Heaven And Hell og gáfu út plötuna "The Devil You Know" 2009. Sú plata þótti mér sýna að meistararnir hefðu engu gleymt frá sínum bestu árum- og því bíður maður spenntur eftir nýrri plötu !
![]() |
Black Sabbath saman á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2011 | 20:20
Villtar íslenskar plöntur
Eitt af því sem ég hef gaman af að ljósmynda eru villtar plöntur. Hér eru nokkrar.
Lyfjagras ( Pinguicula vulgaris). Myndin er tekin við gamla veginn fram í Eyjafjarðarsveit, skammt norðan við bæinn Vagli þann 27.júní 2006.
Mjaðjurt (Filipendula ulmaria ) í ofanverðum Kjarnaskógi 9.ágúst 2011.
Maríustakkur ( Alchemilla vulgaris) á svipuðum slóðum og mjaðjurtin hér að ofan, 9.8.2011.
Lúpína (Lupinus nootkasensis). Tæpast hægt að telja hana til innlendra plantna en farið var að flytja hana inn á fyrri hluta 20.aldar til uppgræðslu. Lúpínan er almennt ekki vinsæl planta enda getur hún orðið verulega ágeng, breiðst hratt út og valtar hiklaust yfir lágvaxnari gróður ef því er að skipta. Þá er heldur ekki auðvelt að eyða henni ef hún nær sér á strik. Síðan getur hún skapað eldhættu, þ.s. mikil sina safnast inn í lúpínubreiður. Þessi lúpínurunni er í Vaðlareit, gegnt Akureyri, myndin tekin 29.maí 2011.
Bloggar | Breytt 10.11.2011 kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.5.): 13
- Sl. sólarhring: 40
- Sl. viku: 470
- Frá upphafi: 447387
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 314
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar