Færsluflokkur: Bloggar

140. húsapistillinn...

Pistillinn um Gránufélagsgötu 22 sem ég birti núna áðan var skv. lauslegri talningu minni pistill númer 140. Árið 2012 er 150 ára afmælisár Akureyrar- og af því tilefni- ætla ég einmitt að hafa pistil nr. 150 sérstaklega veglegan. Miðað við meðalafköst mín sl. mánuði þ.e. um einn pistill á viku gæti þessi pistill birst um og eftir miðjan apríl. Þá hef ég látið mér detta í hug, að 150 pistlum liðnum, að setja saman einskonar söguágrip Akureyrar gegn um húsin. Það gefur hinsvegar auga leið að 150. húsapistillinn yrði að fjalla um eitthvert mjög sérstakt hús, sögufræga byggingu eða vel þekkt kennileiti á Akureyri. En þar er etv. úr vöndu að ráða- þar sem ég er örugglega nú þegar búinn að fjalla um nokkuð mörg hús sem falla undir þetta. (Mér hefur svosem látið mér detta í huga eitt sérstakt hús). En nú er ég að spá hafið þið, lesendur góðir, einhverjar góðar hugmyndir um "kandídat" fyrir "afmælishátíðarpistilinn" númer 150? Tek allar hugmyndir til greina og íhuga vandlega Smile.

ATHS. Bætt við 25.apríl: Við ítarlega talningu kom í ljós að mér hafði skeikað um þrjá, þ.a. að Gránufélagsgata 22 var í raun nr. 137. En það breytir ekki fyrri ákvörðun um 150.pistilinn en ég hef hinsvegar leiðrétt númerin á pistlunum í samræmi við þetta. Biðst ég, lesendur góðir, velvirðingar á þessum mistökum.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 22

Hús dagsins í dag stendur beint á móti síðasta húsi dagsins á horni Gránufélagsgötu og Hríseyjargötu. P1150061Á þessu horni hafa árekstrar verið nokkuð tíðir gegn um árin og áratugina- en ástæðan er sú að fyrir þeim sem kemur niður Gránufélagsgötuna (hún liggur A-V og einstefna í austur) ber að víkja fyrir umferð sem kemur norður eftir Hríseyjargötu (hún er einnig einstefna)- og ekki allir sem gæta að því! En að húsinu. Fyrsta húsið sem reis þarna var smiðja eða verkstæðishús og var það byggt 1914 af Sigurði Víglundssyni. Það var einlyft með bröttu risi, steinsteypt og eitt af fyrstu steinsteypuhúsum Akureyrar. Hann byggði við húsið 1921. Það mun líkast til vera einlyfta byggingin með skúrþakinu lengst til vinstri á myndinni. Árið 1923 reis "aðal" húsið, þ.e. tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki. Þannig var upprunalega smiðjan orðin kjarni í þessari sambyggingu íbúðarhúss, smiðju og geymslu. Húsið hefur líklega verið tvíbýli frá upphafi, íbúðir á efri og neðri hæð- allavega hefur sú íbúðaskipan verið sl. áratugi. Hugsanlega hefur einhvern tíma verið búið í smiðjuhúsinu einnig. Þessi samsetning húsa er svolítið sérstök og hefur sambyggingin skemmtilegan svip- mér finnst húsin minna dálítið á sveitabæ þar sem íbúðarhús og útihús eru sambyggð (en slíkt var raunar ekki óalgengt á þeim tíma sem húsin voru byggð). Húsin eru í ágætis hirðu og þarna eru skil milli mismunandi bygginga nokkuð greinileg. Þessi mynd er tekin 15.jan 2012.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Gagnsemi opinna svæða

Í flestöllum byggðalögum má finna óbyggð svæði eða græn svæði.  Stundum hafa þau verið ræktuð upp og byggðir upp litlir óformlegir skrúðgarðar en einnig getur verið um að ræða ónotuð svæði, stundum í órækt  eða þau ræktuð upp og slegin og hirt en annars látin afskiptalaus. Stundum eru þarna nokkrar trjáplöntur. Til eru þeir skipulags og byggingafrömuðir sem mega helst ekki sjá svona svæði í friði- þar verði sko umsvifalaust að byggja!  Þarna er þétting byggðar ákveðið lykilorð og er það vel skiljanlegt sjónarmið. En opin og óbyggð svæði eru svo sannarlega ekki alveg til ógagnsFyrir utan að oft notast þau sem leikvangur fyrir börn eða aðra sem gaman hafa að leik, boltaleiki og annað slíkt og skapa ákveðið "andrými" innan þéttbýlisins þá er eitt ótvírætt notagildi á svona svæðum að vetrarlagi. Þangað er nefnilega alveg upplagt að moka snjó af götum- sem annars yrði að geyma á gangstéttum eða bílastæðum Wink.

 


Hús dagsins: Gránufélagsgata 33; Hinrikshús.

 Gránufélagsgata 33 stendur á horni Gránufélagsgötu og Hríseyjargötu. Húsið reisti maður að nafni Hinrik Pétursson árið 1917. P1150051Var það þá einlyft steinsteypuhús með portbyggðu risi á kjallara.  Húsið hefur tekið töluverðum breytingum frá upphafi og verið stækkað nokkrum sinnum, líklegt þykir mér að bakbygging hafi upprunalega verið geymslu- eða verkstæðisbygging. En það er í raun algengara en hitt að hús sem komin eru nálægt 100 árum eða eldri hafi verið stækkuð eða breytt umtalsvert að ytra byrði. Nú má segja að húsið sé tvær álmur, önnur tvílyft með lágu risi, samsíða Hríseyjargötu og svo upprunalega húsið, einlyft með miðjukvisti og snýr að Gránufélagsgötu. Húsið hefur líkast til allt verið byggt upp í kjölfar bruna á 7.áratug síðustu aldar en hér má sjá myndir af því af vef Slökkviliðs Akureyrar.  Á þeim myndum má sjá að miðjukvistinum hefur verið breytt eftir það. Upphaflega hefur húsið líkast til verið einbýli en nú eru í því tvær íbúðir, ein í framhúsi og neðri hæð bakvið og önnur minni á efri hæð bakbyggingar. Húsið var allt tekið til gagngerra endurbóta utan sem innan fyrir um tveimur áratugum og lítur nú stórglæsilega út. Það er klætt múrmylsnuplötum og gluggar eru nýlegir og þakklæðning. Ef myndin er skoðuð í fullri stærð (það gert með því að smella á hana) má sjá áletrunina "Hinrikshús 1917" bakatil á húsinu. Þessi mynd er tekin 15.jan 2012.

 


Hús dagsins: Gránufélagsgata 35

Gránufélagsgata 35 P1150060var reist nokkur hundruð metrum neðar á Eyrinni árið 1923 en flutt á þennan stað um hálfri öld síðar. Gekk það þar undir nafninu Litli-Póll en næsta hús við það var Gránufélagsgata 57. Það var kallað Norðurpóll og var reist um 1910. Það var mikið stórhýsi, timburhús í Sveitser stíl, tvílyft með miklum miðjukvisti og virðist ekki hafa verið ósvipað húsum nr. 19 og 23 við Strandgötu. Ekki á ég nú mynd* af  þessu ágæta húsi því Norðurpóllinn var rifin talsvert áður en ég fékk tækifæri til að mynda hann eða árið 1979- sex árum áður en ég svo mikið sem fæddist! Hef ég heyrt marga sjá eftir þessu húsi og telja að vel hefði verið hægt að gera það upp.

En Gránufélagsgata 35 er einlyft timburhús með portbyggðu risi og einlyftri bakbyggingu með skúrþaki. Það er klætt svokölluðu steinblikki (hef einnig heyrt þetta kallað rósajárn), sérstakri blikkklæðningu sem minnir á grjóthleðslu og er algeng á timburhúsum á Akureyri en næsta sjaldgæf annars staðar. Ekki virðist vera kjallari undir húsin en það stendur á lágum steinsteyptum grunni. Bakbygging er að mestu forsköluð. Það sem helst gefur húsinu skemmtilegan og einkennandi svip er miðjukvistur sem gengur eilítið fram fyrir húshliðina og stendur á járnstólpum. Ekki veit ég hvort kvisturinn hafi verið á húsinu frá upphafi eða bætt við síðar. Ein íbúð mun vera í húsinu. Þessi mynd er tekin 15.jan. 2012.

*Við vinnslu þessa pistils reyndi ég árangurslaust að "googla" myndir af Norðurpólnum, Gránufélagsgötu 57 til að vísa í hér með tengli. Hugsanlega leynast slíkar myndir einhversstaðar "nafnlausar" í  myndasöfnum  en ef orðin Norðurpóllinn eða Gránufélagsgata 57 standa hvergi nærri nemur Google það auðvitað ekki.


Hús dagsins: Hríseyjargata 6

Hríseyjargötu 6 reisti Jónas Jónasson árið 1931.P1150052 Er þetta eitt fjölmargra húsa sem Sveinbjörn Sveinbjörnsson, kenndur við Ofnasmiðjuna teiknaði, en segja má að teiknarar hússins séu tveir. Því Sveinbjörn gerði sínar teikningar árið 1926 og gerði þá ráð fyrir því að húsið yrði þrjár hæðir, en við endurskoðun á teikningunum sem Tryggvi Jónatansson gerði árið fimm árum seinna var húsið lækkað um eina hæð. Hvort um var að ræða fjárskort eða eitthvað allt annað- skal ósagt látið hér. En húsið er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi en á bakhlið er stigabygging. Helsta útlitseinkenni hússins er köntuð útbygging eða kvistur með lauklaga hvolfþaki (kallað Karnap skv. Guðnýju Gerði og Hjörleifi Stefánssyni). Hana er að finna í teikningum Sveinbjarnar en þar er þessi útbygging á tveimur hæðum þ.e. nær frá miðhæð uppá þriðju. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Þessi mynd er tekin sunnudagsmorguninn 15.janúar 2012.

Heimildir: Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi. 

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Vetrarmorgunn á Eyrinni

Í morgun, uppúr klukkan 11, brá ég mér út að "viðra myndavélina" eins og ég kalla. Tók ég strikið suður eftir Oddeyrinni og m.a. myndaði nokkur hús sem fá að bíða birtingar og umfjöllunar hér á síðunni. En sólin var að dragnast upp, hún hefur nú hækkað sl. 3 vikur en dagurinn er þó stuttur og verður enn um sinn. En morgunskíman er frábær til myndatöku og hér eru nokkrar svipmyndir.

P1150055

Hlíðarfjall, baðað morgunsól. Brekkan og efri hluti Strandgötunnar í forgrunni.

P1150062

 Hjalteyrargata, horft norður götuna. Gatan skilur á milli iðnaðarhverfisins á neðri (eystri) hluta Oddeyrarinnar og íbúðarbyggðar á efri hlutanum. Hún tengist Strandgötu og liggur samsíða þvergötunum Hríseyjargötu, Grundargötu, Norðurgötu og Lundargötu.

P1150065

Snjóruðningar bjóða uppá skemmtilega möguleika á sjónarhornum sem annars eru ekki fyrir hendi. Þessi mynd er tekin uppi á snjóruðningi við Hagkaup. Þarna er horft til norðurs yfir Hjalteyrargötuna og er þetta fjallgarðurinn norðan við Hörgárdal, og athafnasvæði Slippsins í forgrunni. Fjallgarðurinn er um 900-1000m y.s. Ekki þekki ég nöfn allra hnjúkanna, held að Staðarhnjúkur sé annar frá vinstri. Það sést síðan glitta í Sólarfjall lengst til hægri en líklega er Hvammsfjall þar við hliðina.

P1150058

Hér horfum við síðan fram Eyjafjarðarsveitina, sólin gægist uppfyrir Garðarsárdalinn. Fjöllin sitt hvoru megin eru kennd við sveitirnar þar undir; Kaupangssveitarfjall til vinstri og Staðarbyggðarfjall til hægra. Nokkrir krummar voru á ferli þarna við Strandgötuna og einn flaug inn á miðja mynd hjá mér- svona til að kóróna þetta allt saman.

 


Göngutúr um neðra Glerárgil

  Þessi pistill má heita í beinu framhaldi af Gönguleiðapistlinum sem ég birti í síðasta mánuði. En líkt og þá grein skrifaði ég þessa leiðarlýsingu sem grein í Páskablað Skátastarfs, þessa grein sennilega 2010 frekar en 2009.  

Við hefjum göngu okkar við brúnna yfir Glerá á þjóðvegi 1, skáhallt á móti Glerárgötu. Við fylgjum eftir stíg sem fylgir ánni samsíða götunni Lönguhlíð. Eftir um 200 metra tekur áin beygju og leiðin fer að liggja uppí mót. Þar má segja að Glerárgilið byrji. Glerárgil nær raunar langleiðina upp að Öskuhaugum upp í 200m hæð en skiptist í sk. Efragil og Neðragil. Neðragil er sá hluti sem liggur innan Akureyrar og nær frá Réttarhvammi niður að Lönguhlíð. Við kjaft gilsins rekumst við á litla stíflu í ánni og lítinn hyl. Þessi stífla sá verksmiðjunum á Gleráreyrum fyrir vatni til iðnaðar- en við hliðina má enn sjá ummerki um veitustokk sem lá niður að verksmiðjum. Á sama stað, ca. 50 m ofar er gömul og lúin steinsteypt brú. Mun þetta elsta uppistandandi brú á Gleránni, en hún er síðan 1922 og er nú notuð sem göngubrú. Þó eru ekki nema um 10 ár síðan hún var notuð undir bílaumferð. Gamli þjóðvegurinn inní Akureyri lá um þessa brú fram yfir 1950-60. Við hlið brúarinnar má sjá steinhleðslu, stöpla brúar frá ca. 1880. Höldum áfram leið okkar sem liggur um botn gilsins. Nokkrir hellisskútar eru þarna í klettaveggjunum en fæstir það stórir að margir menn rúmist þar. Á sumum stöðum þar sem gilið er mjóst er hægt að ganga á þurru yfir þegar minnst er í ánni. Nú komum við að nýju og glæsilegu stöðvarhúsi Glerárvirkjunar. Þetta hús mun nákvæm eftirlíking af eldra húsi sem var rifið um 1980. Meðfram veitustokknum liggja margar tröppur upp að stíflunni sjálfri. Glerárvirkjun var reist um 1921 og sá Akureyri alfarið fyrir rafmagni þar til Laxárvirkjun var tekin í notkun 1939. Virkjunin var aflögð um 1960 en gerð upp og tekin aftur í notkun um 2004 og framleiðir nú 290KW. Glerárlón varð til er stíflan var reist, er það mikil prýði í umhverfinu og þar eru oft ýmsar fuglategundir á vappi. Tjaldar sjást þar t.a.m. oft. Við lónið getum við valið hvort við göngum yfir stífluna eða eftir Skarðshlíðinni upp á Borgarbraut, þar sem stígur heldur áfram rétt ofan við brúna. Þarna liggur leiðin gegn um lítinn skóg og heldur hún áfram upp á Hlíðarbraut þar sem stígur heldur aftur áfram neðan við veginn. Neðan við verslun Strax er mest um barrtré en aspir eru ráðandi þegar ofar dregur. Þarna renna nokkrir lækir niður hlíðina og auðvelt er að sjá að þarna að liggur leiðin um gömul tún þar sem plantað hefur verið trjám. Það má einnig greina gömul tún þegar horft er yfir gilið til Sólborgar. Eitthvað er af gömlum mannvirkjum á leiðinni en neðan við verslun Strax hefur verið byggður upp sólpallur á gömlum, steyptum grunni sem líklega er af einhverju útihúsi. Sunnar, eða rétt við brúnna á Hlíðarbraut eru leifar af gömlu jarðhýsi sem hefur nú verið jafnað við jörðu. Við Hlíðarbraut ljúkum við þessari göngu en þessa leið er gaman að fara hvenær sem er og tekur hún ekki nema 20-30mínútur.

Svipmyndir frá Glerárgili

P9300011   PC200048

Til vinstri:Haustlitir í Glerárgili í ljósaskiptunum 30.sept. 2010. Myndin tekin af göngubrú við Hlíðarbraut. Hægra megin: Glerárstífla í gífurlegum vatnavöxtum þann 20.des. 2006. Þennan dag varð mikil asahláka í Eyjafirði sem olli þó nokkru tjóni þar sem skriður féllu og vegir skemmdust. Rauða göngubrúin var reist 1998 og þótti mörgum hún ekki falleg- hvað þá á þessum stað. En hún er talsverð samgöngubót fyrir gangandi um þessar slóðir.

P6300132

Þessa mynd tók ég beint niður af göngubrúnni á Glerárstíflu að kvöldi 30.júní 2011. Þarna féll Glerárfoss en hann var virkjaður þegar stíflan var reist 1921.


Hús dagsins: Tungusíða 1; Grænahlíð

Fyrsta Hús dagsinsá árinu 2012 stendur hátt í Glerárþorpi nánar tiltekið í Síðuhverfi.P1010044 En til glöggvunar fyrir þá sem ekki vita skiptist Akureyri norðan við Glerá (Glerárþorp eða einfaldlega "Þorpið")  í fjögur hverfi, Holtahverfi sem er neðst afmarkast af Hörgárbraut og nær að höfðanum ofan Sandgerðisbótar og Óseyrar. Hlíðahverfi er á milli tveggja umferðargatna Hlíðarbrautar og Hörgárbrautar. Flest gömlu býlanna í Glerárþorpi eru þessum tveimur hverfum. Síðuhverfi er efst og nyrst, ofan Hlíðarbrautar og norðan Borgarbrautar, en sunnan við hana er Giljahverfi.  

En húsið á myndinni er  gamalt smábýli og heitir Grænahlíð en stendur nú við Tungusíðu 1.  Grænahlíð er byggð 1945 og er elsta húsið í Síðuhverfi en hverfið er að mestu byggt á bilinu 1975-85. Húsið er nokkuð dæmigert fyrir einbýlishús þess tíma, einlyft með nær ferningslaga grunnfleti (þetta hús er reyndar í tveimur álmum, önnur lengri en hún er breið) og hálfgerðu valmaþaki. Húsið er undir greinilegum áhrifum frá Fúnkísstíl sbr. hornglugga t.h. á myndinni. Húsið er byggt úr steypu- en gæti mögulega verið byggt úr r-steini, en hann var vinsælt byggingarefni á þessum tíma og var íslensk - nánar tiltekið Akureyrsk uppfinning! Þetta hús var ekki í sem bestu standi fyrir rúmum áratug- gott ef það stóð ekki autt einhver ár. En nú hefur það hlotið gagngerar endurbætur bæði utan sem innan og er hið glæsilegasta að sjá. Eins og oft er með gömul býli þá fylgir víðlend lóð og hefur einnig vel tekist til við nýtingu hennar. Þessa mynd tók ég í  nýjárssólinni -sem reyndar faldi sig bakvið skýjabakka mikla- í fyrradag 1.1.2012.


Nýjárskveðja

Ég óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það gamla. Þakka öll innlitin og athugasemdaskrif frá lesendum á liðnu ári.

Komandi ár er merkisár hér norðan heiða því seint í sumar  verður Akureyrarkaupstaður 150 ára, en bærinn fékk kaupstaðarréttindi 29.ágúst 1862. Ég spái því- og geri ráð fyrir að verða sannspár- að það verði því mikið um dýrðir hér í bæ allt þetta ár og kannski sérstaklega í sumar, í tilefni af því. (Það má kannski líta á það sem einskonar framlag þessarar síðu til afmælisfagnaðar að 150. húsapistillinn verður væntanlega birtur á árinu...)

PC310038

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • P6171048
  • IMG_2893
  • IMG_2889
  • IMG_3045
  • P6171046

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 457
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 304
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband