Í stuði. 90 ár frá rafmagnsvæðingu Akureyrarkaupstaðar.

Fyrir mánuði síðan fagnaði Akureyrarkaupstaður 150ára afmæli sínu. En bærinn var rafmagnslaus í slétta 6 áratugi og mánuði betur- því 30.september 1922- fyrir 90 árum síðan- var rafmagni úr Glerárvirkjun hleypt á bæinn og bæjarbúar gátu nú allir sem einn lagt grútar- og olíuljósunum, kolavélunum og 60 kerta perurnar lýstu upp hvern krók og kima frá og með þeim degi. Eða ekki. Skv. 4.bindi Sögu Akureyrar e. Jón Hjaltason (2004) voru það fá heimili eða 36 sem nutu rafmagnstengingar og í ljósastaura sem reistir höfðu verið vantaði perur af réttri gerð. Auk þess mun rafmagnið hafa verið flöktandi fyrstu misserin- en Glerárvirkjun annaði svosem engan vegin raforkuþörf alls bæjarins. Og sú notkun var sennilega varla nema til ljósa og eldunar. En allavega, í dag eru 90 ár síðan Rafveita Akureyrar var tekin í notkun svo hér eru nokkrar "rafmagnaðar" myndir frá Akureyri og nágrenni. Saga Glerárvirkjunar og stöðvarhúss er svo aftur efni í annan pistil (Glerárvirkjun verður "Hús dagsins" eða "Mannvirki dagsins" hér von bráðar!).

Heimildir: Jón Hjaltason. 2004. Saga Akureyrar IV bindi 1918-1940; Vályndir tímar. Akureyri: Akureyrarbær.

Heimasíða Norðurorku: http://www.no.is/is/um-no/sagan/rafveitan

PC200048

Glerárstífla. Hún var steypt 1921-22 og framleiddi rafmagn í nærri 4 áratugi en var í hvíld álíka lengi uns hún var endurræst 2005. Þessi mynd er tekin 20.desember 2006 í einhverri mestu asahláku sem komið hafði í áraraðir. Það gerist ekki oft að það flæði yfir yfirfallið vinstra megin á myndinni, en þarna er það á bólakafi. Rauða stálbrúin ofan á stíflunni var reist 1998 og var töluverð bylting fyrir gangandi umferð milli Glerárþorps og Brekku.

268

Þessi mynd er tekin 18.febrúar 2005 en þá var unnið að endurbyggingu Glerárstíflu. Hér er búið að leggja nýja vatnspípu frá stíflunni niður í stöðvarhús en fallhæðin er 15metrar. Vatnsaflsvirkjanir byggjast nefnilega á því að fallþungi vatnsins snýr hverflunum sem framleiða rafmagnið; því meiri fallhæð því meira afl. Þess vegna er æði vinsælt hjá rafmagnsframleiðendum að virkja til fjalla- en það er aftur  afar óvinsælt hjá náttúruverndarfrömuðum!

337

Hér er stöðvarhús Glerárvirkjunar í endurbyggingu vorið 2005, en upprunalega stöðvarhúsið frá 1922 var rifið um 1980. Ég hélt ég ætti nú nýrri mynd af húsinu en þetta- en þegar ég fletti í gegn um myndasafnið var þetta eina myndin sem ég fann. Þannig að það er ljóst að ég þarf að mynda stöðvarhúsið uppá nýtt áður en ég tek það og virkjunina fyrir í "Húsum dagsins"...

PB290055

Þessi mynd varð nú að fylgja með- þó það sé yfir hálf öld síðan dreifikerfi Akureyrarrafmagns fór að mestu leyti úr lofti ofaní jörð. En þessi staurastæða stendur skáhallt ofan Halllands í Vaðlaheiði, nokkurn vegin beint ofan fyrir ofan fyrirhugaðan gangnamunna Vaðalaheiðarganga og er ein af nokkur hundruð á Laxárlínu sem flytur rafmagn frá Laxárvirkjun til Akureyrar og hefur gert frá 1939. Þessi mynd er tekin í lok nóvember 2008.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 262
  • Sl. sólarhring: 265
  • Sl. viku: 558
  • Frá upphafi: 420579

Annað

  • Innlit í dag: 223
  • Innlit sl. viku: 426
  • Gestir í dag: 216
  • IP-tölur í dag: 211

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband