Hús dagsins: Möðruvallastræti 1

Frá Helgamagrastrætinu færum við okkur yfir Grófargilið á Syðri Brekkuna...

Möðruvallastræti er gata á Syðri Brekkunni, skammt ofan og sunnan Grófargils. Liggur hún vestan við og samsíða Eyrarlandsvegi, þ.e.a.s í norður-suður á milli gatnanna Skólastígs og Hrafnagilsstrætis. Hún er að mestu leyti byggð á fjórða og fimmta áratug 20. aldar, ef undan er skilið hús nr. 1a sem byggt er 1919. (Taldist það hús lengi vel Eyrarlandsvegur 14b). Möðruvallastræti er um 140m að lengd.

Síðla vetrar og um vorið 1941 fékk Þórður Jóhannsson lóð við Möðruvallastrætið,PA270988 beint á móti Helga Skúlasyni [Möðruvallastræti 2], og byggingaleyfi. Fékk Þórður að reisa íbúðarhús, eina hæð á kjallara, byggt úr járnbentri steinsteypu með flötu steinþaki. Teikningarnar að húsinu gerði Adam Magnússon, en talið er að Halldór Halldórsson hafi teiknað viðbyggingu til norðurs sem byggð var 1947. Þá gerði Jón Geir Ágústsson teikningar af efri hæð eða þakhæð hússins árið 1957.

Möðruvallastræti er steinsteypuhús, ein hæð með háu „uppbyggðu“ valmaþaki og á háum kjallara. Þessi þakgerð er nokkuð sérstæð en nokkur dæmi eru um svona viðbætur á funkishús frá fimmta áratugnum hér í bæ; þ.e. mansard valmaþaki. Mjótt útskot er á framhlið og inngöngudyr og tröppur upp að þeim Á norðurhlið er útskot og svalir á efri hæð í kverkinni en einnig eru svalir til suðurs. Veggir eru með steiningarmúr en bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í gluggum.

Þegar „Möðruvallastræti 1“ er flett upp á timarit.is birtast einar 76 niðurstöður. Sú elsta er frá maí 1955, en þá tilkynnir María Ragnarsdóttir saumakona, að þangað sé hún flutt. En Þórður A. Jóhannsson, sem byggði húsið, starfaði sem húsgagnasmiður. Hann var uppalin á Hnjúki í Svarfaðardal. Hann byggði einnig hús í Eiðsvallagötu um 1930 og síðar í Hamragerði ofar á Brekkunni. Kona Þórðar var Signý Stefánsdóttir frá Fallandastöðum í Hrútafirði. Hún lést árið 2007, 101 árs að aldri en hún var fædd 1905. Bjuggu þau í Möðruvallastræti 1 um árabil, en ýmsir hafa þarna búið gegn um tíðina. Í tíð þeirra Þórðar og Signýjar var byggt við húsið til norðurs, 1947, og um 1958 var byggð hæð ofan á húsið eftir teikningum Jóns Geirs Ágústssonar. Þakhæðir, sambærilegar þeirri sem byggð var á Möðruvallastræti 1 má sjá á nokkrum funkishúsum frá fjórða og fimmta áratugnum, m.a. á Munkaþverárstræti 12Helgamagrastræti 26 og Fjólugötu 18 á Oddeyri. Voru þær flestar byggðar um 1960. Húsið er þannig tekið þó nokkrum breytingum frá upphaflegri gerð, en er í góðu standi og lítur vel út.

Möðruvallastræti 1 er reisulegt hús í góðri hirðu og gefur þakhæðin húsinu óneitanlega sterkan og einkennandi svip. Segja má, að húsið sé stórbrotið og er það til mikillar prýði í götumynd sem lúrir undir háum stafni fyrrum Barnaskóla Akureyrar, eða Rósenborgar. Á lóðarmörkum er steypt girðing með stöplum og járnavirki. Húsakönnun 2016 metur Möðruvallastræti 1 með 3. stigs (af 7) varðveislugildi. Þrjár íbúðir eru í húsinu, hver á sinni hæð. Myndin er tekin þann 27. október 2019.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 868, 7. mars 1941. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 871, 14. Apríl 1941. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 74
  • Sl. sólarhring: 202
  • Sl. viku: 683
  • Frá upphafi: 419774

Annað

  • Innlit í dag: 56
  • Innlit sl. viku: 544
  • Gestir í dag: 55
  • IP-tölur í dag: 55

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband