Hús dagsins: Skipagata 8

Í ársbyrjun 1939 var Konráð Kristjánssyni heimilað að reisa verslunarhús við P1190978Skipagötu á lóð sem honum hafði verið leigð. En Konráð fékk að reisa hús 9x11m að stærð, tvær hæðir á lágum grunni, veggir, loft og gólf úr járnbentri steinsteypu. Konráð sótti um að fá að byggja íbúðarhús og verslunarhús, en vegna skipulagsmála var ekki heimilt að byggja íbúðarhús á þessum stað. Húsið mátti hins vegar vera verslunar- og skrifstofuhús. Teikningar, sem ekki eru aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, mun Tryggvi Jónatansson hafa gert. Öfugt við öll hin húsin, nyrst við vestanverða Skipagötu, var ekki gerð sú krafa, að húsið þyrfti að vera hærra en þessar tvær hæðir. Kemur það líklega til af því, að húsið var byggt frístandandi, þ.e. það tengdist ekki  Ráðhústorgs- Skipagötusamstæðunni fyrr en Eyþór Tómasson byggði Skipagötu 6. Síðarnefnda húsið var hins byggt með skilyrðum, um að það gæti orðið þrjár hæðir. (Þriðja hæð þess húss er þó enn ekki risin, 80 árum síðar).

Skipagata 8 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla, aflíðandi þaki undir háum þakkanti, stölluðum á gafli. Gluggar eru með einföldum þverpóstum og verslunargluggar á jarðhæð. Fjórar gluggar á efri hæð eru rammaðir inn að ofan og neðan með steyptum böndum ofan og neðan við. Þak er pappaklætt, steiningarmúr á framhlið en sléttur múr á gafli. (Gafl er aðeins einn, að sunnanverðu, þar eð húsið er áfast öðru húsi að norðan) Húsið er útvörður sambyggðrar húsaraðar við sunnanvert Ráðhústorg og vestanverða Skipagötu 8.

Konráð Kristjánsson, sem byggði húsið, var frá Stóru- Gröf í Skagafirði. Hann var járnsmiður og kaupmaður og  fékkst m.a. við reiðhjólaviðgerðir og starfrækti þarna Reiðhjólaverkstæði Akureyrar. Hann hafði tæpum áratug fyrr byggt Skipagötu 1. Konráð flutti verkstæði sitt hingað á neðri hæð og bjó efri hæðinni ásamt konu sinni, Láru Sigfúsdóttur, og börnum. Lára var úr Öxnadalnum, uppalin á Steinsstöðum. Bjuggu þau hér um áratugaskeið. Árið 1940 kom sér fyrir í húsinu Lt. De Couter. Var hann skipaður af stjórn breska setuliðsins, og honum ætlað að „taka til athugunar kvartanir, sem fram kunna að koma í sambandi við veru þess [setuliðsins] hér“ Hafði téður lautitant skrifstofu á Skipagötu 8 og auglýsti viðtalstíma á þriðjudögum milli kl. 10 og 12. Vorið 1942 hóf Sigtryggur Helgason rekstur gullsmíðastofu sinnar hér og var hún hér til húsa um árabil og lengst af í félagi við Eyjólf Arnarson. Árið 1953 byggðu þau Konráð og Lára bílskúr á baklóðinni, eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Síðustu áratugina hefur hin valinkunna Ljósmyndastofa Páls A. Pálssonar verið til húsa á neðri hæð hússins og enn er íbúð á efri hæð.

Umfjöllun um hús nr. 4-8 virðist ekki að finna í Húsakönnun 2014, en húsin yst við Skipagötu hljóta þar ótvírætt varðveislugildi sem mikilvæg heild. Fullkomlega eðlilegt þætti síðuhafa, að álykta að sama hljóti að gilda um Skipagötu 8. Húsið er líklega að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði og í góðri hirðu. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1935-1941. Fundur nr. 828, 12. jan 1939. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 47
  • Sl. viku: 226
  • Frá upphafi: 420969

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 164
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband