Hús dagsins: Klettaborg 2

Klettaborg 2 stendur á horni, þar sem gatan liggur í vinkilbeygju til suðurs í átt að Byggðavegi, ef ekið er til austurs frá Dalsbraut.P9200984 Húsið reisti Einar Guðmundsson árið 1945. Á fundi byggingarnefndar Akureyrar 5. sept. 1941 fengu tveir menn lóðir „við þjóðveginn ofan Gefjunar“. Var þá risið eitt hús, Aðalsteins Tryggvasonar, og var það notað sem viðmið við útvísun lóðanna, líkt og tíðkaðist. Fékk Einar Guðmundsson aðra lóð norðan við Aðalstein (þ.e. Klettaborg 3), en Konráð Vilhjálmsson næstu lóð norðan við Aðalstein (Klettaborg 2). Páll Friðfinnsson sótti ennfremur, fyrir hönd Einars, um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi, á einni hæð úr steinsteypu með skúrþaki, 12x9,5m að grunnfleti. Fjórum vikum síðar, þann 3. október, höfðu þeir Konráð og Einar síðan makaskipti á lóðum, þannig að Konráð fékk lóð nr. 3 og Einar nr. 2. Einar hélt væntanlega byggingarleyfinu á nýju lóðinni, en alltént var húsið risið þar tæpum fjórum árum síðar. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.

Klettaborg 2 er einlyft steinhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Grunnflötur er nánast rétthyrningslaga, en þó er vestasti hluti hússins (bakhlið) eilítið inndreginn til norðurs og í kverkinni á milli, svalir til SV. Á framhlið eru inngöngudyr og steyptar tröppur með steyptu skýli yfir tröppunum, lokað til norðurs. Lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í gluggum. Steiningarmúr er á veggjum en bárujárn á þaki.

Klettaborg 2 hefur ekki skipt oft um eigendur eða íbúa en Einar Guðmundsson og kona hans, Elísabet Jóhanna Sigurðardóttir bjuggu í Klettaborg 2 í um 60 ár. Hann var fæddur á Húsavík en hún úr Skagafirði. Einar stundaði sjómennsku og vélaviðgerðir. Þau Einar og Elísabet hafa eflaust ræktað garðinn af alúð og natni  og gróðursett fjölda trjáa. Um 1968 byggðu þau bílskúr við norðurmörk lóðarinnar, áfastan húsinu, eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarsson.  Bílskúrinn snýr að götustubbi eða heimreið sem liggur frá götunni upp í brekkuna. Þar standa hús nr. 2, 3 og 4 í röð. Líklega er þetta eina húsaröðin í bænum, þar sem odda- og sléttar tölur standa hlið við hlið.

Klettaborg 2 er traustlegt og reisulegt steinhús í funkisstíl, nokkuð dæmigert fyrir byggingartíma, skömmu fyrir miðja síðustu öld. Það er næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð en virðist þó í góðri hirðu. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús. Ekki er síðuhafa kunnugt um, hvort húsið hafi varðveislugildi eður ei. Lóðin er vel gróin og þar er mikill trjágróður og ber þar mikið á gróskumiklum birki- og reynitrjám. Húsið stendur á nokkuð áberandi stað, ofan götu nærri fjölförnum slóðum. Það nýtur sín vitaskuld betur á veturna og vorin en á sumrin er það laufskrúð trjánna, sem er í algleymingi við Klettaborg 2. Myndin er tekin þann 20. september 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 883, 5. sept. 1941. Fundur nr. 843, 3. okt. 1941. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 72
  • Sl. viku: 304
  • Frá upphafi: 420277

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 207
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband